18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Gils Guðmundssonar um útflutningsgjald af síldarafurðum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að allt þetta gjald rennur til sjávarútvegsins sjálfs, og er hér aðeins um millifærslu að ræða. Ég sé jafnframt ástæðu til að þakka hv. þm. tilvitnun í kosningastefnuskrá Sjálfstfl., sem glöggt sannar jákvæð viðhorf Sjálfstfl. til lífskjarabóta fyrir almenning og raunsæjar ábendingar flokksins um forsendu þeirrar þróunar.

Landbúnaðurinn á nú við margvíslega erfiðleika að stríða, eins og aðrir atvinnuvegir, en ég held, að hv. þm., Stefán Valgeirsson, hafi reist sér hurðarás um öxl, að ætla að reyna að telja bændum trú um, að núverandi hv. landbrh. standi verr í ístaðinu fyrir þá en Framsóknarfl. Það er hins vegar hér, sem á öðrum sviðum, að framsóknarmenn eru gjöfulir, þegar þeir eru ekki í ríkisstjórn. Hv. þm. Gísla Guðmundssyni vil ég segja það, að það er ekki einkenni festu í stjórnarfari að breyta aldrei um starfsaðferðir, heldur að eiga víðsýni og kjark til þess að velja þau úrræði, sem líklegust eru á hverjum tíma til að tryggja þjóðarhag. Þótt víðtæk aðild að ríkisstjórn geti verið góð, er það ekki lausnarorðið að efna til samstjórnar flokka, sem greinir enn jafnstórlega á um starfsaðferðir og núverandi stjórnarflokka og stjórnarandstöðu.

Hv. þm. Einar Ágústsson sagði í kvöld, að ráðh. hefðu ekki gert annað í sumar en sóla sig, en sagði þó um leið, að bæði fjárlagafrv. og frv. um efnahagsráðstafanir hefðu legið á borðum þm. í þingbyrjun. Ekki virðist því öllum dögum hafa verið eytt í aðgerðarleysi.

Allt frá þingbyrjun hafa stjórnarandstæðingar kvartað yfir frv.-regni ríkisstj. og óskum hennar stundum um hraða afgreiðslu vegna aðsteðjandi vandamála, og nú síðast er það harðlega átalið að ljúka þingi og reynt að gefa í skyn, að orsökin sé utanfarir ráðh. Auðvitað gætu ráðh. farið á fundi erlendis, án þess að slíta þingi, og ræður það því engu um þingslit. Það hefur ætíð verið venja að steina að þingslitum á ákveðnum tíma. Reyna átti að ljúka þingstörfum fyrir páska, en það tókst ekki, og þá var ákveðið að miða við fyrsta laugardag eftir páska. Án ákveðinnar tímasetningar gæti þing staðið endalaust og það er ætíð svo í þinglok, að miklar annir eru á þingi, og þótt stjfrv. á þessu þingi hafi verið óvenjumörg, er tími ekki naumari til athugunar en oft áður, m. a. lagði vinstri stjórnin efnahagsfrv. fyrir þing 19. des. og krafðist afgreiðslu á því fyrir jól.

Hv. þm., Einar Ágústsson, kvartaði yfir því, að bankarnir fengju ekki að skulda Seðlabankanum, eins og 1959. Þá var ástandið slíkt einmitt af þessum sökum, að í stað gjaldeyrisvarasjóðs nú skulduðu bankarnir þá svo mikið erlendis, að frekari lán voru ekki fáanleg. Loks flutti þessi hv. þm. nokkrar mjög villandi tölur um kostnaðarauka við ýmis embætti, og reyndi að sanna óhæfilega eyðslu í fjmrn. með því að taka ekkert tillit til stóraukinna starfa þess eða eigna því stofnanir, sem hafa allt öðrum verkefnum að sinna. Ýmis nýskipan í fjmrn., m. a. stofnun hagsýslu- og fjárlagastofnunarinnar, sparar ríkinu áreiðanlega mikla fjármuni, en í rn. hefur aðeins fjölgað um tvo starfsmenn. Ef þetta og tilkoma Efnahagsstofnunarinnar er talið dæmi um sukk, tel ég ásakanir Framsfl. lofsyrði.

