17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þetta þing hefur einkennzt öðru fremur af þeim erfiðleikum, sem við er að glíma í þjóðarbúskapnum. Það er staðreynd, að þjóðfélagið hefur orðið fyrir þungu áfalli af völdum verðfalls á útflutningsafurðum, minnkandi aflabragða og erfiðs árferðis. Um það er ekki deilt. Um hitt er deilt, hvernig á því standi, að atvinnuvegirnir skuli eftir eitt samfelldasta góðæristímabil ekki vera betur undir það búnir að mæta erfiðleikum en raun ber vitni um. Ég held því fram, að það megi að verulegu leyti rekja til rangrar stjórnarstefnu og stjórnleysis á meðan góðærið stóð. Ef skynsamlega hefði verið stjórnað á góðu árunum, atvinnuvegunum komið á traustan grundvöll, verðbólgunni haldið í skefjum og réttri stefnu fylgt í innflutningsmálum, fjárfestingar- og peningapólitík, hefðu hin utanaðkomandi áföll ekki orðið íslenzkum atvinnuvegum sá fjötur um fót sem raun ber vitni. En það var ekki haldið skynsamlega á málum á góðu árunum. Það er sorgarsaga, en henni verður ekki breytt héðan af, og hana ætla ég ekki frekar að ræða, en vitaskuld má hún ekki gleymast, heldur á hún að verða komandi kynslóðum og seinni stjórnendum víti til varnaðar.

Erfiðleikar þjóðarbúsins um þingslitin í haust voru miklir. Þeir lágu reyndar þegar fyrir í kosningunum s. l. vor. Þá hafði verðfallið átt sér stað, og það gátu engir raunsæir menn búizt við verðhækkunum á næstunni. Það var vitað um lélega vetrarvertíð, það lágu fyrir frá árinu 1966 álit stjórnskipaðra nefnda, sem stjórnarmenn áttu meiri hluta í, um afkomu vélbáta- og togaraflota. Það var samdóma álit þessara nefnda, að báðar þessar atvinnugreinar þyrftu á stóraukinni aðstoð í einni eða annarri mynd að halda. Það má hins vegar segja, að síldveiðarnar sumarið 1967 hafi reynzt erfiðari en búast mátti við. Annars var alveg ljóst, hvert stefndi. Samt sögðu stjórnarflokkarnir í kosningabaráttunni, að allt væri í lagi í efnahagsmálum, að þjóðarbúskapurinn stæði á traustum grunni, að með verðstöðvun og gjaldeyrisvarasjóði væri tryggt, að tímabundnir erfiðleikar af völdum verðfalls og minnkandi afla hefðu ekki í för með sér nein veruleg efnahagsvandræði. Allur landslýður veit, að þetta var sagt í kosningabaráttunni. Því til afsönnunar þýðir ekki fyrir hæstv. forsrh. að vitna til landsfundarræðu sinnar né annarra ræðuhalda í einkasamkvæmum sjálfstæðismanna.

Allar áðurnefndar staðhæfingar stjórnarliða reyndust auðvitað herfilegar blekkingar, eins og nú er komið á daginn. En látum allt kosningaskraf kyrrt liggja. Aðalspurningin nú er sú, hvort eða hvernig stjórninni hafi tekizt að hafa forustu um lausn þeirra erfiðleika, sem óneitanlega hafa steðjað að þjóðarbúskapnum, þó að menn megi ekki mikla þá fyrir sér um of, eins og stjórnin hefur tilhneigingu til. Mitt svar er það, að getuleysi stjórnarinnar hafi aldrei orðið ljósara en einmitt nú, eftir að harðnaði í ári. Stjórnin hefur enn sem fyrr fylgt happa- og glappaaðferð, og útkoman hefur orðið eftir því.

Hvað kemur helzt í hugann, þegar litið er yfir feril þingsins og framvindu mála á þessum vetri? Nýjar álögur í ótal myndum, gengislækkun, nýjar dulbúnar uppbætur, samdráttur í atvinnulífi, atvinnuleysi, rekstrarstöðvanir og verkföll. Á s. l. ári var stórkostlegur viðskiptahalli. Eftir uppgjöri Hagstofunnar var greiðslujöfnuðurinn við útlönd óhagstæður um 2820 millj. kr., en samkvæmt uppgjöri Seðlabankans um 2200 millj. kr. Gjaldeyrisvarasjóður lækkaði um nær helming, skuldir við útlönd hækkuðu og vanskil á öllum sviðum fóru vaxandi. Á þessu ári stefnir allt í sömu átt og ekki betri. Já, allt eru þetta vörður við veg stjórnarinnar. Í dag er svo komið, að nær enginn atvinnurekstur í landinu getur staðið á eigin fótum. Þetta eru ekki stóryrði, heldur staðreyndatal, því miður. Ég ætla aðeins að víkja að fáeinum fyrirbærum þessarar ömurlegu sögu, aðrir munu rekja einstaka þáttu hennar nánar.

