17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sá eldhúsdagur, sem nú er að hefjast hér á Alþ., mun verða hinn síðasti sinnar tegundar í bráð og lengd, ef að líkum lætur. Það er sem sagt komið frv. til l. um breytingu á þingsköpum, þar sem gert er ráð fyrir, að eldhúsið eða eldhúsdagurinn í sínu forna formi hverfi úr sögunni. Að því frv. standa aðilar úr öllum þingflokkum, svo líklegt er, að það verði lögtekið áður en kemur að eldhúsdegi öðru sinni.

Breyttum tímum hæfa breyttir siðir, og er ekki um slíkt að fást, en þegar hugleiddur er tilgangur þessarar gömlu hefðar, þar sem stjórnarandstöðunni er ætlað að róta dálítið til í þeim skarnhaugum, sem saman kunna að hafa safnazt kringum stjórnarvöld landsins, en stjórninni að skýra sitt mál og gefa þjóðinni þannig kost á því, eitt sinn á hverju þ., að meta, hvort hún eigi hreinláta og hirðusama stjórn eða ekki, hvort möguleikar þjóðarinnar til framfara og aukinnar hagsældar hafi verið vel eða illa nýttir, hvort þjóðin hafi verið skattlögð í hófi eða óhófi, og hvort ráðdeild eða bruðlunarsemi hafi ríkt í meðferð opinbers fjár, svo eitthvað sé tilnefnt af hinum algengustu verkefnum eldhúsdagsins, finnst mér raunar, að þetta sé sízt óþarfara viðfangsefni en margt annað, sem fyrir þ. er lagt, en á hinum hinzta eldhúsdegi, vildi ég þá mega gera þessar athugasemdir við stjórnarfarið í landinu. Ríkisstjórnin okkar er gömul stjórn, og hefur setið lengur en nokkur önnur stjórn lýðveldisins og hið sama mætti segja, þó leitað væri lengra aftur í söguna. Hún hefur því ekki þá afsökun fyrir því, sem sleifarlag er á hjá henni, að það sé einhverjum öðrum stjórnum að kenna. Hún hefur haft ærinn tíma til að umbreyta allri þeirri löggjöf og framkvæmdaháttum, sem hún vildi hafa á annan veg. Samt sem áður bregður hún því fyrir sig öðru hverju enn þá, að kenna fyrri stjórnum, einkum vinstri stjórninni, um bæði eitt og annað, sem hún þá í svipinn hefur ekki aðra afsökun tiltæka fyrir. Og það er raunar sérstakrar athygli vert, að Alþfl.-menn eru ekki síður en sjálfstæðismenn iðnir við að kenna þeirri stjórn um margs konar yfirsjónir, og hafa sjáanlega gleymt því, að sjálfir áttu þeir sæti í henni, og bera því að sjálfsögðu sinn hluta þeirrar ábyrgðar, sem á þeirri stjórn hvílir, og þá væri nú raunar vel, ef ekki hefðu þeir aðrar þyngri byrðar að bera.

Það er í sjálfu sér heldur ekki svo skrýtið, þótt þeim Alþfl.-mönnum sé nú farið að daprast minni frá þeim tíma, það fyrnist svo margt á heilum áratug, hitt var miklum mun einkennilegra, að oftsinnis, meðan sú stjórn starfaði, mundu þeir kratar ekki, hvaða málaflokkum þeir stjórnuðu, og hrakyrtu samstarfsmenn sína fyrir vanrækslu í framkvæmdum varðandi þá málaflokka, sem þeir sjálfir áttu að stýra. En víkjum að núverandi stjórn.

