05.02.1968
Efri deild: 49. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Þess gerist varla þörf að hafa langt mál til að kynna þetta frv. Það er flutt af sjútvn. Ed. að beiðni hæstv. sjútvmrh., en honum hafði aftur borizt beiðni um flutning þess frá sjö manna nefnd þeirri, sem skipuð var af rn. hinn 2. ágúst s. l. til að gera till. um framtíðarskipulag á sölu verkaðrar síldar til útlanda.

Nefndin hefur að sjálfsögðu orðið við beiðni hæstv. ráðh. um að flytja frv., en í því er ekki falin nein skuldbinding af einstakra nm. hálfu um að fylgja því í einstökum atriðum. Frv. gerir ráð fyrir þrennum breyt. frá núverandi löggjöf. Hin fyrsta mun í raun og veru mega teljast aðalatriði frv. og gerir ráð fyrir að fjölga nm. um einn. Verði hann skipaður eftir tilnefningu Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félags síldarsaltenda á Suðvesturlandi sameiginlega. Það er kunnugt, að þessir aðilar, síldarsaltendur, hafa mjög óskað eftir auknum áhrifum á störf síldarútvegsnefndar, og þarna er verið að reyna að verða við þeirra beiðni.

Þá er það og nýtt í frv., að gert er ráð fyrir, að atkvæði formanns ráði úrslitum ef atkvæði eru jöfn í nefndinni.

Og loks er þriðja atriðið. Þar segir um aðsetur nefndarinnar, að hún skuli hafa skrifstofur í Reykjavík, Siglufirði og á Austurlandi, en gildandi ákvæði um það atriði er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin skal hafa aðsetur sitt á Siglufirði á síldarvertíð norðanlands og nm. eða varamenn þeirra dvelja þar þann tíma, eftir því sem nefndin sjálf ákveður. Á síldarvertíð sunnanlands skal nefndin með sama hætti hafa aðsetur í Reykjavík.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta mál um aðsetur síldarútvegsnefndar hefur orðið töluvert hitamál, ekki aðeins á Siglufirði, heldur og hlýjað mönnum hér í þingsölunum; hefur verið flutt um þetta af nokkrum hv. dm. sjálfstætt frv., þar sem gert er ráð fyrir annarri lausn þessa atriðis en í frv., sem hér liggur fyrir. Vildi ég mega beina því til hv. flm. þess frv., að þeir taki til athugunar, hvort ekki mundi hentast að flytja meginatriðin úr efni þess frv. sem brtt. við þetta frv. við 2. umr. málsins. Ég fer ekki fram á þetta af því, að ég vilji á neinn hátt gera þeirra till. lægra undir höfði, en hins vegar tekur frv. það, sem hér liggur fyrir, til fleiri atriða og mundi það því væntanlega vera „vinnuhagræðing“, sem svo mjög er í tísku nú, að afgreiða öll þau atriði, sem fram eru lögð, sameiginlega.

Ég hef þá þessi orð ekki fleiri að sinni, en mælist til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. Þar sem það er flutt af sjútvn., mun, að því er mér skilst, ekki þurfa að vísa því til n.