19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

186. mál, sala Jórvíkur í Hjaltastaðahreppi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Í frv. þessu felst heimild til handa ríkisstj. til að selja eyðijörðina Jórvík í Hjaltastaðahreppi í Norður-Múlasýslu Guðmundi Pálssyni, bónda í Jórvíkurhjáleigu. Þetta mál var tekið upp nokkuð snemma á þessu þ. af hv. 3. og hv. 5. þm. Austf., Jónasi Péturssyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni. Þeir báru málið fram sem brtt. við frv. um heimild til að selja eyðijörðina Grísatungu í Stafholtstungnahreppi í Mýrasýslu, en landbn. Nd. hafði það frv. þá til athugunar. Við athugun þess máls kom það í ljós, að landbn. Nd. gat ekki mælt með sölu á jörðinni Grísatungu í Stafholtstungnahreppi og þess vegna stöðvaðist það frv. í Nd. Hins vegar hafði landbn. Nd. fengið jákvæðar umsagnir frá Jarðeignadeild ríkisins og landnámsstjóra um sölu á jörðinni Jórvík, sem hér er fjallað um. Þetta leiddi til þess, að landbn. Nd. flytur það frv., sem hér er nú til 1. umr., og hefur það fengið afgreiðslu í Nd. Landbn. gerir þá grein fyrir flutningi frv., sem hér segir:

„Efni þessa frv. kom fram í brtt., er tveir þm. Austurlandskjördæmis, JP og VH, fluttu við frv. á þskj. 234 um sölu jarðarinnar Grísatungu í Mýrasýslu. Við athugun þess máls komu fram meinbugir, sem valda því, að landbn. taldi sig ekki geta mælt með samþykkt þess. En n. fékk umsögn landnámsstjóra og Jarðeignadeildar ríkisins um brtt. um sölu Jórvíkur, Hjaltastaðahreppi. Mæltu þeir aðilar báðir með sölunni. Þess vegna er frv. þetta flutt.“

Þeir, sem til þekkja, telja eðlilega þá ráðstöfun, sem hér er farið fram á, og vænti ég þess, að þetta frv. nái fram að ganga, þó að nú sé stutt eftir af þinghaldi að þessu sinni.