Við upphaf sitt gaf hún út heilmikla stefnuskrá. Stefnuskrána kallaði hún ýmist viðreisn eða frelsi, falleg og ágæt nöfn, sem reyndust henni allgóður atkvæðasegull í þrennum kosningum, en eftir lífsreynslu hinna síðustu mánaða eru þau orð reyndar svo hart leikin, að það verður varla brosað að þeim lengur, heldur verka þau nú nánast eins og minnismerki drukknaðra og hrapaðra. Viðreisnin átti sem sagt að jafna við jörðu allar uppbætur, niðurgreiðslur og styrki úr ríkissjóði, en á hinum næstsíðustu fjárl. voru einmitt þær greiðslur búnar að drekkja stjórninni svo rækilega, að þær voru u.þ.b. 50% hærri en heildarupphæð fjárl. til allra þarfa ríkissjóðs næst áður en stjórnin settist á valdastóla. Hér verð ég að skjóta inn afsökunarbeiðni til hlustenda og þingheims fyrir það, að ég skuli ekki vitna í nýjustu fjárl., heldur þau næstsíðustu, en þannig stendur á, að núgildandi fjárl. eða þau fjárl., sem nú ættu að gilda og stíluð eru upp á yfirstandandi ár, eru nú fjögurra mánaða gömul, og að meðaltali hefur stjórnin rist þau upp að endilöngu og þvert yfir einu sinni í mánuði, svo að nú verður vart sagt, að þar standi lengur steinn yfir steini.

Fyrsta uppristan var vegna breytinga á tollskrá, sem talið var, að ætti að spara þjóðinni 160 millj. kr. í tollgreiðslu, en fjárl. voru reyndar upphaflega samþykkt á þeirri forsendu, að lækka mætti tollana um 270 millj., án þess að ríkissjóður skaðaðist, þar eð gengisfellingin á síðasta hluta s. l. árs hækkaði verð hinnar innfluttu vöru svo mikið, að tollafsláttur í hundraðshlutum gæti lækkað, er næmi þeirri tölu, ríkissjóði að skaðlausu.

Önnur uppristan var vegna samninga ríkisstj. um 320 millj. kr. bætur til hraðfrystihúsanna og annarra útgerðaraðila.

Hin þriðja var svo sparnaður á gjaldabálki fjárl. vegna þessara greiðslna. En sparnaðarupphæðina verð ég að leiða hjá mér að nefna, enda kemur mönnum illa saman um, hver hún muni vera, og allra sízt vita menn, hver hún muni verða á þessu yfirstandandi ári.

Fjórða stórristan snertir svo meira dótturfyrirtæki ríkissjóðs, sem Vegasjóður nefnist, heldur en ríkissjóð sjálfan, það er ný skattheimta af benzíni, hjólbörðum og þungagjaldi af bílum, samtals áætlað upp á 160 millj. kr. á einu ári.

En þó þetta sé nú allt lögtekið, þá er sagan ekki öll þar með sögð. T. d. er væntanlegur, áður en þessi vika er liðin á enda, nýr eða hækkaður útflutningstollur á fiskafurðum upp á 42 millj. kr., og er það margra uggur, að sá tollur eigi fljótlega eftir að birtast á reikningi til ríkissjóðs. En þótt dálítið togni á skýringarinnskotinu mínu um það, hvers vegna fjárl. ársins 1968 eru ekki lengur takandi alvarlega, þá skal hinu djásni stjórnarinnar, frelsinu, ekki gleymt. Frelsið var aðallega ætlað kaupmönnum. Nánar tiltekið vöruinnflytjendum. Áður hafði verið reynt að láta innflutningsverzlunina stuðla að sem hagkvæmustum mörkuðum fyrir útflutning okkar, en doktorarnir í stjórninni og til hliðar við hana fundu það út, að slíkt væri hið mesta glapræði. Nú skyldi hver sem var fá að kaupa hvað sem var, hvar sem hann vildi. Og á því verði, sem honum sýndist, og án alls tillits til þess, hver áhrif þetta hefði á atvinnumál á Íslandi eða markaði fyrir íslenzka framleiðsluvöru. Síðan skyldi frjálst að verðleggja varninginn og selja hér landsmönnum, svo sem hver og einn vildi og gat. Allt þetta er í sjálfu sér bæði göfugt og gott, en því miður hefur það reynzt draga á eftir sér ýmsa fylgikvilla, svo að stjórnin er farin að gefa út blá bönn við sínu eigin frelsi og úfar hafa risið vegna annarra frelsiskvilla, sem enn hafa þó ekki fengið neina sérstaka aðgerð. Þannig vita menn það nú, að samkvæmt frelsinu galt stjórnin á sínum tíma samþykki sitt við því, að reist yrði ný og vegleg umbúðaverksmiðja, til að frystum fiski verði vel og rækilega innpakkað, áður en hann leggur á úthöfin á leið til neytenda sinna, og auðvitað var ekkert frelsi í því að setja það fyrir sig, þótt áður hefði verið byggð sams konar kassagerð í landinu, sem annað gat þessum verkefnum léttilega. Nei, tvær skyldu verksmiðjurnar vera fyrst einhverjir óskuðu eftir því, og ekki var í það að horfa, þótt þær kostuðu hvor um sig allmarga milljónatugi í erlendum gjaldeyri, við áttum gjaldeyrisvarasjóð.

