18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Árnason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Alþ. hefur nú á tveim kvöldum eytt samtals 8 stunda vinnudegi í það að ræða í áheyrn alþjóðar ágreiningsmál stjórnmálaflokkanna. Í þessum umr. hefur það verið rauði þráðurinn í málflutningi stjórnarandstöðunnar, að núverandi erfiðleikar atvinnuveganna, sem nú eru vissulega miklir, stafi fyrst og fremst af rangri stjórnarstefnu, en ekki nema að litlu leyti af öðrum ástæðum, svo sem verðfalli afurðanna eða aflatregðu. Því hefur jafnvel verið haldið fram, að við þurfum ekki að kvarta, því að verðlag afurðanna sé sízt lægra en áður, t. d. eins og það var árið 1963. Mikið mega þeir menn vera blindir á dómgreind almennings, sem geta talið sjálfum sér trú um, að þeir hafi gagn af slíkum málflutningi. Að hinu leytinu er því hins vegar haldið fram, að stjórnarflokkarnir hafi fyrir kosningarnar, sem fram fóru á s. l. sumri, blekkt þjóðina með því að halda því fram, að allt væri í góðu lagi, og að miklir gjaldeyrissjóðir og góð afkoma ríkissjóðs mundi tryggja áframhaldandi aukningu þjóðarteknanna. Hvort tveggja er, að þessar fullyrðingar stjórnarandstöðunnar eru víðs fjarri sannleikanum og einnig mæltar mót betri vitund. Sannleikurinn er sá, að verulegt verðfall afurðanna var þegar á miðju ári 1966 skollið á með þeim afleiðingum, að fyrirsjáanlegt var, að miklir erfiðleikar blöstu við atvinnuvegunum að óbreyttu ástandi. Því miður verðum við Íslendingar að sætta okkur við þá staðreynd, að það er ekki á okkar valdi að segja til um eða ákveða verð afurðanna á heimsmarkaðinum. Það fer eftir sínu lögmáli, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Hins er rétt að geta, og því hefur verið haldið minna á lofti en skyldi, að góð afkoma ríkissjóðs, sem þá var fyrir hendi, var þess megnug að halda verðbólgunni í skefjum og festa allt verðlag í landinu um meira en eitt ár, þannig að framleiðslukostnaður hélzt að mestu leyti óbreyttur. Án þeirra ráðstafana má telja fullvíst, að atvinnuvegirnir hefðu stöðvazt eða þá að miklu fyrr hefði þurft til þess að koma að verðfella gengið eða gera aðrar hliðstæðar ráðstafanir, sem þá hefðu leitt til þess, að um verulega kjaraskerðingu hefði verið að ræða. Að sjálfsögðu var hvort tveggja, að hinn mikli gjaldeyrisvarasjóður var fyrir hendi og verulegur tekjuafgangur ríkissjóðs fyrst og fremst að þakka undangengnum góðærum samfara hyggilegri fjármálastjórn. En því var á annan veg farið, þegar þeir góðu menn héldu um stjórnartaumana á árinu 1958, sem nú deila harðast á núv. ríkisstj. og hennar stefnu.

Hvers er að vænta, ef þeir fengju á ný stjórnartaumana? Árið 1958 var eitt mesta aflaár, sem um getur í sögu togaraútgerðar á Íslandi. Togararnir stunduðu þá veiðar á fjarlægum miðum, og voru aflabrögð svo góð, að skipin voru fyllt á tveim til þrem sólarhringum, og var aflinn, sem var að mestu leyti karfi, allur lagður á land til vinnslu í frystihúsunum. Af þessu leiddi, að allt atvinnulíf í landinu var með miklum blóma. Maður skyldi halda, að í slíku árferði væri auðvelt að halda í horfinu og gera stóra hluti. En það ólíklega skeði. Þeir, sem nú þykjast hafa ráð undir hverju rifi, gáfust upp við að stjórna landinu og hlupu frá öllum vandanum. Í kjölfar þeirra ráðstafana, sem núv. ríkisstj. beitti sér fyrir í upphafi stjórnartímabilsins, kom aukið athafna- og viðskiptafrelsi svo að segja á öllum sviðum. Við þessa stefnubreytingu kom fljótt í ljós árangur þess, sem vænzt var. Alhliða framkvæmdir og uppbygging átti sér stað á öllu landinu, og í hönd fór eitt mesta framfaratímabil, sem um getur í sögu þjóðarinnar. Öllum er nú löngu ljóst, að ef ekki hefði verið skipt um ríkisstj. og stjórnarstefnu, og Framsfl. hefði áfram haft stjórnarforystuna, þá hefði ekki til þess komið, að slakað hefði verið á höftunum eða gefið aukið athafnafrelsi í atvinnumálunum. Og enda þótt stjórnarandstaðan hafi lengst af síðan lítið látið á sér kræla í þessum efnum. hefur á undanförnum mánuðum komið glögglega ljós, hvert hugur þeirra stefnir, og hvers sé að vænta, ef svo færi, að þeir fengju valdaaðstöðu á nýjan leik. Framsfl. fer nú ekki lengur dult með, hver hún er þessi svokallaða hin leið. Nú skal taka upp áætlunarbúskap. Það á að raða upp framkvæmdum, og það opinbera á að hafa allsherjar umsjón og fyrirhyggju fyrir allan almenning. Nú skal á ný tekið upp það kerfi, sem frá var horfið, og skal það opinbera nú ákveða, hverjir megi framkvæma og hverjir ekki, hverjir megi ráðstafa gjaldeyri til vörukaupa og hverjir ekki, og hverjir skulu fá lánsfé og hverjir ekki. Það er þetta skömmtunarvald, sem stjórnarandstaðan vill, að komið verði á að nýju, og þá að sjálfsögðu undir þeirra stjórn.

