18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

Almennar stjórnmálaumræður

Þórarinn Þórarinsson:

Góðir áheyrendur. Á ýmsu átti ég von í þessum umr., en ekki samt því, að ég þyrfti að hefja mál mitt með því að verja Ingólf Jónsson. Í umr. í gærkvöld sagði forsrh., að bygging álbræðslunnar hefði verið algjör forsenda þess, að ráðizt yrði í Búrfellsvirkjun. Með þessu var forsrh. að reyna að ómerkja Ingólf Jónsson, en þegar l. um Búrfellsvirkjun voru hér til umr. árið 1965, lýsti Ingólfur því yfir sem orkumrh., að alveg væri þá óvíst, hvort samningar næðust við álhringinn, Búrfellsvirkjun mundi hafin eigi að síður, enda ekkert meira mannvirki en fyrsta virkjun Sogsins hefði verið á sínum tíma. Þetta eru alveg óskyld mál, sagði Ingólfur til enn frekari áherzlu. Þótt ég telji Ingólf Jónsson engan sannleikspostula, fór hann tvímælalaust með rétt mál um þetta efni vorið 1965, en forsrh. sagði ósatt í gærkvöld.

Gylfi Þ. Gíslason virðist lesa stefnu Framsfl. á sama hátt og viss persóna les Biblíuna. Hann sagði, að aðalatriðið í efnahagsstefnu Framsfl. væri að taka upp höft. Svo fjarri er þetta sannleikanum, að það er einmitt meginþáttur í stefnu Framsfl. að efla atvinnuvegina, m.a. að létta af þeim lánsfjárhöftunum, sem Gylfi Þ. Gíslason og félagar hans hafa hneppt þá í og nú eru að skapa varanlegt atvinnuleysi. Mun ég víkja nánar að þessum höftum Gylfa síðar.

Jón Árnason sagði hér áðan, að núv. ríkisstj. hefði aukið athafnafrelsi og afnumið höft. Hvað segja hinir mörgu atvinnurekendur, sem nú hrekjast milli bankanna og fá hvergi úrlausn og verða ýmist að hætta rekstri sínum eða draga hann stórlega saman? Eru þeir hrifnir af athafnafrelsinu og haftaleysinu hans Jóns Árnasonar? Áttu þeir von á, að þetta yrði árangurinn af 10 ára stjórnarforystu Sjálfstfl.?

Benedikt Gröndal lét mjög af forystu Gylfa Þ. Gíslasonar í skólamálum. Það eru langflestir sammála um, að skólakerfið sé orðið úrelt. Gylfi Þ. Gíslason hefur verið menntmrh. undanfarin 12 ár og ber því meginábyrgð á, að ekki hefur verið hafizt handa af neinni alvöru um endurskoðun skólalöggjafarinnar, þetta er einhver mesta vanræksla, sem um getur í sögu íslenzkra skólamála.

Það kom fram í ræðu Gylfa Þ. Gíslasonar, að erfiðleikar íslenzkra atvinnuvega væru einkum sprottnir af því, að valdasjúk stjórnarandstaða hafi espað launþega til að knýja fram of miklar kauphækkanir. Af þessu mun eiga að draga þá ályktun, að kaupgjald sé hærra hér en í nágrannalöndunum, og því sé íslenzk framleiðsla ekki samkeppnishæf. Vegna þess finnst mér rétt að geta þess, að norska vinnuveitendasambandið hefur nýlega hirt skýrslu um kaupgjaldsmálin í Noregi, þar sem skýrt er frá því, að meðaltímakaup norskra verkamanna hafi verið 11 kr. norskar og 44 aurar á síðasta fjórðungi ársins 1967. Þetta eru 90 kr. íslenzkar. Hérlendis er nú meðaltímakaup verkamanna, reiknað með líkum hætti og í Noregi, 60–70 kr. eða 20–30 kr. lægra en í Noregi. Það sést vel á þessu, að okkur ætti að vera auðvelt að keppa við Norðmenn vegna kaupgjaldsins. Það er því allt annað en hátt kaupgjald, sem veldur nú erfiðleikum íslenzkra atvinnuvega. Ef samanburðinum við Noreg og önnur nágrannalönd er haldið áfram, kemur fljótt í ljós, að stjórnarvöldin búa allt öðruvísi og betur að atvinnuvegunum þar en hér. Til þess að finna orðum mínum stað skal ég aðeins nefna örfá dæmi.