Svo liðu fram tímar, og báðar umbúðaverksmiðjurnar störfuðu, þótt verkefni þeirra beggja væru raunar heldur smá miðað við afkastagetuna, en samkvæmt frelsinu hafa þeir, sem byggt hafa verksmiðju, enga skyldu til þess að reka verksmiðjuna sína fremur en þeir vilja. Hví skyldu þeir ekki eins bregða sér í innflutningsverzlun? Það var einmitt það, sem nýja verksmiðjan gerði. Það varð að vísu dálítill hópur af því fólki, sem áður hafði unnið við umbúðaverksmiðjuna, atvinnulaus. Og hvers vegna skyldu menn líka ekki hafa rétt til þess að vera atvinnulausir, þegar frelsið er óskorað? En það er nú einmitt einn af fylgikvillum þessa frelsis, að atvinnulausir menn eru stundum talsvert verri gjaldþegnar en hinir, sem atvinnu hafa, og þess vegna æsti ríkisstj. sig upp í það, einn daginn nú fyrir skömmu, að afnema innflutningsfrelsi á pappírsumbúðum, svo nú verður að sækja um leyfi stjórnvaldanna fyrir þeim varningi, ef menn vilja kaupa hann frá útlöndum. Innflutningsleyfi samkvæmt umsókn. Þetta er alveg eins og í gamla daga, en þá voru svona ráðstafanir kallaðar innflutningshöft. Og þannig hefur stjórnin okkar hrapað frá frelsinu niður í höftin, því miður.

En hér syrtir ekki aðeins í álinn vegna innflutningshafta á pappírsumbúðum. Það er engu líkara en frekari frelsisskerðingar geti orðið þá og þegar. Á snærum ríkissjóðs eru um þessar mundir, auk annars, á döfinni tvær stórbyggingar, önnur fyrir símann, en hin fyrir tollinn, báðar í Reykjavík. Í stjórnarblöðunum má nú upp á hvern dag sjá skútyrði og karp vegna þess, að fjmrh. og landbrh. hæstv., en þeir eru æðstu ráðamenn, hvor fyrir sinni byggingunni, reynast hafa kosið að taka tilboðum erlendra fyrirtækja í verk þessi eða verkhluta, þótt innlend tilboð væru hagkvæmari og slangur íslenzkra manna atvinnulaus. Þannig virðist það orka tvímælis, í sjálfum stjórnarherbúðunum, að vert sé að nota frelsið að nokkru ráði umfram það, sem gert hefur verið.

