21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú heldur einkennilegt, að það skuli enginn tala hér fyrir þessu frv., þegar það kemur hingað í d. Frv. er að vísu flutt í Ed. af sjútvn., en það er flutt þar að beiðni sjútvmrh. og ég hafði því búizt við því, að hann mundi hér tala fyrir þessu máli. En allt útlit var nú sem sagt á því, að málið færi hér umræðulaust til n. og því kvaddi ég mér hljóðs til að gera hér nokkrar aths. við frv.

Ýmsir hv. þdm. kannast við það, að allmiklar umr. hafa orðið hér stundum á undanförnum árum um síldarútvegsnefnd, skipun hennar og störf, og ekki þætti mér ólíklegt, að þær umr. gætu enn orðið alllangar í tilefni af flutningi þessa frv. Eins og kunnugt er, er skipun síldarútvegsnefndar orðin harla einkennileg. Nú eru í nefndinni sjö menn. Þrír eru kosnir af Alþ. og hafa þar nokkra sérstöðu, því að úr hópi þeirra á að tilnefna einn nm. sem formann. En til viðbótar þessum þremur þingkjörnu eru svo fjórir aðrir í nefndinni, sem ráðh. skipar samkv. tilnefningu nokkurra stofnana. Það er því komið svo, að síldarútvegsnefnd er að vísu opinber stofnun, ríkisfyrirtæki út af fyrir sig, en með þessum sérstaka hætti, að ákveðnar stofnanir hafa rétt til þess að skipa þar meiri hl. af nm.

Það er ekkert um það að villast, að það hefur verið mikið um það rætt meðal þeirra aðila, sem hér hafa mest átt hlut að máli, síldarsaltenda og sjómanna í landinu, að þetta skipulag væri í rauninni mjög óeðlilegt og óheppilegt. Ég hef lýst því hér áður yfir á Alþ., að það er mín skoðun, að varðandi skipun slíkrar stofnunar sem síldarútvegsnefnd er, eigi að velja um tvennt og annaðhvort skuli gilda: að um sé að ræða nokkurn veginn hreina ríkisstofnun, sem hefur þarna þýðingarmikil störf með höndum og mikið vald og vinnur þá í rauninni á ábyrgð hins opinbera í einu og öllu og á þá að sjálfsögðu að vera að meiri hl. til kosin eða skipuð af Alþ. eða ríkisstj. Þá er þarna um ríkisstofnun að ræða, sem hefur, eins og ég segi, mikilvæg störf með höndum og á henni hvílir mikil ábyrgð, þar sem segja má, að þessi stofnun hafi einkaréttaraðstöðu yfir saltsíldarframleiðslunni og hafi saltsíldarframleiðslu landsmanna til sölumeðferðar. Þetta er önnur leiðin, sem vissulega getur komið til greina í sambandi við skipulag á þessari nefnd, og það var þessi leið, sem gilti um alllangan tíma. Og þá höfðu auðvitað hinir einstöku síldarsaltendur í landinu ekki frekara vald yfir þessari nefnd eða ríkisstofnun en að því leyti, sem þeir gátu haft áhrif með sínum almenna málflutningi gagnvart þessari ríkisstofnun. En nú er búið að umturna þessu þannig, að hinir þingkjörnu aðilar í nefndinni eru komnir í minni hl.

Hin leiðin í sambandi við uppbyggingu eða skipun þessarar stofnunar er svo sú, að þeir aðilar, sem hér eiga mest hlut að máli, þ.e.a.s. síldarsaltendur í landinu, hafi fyrst og fremst veg og vanda af þessari stofnun, þeir byggi hana upp sem sín samtök og þá helzt auðvitað á lýðræðislegum grundvelli, þannig að þeir kjósi þá stjórn, sem þar fer með framkvæmdamál á hverjum tíma, og þáttur ríkisins sé þá ekki annar en að hafa hið almenna eftirlit með þessum málum öllum. Ef það skipulag væri tekið upp, væri þarna um nokkuð svipað fyrirkomulag að ræða og nú á sér stað í ýmsum öðrum greinum sjávarvöruframleiðslunnar og varðandi sölumeðferð á sjávarafurðum, eins og t.d. á sér stað bæði í samtökum saltfiskframleiðenda og frystihúsaaðila í landinu. Ég tel fyrir mitt leyti, að hvort þetta skipulag fyrir sig geti vissulega komið til greina og hafi sína kosti. En að hræra þessu saman á þann hátt, sem verið hefur, tel ég fráleitt og það muni hafa í för með sér margvísleg vandkvæði.