Þegar Alþ. kom saman s. l. haust, var ljóst, að undirstöðuatvinnuvegirnir voru að sligast. Stöðvun útgerðar og fiskvinnslustöðva blasti við um áramót og jafnvel fyrr, ef ekkert var að gert. Margar mikilvægar greinar iðnaðar voru að þrotum komnar. Bændur horfðu fram á vaxandi erfiðleika og versnandi afkomu. Þá var kosninganiðurgreiðslunum hætt, verðstöðvunin var gefin upp á bátinn, enda var hún þá búin að þjóna þeim tilgangi sínum að leyna verðbólguvextinum fram yfir kosningar. Samt taldi stjórnin þá ekki tímabært að taka málefni atvinnuveganna til athugunar, heldur sneri hún sér að greiðslu kosningavíxilsins með því að ætla að skella um 750 millj. kr. kjaraskerðingu á almenning og koma með þeim hætti í veg fyrir væntanlegan greiðsluhalla ríkissjóðs. En áður en kjaraskerðingarfrv. ríkisstj. — kjaraskerðingarfrv. þetta — var til lykta leitt, kom óvæntur hvalreki á fjörur stjórnarinnar. Pundið var fellt. Allt til þess dags höfðu íslenzkir ráðh. keppzt við að lýsa því yfir, að gengislækkun kæmi hér ekki til mála. En nú var allt í einu snúið við blaðinu, gengi krónunnar fellt í skyndi, ekki aðeins til jafns við lækkun pundsins, heldur miklu meir, eða um nær 25%. Þá var allt í einu ljóst, að gengi krónunnar þurfti að fella vegna útflutningsatvinnuveganna. Þá var ekki lengur vandi að segja til um þörf þeirra, allt nákvæmlega útreiknað á þremur eða fjórum dögum, byggt á betri og traustari gögnum en nokkru sinni fyrr, útkoman sögð óyggjandi, næstum því eins og úr rafreikni. Gengislækkunin færði auðvitað ríkissjóði stórauknar tolltekjur. Þrátt fyrir það þótti nauðsynlegt að halda fast við sumar hinar nýju álögur efnahagsmálafrv. Lögin um verðtryggingu launa voru felld úr gildi, þrátt fyrir allar aðvaranir verkalýðsforingja og launþegasamtaka. Nú átti allt að vera í lagi samkvæmt útreikningum rafmagnsheilanna, vandi atvinnuveganna leystur, hallalaus ríkisbúskapur tryggður og fjárlög afgreidd. Ráðherrar önduðu léttara og gátu áhyggjulausir haldið heilög jól. Þessa gengislækkunarsögu, með öllum sínum tilbrigðum, mótsögnum og hliðarsporum, rek ég ekki hér frekar, hún er öllum í svo fersku minni. En Adam var ekki lengi í Paradís. Eftir áramótin fór allt í hnút. Vandi útgerðar og fiskvinnslustöðva var ekki leystur með gengislækkuninni. Það hafði þrátt fyrir allt verið reiknað skakkt og það svo að hundruðum milljóna skipti. Útgerðarmenn vildu ekki róa nema þeir fengju hærra verð. Fiskvinnslustöðvar vildu ekki taka til starfa, nema þær fengju hráefnið á lægra verði. Hér voru góð ráð dýr, en enn var setzt við að reikna. Lausnin fannst með því, að ríkisstj. hét að veita atvinnugreinum þessum aðstoð upp á 300–400 millj. kr. Ekki þótti taka því að kalla Alþ. saman, áður en slíkt fyrirheit var gefið. Slíkar ráðstafanir, svo skömmu eftir gengislækkun gerðar til bjargar atvinnuvegunum, munu algert einsdæmi. Er furða, þó að menn spyrji, hve langt muni verða í næstu gengisfellingu með sama áframhaldi?