Þjóðin á nú við erfiðleika að stríða, sem höfuðnauðsyn er, að hún geri sér rétta grein fyrir og mætt sé á réttan hátt af hálfu stjórnarvalda og alls almennings. Það er hins vegar því miður ljóst af þessum umr., að hv. stjórnarandstæðingar ætla ekki að leggja fram sitt lið til að skýra vandann rétt eða benda á úrræði til lausnar í stað þeirra viðbragða stjórnvalda, sem þeir fordæma, heldur halda sér við sama heygarðshornið, að reyna að slá pólitískar keilur með því að ala á óánægju með óvinsælar ráðstafanir, sem óumflýjanlegt er að gera á ýmsum sviðum, einmitt til að forða þjóðinni frá skipbroti. Þegar útflutningstekjur þjóðar, sem er svo mjög háð erlendum viðskiptum, lækka um nær þriðjung á einu ári, getur það naumast valdið undrun, þótt svo stórkostlegrar tekjurýrnunar sjái stað í afkomu margvíslegs atvinnurekstrar í landinu og í tekjum alls almennings. Útflutningsframleiðslan fær meginskellinn og jafnframt hlýtur að þrengja að ýmiss konar framleiðslu- og þjónustustarfsemi, sem blómgazt hefur í skjóli mikillar þenslu og peningaveltu. Þessi samdráttur verður á mörgum sviðum ekki umflúinn, og honum verður ekki mætt með því að dæla út fjármagni, sem ekki er til staðar, þegar sparifjársöfnun að sjálfsögðu einnig minnkar. Annaðhvort verður því að draga saman seglin um skeið eða breyta um starfsemi. Þannig skapar það t. d. járniðnaðinum mikinn vanda, þegar hin miklu verkefni við byggingu síldarverksmiðja hverfa. Vandinn verður þá sá að finna í staðinn önnur þjóðnýt verkefni fyrir þetta vinnuafl. Einmitt á þessu sviði er verið að koma upp nýrri atvinnugrein, stálskipasmíði, með víðtækri aðstoð stjórnarvaldanna. Fyrst og fremst verða fyrirtækin í viðkomandi greinum að leita allra tiltækra úrræða, og eftir atvikum getur þurft opinbera aðstoð. Einmitt á slíkum tímum veltur meira en ella á hugkvæmni atvinnurekandans bæði að fara inn á nýjar brautir og til að draga úr rekstrarkostnaði og í ýmsum tilfellum þarf að stefna að samruna eða náinni samvinnu fyrirtækja. Jafnhliða þarf að hafa vakandi auga á öllum úrræðum, til að bæta framleiðslu og koma upp nýjum framleiðslugreinum. Sambærileg vandamál er nú við að fást í flestum löndum.

