17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Undanfarin ár allmörg og fram á árið 1966 hafa verið góð ár fyrir íslenzka atvinnuvegi og fyrir þjóðarbúið í heild. Aflamagn fór vaxandi og náði hámarki það ár, eða 1 millj. 200 þús. tonnum, og hefur aldrei fyrr eða síðar orðið jafnmikið eða hærra. Verðlag á útflutningsvörum okkar fór stöðugt hækkandi, þannig að hægt var að mæta auknum tilkostnaði heima fyrir. En um þetta leyti varð hér mikil breyting á. Hvort tveggja fór saman, aflabrögðin minnkuðu og verðlagið tók að falla og svo mjög, að útflutningsverðmætið minnkaði um nálega þriðjung, lækkaði úr um það bil 6 þús. millj. kr. niður í nærri 4 þús. millj. á árinu 1967 minnkaði rétt um 1700 millj. kr. á þessu ári. Allt eru þetta þekktar staðreyndir, sem hafa verið margsagðar. En þessar staðreyndir þurfa að segjast oft, til þess að fólkið átti sig virkilega á því, sem gerzt hefur. Á góðu árunum, sem ég vil nefna svo, hafði þó tekizt að safna gjaldeyrisvarasjóði, sem nú var hægt að grípa til og firra algerum vandræðum. Um myndun þessa varasjóðs hafði staðið mikill styrr. Nauðsynleg forsenda fyrir myndun hans var að binda nokkurn hluta sparifjár landsmanna til að standa á bak við hann. Stjórnarandstaðan og alveg sérstaklega Framsfl. hefur alla tíð beitt sér harkalega gegn þessum ráðstöfunum, og það sem meira var, þeir hafa flutt um það till. á Alþ. að eyða honum í meira eða minna vafasaman innflutning. Ef þessi ráðagerð hefði tekizt, er augljóst, hvað skeð hefði, þegar gjaldeyristekjurnar minnkuðu svona gífurlega. Innflutningshöft og gjaldeyrisskömmtun hefði orðið einasta úrræðið, og það er ekki ólíklegt, að að þessu hafi verið stefnt markvisst með þessum aðförum að gjaldeyrisvarasjóðnum. En sem betur fer heppnaðist aðförin ekki, og með greiðslum úr sjóðnum var hægt að jafna hallann án þess að til skömmtunar þyrfti að koma og hafta á innflutningnum. Þeir, sem muna ástandið í gjaldeyrismálum okkar áður fyrri, t.d. á árunum 1959 og 1960, þó ekki sé lengra farið aftur í tímann, þeir geta gert sér í hugarlund, hversu nauðsynlegt það er að hafa varasjóð af þessu tagi upp á að hlaupa. Halli s. l. árs hefur nú verið jafnaður með greiðslum ár sjóðnum, og hefur þannig rætzt úr vandræðum augnabliksins og tóm gefizt til athugunar á varanlegum úrbótum. Að vísu vona menn í lengstu lög, að úr rætist vandræðunum, aflinn vaxi aftur og verðið hækki, en varlegast er þó að fara með gát. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að þorskveiðin fer minnkandi hér á norðurhöfum miðað við veiðieiningu og síldinni hefur af sérfræðingum verið spáð á næstu vertíð svipaðri staðsetningu og s. l. sumar. Þannig er bezt að vera við öllu búinn.

Stjórnarandstaðan, og þá sérstaklega Alþb.-fólkið, hefur verið að reyna að halda því fram, að hugleiðingar svipaðar þessum væru tilhæfulaus svartsýni og ættu sér enga stoð í veruleikanum, og þannig væri verið að gera of lítið úr þýðingu fiskveiðanna fyrir íslenzka þjóðarbúið. Stjórnarflokkarnir vildu draga saman fiskveiðarnar og snúa sér meira að öðrum atvinnugreinum. Þetta vildi ég segja, að væri tilhæfulaust með öllu. Ríkisstj. er ljóst, að fiskveiðarnar hljóta að verða aðaluppistaðan í útflutningi okkar í framtíðinni eins og hingað til, enda hefur ríkisstj. stutt að endurnýjun, aukningu og stækkun veiðiskipanna og fjölgun og stækkun vinnslustöðvanna í landi meira og betur en nokkurn tíma hefur verið gert áður. Hitt er svo annað mál, að ef samdráttur verður í sjávarútvegi af ástæðum, sem okkur eru óviðráðanlegar, verður að gera ráðstafanir til þess, að eitthvað það komi í staðinn, sem gæti bætt það upp. Í sambandi við lausn kjaradeilunnar fyrir um það bil mánuði síðan, gaf ríkisstj. út yfirlýsingu um fyrirætlanir í þessa átt, sem fyrst og fremst höfðu það markmið að koma í veg fyrir atvinnuleysi, enda hefur það ávallt verið markmið ríkisstj., að full atvinna gæti verið fyrir hendi fyrir alla landsmenn, og hefur hún vissulega verið fyrir hendi fram að þessu.

Þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hyggst gera, eru fyrst og fremst á sviði sjávarútvegsins, en einnig að verulegu leyti á sviði iðnaðarins. Er enginn vafi á því, að einmitt á sviði iðnaðarins eru miklir möguleikar á að gera atvinnulíf okkar fjölbreyttara vegna hinna miklu möguleika til orkuvinnslu, sem hér eru fyrir hendi. Sú byrjun, sem þegar hefur verið hafin, lofar góðu. Kísilvinnslan við Mývatn og alúminíumbræðslan við Straumsvík eru komnar vel á veg og hafa þegar við byggingarframkvæmdirnar veitt 900–1000 manns atvinnu, þegar Búrfellsvirkjun er talin með, en hún hefði ekki komið til framkvæmda strax, ef ekki hefði komið til orkusala til alúminíumverksmiðjunnar. Stjórnarandstaðan barðist harkalega á móti alúminíumverksmiðjunni með þeim rökum einum, að ekki mætti veita útlendingum leyfi til að byggja hana og reka. Lá þó ljóst fyrir, að ef þeir byggðu ekki verksmiðjuna, mundi hún ekki hafa verið byggð, þar sem útilokað var, að Íslendingar gætu með nokkrum hætti byggt verksmiðjuna samtímis með Búrfellsvirkjun, og margar fleiri ástæður komu þar líka til. Þó að ekki þurfi jafnmarga menn til reksturs eins og til byggingarframkvæmda, er þó víst, að þessi starfsemi muni verða snar þáttur í okkar atvinnulífi, og hefur þegar sýnt í raun, hversu miklu þetta munar. Margir möguleikar aðrir eru nú þegar til athugunar og geta orðið að veruleika fyrr en varir. Ég tel engan vafa á, að íslenzkt atvinnulíf muni í náinni framtíð mótast af framkvæmdum í stóriðnaði, hvort sem stjórnarandstöðunni líkar það betur eða verr. Um þátttöku erlendra aðila í þessari starfsemi vil ég aðeins segja það, að Alþfl. hefur mótað sér þá stefnu að taka hvert tilfelli fyrir sig til athugunar, útiloka ekkert fyrirfram, en gera heldur enga samþykkt fyrirfram um erlenda þátttöku í þessari starfsemi. Verði sá háttur frekar hafður á að rannsaka hvert tilfelli fyrir sig og gera sér grein fyrir, hvort heppilegra mundi, að Íslendingar sjálfir gætu gert þetta eða ekki eða að útlendingum verði veitt leyfi, ef það væri talið heppilegra. Báðir stjórnarandstöðuflokkarnir halda því fram, að stjórnarstefnan sé röng, henni sé um að kenna, að atvinnureksturinn í landinu berjist í bökkum, en honum mundi örugglega vegna betur, ef farin væri „hin leiðin“ svokallaða, eins og það hefur verið orðað með nokkuð óákveðnu orðalagi.

En hver er þá stefna ríkisstj.? Ég hef áður minnzt á gjaldeyrisvarasjóðinn og sparifjárbindinguna í sambandi við hann. Ég leyfi mér að fullyrða, að einmitt með gjaldeyrisvarasjóðnum hafi tekizt að verjast áföllum nú í sambandi við minnkandi gjaldeyristekjur. Hefði sá sjóður ekki verið til nú, hefðum við ekki komizt hjá innflutningshömlum og gjaldeyrisskömmtun. „Hin leiðin“ í því máli hefði dugað okkur illa til þess að mæta erfiðleikunum. Það hefur líka verið stefna ríkisstj., að verzlunin yrði sem mest gefin frjáls, og það hefur tekizt nálega alveg. Að nokkru leyti hefur þetta verið hægt vegna gjaldeyrisvarasjóðsins og það, sem enn skortir á í þessum efnum, er vegna jafnkeypissamninga við nokkur viðskiptalönd okkar. Þessi lönd eru þó nú hvert á fætur öðru að hverfa frá jafnkeypisfyrirkomulaginu og taka nú upp sams konar viðskiptahætti og Vestur-Evrópuríkin hafa haft, flest a. m. k. Innflutningshöft og skömmtun hafa verið tekin hér upp áður fyrr af illri nauðsyn vegna gjaldeyrisskorts, og langar víst fáa, sem við það fyrirkomulag hafa búið, að verði tekin upp að nýju. „Hin leiðin,“ í þessu falli innflutningshöft og skömmtun, er áreiðanlega ekki eftirsótt af neinum.

