19.04.1968
Neðri deild: 103. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þegar frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., var afgreitt í hv. d. í gær, biðum við, sem skipum meiri hl. sjútvn. d., ósigur í atkvæðagreiðslu. Við lögðum til, að frv. yrði vísað til ríkisstj. og töldum það æskilegustu afgreiðslu á málinu. Mikill meiri hl. hv. d. vildi hins vegar, að frv. næði fram að ganga í því formi, sem það nú liggur fyrir, eins og það er komið til þessarar d. frá Ed. Við þessu er í sjálfu sér ekki margt að segja. Að mínum dómi hefur hlaupið í þetta mál einhvers konar vanhugsuð dreifbýlisrómantík. Ég hygg, að mjög margir af þeim hv. þm. í þessari d., sem greiddu frv. atkvæði, hafi ekki kannað þetta mál alveg niður í kjölinn. Frá mínum bæjardyrum séð er það næstum því jafnfjarstætt að hugsa sér, við þær aðstæður, sem nú ríkja í síldarútveginum, að síldarútvegsnefnd eigi að hafa aðalaðsetur á Siglufirði, eins og það, að við samþykktum lög um það hér á Alþ. að skylda borgarstjórn Reykjavíkur til að hafa aðalaðsetur á Loðmundarfirði. Það er líka eins fjarstætt að hugsa sér, að t. d. aðalritstjórn Morgunblaðsins væri norður á Þórshöfn og þaðan ætti hún að stýra blaðinu.

Nú, en sleppum þessu. Ég skal ekki fara langt út í þessa sálma. Það er mín skoðun, að síldarútvegsnefnd verði að hafa svigrúm til þess að skipa málum sínum þannig, að hún geti veitt sem bezta þjónustu þeim mönnum og þeim fyrirtækjum, sem hún á að starfa fyrir. Þess vegna tel ég, eins og nú er komið málum í síldveiðunum, að það sé ekki rétt að binda það í l., að nefndin skuli hafa aðalaðsetur eða aðalskrifstofu sína á Siglufirði. Þetta var á sínum tíma sjálfsagður hlutur, meðan Siglufjörður var sá eðlilegi miðdepill síldveiðanna, en sú saga er löngu liðin. Ef ástæður breytast á ný, getur þetta e. t. v. einnig breytzt. En ég og nokkrir aðrir hv. þm. viljum nú, þrátt fyrir þann ósigur, sem við biðum við atkvgr. í gær, freista þess að laga frv. lítið eitt, þannig að við teljum, að ef sú litla leiðrétting fengist, gæti síldarútvegsnefnd eftir atvikum vel við unað. Þess vegna flytjum við brtt. við frv. á þskj. 665, sem er á þá leið, að í staðinn fyrir orðið „aðalskrifstofa“ í 5. mgr. 1. gr. komi: skrifstofa. Þá hljóðar þessi mgr. þannig í frv., ef okkar litla brtt. nær fram að ganga: „Heimili síldarútvegsnefndar, varnarþing og skrifstofa skal vera á Siglufirði, en nefndin skal einnig hafa skrifstofur í Reykjavík og á Austurlandi.“

Með þessari litlu breytingu tel ég a. m. k. — og ég hygg, að það sé einnig skoðun meðflm. minna — að þarna verði gerð á sú lagfæring, sem síldarútvegsnefnd geti eftir atvikum sætt sig við. Það má segja, að með því að fella niður þetta áherzluforskeyti „aðal-“ sé þarna gerð veruleg leiðrétting, og sannast þar eins og oft áður, að „oft veltir lítil þúfa þungu hlassi“. Að mínu áliti gæti það haft þær afleiðingar í för með sér, ef frv. færi í gegnum Alþ. eins og það nú liggur fyrir, að starfsemi síldarútvegsnefndar á Siglufirði legðist niður með öllu.

Ég býst við, að flestum hv. þdm. sé um það kunnugt, að í l. um síldarútvegsnefnd eru ákvæði, sem heimila síldarsaltendum að taka síldarsöluna í sínar hendur. Það geta þeir gert með því að stofna sölusamlag. Ef tilskilinn fjöldi saltenda ákveður að mynda með sér sölusamlag, geta þeir sjálfir tekið sölu síldarinnar í sínar hendur. Hlutverk síldarútvegsnefndar minnkar þá stórlega frá því, sem nú er og ef þannig færi, gæti verið hætta á því að loka þyrfti alveg skrifstofu hennar á Siglufirði og jafnvel víðar. Þá væri verkahringur nefndarinnar ekki orðinn það mikill, að hún þyrfti að halda uppi allri þeirri starfsemi, sem hún nú rekur. Ég veit ekki, hvort hv. þm., sem greiddu frv. atkvæði í gær, hafa athugað þetta, en um leið og ég mæli fyrir brtt. okkar vil ég hvetja þá til að hugleiða þetta mál vandlega.