17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

Almennar stjórnmálaumræður

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Allt frá því að land okkar byggðist og í aldaraðir, var landbúnaður höfuðatvinnuvegur ísl. þjóðarinnar. Undir sól og regni, eins og Stephan G. orðaði það í alkunnri vísu, átti þjóðin afkomu sína, og samskipti þjóðarinnar við mold og gróanda var kjölfestan í lífi hennar, bæði í efnalegu og menningarlegu tilliti. Síðustu ár og áratugi hefur orðið mikil og gagngerð breyting á ísl. þjóðlífi. Þjóðfélagið er ekki lengur bændaþjóðfélag sem það áður var. Þeim fer stöðugt fækkandi, sem að landbúnaði vinna, og iðnþróaðir atvinnuvegir og borgar- og bæjarlíf setur æ meiri svip á þjóðlíf okkar. En íslenzkur landbúnaður heldur samt gildi sínu. Án hans yrði þjóðlíf okkar allt annað en það er, og ef við afrækjum þennan atvinnuveg, sem tengir þjóðina öðrum atvinnuvegum fremur við land sitt og sögu, þá mundi það horfa til ófarnaðar. Á undanförnum árum hefur átt sér stað alhliða framþróun og uppbygging í atvinnulífi okkar. Það er okkur, sem trúum á framtíð landbúnaðarins og nytsemi hans fyrir þjóðarheildina, mikið fagnaðarefni, að í þessum efnum hefur landbúnaður síður en svo dregizt aftur úr, og framleiðir nú meira en áður þrátt fyrir fækkandi hendur, sem að honum vinna. Að þessu hefur stutt stórhugur og framkvæmdavilji bændastéttarinnar og mikilsverður stuðningur hins opinbera við þennan atvinnuveg.

Framsóknarmenn telja sig öðrum fremur vini og forsvarsmenn bændastéttarinnar. Ekki skal ég draga það í efa, að þeir vilji þessum atvinnuvegi vel, en þegar þeir halda því fram, að við sjálfstæðismenn vanmetum þennan atvinnuveg og viljum ekki gera hlut hans góðan og styðja að uppbyggingu hans, þá eru það öfugmæli, sem enginn réttsýnn maður leggur trúnað á. Í þeim efnum talar reynslan sínu máli, eða bendir það til vanmats og áhugaleysis á þessum atvinnuvegi, að fjölmargt þeirrar löggjafar, sem landbúnaði er mikilvægust, hefur verið sett, þegar Sjálfstfl. hefur haft með höndum yfirstjórn þessara mála. Sumt af þessari löggjöf hefur valdið straumhvörfum og tímamótum í ísl. búnaðarsögu t. d. lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, sem sett voru 1945, í tíð Péturs Magnússonar þáv. landbrh. Sjálfstfl. Svipað má segja um löggjöfina um stofnlánad. landbúnaðarins, sem sett var í tíð núverandi ríkisstj. og ég tel eina þá merkustu löggjöf, sem sett hefur verið landbúnaðinum til hagsbóta. Lán úr stofnlánad. hafa farið vaxandi ár frá ári, og í árslok 1967 hafði nærri allt að einum milljarði króna verið lánað úr stofnlánadeildinni til bygginga, jarðræktar og vélakaupa í sveitum. Löggjöf þessi mætti harðsnúinni andstöðu Framsfl., einkum það ákvæði hennar, er varðar framlag bænda til þessarar mikilsverðu stofnunar. Hins vegar höfðu þeir ekkert við það að athuga, að neytendur eru látnir borga lítið eitt lægri upphæð en bændur til stofnlánad. Fróðlegt væri að fá að heyra það frá framsóknarmönnum, hvort þeir mundu afnema þessi framlög, ef þeir fengju til þess aðstöðu. Telja má víst, að það mundu þeir ekki gera. Andróðurinn gegn stofnlánadeildarframlaginu er aðeins einn þáttur, eitt dæmi, í þeirri stjórnarandstöðu, sem þessi flokkur hefur rekið á undanförnum árum, og verður honum seint talin til sóma.

