14.03.1968
Efri deild: 70. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Árnason:

Herra forseti. Þessar brtt., sem fluttar eru á þskj. 377 og verið var að lýsa hér af hv. 5. landsk. þm., gefa tilefni til þess, finnst mér, eins og fram kom að lokum í ræðu hans, að þessi mál séu athuguð nánar. Það hefur komið fram við umr. um þetta mál hér í þessari hv. d., að það er skilningur á því, að nauðsyn sé, að það verði sköpuð aðstaða til að salta síld á fjarlægum miðum, sérstaklega ef svo verður sem verið hefur á undanförnum sumrum, að síldin heldur sig mjög langt frá landinu. Og ef að því verður horfið að einhverju verulegu leyti, að síldin verði söltuð í síldarskipunum sjálfum eða ef sköpuð verður aðstaða í móðurskipi til þess, þar sem fleiri aðilar taka þá saman höndum um framkvæmdina, þá verði einhver ákvæði sett inn í löggjöfina um það, hvernig viðkomandi saltsíldarframleiðendur eigi að fá að haga sér í því sambandi. Það kann vel að vera, að það megi skipa þessum málum eins og gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 377. Samt sem áður tel ég nauðsynlegt, að sjútvn. fái aðstöðu til þess að fara nánar ofan í málið og kynna sér þetta og jafnvel leita umsagnar síldarútvegsnefndar. Það er ekki óeðlilegt, að svo sé gert, því hér er vissulega um nýmæli að ræða á þessu sviði. Ég tek því undir það með hv. flm., að þessari umr. verði frestað og að sjútvn. gefist þá tóm til þess að athuga málið nánar.