Sá þáttur í störfum Alþ., sem mest hefur borið á eftir áramótin, er setning eins konar aukafjárlaga eða viðbótarfjárlaga og álagning nýrra opinberra gjalda. Með þeim starfsháttum er afgreiðsla fjárl. fyrir áramót í raun og veru aðeins orðin sýndarmennska. Það getur enginn verið öruggur um, að það standi, sem í fjárl. er samþykkt. Fjárveitingar, sem þar eru samþykktar, eru teknar aftur. Nýjar álögur eru samþykktar, sem ráðstafað er utan fjárl. Þannig verða í reyndinni tvenn eða þrenn eða jafnvel fleiri fjárlög í gildi.

Í sambandi við afgreiðslu fjárl. hét ríkisstj. því, að hún skyldi skila aftur um 250 millj. kr. af tollauka ríkissjóðs, til þess að draga nokkuð úr kjaraskerðingaráhrifum gengisfellingarinnar. Þegar bezt lá á henni, lét hún jafnvel hafa það eftir sér, að tollar skyldu lækkaðir um 270 millj. Þegar til kastanna kom, treystist þó ríkisstj. ekki til að standa við þetta fyrirheit sitt og lækkaði tollana mun minna eða samkvæmt eigin áætlunum um aðeins 159 millj. kr. Þar var um enn eina reikningsskekkjuna að ræða. Það kom þó fljótlega í ljós, að þannig hafði verið á málum haldið, að ríkissjóður virtist ekki einu sinni hafa efni á þeirri eftirgjöf. Því var komið fram með frv. um breyt. á fjárl., sem kallað var sparnaðarfrv., en það var að verulegu leyti í því fólgið að fella niður fjárveitingar til framkvæmda, en framkvæma þær þess í stað fyrir lánsfé. Átti þannig að taka að láni 81 millj. kr. til framkvæmda og velta yfir á framtíðina.

Næst var farið að glíma við fjármál vegasjóðs. Það kom í ljós, sem fáum kom reyndar á óvart, að hann var kominn gersamlega í þrot. Álögur þær, sem lagðar hafa verið á umferðina að undanförnu, hafa ekki runnið til hans nema að litlu leyti, heldur farið beint í ríkissjóðinn og orðið þar almennur eyðslueyrir. Skuldir vegna vegaframkvæmda eru nú orðnar 300–400 millj. kr. Undir vöxtum þeirra og afborgunum verður vegasjóður að standa, og var þá heldur lítið eftir til nýbygginga og vegaviðhalds. Vita þó allir, í hverju ófremdarástandi þau mál eru. Eins og kunnugt er, greip stjórnarliðið til þess ráðs að leggja nýjar stórkostlegar álögur á umferðina, þ. e. að hækka benzínskatt og fleira. Þessar nýju álögur, sem á þessu ári eiga að gera 109 millj., en á heilu ári um 160 millj., eru fullkomið örþrifaráð og raunar óverjandi, eins og á stendur. Þær fara óðar út í verðlagið og valda nýrri dýrtíðaröldu.

Þá má nefna frv. um lántökuheimildir vegna framkvæmdaáætlunar. Þar eru heimilaðar lántökur innanlands og erlendis og ráðstöfun þess fjár. Þar er um enn ein viðbótarfjárl. að ræða upp á nær 600 millj. kr. Ræði ég það mál ekki frekar hér.

Rétt fyrir páskana kom enn einn vanskilahallinn upp úr kafinu. Það er halli á vátryggingasjóði fiskiskipa, en í hann hefur runnið verulegur hluti af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Hallinn á honum s. l. ár varð um 95 millj. kr. Að óbreyttu gjaldinu er hann á þessu ári áætlaður 103 millj. Á þetta hefur ekki verið fyrr minnzt. Það hefði þó verið ástæða til, þegar fjallað var um málefni sjávarútvegsins. Nú leggur stjórnin til, að útflutningsgjaldið sé hækkað, aðallega á saltsíld, og ætlar með þeim hætti að ná inn um 42 millj. Gert er ráð fyrir, að 50–60 millj. komi úr gengishagnaðarsjóði. Hinu á með einhverjum hætti að ýta á undan sér. Þetta er táknrænt um vinnubrögð stjórnarinnar. Það er í lengstu lög forðazt að horfast í augu við staðreyndir. Það á að leggja nýjar álögur á sjávarútveginn, enda þótt augljóst sé, að hann getur ekki undir þeim staðið og að það mundi kalla á nýja aðstoð honum til handa. Það er sem sé ekki tekizt á við allan vandann. Mestum hluta hans á að ýta á undan sér. Öll eru þessi tryggingamál í hinum mesta ólestri.