Ég nefni fyrst lánsfjárhöftin. Aukinni tækni og hagræðingu fylgir það, að fjármagnsþörf atvinnufyrirtækjanna fer hraðvaxandi. Í nágrannalöndum okkar hafa fyrirtæki aðgang að nægum stofnlánum og rekstrarlánum með hagstæðum greiðsluskilmálum. Hér á landi eru atvinnuvegirnir hins vegar beittir hinum stórfelldustu lánsfjárhöftum, og fyrirtækin eru í stöðugri rekstrarkreppu, jafnt vegna skorts á stofnfé og rekstrarfé. Erlend iðnfyrirtæki geta með aðstoð erlendra banka lánað íslenzkum kaupmönnum varning sinn með löngum greiðslufresti, en íslenzk iðnfyrirtæki hafa enga möguleika til að veita slík lán. Þetta á ekki minnstan þátt í því, að þau verða undir í samkeppninni. Í Noregi og Danmörku geta landbúnaðarfyrirtækin fengið ótakmörkuð rekstrarlán, en hérlendis eru þessi lán nú hin sömu að krónutölu og þau voru 1959, þótt allur tilkostnaður hafi margfaldazt síðan. Líkt er að segja um sjávarútveginn. Það getur enginn, sem ekki hefur kynnzt því, gert sér þess grein, hvernig lánsfjárhöft lama og hefta framtak atvinnufyrirtækjanna, draga úr framleiðslu þeirra og gera þeim ókleift að gera þær umbætur á atvinnurekstrinum, sem myndi koma honum í samkeppnisfært horf. Þessu til viðbótar eru svo allir útlánsvextir stórum hærri hér en í ná rannalöndunum.

Ég kem þá að skattamálunum. Hér á landi hafa á seinustu árum verið lagðir á atvinnuvegina margvíslegir skattar, sem ekki þekkjast í nágrannalöndunum. Hér verða atvinnurekendur t.d. að greiða sérstakan skatt, sem nemur á annað hundrað millj. kr. á ári, til húsnæðislánakerfisins. Þá verða bændur að greiða skatt, sem nemur 20–30 millj. kr. á ári, til stofnlánasjóðs landbúnaðarins. Sjávarútvegurinn er látinn greiða sérskatt, sem nemur 30–40 millj. kr. á ári, til lánasjóða útgerðarinnar. Þessu til viðbótar var nú í vetur gerður upptækur gengishagnaður, sem nam mörgum hundruðum millj. kr., sem sjómenn og útgerðarmenn og fiskverkunarstöðvar áttu, og þetta fé lagt í umrædda lánasjóði. Iðnaðurinn verður að greiða skatt, sem nemur um 30 milljónum kr., í Iðnlánasjóð. Engir slíkir skattar þekkjast í nágrannalöndunum, því að þar er hið almenna lánakerfi látið standa undir húsnæðislánum og stofnlánum atvinnuveganna. Engir þessara skatta — menn taki eftir því — voru til fyrir tíð núv. ríkisstj. Það er satt að segja furðuleg hugvitssemi að ætla að útvega fjárvana atvinnuvegum lán með því að skattleggja þá. Ég held, að það yrði hlegið um allan heim, ef sú till. kæmi fram á vettvangi alþjóðastofnana, að þróunarlöndunum yrði útvegað lánsfé með því að skattleggja þau. Það væri hliðstætt því, sem verið er að gera hér. Þeir skattar, sem ég hef nefnt hér, eru aðeins brot af þeim sköttum, sem hafa verið lagðir á atvinnuvegina í seinni tíð. Ég skal aðeins minnast á tollana. Það þekkist varla í nágrannalöndum okkar, að iðnaðurinn þurfi að greiða toll af innfluttum vélum og hráefnum. Hér er tollur á iðnaðarvélum 25%, og tollar af hráefnum komast upp í 100%. Þetta kom minna að sök, á meðan iðnaðurinn naut verndar innflutningshafta, en veikir að sjálfsögðu mjög aðstöðu hans, síðan innflutningurinn var gefinn alveg frjáls. Orsök þess, hversu miklu lakar er búið að atvinnuvegunum af hálfu stjórnarvalda hér á landi en í nágrannalöndunum, rekur að miklu leyti rætur til stefnu núv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Hún hefur sett sér það sem megintakmark að hafa frjálsan innflutning, jafnt af óþörfum varningi sem þörfum. Til að halda þessum frjálsa innflutningi innan hæfilegra marka, telur stjórnin nauðsynlegt að halda kaupgetunni niðri, og helzta ráðið, sem hún sér í þeim efnum, er að takmarka lánsfé til atvinnuveganna og draga þannig úr atvinnu og kaupgetu almennings. Skv. l. Seðlabankans er honum ætlað að sjá um, að fjármagn í umferð sé nægilegt til að tryggja stöðuga atvinnu og fulla nýtingu atvinnuveganna. Þetta gerir bankinn þannig, að hann veitir viðskiptabönkunum lán eða aðra aðstoð, þegar þeir geta ekki fullnægt eðlilegri eftirspurn atvinnuveganna. Þessari stefnu var fylgt áður en viðreisnarstefnan kom til sögunnar. Í árslok 1959 átti Seðlabankinn inni hjá viðskiptabönkunum 920 millj. kr. eða nær tvo milljarða kr., ef reiknað er með núverandi gengi. Um seinustu áramót var þessu alveg snúið við. Þá áttu viðskiptabankarnir inni hjá Seðlabankanum um 300 milljónir kr. Þessi stórfelldi samdráttur í þjónustu Seðlabankans við viðskiptabankana og atvinnuvegina er höfuðorsök þeirra lánsfjárhafta, sem nú eru að sliga atvinnuvegina og leggja grundvöll að varanlegu atvinnuleysi í landinu. Sá maður, sem öðrum fremur ber ábyrgð á þessari lánsfjárhafta- og atvinnusamdráttarstefnu, er yfirmaður bankakerfisins, hæstv. bankamrh. Gylfi Þ. Gíslason, og þeir ráðunautar, sem hann hefur sér til aðstoðar. Það skortir ekki, að þetta séu allt saman sæmilega gefnir menn, en það gildir um bankamrh. og ráðunauta hans, að þeir hafa aldrei nálægt neinum atvinnurekstri komið, nær öll þekking þeirra á atvinnumálum er fengin úr erlendum kennslubókum og því hvorki þekkja þeir né skilja hin sérstöku vandamál íslenzkra atvinnuvega. Þessu til viðbótar eru þeir haldnir vantrú á íslenzka atvinnurekendur og íslenzkan atvinnurekstur, en oftrú á flest það, sem útlent er. Þeir telja það helzt til bjargar, að Ísland gangi í framandi efnahagsbandalög og útlendingar taki sem mest við forsjá atvinnumála á Íslandi. En hvort útlendir atvinnurekendur mundu reynast betur á Íslandi en íslenzkir, geta menn dæmt af því, að svissneski álhringurinn léði ekki máls á að koma hingað, ef hann ætti að sæta sama aðbúnaði af hálfu stjórnvaldanna og íslenzkir atvinnurekendur. Hann krafðist að vera undanþeginn íslenzkum skatta- og tollalögum, auk margra annarra sérréttinda. Og hvað mundu forsvarsmenn hans svo hafa sagt, ef álbræðslan hefði átt að búa við lánsfjárhöft og vaxtakjör Gylfa Þ. Gíslasonar og félaga hans?