Það er ekki að ástæðulausu, að sjávarútvegurinn hefur komið mikið við sögu í þessum umr. Stjórnarandstaðan er nú full af velvilja í garð útgerðarinnar og telur, að núverandi stjórnarstefna leiði til þess eins að leggja sjávarútveginn í rúst. Ég hef áður vikið að því, hvaða áhrif frjálsræðið hafði á uppbyggingu fiskiskipaflotans. Aldrei fyrr hefur átt sér stað jafnör vöxtur í uppbyggingu hans sem á undanförnum áratug. Það var eitthvað annað á framsóknartímabilinu, þegar ganga varð eftir ráðamönnum opinberra nefnda með grasið í skónum til þess að fá leyfi til þess að byggja fiskibát, en sem oftast var synjað um. Ég minnist þess, er einn landskunnur útvegsmaður, sem ekki var í náðinni, fékk þá heldur ekki slíkt leyfi. Fyrir það, að hann gat af sjálfsdáðum látið byggja lítinn fiskibát erlendis, var hann sektaður fyrir framtakið og þannig veitt verðlaun af hendi ríkisvaldsins. Ég hygg, að það sé ekki þetta skipulag eða slík röðun framkvæmda, sem sjávarútvegurinn æskir í dag. Hitt ber að viðurkenna, að eins og málum nú er komið fyrir íslenzkum sjávarútvegi, verður ekki annað sagt en að erfiðlega horfi. Útflutningsverðmæti framleiðslunnar á s. l. ári minnkaði um 1/3 og það, sem af er þessu ári, hafa nýir erfiðleikar bætzt við. Hafísinn fyrir Norður- og Austurlandi hefur valdið verulegum truflunum á vertíðinni, og tíðarfar um land allt hefur lengst af verið einkar óhagstætt. Við þetta bætist, að lítið sem ekkert hefur rætzt úr í verðlagsmálum, svo að ekki fer hjá því, að sjávarútvegurinn á við mikla örðugleika að etja, og horfast verður í augu við þá staðreynd að leita verður allra ráða til þess að tryggja reksturinn og sjá þessum höfuðatvinnuvegi farborða. Í umr. í gærkvöld kom það fram hjá einum ræðumanni Framsfl., að hann taldi, að útgerðin hefði sennilega að mestu leyti bjargazt án frekari styrkja á árinu 1968, ef hún hefði fengið að njóta gengishagnaðarins af fyrra árs framleiðslu, sem varð við gengislækkunina á s. l. hausti. Ég verð að segja, að ég varð mjög undrandi við að heyra þessa yfirlýsingu hv. þm. Í fyrsta lagi er það svo, að samkv. l. um ráðstöfun á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum o.fl., sem samþ. voru á s. l. hausti, eru þar skýr ákvæði um, að öllum gengishagnaðinum skal verja til sjávarútvegsins. En enda þótt svo hefði ekki verið og óbættir þeir þættir sjávarútvegsins, sem gengishagnaðinum er ætlað að standa undir, þá fer vissulega víðs fjarri, að sú upphæð, sem hér um ræðir, hefði nægt til þess að skapa viðunandi rekstrargrundvöll fyrir sjávarútveginn.

Einn er sá þáttur í rekstri fiskiskipaflotans, sem því miður hefur allt of lengi dregizt að skipa á viðunandi hátt. Á ég þar við vátryggingu fiskiskipanna. Þó að um það megi deila og viðurkenna, að vissir ágallar séu á því vátryggingarkerfi, sem nú er stuðzt við, ber einnig að viðurkenna, að þessu vátryggingarkerfi var komið á eftir óskum útvegsmanna. Hitt er svo augljóst mál, að því verður ekki öllu lengur á frest skotið að taka allt vátryggingarkerfið til rækilegrar endurskoðunar og gera á framkvæmd þess þær breytingar, sem að gagni mega koma, að öðrum kosti hlýtur þetta mál að lenda í hreinum ógöngum, sem geta leitt til ófyrirsjáanlegs tjóns fyrir alla aðila. Ég álít, að þær ráðstafanir, sem Alþ. hefur nú til afgreiðslu til þess að koma í veg fyrir, að hreint neyðarástand skapist varðandi vátryggingarmálin, séu ekki til frambúðar, og eins og fram kom í nál. meiri hl. sjútvn. hv. Ed., er því treyst, að þegar á næsta hausti, þegar þing kemur saman, hafi endurskoðun farið fram og raunhæfar till. liggi þá fyrir um framtíðarskipun í vátryggingarmálum fiskiskipaflotans.

Eftir samfelldan góðæriskafla er íslenzka þjóðin nú í nokkrum öldudal. Engin ástæða er þó til að örvænta. Stórhuga framkvæmdir þjóðarinnar vísa veginn og bera þess glöggt vitni, að hún muni enn sækja fram. Undir framsýnni forystu mun þjóðin í enn ríkari mæli hagnýta þá orku og auðlindir, sem í landinu búa, til hagsbóta og öryggis fyrir komandi kynslóðir.