18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 11. þm. Reykv., Einar Ágústsson, lýsti fagurlega hér í kvöld farsælli forystu vinstri stjórnarinnar sælu í efnahagsmálum. Þá var blómi í búi að áliti hv. þm. En hvers vegna sagði þessi frábæra ríkisstj. þá af sér á miðju kjörtímabili, ef allt var með ágætum í þjóðfélaginu? Það er hin mikla krossgáta enn þann dag í dag.

Hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, sagði í gærkvöld, að hæstv. forsrh. „þyrði ekki“ að stuðla að friði í Víetnam. Ég hef alltaf vitað, að Lúðvík Jósefsson hefur mikið álit, og raunar dulda aðdáun, á Bjarna Benediktssyni. Nú er hann nokkurn veginn viss um, að forsrh. gæti komið á friði í Víetnam, ef hann aðeins áræddi að taka málið í sínar hendur! Það er slæmt fyrir þá Ho-chi-min og Johnson Bandaríkjaforseta, að forsrh. Íslands skuli vera svona hlédrægur. En þrátt fyrir það hafa vonir vaknað um friðsamlega lausn Víetnam-deilunnar, eftir yfirlýsingar Bandaríkjaforseta 31. marz s. l. og jákvæðar undirtektir stjórnar Norður-Víetnam. Þess vegna eru viðhorfin gerbreytt þar eystra frá því, sem var fyrir nokkrum vikum.

Annars verður að segja það, að friðaráhugi Lúðvíks Jósefssonar og hans manna virðist vera meiri nú en árið 1945, þegar þeir vildu, að Ísland segði tveimur stórveldum stríð á hendur. Um þátt hæstv. forsrh. í utanríkismálum má svo hiklaust segja það, að hann hafði farsæla forystu um það á sínum tíma, sem utanrrh., ásamt Ólafi heitnum Thors og í góðri samvinnu við ýmsa leiðtoga Alþfl. og Framsfl., að marka íslenzka utanríkisstefnu, sem lýðræðisflokkarnir þrír hafa síðan framkvæmt, hverjir sem farið hafa með völd í landinu. Var með þeirri samvinnu stigið mikið gæfuspor, sem lýðræðissinnað fólk á Íslandi fagnar og þakkar.

Situr það á hv. 6. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, að tala hér um andlegt ósjálfstæði í utanríkismálum? Hvenær hefur þessi hv. þm. markað sjálfstæða, íslenzka stefnu í þessum þýðingarmiklu málum? Aldrei. Hann hefur alltaf talið það hlutverk sitt og helga skyldu að mæna í austurátt og snúast við minnsta goluþyt úr þeirri átt eins og vindhani á bæjarburst. Hefur hann t.d. mótmælt fangelsun rithöfunda og skálda þar eystra?

Hið mikla skáld og eldhugi í upphafi baráttunnar fyrir hagnýtingu auðlinda Íslands, Einar Benediktsson, komst á einum stað í ljóðum sínum að orði á þessa leið:

„Því dáð hvers eins er öllum góð,

hans auðna félagsgæfa

og markið eitt hjá manni og þjóð,

hvern minnsta kraft að æfa.“

Boðskapur skáldsins í þessum ljóðlínum er fyrst og fremst sá, að dugnaður og framtak einstaklingsins sé öllum til gagns. Af því leiðir félagsgæfu, það er allra farsæld. Vonandi greinir okkur ekki á um það, jafnvel hér í reyk eldhúsumr., að þessi boðskapur eigi ekki síður erindi til íslenzkrar þjóðar nú en fyrir 70 árum, þegar stórskáldið felldi hann í rím. Þennan einfalda sannleika er því hollt að hafa í huga, þegar reikningarnir eru gerðir upp við vertíðarlok á Alþ.