Eitt dæmið enn úr sögu frelsisins. Lengi höfum við selt Pólverjum og Tékkum frysta síld, einkum Suðurlandssíld, á vöruskiptagrundvelli. Eftir kröfu hinna æðstu manna í viðskiptalífinu hér heima var þess óskað af þessum kaupendum, að þeir greiddu síldina í hörðum gjaldeyri, og léðu þeir nokkurs fangs á því. Þessi viðskipti voru komin upp í 7–8 þús. tonn á ári og þótti verðið með því hagstæðasta, sem við áttum völ á nokkurs staðar fyrir okkar sjávarafurðir. En við það, að vöruskiptaverzluninni var í raun réttri hafnað, svo að innflytjendur gætu valið sér annað innkaupasvæði en vöruskiptaverzlunin gaf tilefni til, datt sala okkar á þessari vöru niður í 1 þús. tonn á ári, og í verstöðvum sunnanlands var nú slegið slagbrandi fyrir þær dyr, þar sem þessi síld var áður fryst inni fyrir. En Norðmenn sitja nú að þeim markaði, sem við áttum þarna áður. Ég veit ekki, hvað stór hluti af þeim 320 millj., sem ég áðan nefndi og ríkisstj. hefur samið við frystihúsin um að greiða þeim í auknar uppbætur, er til kominn vegna þessarar breytingar á okkar viðskiptaháttum, en sá hluti er ábyggilega töluverður. Festuna og ráðdeildina í stjórnarfarinu má bezt marka á því, að á síðasta hausti, í nóvembermánuði, var öllum gjaldeyrisbönkum lokað um langt skeið, vegna þess að svo nákvæmlega þurfti að reikna út, af þar til settum sérfræðingum ríkisstj., hve mikið þyrfti að verðfella krónuna okkar gagnvart erlendri mynt, til þess að viðhalda og efla blóma atvinnulífsins, sem stjórnin predikaði allt fram á hið síðasta misseri, að væri þar ríkjandi, svo væri snilld stjórnarstefnunnar fyrir að þakka.

Þegar ákvörðunin um gengisfellinguna svo loks kom, reiknuð og rökstudd af doktorum innan og utan stjórnarinnar, því aldrei vantar það í stjórnarathafnirnar, að allt kuklið og fálmið er framreitt undir vísindalegu yfirskini, þá var blómi útvegsins t.d. metinn slíkur, að sá atvinnuvegur einn var talinn aflögufær um 400 millj. kr. Þess vegna var hinn svonefndi gengishagnaður sem þeirri upphæð nam, en það er mismunurinn á þeirri smákrónutölu, sem fyrir birgðir og framleiðslu hinna síðustu mánaða ársins '67 var talinn mundu fást, miðað við, að þessar vörur hefðu verið seldar fyrir færri en verðmeiri krónur, sem áður giltu. Þessi gengishagnaður var upptækur ger og honum ráðstafað til að leysa út ýmsar skuldbindingar, sem ríkissjóður hafði á sig tekið, en dregið greiðslur á. Einhver gerðarlegasti bitinn í því sukki öllu voru ógreidd iðgjöld af tryggingum fiskiskipa, en til þeirra áttu að renna eitthvað 60–70 millj. kr. Fyrir þá, sem ekki eru gjörkunnugir hinum hagspekilegu völundarhúsum stjórnarinnar, er vert að geta þess, að stjórnin hefur tekið að sér að greiða öll tryggingariðgjöld bátaflotans, en virðist engar ráðstafanir gera til þess að samræma, til hvers tryggingarnar ná, eða takmarka þær á nokkurn hátt. Þannig er bæði bátur og vél tryggt í sumum tilvikum, en aðeins bátsskrokkurinn í öðru. Iðgjöld beggja eru hins vegar greidd úr opinberum sjóði, og til þess að standa straum af þeim greiðslum er lagt svonefnt útflutningsgjald á fiskafurðir. Jafnt á framleiðsluvörur hinna fulltryggðu sem hinna hálftryggðu. Þetta útflutningsgjald er svo auðvitað tekið með í dæmið, þegar reiknað er út og ákveðið fiskverð til sjómanna og útgerðar, en það þýðir aftur það, að hlutarráðnir sjómenn gjalda að sínu leyti vátryggingar bátanna. Við þetta bætist svo enn, að hið opinbera virðist harla litla hönd hafa í bagga um það, hvað vátryggingarsjóðirnir bæta. Þeir munu hins vegar öðru hverju sýna stjórnarvöldunum hinar ferlegustu skrár yfir meiri og ægilegri tjónabætur en þekktar eru annars staðar frá af jarðarkúlunni auðvitað sem sönnunargögn fyrir því, að iðgjöldin þurfi að hækka. Og svo eru iðgjöldin einfaldlega hækkuð og munu nú vera meira en tvöföld við það, sem hæst er vitað um í öðrum löndum. En þá mætti spyrja: Eru sjótjón og skaðar raunverulega svona miklum mun meiri hér en annars staðar? Nei, því heldur víst enginn fram. Hitt er aftur á móti vitað, að verulegur hluti af almennum viðhalds- og endurbótakostnaði er hér greiddur sem tjónabætur, og eru hlutarráðnir sjómenn þannig látnir borga bróðurpartinn af þessum kostnaðarliðum einnig. En auk þess liggur það í hlutarins eðli, að árvekni til að forða tjónum fer stöðugt dvínandi, þar sem útgerð hvers einstaks skips er það óviðkomandi að mestu, hvort einhver skakkaföll kunna að verða á skipinu, og stundum getur það meira að segja verið til hagræðis, ef skipið hefur takmörkuð verkefni um stundarsakir, en eitthvað þarf að lagfæra, að tjón eigi sér einmitt stað.