Það skipulagsform að hafa síldarútvegsnefnd fyrst og fremst sem ríkisstofnun hefur á sér þann galla, að þá hafa hinir einstöku framleiðendur heldur óákveðið samband við þessa stofnun, eiga ekki eins gott með að koma þar fram umkvörtunum sínum eða tillögugerð og ráðgast um það, hvernig skuli halda á þessum málum. Þeir geta ekki eins einfaldlega gert þessi mál upp sín á milli eins og þeir geta gegnum hitt skipulagið. Hins vegar er því ekki að neita, að ef ríkisstofnunin er vel rekin í jafn þýðingarmikilli grein eins og hér er um að ræða, hefur hún líka aðstöðu til þess að hefja sig upp yfir ýmis sérsjónarmið, sem oft vilja koma fram í samtökum framleiðenda og þurfa ekki endilega að vera í fullu samræmi við heildarhagsmuni þjóðarinnar í öllum greinum. En nú er sem sagt skipulagið þetta að mínum dómi, að þetta er ríkisstofnun og með öllum helztu einkennum hennar öðrum en þeim, að hið opinbera stjórnar raunverulega ekki nefndinni. Aðstöðu til þess að hafa þar meirihlutaaðstöðu hafa nokkur félagasamtök, sem geta tilnefnt menn í nefndina án þess þó að hafa í framkvæmdinni nokkra beina ábyrgð gagnvart sínum samtökum, þannig að hægt sé í rauninni að gera upp vandamálin við þá. Þetta tel ég mjög gallað.

Í beinu framhaldi af þessu gerist svo það hér ár eftir ár, að það koma fram till. á Alþ. um að fikta alltaf eitthvað svolítið við skipun nm. í þessari nefnd. Á tímabili mun þetta hafa verið þannig, að það þótti rétt að hafa til viðbótar við þrjá þingkjörna menn tvo annars staðar frá. Síðan voru þeir komnir upp í fjóra annars staðar frá, og nú koma menn hér með till. um það að hafa þá fimm annars staðar frá til viðbótar við þrjá þingkjörna, þannig að þetta verði 8 manna nefnd og lendir þá auðvitað í þeim vandræðum, að þeir verða síðar að koma með till. um það, að formaður nefndarinnar skuli hafa tvö atkv., þegar svo stendur á. Vitað var um það, að hér var gengið á milli þm. og þeim sýnd till. um það, að aðilar, sem ekki teljast til hins opinbera, fengju að tilnefna sex menn í nefndina, en Alþ. ætti að kjósa þrjá og nefndin yrði 9 manna nefnd. Ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, að verði þetta form samþykkt og haldið við þeim glundroða, sem upp hefur verið tekinn í þessum efnum, verði nú samþykkt, að ýmsar stofnanir megi tilnefna fimm menn í nefndina til viðbótar við þá þrjá, sem eru þingkjörnir, kemur aftur frv. á næsta þingi um það að bæta enn einum við og koma þessu upp í sex eins og till. voru þegar uppi um nú.

Sú óánægja, sem m. a. hefur komið upp í röðum síldarsaltenda út af þessu glundroðaskipulagi, sem þarna er um að ræða, hefur svo leitt til þess, að þeir hafa gert samþykktir um það, þó að ekkert hafi nú orðið enn úr framkvæmdum, að þeir ætluðu sér að byggja upp sín eigin samtök á félagslegum grundvelli og stefna að því að taka í sínar hendur öll störf síldarútvegsnefndar og fá hana þar með lagða niður. Og í rauninni er gert ráð fyrir því í l. um síldarútvegsnefnd, að vel geti komið til mála, að ráðh. veiti slíkum samtökum síldarverkenda einkasölurétt með þessi mál, og ég er ósköp hræddur um það, að verði haldið áfram eins og gert hefur verið í þessum efnum að undanförnu, leiði það til þess, að menn falli frá þessu skipulagi sem heild og þá byggi síldarsaltendur upp sitt eigið félagslega form í þessum efnum og taki þessi mál öll í sínar hendur.