Ég sagði, að hið opinbera hafi veitt landbúnaðinum mikilsverðan stuðning. Ef það væri rétt, að við sjálfstæðismenn afræktum þennan atvinnuveg, og ef það væri rétt, sem einn öfgamaður úr þingliði Framsfl. lét sér um munn fara í þingræðu hér í vetur, að núv. hæstv. landbrh. hefði aldrei haft skilning á málefnum landbúnaðarins, þá væri reynslan að sjálfsögðu sú, að heildarfjárframlög til helztu landbúnaðarmála hefðu ekki farið svo vaxandi ár frá ári sem raun ber vitni um. Árið 1958 voru réttar úr hinni mildu hendi Framsfl. 69 millj. kr. til þessara mála, en á s. l. ári var sambærileg upphæð 225 millj. kr. Hafði hún hækkað um meira en 300%, og er sú hækkun miklu meiri en hækkun framkvæmdakostnaðar á sama tíma, og í fjárl. yfirstandandi árs eru veittar á liðnum, sem heitir framlög til landbúnaðar, 341 millj. kr., og er það að sjálfsögðu engan veginn öll sú fjárveiting, sem á fjárl. er veitt til málaflokka, sem landbúnaðinn varða. Ég hef ekki tíma til þess að rekja þá málaflokka alla. Ég get aðeins bent á eitt eða tvö atriði.

Á fjárl. þessa árs er ætluð 15.1 millj. kr. fjárveiting til Búnaðarfélags Íslands. Síðasta árið, sem framsóknarmenn höfðu aðstöðu til að veita Búnaðarfélaginu starfsfé, var rausnin ekki meiri en það, að Búnaðarfélagið fékk, þessi aldna og virðulega stofnun, 2.6 millj. kr. Búnaðarsamtökin eru bændum mikilsverð samtök. Á það má benda, að búnaðarsamböndum hefur verið gert kleift að auka starfsemi sína með stórauknum fjárframlögum úr ríkissjóði. Á fjárl. þessa árs er ætlað að verja 4.2 millj. kr. í þessu skyni. Árið 1958 var þessi upphæð rúm hálf millj. kr. Stórfé hefur verið veitt til bygginga og endurbóta bændaskólanna, bæði á Hvanneyri og Hólum. Ný löggjöf hefur verið sett um bændaskólana, þar sem gert er ráð fyrir að auka mjög verklegt nám við skólana, og er það í samræmi við þá öld véla og tækni, sem við lifum nú á. Gleðilegt er til þess að vita, að aðsókn að bændaskólunum hefur verulega aukizt, og er þess að vænta, að þeir bændur verði stöðugt fleiri, sem notið hafa búfræðimenntunar. Í þessum atvinnuvegi sem öðrum er menntun máttur, sem ekki má án vera.

Undirstaðan undir búskap okkar Íslendinga er að sjálfsögðu ræktunin. Í þeim efnum hafa íslenzkir bændur ekki heldur legið á liði sínu. Aldrei hefur aukning ræktunarinnar orðið meiri en á síðustu árum. Þar liggja fyrir tölur, sem tala sínu máli. Ég skal ekki þreyta ykkur með því að rekja þær, þess þarf ekki. Þeir, sem ferðast um landið, sjá með eigin augum, hvernig ræktunarlöndin þenjast út. Öflun nægra og góðra heyja er að mínum dómi eitt þýðingarmesta málefni íslenzks landbúnaðar. Sá bóndi, sem á haustnóttum á nægilegan heyforða fyrir búfénað sinn, getur kvíðalaust horft fram á veturinn, jafnvel þótt harður verði. Hann stendur föstum fótum, og hann þolir marga raun.

Fjölmargt fleira mætti nefna, sem afsannar með öllu þær fullyrðingar, að við sjálfstæðismenn séum afskiptalausir um hag og velgengni landbúnaðarins. Að okkar frumkvæði var útflutningsuppbótunum komið á, sem lengst af hafa tryggt það, að bændur hafa fengið grundvallarverð fyrir framleiðslu sína. Í okkar stjórnartíð hefur með lögum verið stofnaður framleiðnisjóður landbúnaðarins með 50 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði. Hlutverk þessa sjóðs er að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði.