Ég vil nota þetta tækifæri til að mótmæla sérhverri vantrú á íslenzkt framtak. Ég er rétt fimmtugur, en ég man þó vel allt annað Ísland en það, sem nú er, fátækt land að ræktun, byggingum, vegum, höfnum, verksmiðjum og vélum. Það er íslenzkt framtak, sem hefur lyft hér fleiri og stærri Grettistökum á síðari áratugum en dæmi eru til um annars staðar við sambærileg skilyrði. Þetta framtak mun duga okkur í framtíðinni, ef því er fengið í hendur ásamt þekkingunni það vopn, sem nú er vopn vopnanna, en það er fjármagn til að reka og umskapa atvinnuvegina. Við megum búast við því, Íslendingar, að hér verði við erfiðleika að etja á allra næstu árum. Menn segja, að nú séu erfiðir tímar, en ég held þvert á móti, að þetta séu venjulegir tímar, og við megum því ekki hafa of mikla trú á, að óvæntur metafli eða verðhækkanir erlendis leysi vandann. Við verðum jafnframt að gera okkur ljóst, að á næstu árum munu mörg sameiginleg útgjöld þjóðarbúsins vaxa óhjákvæmilega, eins og t.d. vegna nýs átaks, sem verður að gera í skólamálum, heilbrigðismálum og vegamálum. Við eigum ekki nema eitt öruggt ráð til lausnar þessum vanda, það er að búa þannig að íslenzku framtaki, að það fái notið sín sem bezt. Þetta gildir um framtak vísindamanna okkar og menntamanna, um framtak skálda okkar og listamanna og þó ekki sízt um framtak þeirra, sem við atvinnureksturinn fást. Afkoma okkar allra veltur á því, að atvinnuvegunum verði búin sem sambærilegust aðstaða við það, sem annars staðar er. Þetta er sameiginlegt hagsmunamál atvinnurekenda og launþega. Ef við þrengjum að atvinnuvegunum með lánsfjárhöftum og sköttum, bjóðum við kyrrstöðu og atvinnuleysi heim. Það er ekki leiðin til að sigra örðugleikana. Leiðin til þess er að hlúa hvarvetna að heilbrigðu, íslenzku framtaki og gefa því sem bezta aðstöðu til að halda áfram að breyta Íslandi í betra og byggilegra land. — Góða nótt.