Það þing, sem nú er að ljúka störfum, hefur setið rúmlega 5½ mánuð. Löggjafarstörf þess hafa fyrst og fremst mótazt af harðri varnarbaráttu gegn afleiðingum stórfelldra og einstæðra efnahagsáfalla á undanförnu 1½ ári. Ég hika ekki við að fullyrða, að mikill árangur hefur náðst í þessari baráttu, margur vandi er að sjálfsögðu enn óleystur, en með efnahagsaðgerðum ríkisstj. hefur þó tekizt að koma í veg fyrir stöðvun framleiðslutækjanna og bægja frá hættunni á stórfelldu atvinnuleysi og samdrætti í atvinnulífi landsmanna. Fádæma erfitt veðurfar og misjöfn aflabrögð í vetur hafa að vísu skapað ný vandkvæði. En meginmáli skiptir, að ábyrgur þingmeirihl. og ríkisstj. hefur ekki hikað við að snúast gegn erfiðleikunum af festu og raunsæi. Óhætt mun einnig að fullyrða, að mikill meiri hl. þjóðarinnar hafi mætt erfiðleikunum af kjarki og manndómi. Það er auðvitað auðvelt að slá á úrtölu- og óánægjustrengi, þegar þrengir í búi hjá öllum almenningi, þótt af óviðráðanlegum orsökum sé. Í allri lífsbaráttu Íslendinga hafa skipzt á skin og skúrir. En þjóðin hefur sigrazt á erfiðleikunum og sótt á ný fram til betra og bjartara lífs. Mun svo enn fara.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa sagt, að auðvelt sé að sigrast á öllum erfiðleikum með því einu að breyta um stefnu. En þeir hafa ekki fengizt til að skýra frá því, í hverju sú stefnubreyting eigi að vera fólgin. Sagði Lúðvík Jósefsson, hv. 4. þm. Austf., frá því hér í ræðu sinni á undan mér? Nei, það varð ekki af því.

Framsóknarmenn segja að vísu, að það eigi að lækka vexti til þess að létta erfiðleika útgerðarinnar. Vitanlega væri það æskilegt. Útgerðin þyrfti á því að halda. En hver hefur heyrt þess getið, að nokkur þjóð hafi mætt hliðstæðum erfiðleikum og við eigum nú við að etja með vaxtalækkun? Ýmsar af ríkustu þjóðum heimsins hafa hins vegar verið að hækka vexti undanfarið í baráttunni við verðbólgu og erfiðleika í peningamálum. Flestum Íslendingum mun enn í fersku minni, hvernig vinstri stjórnin sáluga framkvæmdi þá „stefnubreytingu“, sem hún hafði lofað á sínum tíma. Hún átti engin önnur ráð en „gömlu íhaldsúrræðin“, eins og einn ráðh. hennar kallaði það. Hún lét sig meira að segja ekki muna um það að taka af launþegum aftur launahækkun, sem knúð hafði verið fram fyrir valdatöku hennar. Hún lagði á hærri opinberar álögur en nokkur ríkisstj. hefur nokkru sinni gert fyrr eða síðar og gafst síðan upp fyrir þeirri óðaverðbólgu, sem skapazt hafði á hinu stutta valdatímabili hennar. Þessu mundi hv. þm. Þórarinn Þórarinsson ekki eftir hér áðan, þegar hann ræddi um skattamálin.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur mætt vandanum, en ekki hlaupizt frá honum. Hún hefur sagt þjóðinni sannleikann um eðli vandamálanna, en ekki reynt að dylja hann. Hún hefur sagt fólkinu hreinskilnislega, að kjaraskerðing væri óhjákvæmileg í bili vegna stórfellds afurðaverðfalls og erfiðleika bjargræðisveganna.

Þetta skilur allur almenningur í landinu. Vitanlega fagnar enginn kjaraskerðingu. Margir þurfa þvert á móti að bæta hag sinn. Eitt af höfuðverkefnum í íslenzkum efnahagsmálum á næstu árum hlýtur þess vegna að verða að finna nýjar leiðir til þess að tryggja og bæta aðstöðu hinna lægst launuðu.