En þrátt fyrir hæstu útflutningsgjöld, sem þekkt eru á byggðu bóli og sem enn fara hækkandi, svo að síldarútvegsn. hefur t.d. reiknað út, að eftir það sem nú er í uppsiglingu muni útflutningsgjaldið nema 140 kr. af hverri síldartunnu, svo dæmi sé tekið þar, liggur það fyrir sem staðreynd, að hið opinbera hefur tapað 100 millj. kr. um það bil, hvort hinna tveggja síðustu ára, á því að innheimta þessi margumtöluðu útflutningsgjöld og greiða vátryggingariðgjöldin, og enn sér þess engin merki, að þessi óreiða muni ekki halda áfram að leggjast á bök skattborgaranna sem árlegur 100 millj. kr. baggi ofan á allt annað, sem þar er fyrir. Svo má heita, að ríkisstj. sé búin að venja flesta þá, sem utan hennar raða standa, af því að ráðleggja henni eitt eða neitt eða a.m.k. væri full ástæða til þess að svo væri, því að hún hefur til þessa ekki talið sér ráðafátt í neinu. En af barnaskap mínum dettur mér í hug að spyrja: Væri það óeðlilegt, að sá aðilinn, sem borgar öll iðgjöldin af tryggingum bátaflotans, annaðist líka bótagreiðslurnar og samræmdi reglurnar um þær? Kæmi ekki til mála, að við þær aðstæður, sem hér hefur verið lýst, komi ríkið upp sínu eigin tryggingafyrirtæki? Það er alkunnug staðreynd, að flest þau tryggingafélög, sem einhverjar teljandi tryggingar hafa haft hér á landi á undanförnum árum, hafa borið nokkuð úr býtum fyrir sinn snúð, og sum þeirra hafa hreinlega orðið það fjársterk, að þau hafa tekið að reka útlánastarfsemi í auknum mæli, eftir því sem um þrengdist á því sviði hjá bönkunum.