Eitt er það mál, sem ekki má gleymast. Það er þáttur ríkisstj. í verkföllum vetrarins. Að því ætla ég nokkuð að víkja, og ekki sízt vegna þess, að með bolabrögðum var hindrað, að þáltill. stjórnarandstöðunnar um lausn verkfallanna væri rædd í alþjóðar áheyrn. Þegar verkföllin höfðu staðið í viku, sáttatilraunir sáttasemjara reynzt árangurslausar og hann ekki lagt fram neina miðlunartill., lögðu stjórnarandstæðingar fram svo hljóðandi þáltill.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj., að beita sér þegar í stað fyrir lausn verkfallanna með lagasetningu um verðtryggingu launa í samræmi við það, sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram.“

Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að ríkisvaldið eigi ekki með lagaboði að grípa inn í kjaradeilu vinnuveitenda og launþega nema í fágætum undantekningartilfellum. Slíkt undantekningartilvik var fyrir hendi að mínum dómi í verkföllunum í vetur. Þau verkföll voru fyrst og fremst komin til vegna ráðstöfunar ríkisvaldsins vegna tiltekinnar lagasetningar. Það var yfirleitt ekki farið fram á grunnkaupshækkanir, heldur aðeins, að verðlagsuppbót skyldi greidd á kaup. Með l. frá 29. nóv. s. l. voru felld úr gildi lög frá 1964 um verðtryggingu launa. Ef þau lög hefðu ekki verið felld úr gildi og verðlagsuppbót greidd áfram, hefði ekki komið til kjaradeilu eða verkfalla. Það var kjarni málsins.

Nóvemberlögin um fortakslaust afnám vísitölubindingar á laun, jafnt hin lægri sem hin hærri, voru mistök. Í umræðum um þá lagasetningu voru stjórnarflokkarnir varaðir við, en þeir sinntu því miður ekki þeim varnaðarorðum og lögfestu frv: sitt óbreytt. Því fór sem fór. Úr því sem komið var var sá kostur beztur að viðurkenna mistökin og reyna að bæta úr þeim, eftir því sem hægt var. Hér átti því löggjafinn að skerast í leikinn, nema á brott ástæðu kjaradeilunnar og lögbjóða á ný verðtryggingu launa að því marki og á þann hátt, sem nauðsynlegt var, til þess að verkalýðsfélögin gætu aflétt verkföllunum. Þegar hér var komið, var vitað, að verkalýðsfélögin vildu sætta sig við takmarkaða vísitöluuppbót, þ. e. binda fulla verðlagsuppbót við 10 eða 11 þús. kr. mánaðarlaun. Þau vildu einnig fallast á, að greiðsla verðlagsuppbótarinnar kæmi á þessu ári í áföngum, þannig að full vísitöluuppbót á kaup það, sem um var að ræða, 10 eða 11 þús. kr. mánaðarlaun, kæmi ekki til fyrr en 1. des. á þessu ári. Með þeim hætti fengu atvinnuvegirnir nokkurt svigrúm og umþóttunartíma. Þetta voru sanngjarnar og hófsamar kröfur. Hvernig er hægt að komast af með 10 eða 11 þús. kr. laun á mánuði? Það er mér ráðgáta. Hvernig er hægt að fara fram á það við menn, sem hafa um það bil 130 þús. kr. árstekjur, að þeir lækki laun sín? En það var í reyndinni gert. Óbreytt laun og án uppbótar frá því fyrir gengislækkun jafngilti því, að launalækkun hefði átt sér stað. Gengisfellingin hefur í för með sér kjararýrnun fyrir launamenn. Það er raunverulega kauplækkun, þó að krónutalan sé sú sama. Hér var í raun og veru ekki farið fram á annað en að þessir menn héldu óbreyttu kaupi frá því fyrir gengislækkun, þó með tilslökunum. Það var ekki fram á mikið farið. Það var fjarstæða að láta sér nokkurn tíma detta í hug, að þessir launalægstu menn gætu tekið á sig kjaraskerðingar af völdum gengisfellingarinnar. Það, sem í raun og veru var farið fram á, var, að efnisreglur verðtryggingal. frá 1964 giltu áfram að því er varðaði lægstu laun, og þó með tilslökunum á þessu ári. Hér var því gullið tækifæri fyrir löggjafann til að binda endi á verkföllin. Það vildi hann ekki nota. Stjórnin fékkst ekki einu sinni í útvarpsumræður um málið. Hún kærði sig ekki um kastljós á frammistöðu sína í þessu máli. En eftir að þessi þáltill. kom fram, komst meiri og betri skriður á lausn deilunnar en áður. Fyrir atbeina sáttasemjara tókst svo að leysa hana með þeim hætti, sem allir þekkja og að mestu leyti er í samræmi við það, sem verkalýðshreyfingin hafði sett fram og áður er lýst, og þó með nokkurri tilslökun. Ég stend alveg við það, að það sé engum til sæmdar, ef svo er nú komið í íslenzku þjóðfélagi, að ekki sé hægt að greiða fulla vísitöluuppbót á 10 þús. kr. mánaðarlaun. En þegar verkföllin leystust, þá höfðu þau staðið í hálfan mánuð. Hvað skyldu þau hafa kostað atvinnuvegina og þjóðina í heild? Ætli það hefði ekki verið skynsamlegra af stjórninni að sýna minni stífni í máli þessu og greiða strax fyrir lausn kjaradeilunnar með lögfestingu verðlagsuppbótar á lægstu laun? Það má segja, að þetta mál heyri nú sögunni til og umræður um það nú breyti ekki neinu úr því sem komið er, hvorki til né frá. En ég taldi samt rétt að minnast aðeins á það, bæði til að minna á þátt stjórnarinnar, sem vissulega má ekki gleymast, svo og til þess að skýra, hvers vegna ég taldi rétt, eins og á stóð, að Alþ. skærist í leikinn.