Því fer auðvitað víðs fjarri, að stjórnarstefna síðustu ára hafi gert atvinnuvegunum erfiðara en ella að mæta núverandi erfiðleikum. Það er að minnsta kosti ljóst, að hefði ráðleggingum stjórnarandstæðinga verið fylgt, ríkti nú algert upplausnarástand. Stjórnarandstæðingar tala mikið um skipulag, og það eigi að vera nú allra meina bót, og óhæfilegt skipulagsleysi síðustu árin hafi valdið miklu um núverandi erfiðleika fyrirtækja að mæta þrengingunum. Hvað felst í þessum skipulagsboðskap er vandséð að vísu, þar eð þeir neita því harðlega, að þeir meini höft, því að þeir eru hræddir um, að fólk muni enn eftir þeim hörmungartímum, og formaður Framsfl. lét sig jafnvel hafa það í gærkveldi að halda því fram, að Framsókn hefði á sínum tíma verið höft ákaflega ógeðfelld. Helzt verða þessir skipulagsannmarkar skildir svo, að fé hafi verið illa notað þessi velmegunarár. Auðvitað fer mörg krónan forgörðum í peningaflóði, en á þá staðreynd er þó vert að benda, að síðustu árin og meira að segja á árinu 1967 hefur fjármunamyndun hér á landi verið hlutfallslega meiri en í flestum öðrum löndum, og sú fjármunamyndun hefur fyrst og fremst verið í atvinnuvegunum, opinberum framkvæmdum og íbúðarhúsnæði. Vafalaust geta menn sagt í dag, að eitt og annað af þessum geysilegu fjárfestingum hefði átt að vera með öðrum hætti eða alls ekki, en lætur nokkur í alvöru sér detta í hug, að einhverjar opinberar n. hefðu ráðstafað þessum fjármunum betur? Einn talsmaður Framsfl. sagði að vísu í gærkveldi, að of mörg síldveiðiskip hefðu verið keypt, og eðlilega hugsa menn ef til vill sem svo. Hefði ekki verið heppilegra að byggja færri síldarverksmiðjur? En hver hugsar svo, ef síldin kemur aftur af fullum krafti, sem við vonum að verði fyrr en seinna? Og hvað hefði verið sagt um ríkisstj., ef hún hefði ætlað að stöðva þessar framkvæmdir á síldarárunum? Menn tala líka um, að allt of mörg frystihús séu í landinu og aðeins lítill hluti afkastagetu þeirra nýttur. Rétt getur verið að loka nokkrum fiskiðjuverum um sinn til að nýta önnur á hagkvæman hátt. En er það ekki dýrmætt fyrir þjóðarbúið að eiga öll þessi framleiðslufyrirtæki, bæði frystihús og síldarverksmiðjur, til að geta tekið við auknum afla? Og það er að minnsta kosti mikils virði, einmitt á erfiðleikatímum, að geta dregið úr eða stöðvað að verulegu leyti fjárfestingu í þessum framleiðslustöðvum. Það getur verið, að stjórnarandstæðingar telji það ámælisvert að hafa ekki gefið atvinnurekstrinum færi á að safna verulegum varasjóðum á þessum velgengnitímum, og vissulega hefði það verið æskilegt. En hafa þeir ekki dyggilega undir allar kröfur tekið á hendur atvinnuvegunum á þessum árum? Þeir hafa að vísu sífellt hamrað á að dæla út meiru og meiru lánsfé, en lánsfé er ekki allra meina bót, og það hefði verið stórhættulegt fyrir efnahagsþróunina að auka lánveitingar á þessum árum. Á það má líka benda, að sumar síldarverksmiðjur græddu t.d. mikið fé og hefðu átt að hafa aðstöðu til að mæta einhverjum erfiðleikum, en eigendurnir ráku engu að síður upp neyðaróp strax á fyrsta erfiðleikaárinu, af því að þeir höfðu eytt öllum hagnaðinum. Því miður hefur sá hugsunarháttur ekki verið ráðandi í atvinnurekstrinum að leggja fé til hliðar, þegar vel árar, heldur er það jafnóðum fest. Hvað annað en reynslan getur kennt mönnum önnur vinnubrögð? Sannleikurinn er sá, að öllum arði þjóðarbúsins hefur verið ráðstafað jafnóðum undanfarin ár og komið fram í vaxandi velmegun almennings, og við það gat enginn ráðið. Þó var á margvíslegan hátt búið í haginn fyrir framtíðina með stórfelldum framkvæmdum á öllum sviðum, eigi sízt tæknilegum, og stjórnvöld beittu sjálfsögðum aðgerðum í peningamálum til að sporna gegn óhæfilegri þenslu og mynda gjaldeyrisvarasjóð, sem tryggði okkur ómetanlega aðstöðu á alþjóðlegum lánamarkaði, og er það haldreipi okkar á þessum erfiðleikatímum, að við höfum getað komizt hjá gjaldeyrisskömmtun og haftabúskap, sem myndi eyðileggja það traust okkar út á við, sem er grundvöllur áframhaldandi uppbyggingar. Efnahagsstefna ríkisstj. hefur því ekki beðið skipbrot, heldur hefur hún þolað ótrúlega eldraun, þannig að þjóðin hefur ekki nema að litlu leyti fundið fyrir þeim stórkostlegu áföllum, sem hún hefur orðið fyrir.