Ég sagði áðan, að varnarbaráttan gegn efnahagserfiðleikunum hefði mótað svip þessa þings. En annað höfuðeinkenni þess hefur verið viðleitni hv. stjórnarandstæðinga til þess að sniðganga úrslit alþingiskosninganna í fyrrasumar. Framsfl. og Alþb. hafa gert hverja stórárásina á fætur annarri á ríkisstj. til þess að torvelda störf hennar og freista þess að koma henni frá völdum. Stjórnarandstæðingar hafa ekki viljað una dómi þjóðarinnar, sem kveðinn var upp í frjálsum og lýðræðislegum kosningum. Þeir geta að sjálfsögðu ekki afneitað þeirri staðreynd, að ríkisstj. hlaut verulegan meiri hl. meðal þjóðarinnar og hefur starfhæfan meiri hl. á Alþ. Engu að síður töldu leiðtogar Framsfl. og Alþb., sem undir urðu í kosningunum, að þeirra augnablik væri nú runnið upp, ef þeim aðeins tækist að gera ríkisstj. ókleift að ráða fram úr aðsteðjandi vandamálum. Þetta atferli hv. stjórnarandstæðinga hefur verið ljótur leikur og ekki ýkja lýðræðislegur. Mér hefur alltaf fundizt það til fyrirmyndar hjá Bretum og fleiri lýðræðisþjóðum að launa leiðtoga stærsta stjórnarandstöðuflokksins eins og ráðh. Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hefur nýlega stungið upp á því, að svipaður háttur verði upp tekinn hér á landi. Er það til athugunar. Vafalaust brestur þó ýmsa trú á það, að þessi fyrrv. form. Framsfl. hefði gengið frekar fram í lýðræðislegum þroska og ábyrgðartilfinningu, þótt þannig hefði verið við hann gert á þeim tveimur kjörtímabilum, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur farið með völd. Ég held líka, að það sé mjög hæpið að ákveða það í eitt sinn fyrir öll, að Alþ. skuli að jafnaði sitja í 8 mánuði á ári eins og hv. fyrrv. formaður Framsfl. stakk upp á í annars athyglisverðri þingræðu fyrir skömmu. Mestu máli skiptir, að skaplega sé séð fyrir starfsaðstöðu Alþ., þannig að það geti lokið störfum sínum á hæfilegum tíma við venjulegar aðstæður.

Ekkert er eðlilegra en að þessar umr. hafa að verulegu leyti snúizt um starf og stefnu ríkisstj. og viðbrögð hennar við aðsteðjandi vandamálum. En hitt er einnig nauðsynlegt, að horft sé fram á veginn og reynt að gera sér grein fyrir helztu verkefnum íslenzkra stjórnmála á næstu árum. Engum Íslendingi kemur til hugar að leggja árar í bát, þótt þunglega hafi blásið um skeið. Mestu máli skiptir, að menn glúpni ekki fyrir erfiðleikunum, heldur ráðist gegn þeim. Það hefur hæstv. ríkisstj. gert. En að sjálfsögðu er ekki unnt að gera allt í einu. Hins vegar er nauðsynlegt að marka raunhæfa og víðsýna stefnu í helztu hagsmunamálum þjóðarinnar.