Fyrir skömmu var hér starfandi heldur blómleg stofnun, sem heitir Húsnæðismálastofnun ríkisins. Hún lánaði almennum húsbyggjendum fé til íbúðabygginga úr Byggingarsjóði ríkisins, nokkurn veginn jafnóðum og þeir uppfylltu þau skilyrði, sem af stofnuninni voru sett fyrir lánveitingunum. Gagnvart almennum húsbyggjanda hefur því miður hlaupið alvarleg snurða á þráðinn, að því er varðar þjónustu þessarar stofnunar, einkum og sér í lagi bitnar fjárskortur hennar á byggðarlögunum utan höfuðborgarsvæðisins. Nú afgreiðir húsnæðismálastjórn ekki lengur lánsumsóknir jafnóðum, til þess skortir hana fé. Ástæðan fyrir því, að svona er komið, er ekki fyrst og fremst sú, að tekjustofnar Byggingarsjóðs hafi brugðizt, heldur hitt, að til lausnar á verkfalli hét ríkisstj. sérstakri fyrirgreiðslu um húsbyggingar í Reykjavík. Þetta efndi hún svo með þeim hætti, að hún lét húsnæðismálastjórnina borga til húsanna í Breiðholtshverfinu í Reykjavík meira fé og örar en reglur húsnæðismálastjórnar ákváðu eða þoldu, og því er það kerfi nú lamað gagnvart landsbyggðinni og einnig gagnvart þeim Reykjavíkurbúum, sem ekki eiga hlut að byggingunum í Breiðholtshverfi. Þótt allt sé gott um það að segja, að reynt sé að koma upp myndarlegu íbúðarhverfi með nýjungum í byggingartækni, var hér af stjórnarinnar hálfu í fjármálum farið að með sviksamlegum hætti gagnvart öllu því fólki, sem var að byggja og undirbúa byggingar sínar í trausti þess, að það yrði látið njóta lánveitingaákvæðanna í l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, en er nú strand með framkvæmdir, vegna þess að ríkisstj. hefur skrifað öðrum aðilum forgangsávísanir á þennan almenna sjóð og brotið þannig lög hans og reglur um útlán. En þótt stjórnin hafi hér haft í frammi furðulega rangsleitni, a. m. k. gagnvart öllum byggðum utan Reykjavíkursvæðisins og hið þokukennda málæði, sem af hennar hálfu er nú stundum haft uppi um það, að í athugun sé, hvort ekki muni hægt einhvern tíma í blámóðu framtíðarinnar að koma á hliðstæðum byggingaráætlunum víða um land, réttlætir það ekki það brot, sem hér hefur verið framið. En það eru þó fleiri en stjórnin ein, sem hér bera ábyrgð. Í gær tók allt stjórnarliðið í Ed. Alþ. á sig sök með stjórninni sinni með því að fella þær till. mínar, sem koma áttu í veg fyrir, að þau bolabrögð stjórnarinnar gætu endurtekið sig að ávísa byggingarfjármagninu, sem ætlað var þegnum landsins án tillits til þess, hvar þeir búa, til framkvæmda í Reykjavík með forgangi og aukafríðindum, þannig að húsbyggjendur í öðrum byggðarlögum sitji á hakanum. Umrædd till. er þannig, og átti að fellast inn í útlánareglur húsnæðismálastjórnar: „Nú hlutast ríkisstj. til um, að hærri lán séu veitt til einhverra bygginga en almennar reglur Húsnæðismálastofnunarinnar mæla fyrir um eða greiðslur verði örari en almennt tíðkast hjá stofnuninni, og skal þá óheimilt að láta hin auknu útlán, er þannig skapast, bitna á almennu útlánastarfseminni, heldur skal ríkisstj. þá skylt að útvega Byggingarsjóði aukið fjármagn, sem útlánsaukningunni nemur.“

Till. var sem sagt felld af öllum stjórnarliðum og skildi þar ekkert á milli þeirra stjórnarliða, sem vera eiga fulltrúar fyrir landsbyggðina, og hinna, sem til þess eru kjörnir að þjóna málefnum höfuðborgarinnar.