Það hefur verið meginuppistaðan í gagnrýni stjórnarandstæðinga í þessum umr. að deila á ríkisstj. fyrir aðgerðir hennar í efnahagsmálum í vetur og raunar frá haustinu 1966. Það er sérstök ástæða til að vekja athygli þjóðarinnar, ekki sízt hinna efnaminni, á þessu máli, því að allar þessar efnahagsráðstafanir eru mótaðar af þeirri meginstefnu, að skerða ekki lífskjör almennings fyrr en óumflýjanlegt var, og aldrei meira en brýnasta þörf krafði. Að verðstöðvunarstefnan hafi verið aðeins kosningabeita og stjórnartalsmenn hafi sagt fyrir kosningar, að allt væri í bezta lagi, á ekki við nein rök að styðjast, enda er eftirtektarvert, að ekki hefur verið vitnað í eina einustu blaðagrein eða tilteknar ræður forustumanna stjórnarflokkanna, er staðfesti þessa eftirlætisskröksögu. Vegna verðstöðvunarinnar tókst að koma í veg fyrir alla kjaraskerðingu í heilt ár. Þessar aðgerðir færði jafnvel formaður Dagsbrúnar stjórninni til dómsáfellis í ræðu sinni í gærkvöldi. Hagfræðilega má auðvitað segja að skakkt hafi verið að eyða greiðsluafgangi ríkissjóðs til að halda niðri verðlagi og láta ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn; en skyldi þjóðin almennt telja það ámælisvert? Sama viðhorf var ráðandi við undirbúning síðustu fjárl. Ekki varð hjá því komizt lengur að rýra kjörin vegna áframhaldandi verðhruns og aflabrests, enda hafði það alltaf verið skýrt tekið fram, að fé til verðstöðvunar nægði ekki nema til haustsins 1967. Ætlunin var þó enn að reyna að komast hjá gengislækkun, heldur reynt að takmarka ríkisútgjöld, svo sem frekast var talið auðið. Við ákvörðun gengisbreytingarinnar var mönnum vel ljóst, að teflt var á yztu nöf með afkomu sjávarútvegsins, en þó vonazt til, að hægt væri að forðast nýja styrki um áramótin, ef ekki bættust við ný óhöpp. Verðhrun á Rússlandsmarkaði og lakari afkoma frystihúsanna en gert hafði verið ráð fyrir í nóvemberuppgjöri þeirra gerði þessa von að engu. Auðvitað varð að tryggja sæmilegan starfsgrundvöll sjávarútvegsins, en þó voru viðbótarstyrkir enn skornir svo við nögl, sem frekast var talið fært, allt með það í huga að leggja ekki meiri byrðar á almenning en óumflýjanlegt væri. Í þeim sama tilgangi var einnig gripið til þess ráðs að skera enn niður útgjöld nýafgreiddra fjárlaga, þar eð eðlilegt þótti, að ríkið drægi úr sínum útgjöldum samhliða skerðingu á kjörum almennings. Auðvitað varð ekki hjá því komizt að skerða ýmsar fjárveitingar til nytsamrar þjónustu og framkvæmda, en þó var leitazt við að skerða sem minnst framkvæmdafé. Mér þykir næsta kaldhæðnislegt að heyra forystumenn stjórnarandstöðunnar ráðast á ríkisstj. fyrir óhæfilega eyðslu og útgjaldahækkun ríkissjóðs, því að við afgr. síðustu fjárlaga fluttu stjórnarandstæðingar hækkunartill., er námu um 250 millj. kr., og við meðferð sparnaðarfrv. í þinginu fundu einkum talsmenn Framsfl. því flest til foráttu. Nýjasta sparnaðarbarátta Framsfl. er svo sú, að þingið eigi að standa í 10 mánuði, kaup þm. eigi að stórhækka, sjá eigi þm. fyrir ókeypis flugferðum, þegar þeir vilja. Forystumenn stjórnarandstöðunnar eigi að hafa ráðherralaun, og hver flokkur eigi að fá þrjá sérfræðinga sér til aðstoðar. Þetta kann raunar að vera stjórnarandstæðingum nauðsynlegt til að marka einhverja heillega stefnu í þjóðmálum, en naumast verður þessi ráðabreytni til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Ríkisstj. hefur lagt á það ríka áherzlu síðustu árin að reyna að fá verkalýðshreyfinguna til samstarfs um að bæta laun þeirra lægst launuðu og sem betur fer meira áunnizt í þá átt en áður. Það er mjög ómaklegur áróður að halda því fram, að ríkisstj. hafi ekki nú viljað gera neinar ráðstafanir til að draga úr kjaraskerðingu hinna lægst launuðu. Strax í haust tjáði ríkisstj. verkalýðshreyfingunni, að hún væri reiðubúin til að íhuga öll úrræði í þá átt, er ekki settu af stað nýja verðbólguöldu eða yrðu ofviða vanmegnugum atvinnurekstri, og bætur almannatrygginga voru þá hækkaðar. Bent var m. a. á hugsanlega leið til að bæta hag barnafjölskyldna með millifærslu frá hinum efnameiri, en ekki var áhugi á þeim hugmyndum hjá verkalýðsforingjum. Því miður var efnt til verkfalls, áður en allar samkomulagsleiðir voru kannaðar. Því er haldið fram, að orsök verkfallsins hafi verið afnám lagaákvæðis um vísitölubætur á laun. Ef slíkt ákvæði hefði verið í l., hefði reynzt ókleift að bæta kjör hinna láglaunuðu svo sem gert var, því að þá hefðu allir fengið vísitölubætur, er hefðu gert þessar bætur hinna láglaunuðu að engu.