Þegar svo er gætt betur að því, hvernig þessi mannatilnefning í nefndina er ákveðin, er það með býsna einkennilegum hætti. Lagt er til, að þessir fimm aðilar, sem eiga að tilnefnast úr ýmsum stofnunum, verði þannig tilnefndir, að einn skuli tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, og er það ljóst, að það er sá aðilinn, sem á að koma þar fram fyrir hönd sjómanna, annar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, og verður sá að teljast fulltrúi útgerðarmanna, sá þriðji er frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, og það er fulltrúi saltenda, og sjá fjórði er frá félagssamtökum síldarsaltenda á Suðvesturlandi. Og svo er nú lagt til, að þessi tvö aðalsamtök síldarsaltenda, Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félag síldarsaltenda á Suðvesturlandi, skuli sameiginlega tilnefna fimmta manninn.

Ekki er nú gott að sjá það, hvernig á að koma þessu fyrir með eðlilegum hætti, því að auðvitað er hið eðlilega, að þeir fjölmörgu aðilar, sem eru í þessum síldarsaltendasamtökum, bæði fyrir norðan og austan og svo hér fyrir sunnan, það séu þeir, sem tilnefni þessa fulltrúa, en ekki einhverjar fámennar stjórnir þeirra. Og maður skyldi þá helzt halda, að það stæði til að halda einn sameiginlegan fund með öllum félagsmönnum beggja aðila og þar ætti að koma sér saman með eðlilegri kosningu á þessum viðbótarfulltrúa. En auðvitað er þetta allt gert út úr neyð, vegna þess að það er ekki annað, sem hér liggur á bak við, en það, að það er verið að reyna að pota tiltekinni persónu inn í nefndina til viðbótar við þær persónur, sem þar eru fyrir. Og þessu er hnoðað svona saman, af því að í þessu tilfelli, sem hér á við nú, eru menn fyrirfram búnir að koma sér saman um það, að ákveðin persóna skuli í þetta valin. Ég fyrir mitt leyti tel þetta alveg fráleit vinnubrögð og alveg fráleitt fyrir Alþ. að ætla að hlaupa til og breyta l. út af slíkum dyntum sem þessum og það þegar ekki er meira hreyft við þessu skipulagi, sem ég hef minnzt hér svolítið á, en hér er um að ræða, því að ég tel skipulagið í grundvallaratriðum rangt, eins og það er orðið nú.

Þó að ég segi, að ég telji í þessum efnum skipulagið rangt, er ég ekki þar með að segja, að síldarútvegsnefnd sú, sem starfað hefur hér að undanförnu, hafi ekki margt ágætt unnið. Hún vinnur hér mjög þýðingarmikil störf fyrir landsmenn og í henni eru margir dugandi menn út af fyrir sig. En þetta form á ekki rétt á sér og fyrr eða síðar brestur í því. Menn sætta sig ekki við svona skipulag eins og þetta. Það er svo margt annað í þessum efnum heldur en skipulagið sjálft, — og mætti þó margt fleira um það segja — sem vekur nokkra athygli í sambandi við flutninginn á þessu frv. Ég vil þó aðeins bæta því við, að það, sem ég tel sérstaklega vera óheppilegt og varhugavert og hafi þegar komið fram í sambandi við það skipulagsform, sem hér er unnið eftir, er þetta, að í gegnum þessi samtök, sem hér er um að ræða að fái þennan sérstaka rétt til þess að komast inn í jafnþýðingarmikla ríkisstofnun eins og þar er um að ræða, komast í mörgum tilfellum menn, sem tekst að koma sér þangað vegna sinna sérstöku persónuhagsmuna, af því að þeir starfa með þeim hætti að þessari framleiðslugrein, að þeir eiga hér mikilla einkahagsmuna að gæta. Af því leiðir svo, að upp koma ýmiss konar árekstramál við aðra þá, sem hér eiga líka hagsmuna að gæta, en það er ekki hægt að gera þessi vandamál, sem þannig koma upp við slíka menn, það er ekki hægt að gera vandamálin upp við þá á neinn lýðræðislegan, eðlilegan hátt, því þeir eru verndaðir sem þriggja ára starfsmenn ríkisins í þessari stofnun, ef þeir hafa verið tilnefndir af hinum ýmsu samtökum.