Svipað má segja um fjárfestinguna. Ríkisstj. hefur gefið hana frjálsa, en áður gátu menn ekki hreyft sig í þeim efnum, nema með leyfi í bak og fyrir. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þetta frjálsræði og hefur talið, að það hafi leitt til misnotkunar og ýmsar framkvæmdir verið hafnar, sem hreinn óþarfi hafi verið að ráðast í. „Hin leiðin“ hafi verið betri og gagnlegri að hafa allt í gamla farinu. En vitaskuld er aldrei hægt að fyrirbyggja, að einhver mistök verði, þar sem fullt frelsi ríkir, en í samanburði við ástandið eins og það var, þegar enginn mátti gera neitt nema að fengnum tilbærilegum leyfum, hygg ég, að flestir hafi viljað hafa þetta svo frekar heldur en fara „hina leiðina“. Þess er líka skylt að geta, að ríkisstj. og alveg sérstaklega bankarnir hafa hér í hendi sér að gera áætlanir um ýmsa hluti og fylgja þeim eftir. Hafa áætlanir verið gerðar um ýmsar framkvæmdir á vegum ríkissjóðs, svo sem í vegamálum, hafnarmálum, flugmálum o. fl., og hafa framkvæmdaáætlanir í þessum efnum og fleirum rúmazt vel innan hins frjálsa kerfis. Sama má segja um íbúðarhúsabyggingar, sjúkrahúsabyggingar o.fl.

Eitt er það, sem stjórnarandstaðan hefur fundið ríkisstj. til foráttu, og það er það, að atvinnuvegunum hafi ekki verið útvegað nægilegt rekstrarfé og með of háum vöxtum það litla, sem útvegað hefur verið, og hefur þá sparifjárbindingunni oftast verið um kennt. Í skýrslu Seðlabankans, sem flutt var nú fyrir nokkrum dögum, kemur þó í ljós, að bundnar innistæður sparifjár námu í árslok 1967 1908 millj. kr., en útlán Seðlabanka til banka og fjárfestingarlánastofnana og annarra aðila námu á sama tíma 2457 millj. kr. eða 549 millj. meira en hið bundna fé er samtals. Sparifjárbindingin í Seðlabanka er einnig nauðsynleg forsenda fyrir útlánum bankans til viðskiptamanna og fjárfestingarlánasjóða, eins og hún er það einnig fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn. Það hefur nokkuð örlað á þeirri skoðun hjá stjórnarandstöðunni og alveg sérstaklega hjá Framsfl., og kom meira að segja fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að útlánamöguleikar Seðlabankans væru á engan hátt bundnir því raunverulega fé, sem bankinn hefur til umráða. Ég vildi segja um það atriði, að af öllu hættulegu, sem felst í „hinni leiðinni“, að svo miklu leyti, sem maður getur gert sér grein fyrir, mundi þetta vera eitthvað það hættulegasta að velta út falskri kaupgetu til almennings, sem engin raunveruleg verðmæti standa á bak við. Slíkt getur ekki leitt til annars en algers hruns. Gengisbreytingar íslenzkrar krónu hafa af óviðráðanlegum orsökum verið hér allt of tíðar, þó að þetta kæmi ekki til líka.

Þá hefur stjórnarandstaðan gagnrýnt vaxtafótinn; hann væri mikils til of hár fyrir atvinnuvegina. En því er til að svara, að þar eð gengi krónunnar hefur á mörgum undanförnum árum verið ótryggt, og gildir þá einu, hvaða stjórn hefur verið við völd, þá hefur spariféð verið í hættu og vextir á innlánsfé þurft að vera háir til þess að mæta þeirri áhættu, sem spariféð hefur verið í, en sparifjársöfnunin er grundvöllurinn fyrir heilbrigða efnahagsþróun.