Það var broslegt að heyra form. Framsfl. halda því fram í gærkveldi, að hin furðulega till. stjórnarandstæðinga um lögfestingu verðlagsbóta hafi leitt til lausnar vinnudeilu. Það vita allir, að sú till. var flutt í allt öðrum tilgangi, enda var niðurstaða samninganna næstum algerlega í samræmi við þá sáttatill., sem sáttasemjari orðaði við deiluaðila strax í upphafi deilunnar. Og má áreiðanlega með meira sanni segja, að hún hafi að lokum leitt menn til samkomulags undir forystu velviljaðra manna frá báðum aðilum og með aðstoð ríkisstj. Sú sátt vakti áreiðanlega enga gleði í herbúðum Framsóknar og Alþb.

Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar munu einhuga hér eftir sem hingað til reyna að mæta vandamálunum í sama anda og undanfarna mánuði og láta sig köpuryrði stjórnarandstæðinga engu varða, heldur einbeita sér að því að forða þjóðarfleyinu frá áföllum. Það getur vel verið, að nýjar ráðstafanir þurfi að gera framleiðslunni til aðstoðar og endurskoða þau aftur — bæði ríkisútgjöld og aðra nýsetta löggjöf. Framleiðslan verður að ganga með eðlilegum hætti og aukast með öllum tiltækilegum ráðum, því að hún er lífæð þjóðarinnar. Hins vegar verða atvinnurekendur í öllum greinum að gera sér ljóst, að meðan við þessa miklu erfiðleika er að fást, verða þeir að búa við þröngan kost, til þess að eigi þurfi að skerða kjör almennings nema sem allra minnst. Ríkisstj. mun leggja á það megináherzlu að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þess vegna hefur hún m. a. ráðizt í að leita eftir stóru erlendu láni til þess að afla fjár til mikilsverðra ríkisframkvæmda og til stofnsjóða atvinnuveganna. Slík ráðstöfun er varasöm, en réttlætist eingöngu af nauðsyn þess að draga ekki úr framkvæmdum að ráði.