Þá er búið að flétta inn í þetta frv. ákaflega einkennilegu atriði, sem hv. Ed. hefur sett inn í frv. Hér hefur verið upp hafinn mesti slagur um það, hvar skuli vera staðsett aðalskrifstofa þessa merka fyrirtækis, og hinir ólíklegustu menn gerast þar baráttumenn þess hugsjónamáls, að það skuli standa hér einhvers staðar í pappírum, að aðalskrifstofan skuli vera norður á Siglufirði. Það var sú tíð, að það þótti sjálfsagt að festa það í lögum, að nm. í síldarútvegsnefnd skyldu vera á Siglufirði, þar sem voru miðstöðvar síldarsöltunarinnar í landinu, þann tíma, sem aðalsíldarsöltunin fór fram. Þessi kvöð fylgdi því að vera í síldarútvegsnefnd, ef kvöð skyldi kalla, að síldarútvegsnefnd átti að vera á Siglufirði meginhlutann af söltunartímabilinu, nema þá að því leyti sem nefndin ákvað sjálf, að einstakir nm. gætu brugðið sér frá. Þetta þótti eðlilegt, að nefndin væri þarna stödd í aðalframleiðslustöðvunum, eins og þá háttaði, vegna þess að mjög margvísleg vandamál koma upp svo að segja frá degi til dags í sambandi við þessa verkun, sem þarna fór fram á tiltölulega mjög stuttum tíma og þá lengi vel á tiltölulega mjög þröngu svæði. Þetta er löngu liðið og búið, og þó að það hafi staðið í l. í mörg ár, að síldarútvegsnefndarmenn skyldu vera á Siglufirði á meðan sumarsíldarsöltunin færi fram, hefur ekki verið farið eftir því. Nm. hafa verið flestallir og mestallan tímann í Reykjavík, og síldarsöltunin hefur svo farið fram á undanförnum árum að langmestu leyti austur á landi á mörgum höfnum þar. Sum árin hefur auðvitað síldarsöltunin orðið sáralítil á Siglufirði og það hefði blátt áfram verið hlægilegt að ætla sér að binda sjö — og auðvitað verður enn þá hlægilegra að hinda þá átta síldarútvegsnefndarmenn og láta þá dúsa norður á Siglufirði þá mánuði, sem er verið að salta síld, þann sama tíma sem síldarsöltunin fer fram í öðrum landshlutum. Menn hafa hreinlega stigið yfir þetta ákvæði þegjandi og hljóðalaust og hefur öllum þótt það eðlilegt, þegar breyttir tímar gerðu þetta nauðsynlegt. En þá kemur allt í einu þetta upp, að menn vilja ákveða það í l., að aðalskrifstofan skuli vera norður á Siglufirði, en þeir treysta sér ekki til þess að segja neitt um það, að nm., sem öllu eiga að stjórna, skuli vera þar líka. Hvers vegna ekki að binda það þá í l. líka, að þeir skuli vera þar? Er sjálfsagt að hafa aðalstofnunina í einum landshluta og alla hennar stjórnendur og ráðamenn í öðrum landshluta? (Gripið fram í.) Auðvitað er hér um svo hlægilegt mál að ræða og enn þá hlægilegra verður það, þegar menn virða það fyrir sér, að það er annað ríkisfyrirtæki, sem hefði þó verið miklu nær að ákveða, að hefði sínar aðalbækistöðvar undanbragðalaust á Siglufirði, sem eru Síldarverksmiðjur ríkisins með stórkostlegar eignir og fastan rekstur þar óhjákvæmilega mjög mikinn. En ég veit ekki betur en framkvæmdastjórar og aðalskrifstofur og raunverulega stjórnin og allt sé komið hingað suður til Reykjavíkur frá þeirri stofnun og hefði þó verið miklu meiri ástæða til þess að reyna að sjá um það, að sú framkvæmdastjórn héldi sig þar.