Brýnt verkefni tel ég það bændum og samtökum þeirra að taka til rækilegrar athugunar, með hvaða hagfelldustum hætti búskapur verður rekinn í landi okkar, þannig að hann þjóni sem bezt hinu mikilsverða hlutverki sínu í þjóðlífinu og skapi þeim, sem að honum vinna, góð og eftirsóknaverð lífskjör.

Því miður á íslenzkur landbúnaður í dag við margs konar erfiðleika að etja. Stórfellt verðfall hefur orðið á framleiðslu hans, svo sem ull og gærum, tíðarfar hefur verið honum óhagstætt síðustu misserin og grasbrestur og kalskemmdir hafa orðið í stórum landshlutum. Sem betur fer hefur tekizt að koma þeim til aðstoðar að nokkru, sem verst hafa orðið úti af þessum sökum. Ný l. hafa verið sett á þessu þingi um Bjargráðasjóð og fjárráð hans hafa verið aukin. Og Bjargráðasjóði hefur verið gert auðið að leggja fram til harðindasvæðanna rúmar 18 millj. kr., 16 millj. og 130 þús. kr. í vaxtalausum 5 ára lánum, og nær tveimur millj. kr. í óafturkræfu framlagi. Þessi stuðningur var veittur með góðu samkomulagi milli ríkisstj. og forsvarsmanna bændastéttarinnar, og efast ég um, að það hefði nokkuð verið betur gert í þessum efnum, þó framsóknarmenn hefðu farið með þessi mál nú, og svo mun reynast í fleirum efnum.

En það verður ekki hjá því komizt, að það komi við bændur sem alla landsmenn aðra, þegar verðmæti aðalútflutningsframleiðslunnar lækkar á einu og sama árinu um þriðjung, eða nær tvo milljarða króna. Það munar um minni spón úr askinum. Byrðar, sem af slíkum áföllum stafa, verður þjóðin öll á sig að taka, og sem betur fer er þjóðin betur undir það búin nú en nokkru sinni áður að axla slíkar byrðar. Þar hjálpa til hinar stórfelldu framkvæmdir og tækjakaup og uppbygging, sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Stórfelldar kröfur á hendur ríkissjóði stoða því miður nú lítið. Þaðan er ekki annarra fjármura að vænta en þeirra, sem hann getur með einum eða öðrum hætti af þegnunum tekið.

Stjórnarandstæðingar hafa haldið því fram, að þeir erfiðleikar, sem þjóðin á nú við, stöfuðu af rangri stjórnarstefnu. Þetta er víðs fjarri því rétta. Erfiðleikar okkar stafa af okkur óviðráðanlegum orsökum. Stórfelldri verðlækkun á útflutningsafurðum okkar, óblíðri veðráttu til lands og sjávar og minnkandi afla. Stefna ríkisstj. hefur verið og er sú, að viðhalda svo sem verða má þeirri velmegun, sem þjóðin hefur búið við á undanförnum árum. Umfram allt verðum við að halda áfram ótrauðir, eftir því sem geta okkar leyfir, að framkvæma þá stefnu, sem mörkuð hefur verið, að nýta auðlindir lands okkar og skapa með því fjölbreyttara og öruggara atvinnulíf og það í öllum landshlutum. Ekki finnst mér ótrúlegt, að þeir, sem harðast börðust gegn kísilgúrverksmiðjunni og álverksmiðjunni, séu nú farnir að sjá, að þeir voru úrtölumenn mikilsverðra framkvæmda, sem eiga eftir að verða styrkar stoðir undir atvinnu og efnahagslífi þjóðar okkar.

En við skulum ekki mikla fyrir okkur erfiðleikana. Svartsýni gerir enga menn mikla, og við skulum fagna því, að við búum í landi mikilla verkefna og margra möguleika, þó það á stundum agi okkur strangt með sín ísköldu él. Okkur þarf að lærast að sníða okkur stakk eftir vexti hverju sinni og miða kröfur okkar við það, sem gæði lands okkar fá í té látið, og atvinnuvegir okkar fá undir risið. En framar öllu verðum við á erfiðleikatímum að sameina kraftana til lausnar þeim vandamálum, sem við er að etja. Það væri vel, ef sá skilningur færi vaxandi með þjóðinni. Það mundi gefa okkur glaðari vonir um betri framtíð og batnandi hag, þótt um sinn blási á móti og gefi á bátinn.