Það var töluvert fróðlegt að hlusta á hinn nýja form. Framsfl., sem óvenjulega gustmikill reyndi í gærkvöld að lýsa stefnu flokksins. Tókst honum að vísu litlu betur en fyrirrennara hans, en eftirtektarvert var, að flest, sem naglfesta var í í ræðu hans, var upptalning verkefna, sem ríkisstj. hefur einmitt verið að vinna að, en sem óþekkt voru í stjórnartíð framsóknarmanna. Má þar nefna framkvæmdaáætlanir, bæði um einstaka málaflokka og byggðaáætlanir, svo og aðstoð við hagræðingu á rekstri fyrirtækja. Í því efni er nú unnið af verulegum átökum í fiskiðnaði og fjár aflað í því skyni. Hagræðingarlán hafa verið veitt iðnfyrirtækjum og Framleiðnisjóður landbúnaðarins stofnaður. Þá ræddi hann um aukna hagnýtingu náttúruauðlinda sem sérstakt hugðarefni Framsóknar og jafnvel gerði gælur við álbræðsluna. Skyldi enginn hafa brosað?

Auðvitað er nýting náttúruauðlinda og efling nýrra iðngreina, jafnhliða endurskipulagningu og framleiðniaukningu í núverandi framleiðslugreinum, þjóðinni lífsnauðsyn, sem einbeita verður sér að, og því ber að fagna, ef Framsfl. hyggst í því efni taka upp ábyrgari og raunsærri stefnu.

Ræða hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar leiddi hins vegar glöggt í ljós, að kommúnistadeildin í Alþb. hefur ekkert lært og fylgir ennþá steinrunnum afturhaldssjónarmiðum, sem mundu leiða til stórfelldrar kjaraskerðingar.

Haldið verður áfram skipulegum athugunum á úrræðum til aukinnar framleiðni í ríkisrekstrinum, og vel getur orðið nauðsynlegt að draga frekar úr ýmsum ríkisútgjöldum, ef enn syrtir í álinn. Tollalækkanirnar eftir áramótin voru eins miklar og frekast var talið fært, miðað við hinar nýju kvaðir á ríkissjóð í sambandi við sjávarútveginn, en stefna þarf að enn frekari tollalækkun, þó með eðlilegri hliðsjón af hagsmunum íslenzks iðnaðar. Það er okkur brýn nauðsyn að ná viðhlítandi samningum við efnahagsbandalögin og reyna að ryðja íslenzkum framleiðsluvörum braut inn á sem flesta markaði.

Erfiðleikarnir nú geta orðið okkur holl lexía, ef við mætum þeim með réttu hugarfari. Við verðum að koma okkur saman um kjaraákvörðunarkerfi, sem ekki leiðir til nýs verðbólgukapphlaups, og við verðum að innleiða verðjöfnunarkerfi, sem jafnar óeðlilegar verðsveiflur. Við megum ekki halda áfram að skerða krónuna á nokkurra ára fresti, fólkið verður að geta treyst á stöðugleika gjaldmiðilsins, eins og hv. þm. Björn Pálsson komst að orði í gærkvöld, en þá tjóar ekki um leið að flytja kenningar, sem allar grafa undan gjaldmiðlinum. Við verðum að viðurkenna efnahagslögmál, sem flestar þjóðir og alþjóðlegar fjármálastofnanir starfa eftir nú, og ekki halda að við búum í einhverju furðuþjóðfélagi, sem lúti allt öðrum lögmálum en önnur vegna smæðar okkar. Núverandi ríkisstj. er ekki óskeikul, en ég fullyrði, að í grundvallaratriðum er stefna hennar rétt. Við skulum ekki vera svartsýn á framtíð þjóðarinnar, en það er hættulegt að gera of lítið úr erfiðleikunum, og við eigum við slíkan vanda að glíma, að jag og þref um, hverjum þetta eða hitt sé að kenna, verður að víkja fyrir raunhæfri viðleitni til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig vandinn verði leystur á sem farsælastan hátt fyrir þjóðarheildina. Þjóðin á kröfu á því, að þeir flokkar, sem hún hefur veitt traust í síðustu kosningum, reyni að leysa vandann, en hún hlýtur á sama hátt að krefjast þess, að stjórnarandstöðuflokkarnir geri af sinni hálfu afdráttarlausa grein fyrir sínum úrræðum til lausnar vandanum, en láti ekki sitja við það eitt að fordæma allt, sem gert er.