Eitt er það fyrirbæri í íslenzkum þjóðmálum um þessar mundir, sem mér þykir einna ískyggilegast. Það er hinn sívaxandi skuldahali, sem hið opinbera dregur á eftir sér á fjölmörgum sviðum, svo sem vegna sjúkrahúsbygginga skólabygginga, hafnarmála, vegamála og félagsheimila, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar skuldir skipta nú orðið mörg hundruð milljónum. Á þessu ári á enn að bæta við mörgum milljónatugum. Afborganir og vextir af þessum skuldum éta upp árlegar fjárveitingar. Öllum þessum skuldaböggum er svo velt yfir á framtíðina. Þessi stjórn leggur ekki gull í lófa framtíðarinnar. Hún bindur framtíðina á skuldaklafa. Það verður óskemmtilegt fyrir þá menn, sem eiga við að taka skuldasúpunni og greiða eiga víxilinn. Einhvern tíma kemur að skuldadögunum. Vitaskuld hefur í flestum tilfellum verið um nauðsynlegar framkvæmdir að ræða. Það verður að sníða sér stakk eftir vexti og vinna að málum skipulega. Annars endar allt í óreiðu. Það er óforsvaranlegt ábyrgðarleysi af ríkisvaldinu að hafa horft upp á hinn geigvænlega viðskiptahalla, án þess að gera í tæka tíð viðeigandi ráðstafanir til varnar. Það er ekki búið að bíta úr nálinni með það.

Framkoma stjórnarinnar gagnvart Alþ. væri efni í langan lestur. Helztu mál eru algerlega kokkuð utan þings af embættismönnum stjórnarinnar, áður en þau eru lögð fyrir Alþ. Þingið verður oft aðgerðalítið að bíða eftir því vikum eða jafnvel mánuðum saman. Þegar þau loks eru lögð fyrir þingið, er þeim rennt þar í gegn á færibandi, án þess að við nokkru megi hreyfa, hvað vitlaust sem það er. Það er ekki að furða, þó að jafnvel sjálfstæðismenn séu farnir að tala um Alþ. sem afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. Þessum starfsháttum þarf að breyta.

Ég hef nú deilt allharkalega á stjórnina og þingmeirihlutann, og er þó margt ótalið, sem ég tel aðfinnsluvert. Ég hef gagnrýnt stjórnarliðið fyrir stefnuleysi, handahófsaðgerðir og ábyrgðarleysi. Ég ætla ekki í þetta skipti að fara lengra út í þá sálma. Ég viðurkenni, að vandamálin hafa á margan hátt verið erfið úrlausnar, og ég verð að játa, að mér finnst útlitið allt annað en bjart á næstunni. En nú kunna menn að spyrja: Hvernig hefði Framsfl. brugðizt við vandamálunum, ef hann hefði átt sæti í ríkisstj.? Hvað vill Framsfl.? Það er eðlileg spurning. Ég ætla hér á eftir að víkja nokkuð að henni og að stefnu Framsfl. Vitaskuld verður aðeins hægt að drepa á fáein atriði.

