21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., sem hann hélt áðan og mér fannst bera öll merki þess, að tilfinningar hans ráði fremur í þessu máli heldur en það, hvernig staðreyndir í málinu liggja fyrir.

Hann talaði um að taka ætti opinbera stofnun, sem starfað hefði á Siglufirði um fjölmörg ár, og flytja til Reykjavíkur. Þetta er algjör misskilningur hjá hv. ræðumanni. Það stendur ekki til að taka nokkra opinbera stofnun, sem starfað hefur á Siglufirði í fjölmörg ár, og flytja til Reykjavíkur. Þetta er algjör misskilningur. Ég lýsti því áðan í þeirri ræðu, sem ég hélt, hvað ég teldi hugsanlegt, að skipulagsbreytingin gæti haft í för með sér og taldi hugsanlegt, að um flutning á einum eða tveim starfsmönnum í hæsta lagi frá Siglufjarðarskrifstofunni og suður yrði að ræða. Það er ekki einu sinni víst, að það verði flutningur á einum einasta manni. Það má vera, að allt þetta tal og öll þessi læti út af þessu séu síldarútvegsnefnd sjálfri að kenna, að því leytinu til, að í samþykkt nefndarinnar var á sínum tíma tekið upp það orðalag, að flytja skyldi aðalskrifstofu nefndarinnar suður. En það er rangt, sem hv. þm. sagði áðan, að í reglugerðinni frá 1952 væri talað um, að aðalskrifstofa nefndarinnar skyldi vera á Siglufirði. Ef ég man rétt, þá er ekki stafur um það atriði, að aðalskrifstofan skuli vera þar. Hins vegar er rætt þar um heimili og varnarþing, sem er annar hlutur. Og í reynd vita allir, sem hafa fylgzt með þessum málum, að það er fullkomið vafamál að tala um, hvar aðalskrifstofa nefndarinnar hafi verið á undanförnum árum. Ef skipta ætti verkefnum skrifstofanna á Siglufirði og í Reykjavík niður til að sjá, hvar verkefnin hafa verið mest á undanförnum árum, þá hygg ég, að í reyndinni yrði það nú svo, að þó nokkuð stærri hluti þeirra verkefna, sem báðar skrifstofurnar hafa innt af hendi, hafi verið unninn hérna fyrir sunnan. Hér hefur t. d. öll sölustarfsemi nefndarinnar, sem hefur verið verulegur þáttur í starfi hennar, farið fram, — í Reykjavíkurskrifstofunni, þannig að þetta tal um, að aðalskrifstofan hafi endilega verið norður á Siglufirði, en ekki í Reykjavík, það er meira en vafasamt.

Ég vil svo að endingu segja það út af því, sem hér hefur verið talað um, að allt væri flutt suður til Reykjavíkur, að ef þeir hv. þm., sem hér hafa talað og mælt gegn þessu, hafa einlægan áhuga á að koma í veg fyrir þetta og sýna í verki, að allt skuli ekki flutt suður til Reykjavíkur, þá væri kannske ástæða til þess að byrja á öðrum stofnunum fyrr heldur en síldarútvegsnefnd. Þetta stafar einfaldlega af því, að síldarútvegsnefnd er engin ríkisstofnun. Ég get a. m. k. ekki séð, hvernig stofnun eins og þessi, þar sem meiri hl. stjórnarinnar er ekki kosinn af Alþ. heldur skv. tilnefningu ýmissa aðila í þjóðfélaginu, stofnun, sem hefur engar tekjur af opinberu fé, ekki krónu af opinberu fé til sinnar starfsemi, heldur fær allt með álögum á síldarútveginn í landinu, hvernig slík stofnun getur talizt ríkisstofnun.

Það væri þá nær fyrir hv. þm. að byrja á því að lögbjóða, að ýmsar ríkisstofnanir, sem nú hafa sínar skrifstofur hér í Reykjavík, skyldu fluttar út á landsbyggðina heldur en að byrja á síldarútvegsnefnd, sem að mínu áliti er ekki ríkisstofnun. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Það er búið að gera það yfrið nóg, bæði hér í deild og hv. Ed., og út af ekki meira tilefni en þessu. Málið mun koma til hv. sjútvn., þar sem ég á sæti, og gefst þar tækifæri til að athuga það nánar.