Hér er þó ekki einungis mismunað um fyrirgreiðslu af ríkisins hálfu til húsbyggjenda, heldur er þá sögu einnig og ekki síður að segja um margháttaðar framkvæmdir aðrar. Tökum t. d. með hverjum hætti ríkið styður tvær tilteknar framleiðslustöðvar. Annars vegar er sá gamli fiskframleiðslubær, Vestmannaeyjar, sem oft hefur lagt þjóðarbúinu til um 1/10 hluta af útflutningsframleiðslunni, þótt íbúarnir séu þar aðeins 2½% landsmanna. Þessi bær stendur nú frammi fyrir því vandamáli að verða óhjákvæmilega að koma sér upp vatnsveitu ofan af landi, ef byggðin og framleiðslan á ekki að þola hnekk. Vatnsveitan er talin munu kosta um 130 millj. kr. Á þessu ári ráðgerir ríkisstj. samkv. framkvæmdaáætlun sinni að styðja þessa framkvæmd með 2.7 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði. En hér er líka bara um gamlan innlendan atvinnuveg að ræða, sem margsinnis er yfirlýst af stjórninni, að ekki geti dugað til þess að sjá þjóðinni fyrir nauðþurftum sínum. Hins vegar er uppbygging nýs atvinnureksturs við Mývatn, Kísilgúrverksmiðjan trúi ég, að það fyrirtæki kallist. Þar kveður við annan tón um fyrirgreiðslu af ríkisstj. hálfu. Lögum landsins hefur verið umturnað til hægðarauka fyrir þennan atvinnurekanda, og honum standa allar dyr opnar af stjórnarvaldanna hálfu til hagræðis eftir þörfum. Síðast setti stjórnin Íslandsmet í þjónustulipurð sinni við Mansvilleauðhringinn með því að leggja á ríkisins reikning nýjan hlemmiveg frá fyrirtækinu niður til strandar, svo til við hliðina á gamla veginum, sem alltaf þótti fullgóður fyrir Íslendinga og þeir eiga raunar að nota enn. Kísilgúrvegurinn kostaði 50 millj. takk, og ríkissjóður borgaði á stundinni. Og hin eina ríkishitaveita á Íslandi var umsvifalaust lögð inn í starfsmannahúsin þar, og milljónirnar, sem til þess fóru, voru hvergi eftir taldar, þótt fiskikörlunum í Vestmannaeyjum væri á sama tíma synjað um nothæft neyzluvatn. En þótt ríkisstj. meti þá aðila, sem þarna eiga í hlut, með svona ólíkum hætti, er enn með öllu óséð, að framleiðsla kísilgúrverksmiðjunnar muni duga þjóðinni betur til hagsældar og bjargálna en fiskurinn, sem dreginn er á land í Eyjum.

Hér verður að láta staðar numið um einstök dæmi, enda hygg ég, að þau, sem talin hafa verið, séu ærin nóg til þess að sýna fram á, að betra, öruggara og réttlátara mætti stjórnarfarið vera, að ekki sé meira sagt. Stjórnin hefur gefizt upp við öll sín upphaflegu stefnumál. Henni hefur ekki tekizt að gera þjóðarbúskapinn óháðari gömlu, íslenzku atvinnuvegunum en hann áður var, og öll viðleitni hennar til þess að láta erlenda auðhringa leysa þá af hólmi er meira en vafasöm. Um þessar mundir hrekst stjórnin undan öllum vandamálum með algerðum kákráðstöfunum, sem allir vita, bæði hún og aðrir, að eru einskis nýtar til frambúðar. Og hún er orðin ber að því að gera sér alveg rangar hugmyndir um atvinnuástandið í landinu. Sérfræðingar hennar um atvinnu- og efnahagsmál hafa reynzt öðrum mönnum meiri glópar á sínu sviði. Og stjórnin hefur það eitt að stefnu sinni nú að sitja meðan sætt er. En stjórn, sem þóttist kunna tök á öllu, á ekki að sitja, eftir að veruleikinn hefur leitt í ljós, að ráð hennar dugðu ekki. Stjórn, sem taldi uppbætur niðurgreiðslur og styrki vera það, sem þyrfti að fjarlægja, á ekki að sitja, eftir að meginþátturinn í stjórnarathöfnum hennar er orðinn sífelld styrkjaaukning. Stjórn, sem taldi viðskiptafrelsi fyrir öllu, en fallin er ofan í það að sitja við að semja viðskiptahöft, hefur tapað öllu og á að segja af sér, og þegar hún gerir það, hæfir henni vel sú grafskrift, sem skráð er í niðurlagi eins vers í gömlu erfiljóði, þar sem viðskiptafróður höfundur segir hrærður í tilefni sorglegs atburðar:

„Hér er orðið heldur stjörnuhrap, 100%, það er mikið tap.“