05.02.1968
Efri deild: 49. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þegar þetta var rætt í sjútvn., kom það fram, að við flm. mundum hafa óbundnar hendur um stuðning við frv. Ég vil strax taka það fram, að ég er á móti efni frv., eins og það liggur fyrir. Og það undrar mig mjög að kynnast því, að það skuli vera skipuð sjö manna nefnd, sem eigi að gera till. um framtíðarskipulag verkaðrar síldar til útlanda, og í þessari n. eru m.a. tveir hv. alþm. og önnur stór nöfn, og eftir margra mánaða athugun er þessi árangur það eina, sem liggur fyrir, og ekkert meira um ekki veigaminna mál en framtíðarskipulag verkaðrar saltsíldar á Íslandi. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum, og ég hugsa, að skýringin sé til. Það eru auðvitað sundurleit sjónarmið um, hvernig eigi að standa að slíku framtíðarskipulagi eins og þarf að eiga sér stað um verkaða síld á Íslandi. Af hverju? Vegna breyttra aðstæðna við að salta síld. Það er auðvitað blindur maður, sem sér það ekki, miðað við reynslu s. l. árs og undanfarandi ára, að það verður að standa öðruvísi að því að verka síld á Íslandi en verið hefur undanfarin ár og að þetta frv. leysi það vandamál er hreint út í hött frá mínu sjónarmiði, svo ég get hreint ekki dulið það. Þess vegna er það engin lausn að samþykkja þetta, því að það er aðeins bætt einum manni inn í til að rífast lengur á fleiri fundum. Alþingi kýs 3 menn, ASÍ 1 mann, LÍÚ 1 mann, síldarsaltendafélagið fyrir norðan og austan kýs 1 og suðvesturlandsfélagið 1, samt. 7 menn kosnir í núverandi síldarútvegsnefnd. Þessi undirbúningsnefnd að frv. leggur til að bæta einum við. Ég sé engan ávinning í því út af fyrir sig, og ef á að bæta einum við, vil ég strax taka það fram, að ég teldi réttast, að hann væri fulltrúi sjómanna, eins og ég sagði á nefndarfundi, ef á að tryggja það, að þeir, sem eiga hagsmuna að gæta í þessu, fylgist með framgangi mála.

Það er mikið vandaverk, sem liggur fyrir, að ná sem mestri síld í söltun fyrir þjóðarbúið, og það verður ekki leyst nema gera sér grein fyrir því, að það þarf átak og það þarf nýtt skipulag og það þarf nýja hugsun frá síldarútvegsnefnd í því efni til að ná því markmiði, sem nauðsynlegt er. Síldin mun örugglega liggja langt frá landi, því miður, það eru allar líkur, sem benda til þess, og það verður að koma fram einhver hreyfing og einhver vilji til þess að ná þeirri síld í land eða salta hana um borð í bátunum. Enn þá hef ég ekki séð eða heyrt frá síldarútvegsnefnd svo mikið sem að hún rétti upp litla putta til þess að nálgast þetta mark, sem er lífsskilyrði fyrir okkar gjaldeyristekjur, að það sé gert verulegt átak í þá áttina að tryggja það, að söltun sé stöðug og eins mikil og unnt er, og veitir ekki af, eins og ástatt er í þjóðarbúinu í dag. Ég er því gjörsamlega á móti því að breyta lögunum, nema það sé tekið inn, hvernig við getum betur mætt þeim vandamálum, sem við blasa í sambandi við síldarsöltun úti í hafi og sölu saltsíldar og meira átak sé gert til að vinna nýjan markað, ef það er mögulegt, því að það er vitað mál, að nú sækja aðrar þjóðir fram í því að salta á hafinu, og það er staðreynd, að verksmiðjan eða verkunarstöðin, sem hefur verið við ströndina, hefur færzt út á hafið að því er snertir freðfiskinn og er að byrja að gera það varðandi saltsíldina líka. Við verðum því að standa frammi fyrir því vandamáli, að ef síldin liggur jafn fjarri ströndinni eins og var á s. l. sumri, yfir 400 mílur, kannske 500–600 mílur, er óleysanlegt dæmi að koma henni að landi. Það þarf því stórt átak, og það má ekki bíða og full ástæða til þess, að síldarútvegsnefnd efni til ráðstefnu með þeim aðilum, sem hagsmuna eiga að gæta til þess að ræða þann vanda, sem við blasir. Og ef á að fara að bæta einum manni í þetta og gera ekkert annað, sé ég engan ávinning að því — bókstaflega engan ávinning. Það er mín persónulega skoðun, og ég get ekki dulið hana strax.

Hitt er svo sjálfsagt, að það verður að ræða þau vandamál, sem fyrir liggja og reyna að finna lausn á þeim, eins og eðlilegt er, og ef nauðsyn er að bæta við fulltrúa, þannig að saltendur sem slíkir hafi aukin áhrif innan nefndarinnar, getur það verið sjónarmið út af fyrir sig. En þá er ekkert óeðlilegt, þó fulltrúi frá Samtökum síldarsjómanna komi um leið inn, þannig að þeir verði 9. Svo verð ég að segja það persónulega, að ég tel það mjög hæpið, að atkvæði eins manns ráði úrslitum í svo þýðingarmiklu máli sem þetta er, að það eigi ekki að vera öruggur meiri hl. fyrir hendi, því að hér er oft um ákvarðanir að ræða, sem skipta viðkomandi aðila mörgum tugum millj., og tel ég það mikið álag á einn mann að fá honum slíkt vald.