29.02.1968
Efri deild: 64. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Árnason:

Herra forseti. Út af því, sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni, vildi ég upplýsa sem einn af nm., að n. hefur tekið þetta mál aftur til umræðu á fundum sínum, og það varð niðurstaða n. að láta málið ganga áfram, en nm. hefðu, eins og þeir skýrðu frá í upphafi, óbundnar hendur um afstöðu til einstakra till., sem fyrir liggja í sambandi við frv. og afgreiðslu málsins í heild.

Þessi brtt., sem hv. 3. landsk. var að gera hér grein fyrir áðan, hefur verið allmikið rædd í blöðum og víðar, í félögum síldarsaltenda bæði fyrir norðan, austan og sunnan, og það liggja því fyrir skoðanir þessara aðila um þetta mál.

Síldarútvegsnefnd gerði á sínum tíma grein fyrir afstöðu sinni til málsins og afskiptum og þar kom fram m.a., eins og vitað er, að síldarútvegsnefnd hefur starfrækt tvær skrifstofur í tæpa tvo áratugi, þ.e. á Siglufirði og í Reykjavík, en áður hafði nefndin aðeins skrifstofu á Siglufirði. Skrifstofan á Siglufirði hefur m.a. haft umsjón með söltun og útflutningi saltaðrar síldar frá Norður- og Austurlandi og séð um innkaup og dreifingu á tunnum, salti og ýmsum öðrum síldarsöltunarvörum fyrir það söltunarsvæði. Skrifstofan í Reykjavík hefur hins vegar annazt hliðstæð störf að því er söltun á Suður- og Vesturlandi snertir. Auk þess hefur skrifstofa nefndarinnar í Reykjavík haft umsjón með söltun og útflutningi á þeirri vetrarsíld, sem söltuð hefur verið á Austur- og Norðurlandi síðustu árin. Skrifstofa nefndarinnar á Siglufirði hefur séð um rekstur Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði og á Akureyri.

Skv. l. þeim um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, sem tóku gildi 21. apríl 1962, er gert ráð fyrir, að nefndin hafi skrifstofur á Siglufirði og í Reykjavík, en ekkert tekið fram um það, á hvorum staðnum skuli vera aðalskrifstofa nefndarinnar. Í hinum nýju l. segir, að ráðh. muni með reglugerð setja nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna. Í reglugerðinni frá 1952 er tekið fram, að heimili og varnarþing nefndarinnar sé á Siglufirði, og verður að sjálfsögðu engin breyting á því gerð, nema nýja reglugerðin kveði á um annað. Svo sem kunnugt er, hefur svo til öll sölustarfsemi nefndarinnar um alllangan tíma verið undirbúin í Reykjavík, enda eru flestir nefndarmenn búsettir í Reykjavík eða nágrenni. Einnig skal á það bent, að samningaviðræður þær, sem farið hafa fram hér á landi við fulltrúa erlendra síldarkaupenda, hafa um langt árabil farið fram í Reykjavík, enda er Reykjavík betur sett hvað samgöngur snertir, bæði við umheiminn og innanlands, en nokkur annar staður á landinu. Síldarútvegsnefnd hafa borizt endurteknar óskir frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi um það, að aðalskrifstofa nefndarinnar fyrir Norður- og Austurland verði í Reykjavík, og segir svo í samþykkt félagsins, með leyfiforseta:

„Aðalfundur Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi telur nauðsynlegt, að skrifstofu síldarútvegsnefndar í Reykjavík verði falin yfirumsjón með söltun Norður- og Austurlandssíldar, en skrifstofur verði þó áfram á Siglufirði og Austurlandi.“ Var samþykkt þessi í félaginu gerð samhljóða af öllum félagsmönnum á aðalfundi félagsins. Á þessum aðalfundi og í stjórn félagsins eru, eins og kunnugt er, einnig Siglfirðingar og innan saltendafélaganna hefur ekki verið neinn ágreiningur um það, að aðalskrifstofa nefndarinnar verði í Reykjavík, enda, eins og hér er á bent, eru allar aðstæður beztar hér fyrir slíka starfsemi, sem sé alla aðalstarfsemi þessarar atvinnugreinar. Það, sem síldarútvegsnefnd hefur því ætlað að gera, er að verða við þessum einróma tilmælum síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi.

Við 1. umr. málsins kom fram, að síldarútvegsnefnd hefði sagt upp starfsfólki skrifstofunnar á Siglufirði einungis. Þetta er ekki rétt, vegna þess að mér er kunnugt um það, að öllu starfsfólki síldarútvegsnefndar var sagt upp, bæði hér á skrifstofunni í Reykjavík og einnig fyrir norðan, og það var skýrt svo frá nefndarinnar hálfu, að það væri vegna fyrirhugaðrar breytingar á starfsemi nefndarinnar. Ég vildi láta þetta koma hér sérstaklega fram, að gefnu tilefni, út af þeirri brtt., sem hér hefur verið skýrt frá.

Að öðru leyti vildi ég segja það um þetta mál og vísa til þess, sem ég hef áður sagt, að ég hefði talið eðlilegast varðandi þessa starfsemi, að síldarútvegsnefnd hefði verið lögð niður, þegar verðlagsráðið tók að ákveða verðlag síldarinnar, og að þá heiðu tekið við sölu síldarinnar svipuð sölusamlög eða samtök eins og eiga sér stað í sambandi við saltfiskinn og freðfiskinn og að verulegu leyti líka í sambandi við skreiðarframleiðsluna. Ég teldi það í alla staði eðlilegast, að sami háttur yrði á hafður með sölu saltsíldarinnar eins og á sér stað með hinar starfsgreinarnar. Um þetta hefur ekki náðst samkomulag, en á meðan slík breyting verður ekki framkvæmd, teldi ég eðlilegast, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt. Framleiðendur fá þá nokkuð aukinn rétt í nefndinni með því að fá einn fulltrúa til viðbótar, og ég tel, að sjómenn hafi þegar — á meðan nefndin er skipuð eins og nú á sér stað — fengið sinn fulltrúa til þess að fylgjast með fyrir sína hönd. Hitt er svo annað, sem ég vil taka sérstaklega fram, þegar verið er að ræða þetta mál, að það ber að viðurkenna, að það hefur átt sér stað mjög gola samstarf á milli starfsmanna síldarútvegsnefndar og beggja félaga síldarsaltenda og síldarframleiðenda á undanförnum árum, og ég er ekki í neinum vafa um, að það hefur á ýmsan hátt greitt fyrir margvíslegu hagræði í sambandi við sölu og verkun síldarinnar, hvað þarna hefur verið um gott samstarf að ræða. Ég þekki sérstaklega til þess, sem veit hér að Suðvesturlandsframleiðslunni, því að Félag síldarsaltenda á Suðvesturlandi, sem nú er orðið 16–17 ára gamalt, hefur alla tíð frá stofnun haft mjög náið samband við aðalframkvæmdastjóra síldarútvegsnefndar hér á Suðvesturlandi, og það vil ég viðurkenna, að hann hefur gætt hagsmuna síldarsaltenda hér á Suðvesturlandi mjög vel, og allt samstarf framleiðendafélagsins og skrifstofunnar hefur verið með ágætum. En enda þótt það sé, teldi ég að hitt væri eðlilegra, að hér væri tekið upp sölusamlag á þessari framleiðslugrein eins og öðrum, en á meðan slíkt liggur ekki fyrir eða ekki fæst samkomulag um þá breytingu, mundi ég telja til bráðabirgða, að heppilegast væri að samþykkja frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, óbreytt.