Ég vil fyrst geta þess, að við framsóknarmenn státum ekki af því að eiga í okkar fórum neinn töfrasprota, sem geti í einum svip breytt öllu til betri vegar. Það er aðeins með skipulegri þróun í rétta átt, sem málum verður smám saman komið í viðunandi horf. En það þarf í upphafi að átta sig á, hvert á að stefna, og stíga skrefin í þá átt. Framsfl. vill í þjóðarbúskapnum fylgja markvissri stefnu í stað happa- og glappaaðferðar. Framsfl. vill skipulag í stað þess stjórnleysis, sem ríkt hefur á allt of mörgum sviðum.

Framsfl. telur, að eins og sakir standa hljóti aðalviðfangsefnið að vera endurreisn atvinnuveganna og bættur þjóðarhagur. Það þarf að breyta um stefnu gagnvart undirstöðuatvinnuvegunum. Það þarf að koma þeim í það horf, að þeir geti starfað og byggt sig upp með eðlilegum hætti. Það þarf að draga úr fjármagnskostnaði þeirra, einkanlega með því að stórlækka vexti af stofnlánum þeirra og rekstrarlánum. Það þarf einnig að létta af þeim ýmsum opinberum gjöldum, sem á þá hefur verið hlaðið að undanförnu og þeir fá ekki undir risið. Það þarf að fullnægja lánsfjárþörf þeirra með eðlilegri hætti en átt hefur sér stað á allra síðustu árum. Einkanlega þarf að gefa þeim kost á sérstökum lánum til hagræðingar og framleiðniaukningar, en á því sviði er umbóta þörf í ýmsum atvinnugreinum. Þá þarf og að taka ýmsa þjónustustarfsemi við undirstöðuatvinnuvegina til gagngerðrar endurskoðunar. Þar er áreiðanlega hægt að koma við margvíslegri hagræðingu. Það er enginn vafi, að með þeim hætti má spara undirstöðuatvinnuvegunum verulegar fjárhæðir. Ég nefni t. d. bankakerfið; olíudreifinguna og tryggingarnar. Hvaða vit er í öllum bankabyggingunum og bankaútibúunum? Halda menn, að þetta kosti ekki neitt? Og ætli það væri ekki hægt að spara eitthvað í mannahaldi, ef bankar væru sameinaðir? Ætli það væri ekki hægt að koma við hagræðingu í olíudreifingunni? Mörgum sýnist það. Tryggingar eru sagðar hér miklu dýrari en annars staðar.

Sjálfsagt liggja til þessa eðlilegar orsakir. En það er samt vissulega ástæða til þess að athuga þau mál. Sjálfsagt má hér einnig nefna ýmsa viðgerðaþjónustu. Líklegt er, að þar mætti koma við ýmissi hagræðingu. Með þeim ráðstöfunum, sem hér hafa verið nefndar, má eflaust stórbæta aðstöðu atvinnuveganna. En lækkun framleiðslukostnaðar er ekki nema önnur hliðin. Hins þarf einnig að gæta, að gera útflutningsafurðirnar sem verðmætastar. Þess vegna þarf m. a. að leggja ríka og vaxandi áherzlu á vöruvöndun og gæðaeftirlit. Einnig þarf að sinna markaðsleit og markaðskönnun með allt öðrum hætti en hingað til. Það þarf að taka upp sparnað í ríkisbúskapnum, ekki neinn sýndarsparnað heldur raunverulegan sparnað. Yfirbygging okkar fámenna þjóðfélags er orðin allt of dýr og úr kostnaði við hana verður að draga. Það er undirstöðuatvinnuvegunum ofviða að standa undir henni, við verðum í þeim efnum að læra að sníða okkur stakk eftir vexti. Við getum ekki lagað okkur að hætti stórþjóða. Vafalaust má t. d. eitthvað spara í æðstu stofnunum og utanríkisþjónustu, en ekki vil ég hér fara út í það að nefna einstök dæmi.

Framsfl. telur, að taka þurfi upp stjórn í fjárfestingarmálum. Það skipulagsleysi, sem þar hefur ríkt að undanförnu, fær ekki staðizt, það er þjóðarheildinni of dýrt. Hitt er annað mál, að þar má ekki fara út í neina ofstjórn, svo sem átti sér stað á dögum fjárhagsráðs, er menn voru sektaðir fyrir að nota sementsslatta til að steypa garð við hús sín, en þá fóru aðrir með stjórn þeirra mála en framsóknarmenn. Það þarf einnig að gæta meira hófs í innflutningi en að undanförnu. Þjóðin hefur ekki efni á því, eins og nú er ástatt, að dýrmætum gjaldeyri sé sóað í hreinan óþarfa. Það verður að sporna við viðskiptahallanum, áður en við erum komnir alveg á kaf.