Eins og ég hef áður minnzt á, er það eitt af meginstefnuskráratriðum ríkisstj. að viðhalda fullri atvinnu í landinu og koma í veg fyrir atvinnuleysi, sem er eitt mesta böl hverrar þjóðar, þar sem það verður ekki umflúið. En hér er við ramman reip að draga, og það er verðbólgan. Það er sjálfsagt að játa það hér eins og er, að ríkisstj. hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir verðbólguvöxtinn. Það hefur raunar engri ríkisstj. tekizt til fulls. En inn á milli hækkananna hafa komið tímabil, sem hægt hefur verið að halda þessum verðbólguvexti nokkurn veginn í skefjum. Svo var t.d. í upphafi núverandi stjórnarsamstarfs 1959–1961, þegar vísitala framfærslukostnaðar stóð nokkurn veginn í stað. Og það sama gerðist raunar frá miðju ári 1966 í rúmt eitt ár. En í þessi 9 ár, sem liðin eru, frá því að ný vísitala var tekin upp 1959, hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað samtals um 109 stig eða að meðaltali um 12 stig á ári. Það er vitaskuld ekki óeðlilegt, að launafólk þurfi að fá bætur á laun sín með hækkandi verðlagi, en vitaskuld fer sú hækkun fyrr eða síðar út í verðlagið og atvinnureksturinn fær á sig hækkandi tilkostnað. Þessum aukna tilkostnaði hefur verið mætt með tvennu móti. Í fyrsta lagi hefur verðlagsþróunin á okkar útflutningsvörum verið okkur hagstæð og í öðru lagi hefur ríkissjóður hlaupið undir bagga, bæði sjávarútvegi og landbúnaði veittir verulegir styrkir, svo að hundruðum millj. kr. skiptir á ári. En nú, þegar verðlagsþróunin hefur snúizt við og orðið okkur óhagstæð, skapast ný viðhorf. Hækkun tilkostnaðar verður ekki lengur mætt með hækkandi verðlagi útflutningsvörunnar. Og vissulega eru takmörk fyrir því, hversu mikið ríkissjóður getur lagt fram til styrktar, enda er þess fjár, sem styrkveitingarnar nema, frá almenningi aflað í einu formi eða öðru. Er þá raunar ekki nema tvennt til, það fyrra að draga úr tilkostnaði og það síðara að hætta starfseminni. Ef verðlagið á útflutningsframleiðslunni breytist ekki til hins betra eins og vonazt er eftir, er engin þriðja leið til. Það verður nú verkefni, og ég mundi segja eitt aðalverkefni ríkisstj. að sjá til þess, að ekki þurfi til þess að koma, að rekstur atvinnufyrirtækja stöðvist. En eitt er alveg víst, að ef ekki bregður til hins betra með verðlagið á útflutningsvörunni, fer ekki hjá því, að öll þjóðin í einhverju formi verður að taka á sig byrðarnar. Það, sem undir engum kringumstæðum má ske, er, að reksturinn stöðvist og atvinnuleysið haldi innreið sína, hvernig sem að því verður farið.

Þetta þykir nú kannske nokkuð mikil svartsýni, en það er skylt að vera við öllu búinn. Erfiðleikarnir í sambandi við efnahagsmál eru ekki sérstakt fyrirbæri fyrir okkur Íslendinga. Sama er uppi á teningnum hjá nágrannaþjóðum okkar, og viðbrögð þeirra við þessum vanda eru mjög hörð og mjög raunsæ. Og þeir virðast fastráðnir í því að takast á við erfiðleikana. Sama verðum við að sjálfsögðu einnig að gera og það því fremur, sem við erum fátækari og fámennari og eigum færri úrkosta völ. Samstarf núv. stjórnarflokka um þessi atriði og önnur hefur nú staðið í 9–10 ár og er það mjög óvenjulegt hér á landi, að stjórnarsamstarf standi svo lengi. Ég hef átt samstarf við alla flokka, einnig þá, sem nú eru í stjórnarandstöðu. Og ég verð að segja það, að mér hefur ekki líkað við aðra samstarfsflokka betur en núv. samstarfsflokk okkar. Vitaskuld ber okkur á milli í grundvallaratriðum, en þau ágreiningsmál látum við liggja og sannfærum þar væntanlega hvorugur annan. En um lausn vandamála dagsins, sem ráða þarf til lykta af raunsæi, höfum við í flestum tilfellum getað komið okkur saman, þó að hitt sé raunar líka til, að samkomulag sé ekki einnig um þau mál, en þau eru ekki mjög mörg. Ég vænti því þess fastlega, að samkomulag takist á milli flokka okkar, stjórnarflokkanna, um lausn þeirra mála, sem nú kalla mest að, ekki með áróður fyrir augum eða sýndarmennsku, heldur um að takast raunverulega á við vandamálin, sem verður að gera, ef góð lausn á að fást.