Ég tel fyrir mitt leyti, eins og þessum málum hefur verið háttað, að það hafi verið sjálfsagt, eins og í rauninni hefur verið gert, að sá hlutinn af skrifstofustarfi síldarútvegsnefndar, sem óhjákvæmilega fer fram og varðar tunnuframleiðsluna í landinu og alla ráðstöfun á síldartunnum, að sá þáttur skrifstofukerfisins væri á Siglufirði. Þar er aðaltunnuframleiðslan og það liggur á margan hátt eðlilega við, að öll innkaup á tunnum og dreifing á þeim sé frá sömu miðstöð og að sá þáttur væri t. d. rekinn fullkomlega frá Siglufirði. Og ég vænti, að það væri hægt að koma því þannig fyrir, að einn af trúnaðarmönnum eða starfsmönnum nefndarinnar, sem hefði með þessi mál að gera, — jafnvel þó að nefndin væri nú áfram hér í Reykjavík að öðru leyti — gæti farið með þann þátt í umboði nefndarinnar og þyrfti ekki oftar til nefndarinnar að leita með þau mál, sem þurfa að samþykkjast af henni, en svo, að þetta væri prýðilega hægt, jafnvel þó að nefndin væri mestmegnis í Reykjavík. En að ætla sér að búa við það ástand, að síldarútvegsnefnd sé öll í Reykjavík og haldi alla sína fundi hér og verði að sinna hér hinum daglegu verkefnum, sem oft og tíðum kalla á skjót úrræði og snöggar ákvarðanir, að nefndin skuli vera hér, en hins vegar sé ákveðið, að aðalskrifstofan skuli vera á Siglufirði og allar upplýsingar skuli sendast þangað og allir aðilar, t. d. á Austurlandi, eigi að snúa sér þangað með öll mál og aðalskrifstofan síðan að senda allt hingað suður, það er vitanlega gert aðeins til þess að torvelda eðlileg vinnubrögð.

Ég fyrir mitt leyti segi það, að ég vil ekki á nokkurn hátt hafa af Siglufirði í þessum efnum. Ég tel alveg sjálfsagt, að það sé reynt að koma þar fyrir þeim framkvæmdastofnunum, sem þar geta verið með eðlilegum hætti. Ég mundi hugsa mig um, ef menn væru hér svo róttækir í þessum efnum, að þeir vildu gera það að skyldu að síldarútvegsnefndarmenn væru allir búsettir á Siglufirði. Ég efast ekkert um, að til eru margir ágætir menn á Siglufirði, sem geta verið í síldarútvegsnefnd. Þá vildi ég a. m. k. fara að hugleiða málið. En hitt tel ég hreinasta grín og vitleysu að berjast fyrir því að láta það standa einhvers staðar óraunhæft á blaði, að einhver aðalskrifstofa skuli vera norður á Siglufirði, en ganga síðan út frá því, að nefndin sé í öðrum landshluta. Slíkt er hrein fjarstæða. Ég held, að sú skipan hefði verið ákaflega eðlileg, sem hér var orðin í framkvæmd varðandi þetta mál og sem lagt var nú til í þessu upphaflega frv., að slá því föstu, að síldarútvegsnefnd hefði skrifstofur á Siglufirði, í Reykjavík og á Austurlandi. Það hefur verið aðeins byrjað á því að hafa skrifstofu á Austurlandi. Þó er það svona rétt á mörkunum, að það sé hægt að kalla það skrifstofu, en nefndin hefur haft þar nú í seinni tíð einn fastan mann, sem hægt hefur verið að snúa sér til með nokkur minni háttar málefni, en eiginlegar skrifstofur nefndarinnar hafa auðvitað verið til þessa bæði á Siglufirði og hér í Reykjavík.