Allir eru sammála um, að landbúnaður verði að njóta verndar og að ekki eigi að leyfa innflutning landbúnaðarvara. Íslenzkur landbúnaður stæðist ekki slíka samkeppni. Ég held, að hið sama eigi við um ýmsan innlendan iðnað. Hann getur ekki þrifizt, nema hann njóti verndar. Ég held, að við höfum ekki efni á að leggja allan þann iðnað niður, sem ekki þolir samkeppni við innfluttan iðnaðarvarning. Þetta er sá sannleikur, sem við þurfum og eigum að horfast í augu við.

Framsfl. telur, að taka eigi upp áætlunarbúskap undir forustu ríkisvaldsins og í samstarfi við fulltrúa atvinnulífsins. Gera verður raunhæfar framkvæmdaáætlanir, ekki sízt fyrir einstaka landshluta, þar sem þörf er á sérstakri atvinnuuppbyggingu. Peningapólitíkina verður að miða við það, að framleiðslugeta atvinnuveganna sé fullnýtt og að ekki komi til atvinnuleysis. Atvinnuleysi er ein átakanlegasta sóun í mannlegu samfélagi. Framsfl. telur því, að einskis megi láta ófreistað til að afstýra atvinnuleysi. Það þarf því að gera alveg sérstakar ráðstafanir til atvinnuuppbyggingar á þeim stöðum, þar sem atvinna hefur verið ónóg. Er í því sambandi athugandi, hvort ekki sé rétt eða hvort ekki ætti að verja stærri hluta atvinnuleysistryggingasjóðs en nú er gert til framkvæmda, er treysti atvinnuöryggi.

Jafnframt því, sem snúast verður sérstaklega við vandamálum atvinnuveganna í dag, þarf að vinna með ákveðnari og markvissari hætti að framtíðaruppbyggingu atvinnulífsins í landinu. Þar þarf einnig að hagnýta í auknum mæli hinar stórstígu framfarir á sviði þekkingar og tækni og vinna skipulega að því að renna fleiri stoðum undir þjóðarbúskapinn. Í því sambandi ber að leggja megináherzlu á að hagnýta sem bezt innlend hráefni og náttúruauðlindir, auka fjölbreytni og framleiðni í vinnslu landbúnaðar- og sjávarafurða, stofnsetja og efla iðnfyrirtæki sem víðast og kanna nýjar leiðir til aukinnar hagnýtingar orkulinda.

Andstæðingar Framsfl. hafa reynt að dreifa því út, að flokkurinn væri andvígur stóriðju. Þetta er alrangt. Framsfl. er fylgjandi því, að stóriðju sé komið á fót, eftir því sem skilyrði eru fyrir hendi. En hann vill ekki fyrir þá sök vanmeta og vanrækja rótgróna undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Hann vill ekki heldur kaupa stóriðju því verði að veita útlendingum hér forréttindaaðstöðu eða undanskilja slík fyrirtæki íslenzkum lögum. Flestir framsóknarmenn voru andvígir álsamningnum, af því að þeir töldu ákvæði hans óhagstæð eða óaðgengileg með öllu, en ekki af því, að þeir væru að stefnu til andvígir stóriðju, sem Íslendingar ættu hlut að. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherzlu, af því að afstaða framsóknarmanna til þessa máls hefur verið rangtúlkuð.

Framsóknarmenn vilja beita sér fyrir raunhæfum aðgerðum til eflingar jafnvægi í byggð landsins. Þeir leggja áherzlu á, að ráðstöfun ríkisfjármuna og erlendra lána sé við það miðuð. Þetta markmið á að hafa í huga við staðsetningu framkvæmda atvinnurekstrar- og þjónustustofnana.

Framsóknarmenn leggja áherzlu á auknar framfarir í skólamálum, heilbrigðismálum og samgöngumálum. Jafnframt er nauðsynlegt, að skipulag byggingaframkvæmda á þeim sviðum sé endurskoðað með aukna hagkvæmni fyrir augum. Stefna Framsfl. birtist auðvitað annars í þeim málum, sem þeir hafa flutt á þingi bæði nú í vetur og áður. En þau hafa oftast hlotið sömu meðferð að heita má, þ. e. að þau eru tekin til 1. umr., vísað til n. og þar eru þau svæfð. Það er ástæða til að benda mönnum á að kynna sér þau mál sem bezt, t. d. landbúnaðarmálin, sem framsóknarmenn hafa flutt.