Ég vil alveg sérstaklega segja það við þá, sem vilja berjast fyrir því, að Siglufjörður haldi öllu sínu — það skil ég mætavel — ég vil segja það alveg sérstaklega við þá, að í þessum efnum held ég, að það sé varasamt að ætla að reyna að þrýsta hér fram óeðlilegum hlut, vegna þess að það verði Siglufirði hreinlega ekki til góðs. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef reynt verður að þrýsta hér fram svo óeðlilegum hlut, að það skuli þurfa að senda alla hluti norður til Siglufjarðar, því að þar sé aðalskrifstofan, með tilheyrandi truflunum og biðtíma, en nefndin hafi sína bækistöð eftir sem áður í Reykjavík og þar sé öllum ráðum ráðið, þá verður það til þess, að síldarsaltendur gera alvöru úr því, sem þeir hafa reyndar gert samþykktir um áður, að mynda sín sjálfstæðu samtök um þessi mál öll. Og það verður ekki hægt að neita þeim um það að byggja þau upp og reka þau eins og aðrir framleiðendur í landinu gera, og þá verður engin skrifstofa eftir á Siglufirði, engin í þessum efnum. Ég tel því, að það sé síður en svo verið að vinna að hagsmunamálum Siglfirðinga með því að ætla að knýja hér fram einhvern veginn alveg óeðlilegan hlut í þessum efnum. Ég tel fyrir mitt leyti hins vegar alveg sjálfsagt að slá því föstu, að á Siglufirði skuli vera ákveðin bækistöð nefndarinnar eða skrifstofa á vegum hennar, sem m. a. hafi það sérstaklega með höndum að sjá um allan rekstur tunnuframleiðslunnar í landinu og tunnuinnkaup og tunnudreifingu. Þetta er eðlilegast að fari þaðan fram, eins og uppbyggingin hefur orðið á þessum málum. Og önnur þýðingarmikil verkefni getur skrifstofan á Siglufirði auðvitað haft með höndum, eftir því sem þessi framleiðslustörf og vinna þeirra gefur tilefni til og eðlilegt má telja. En hitt tel ég mjög óeðlilegt. Því tel ég, að þetta ákvæði, sem sett var inn í Ed., sé í alla staði vanhugsað og óeðlilegt og eigi ekki að vera svona. Og a. m. k. sé það algert skilyrði, að ef þetta verði ákveðið svona, verði um leið ákveðið, að þar skuli nefndin sem slík vera búsett líka og ráða sínum ráðum.

En aðalefni þessa frv. er nú ekki þetta, sem ég hef verið að ræða um, heldur fyrst og fremst það að bæta við einum manni í þá síldarútvegsnefnd, sem hér hefur starfað, og hefði kannske verið miklu réttara að orða það svo, að bætt skyldi við tilteknum manni — og nefna þá bæði skírnar- og föðurnafn — heldur en hafa það á þann hátt, sem gert er í frv. Um það fjallar þetta frv. í rauninni fyrst og fremst. Ég fyrir mitt leyti er á móti því. Ég tel, að nefndin batni ekki á neinn hátt við það að gera þessa breytingu. En hitt tel ég að sé verkefni, sem þarf einhvern tíma að snúa sér að, þ. e. að gera það upp við sig, hvernig þessi nefnd skuli í rauninni vera uppbyggð, hvort hún eigi í raun og veru að vera hrein ríkisstofnun með miklu valdi að baki sér, sem framleiðendur verða þá að eiga sín eðlilegu skipti við eins og aðrar ríkisstofnanir, eða hvort réttara sé að hverfa að því ráði, að þetta verði fyrst og fremst stofnun framleiðendanna sjálfra, aðeins með óbeinu eftirliti af hálfu ríkisins.

Ég vildi nú láta þessi orð falla um þetta mál, áður en það fer í n., en í n. verður málið að sjálfsögðu athugað nánar.