Framsfl. vill styðja réttmætar kröfur launþega. Hann viðurkennir þá miklu þýðingu, sem starfsemi verkalýðsfélaganna hefur haft fyrir fólkið í landinu, bæði með því að stuðla að bættum lífskjörum þess og með því að ýta undir almennar framfarir í landinu. Hann vill viðurkenna fullan samningsrétt launafólks sem sjálfsögð mannréttindi og veita honum vernd. Hann vill tryggja kaupmátt launa og telur, að með þeirri skipan sé vinnufriði bezt borgið. Hlutdeild launþega í vaxandi þjóðartekjum á hverjum tíma ber að tryggja. Stefna ber að aðild verkamanna að stjórn stærri atvinnufyrirtækja. Þá staðreynd ber jafnan að hafa í huga, að blómlegt atvinnulíf er hagur launþega ekki síður en atvinnurekenda.

Að endingu ætla ég að víkja nokkuð að stefnu Framsfl. í utanríkismálum. Framsfl. vill, að stefna Íslands í utanríkismálum sé að jafnaði við það miðuð að tryggja sjálfstæði og öryggi landsins. Leitazt sé við að skapa sem víðtækasta samstöðu landsmanna um utanríkismál. Er því nauðsynlegt, að ríkisstj. hafi fullt samráð við utanrmn. um öll meiri háttar utanríkismál og mótun utanríkismálastefnu. Jafnframt er æskilegt, að Alþ. séu gefnar skýrslur um utanríkismál og þar fari fram almennar umræður um þau. Það er skylt að viðurkenna, að núv. utanrrh. hefur sýnt meiri skilning í þessu efni en fyrirrennari hans og hefur tekið upp meiri samvinnu við utanrmn. en áður átti sér stað. Er það von mín, að það sé upphaf betri starfshátta í þessum málum. Framsfl. telur, að Íslendingum beri að kappkosta góða samvinnu við allar þær þjóðir, er þeir eiga skipti við, en leggur áherzlu á, að sem nánast samstarf sé haft við Norðurlandaþjóðirnar. Sérstaklega ber að leggja áherzlu á, að Íslendingar taki af alhug þátt í samstarfi Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandaráðs, Evrópuráðs og öðrum slíkum samtökum, sem hafa það markmið að stuðla að friði og bættri afkomu og aukinni menningu þjóða. Framsfl. telur rétt að óbreyttum aðstæðum, að Íslendingar séu aðilar að varnarsamtökum vestrænna þjóða, og telur eðlilegt, að fylgzt sé rækilega með öllum breytingum, sem verða kunna á Atlantshafsbandalaginu og þróun alþjóðamála, og tekið sé til athugunar í sambandi við uppsagnarákvæði sáttmálans, þegar þar að kemur, hvort Íslendingar verði að vera áfram í bandalaginu.

Að því er dvöl varnarliðs hér á landi varðar, vil ég minna á þann fyrirvara, sem gerður var af hálfu Íslendinga, er þeir gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu, en meginefni hans var á þá lund, að á Íslandi yrði ekki herlið á friðartímum, að það væri algerlega á valdi Íslendinga sjálfra, hvenær hér væri erlent herlið, og Íslendingar hefðu ekki eigin her og ætluðu ekki að setja hann á fót. Samkvæmt þessum fyrirvara og að óbreyttum aðstæðum vill Framsfl. vinna að því, að varnarliðið hverfi úr landi í áföngum á þann hátt, sem gerð var samþykkt um á síðasta flokksþingi framsóknarmanna og á miðstjórnaraðalfundi. Ég treysti því, að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið skilji þá afstöðu. Ég vona, að nægilegt þingfylgi fáist sem fyrst við þessa stefnu.

Að því er varðar afstöðu til EFTA og Efnahagsbandalagsins vil ég aðeins segja þetta: Ég tel sjálfsagt vegna hagsmuna íslenzkra atvinnuvega að fylgjast sem bezt með því, hver framvindan verður í málefnum EFTA. Það er rétt að kynna sér, hvern ávinning Ísland kynni að hafa af samningi við þau samtök, svo og hvaða kvaðir fylgja. En ég vil eindregið vara við fljótfærnislegum ákvörðunum varðandi hugsanlega aðild Íslands að EFTA, áður en nauðsynleg athugun málsins hefur farið fram. Ég tel alveg útilokað, að Ísland geti gerzt aðili að Efnahagsbandalaginu eins og það nú er byggt upp. — Góða nótt.