Meðal stærstu verkefna, sem fram undan eru, er áframhaldandi uppbygging bjargræðisveganna og efling einstaklings- og félagsframtaks. Grundvöllur íslenzks atvinnulífs er enn mikils til of ótraustur. Hallarekstur er uggvænlega áberandi og fyrirtækjum einstaklinga og félaga hefur ekki tekizt að treysta nægjanlega fjárhagsgrundvöll sinn til þess að geta byggt upp atvinnutækin og skapað almenningi þar með nauðsynlegt atvinnuöryggi. Útflutningsframleiðsla okkar er of einhæf og háð verðsveiflum á heimsmörkuðum. Þess vegna ríður okkur lífið á að gera atvinnuvegi okkar fjölbreyttari. En höfuðverkefnið er að bæta aðstöðu sjávarútvegsins, sem verður enn um langt skeið aðalbjargræðisvegur okkar og gjaldeyrislind. Þess vegna verður nú að leggja höfuðáherzlu á hagræðingu í íslenzkum fiskiðnaði og fullvinnslu hér heima á íslenzkum sjávarafurðum. Við verðum að taka hin hagnýtu vísindi og tækni í vaxandi mæli í þágu atvinnulífs okkar. Uppbygging nýrra stóriðjufyrirtækja í öllum landshlutum ásamt nýjum raforkuverum og bættum vegum er aðkallandi nauðsyn. Andstaða hv. stjórnarandstæðinga gegn hagnýtingu erlends fjármagns til uppbyggingar stóriðju í landinu sýnir óskaplega skammsýni og raunar svartasta afturhald. Þá ber og brýna nauðsyn til þess að efla Atvinnujöfnunarsjóð og ljúka hið fyrsta gerð þeirra landshlutaáætlana, sem í undirbúningi eru og átt geta mikinn þátt í sköpun aukins jafnvægis í efnahags- og menningarlífi þjóðarinnar. Hefur núv. ríkisstj. haft merka forystu og frumkvæði í þeim efnum. Efling verzlunarflota okkar og alþjóðlegrar flugþjónustu er einnig þýðingarmikið verkefni. Er þjóðin þegar farin að hafa verulegar gjaldeyristekjur af flutningastarfsemi fyrir aðrar þjóðir. Á því sviði gætum við margt lært af frændum okkar, Norðmönnum, sem eiga einn stærsta verzlunarflota heims, er dregur gífurlegar gjaldeyristekjur í þjóðarbú þeirra.

Á sviði flugmála hafa íslenzku flugfélögin þegar lyft Grettistaki. Nátengdar siglingum og flugsamgöngum eru heimsóknir erlendra ferðamanna til Íslands. Eru gjaldeyristekjur af þeim nú orðnar um 130 millj. kr. á ári. En þessar tekjur er hægt að margfalda og byggja jafnframt upp atvinnuvegi í landinu, sem skapað geta fjölda fólks arðvænlega atvinnu. Einnig í þessum efnum getum við litið til Norðmanna. Til Noregs koma um 3–4 millj. erlendra ferðamanna á ári hverju. En við verðum að gera okkur það ljóst, að erlendir ferðamenn heimsækja ekkert land í góðgerðaskyni. Af þeim er því aðeins hægt að hafa tekjur, að skapleg aðstaða sé til þess að taka á móti þeim, ekki aðeins í höfuðborginni, heldur víðs vegar um okkar fagra og svipmikla land.

Kjarni málsins er sá, að við getum ekki tryggt þessari örfámennu þjóð afkomuöryggi nema með því að gera atvinnuvegi okkar fjölbreyttari. Við verðum einnig að taka þátt í alþjóðlegri efnahagssamvinnu með einum eða öðrum hætti. Ella er stórkostleg hætta á því, að við einangrumst viðskiptalega og bjargræðisvegir okkar bíði við það stórtjón. Í þessu sambandi ber einnig að minna á það, að nauðsyn ber til þess, að við miðum utanríkisþjónustu okkar meira við þarfir útflutningsatvinnuveganna en við höfum gert til þessa. Einskis má láta ófreistað til þess að afla íslenzkum afurðum nýrra markaða.

Fræðslulöggjöf okkar verðum við að endurskoða og samhæfa hana sem bezt kröfum hins nýja tíma. Skólalöggjöf okkar er að ýmsu leyti úrelt. Á það hefur verið bent með gildum rökum af hinum fróðustu mönnum. Við megum ekki hika við að gera nauðsynlegar breytingar á landsprófi og gera aðrar ráðstafanir til þess að hleypa nýju lífi í hinn íslenzka skóla, allt frá barnaskóla til háskóla. Stofnun menntaskóla fyrir vestan og austan, sem lög hafa verið sett um fyrir frumkvæði núv. ríkisstj. og fé veitt til, má ekki dragast lengi.

Við eigum í dag heilbrigðari og glæsilegri æsku en nokkru sinni fyrr. Miklu fé hefur verið varið til uppbyggingar nýrra skóla og menningarstofnana. Engu að síður brestur mikið á, að nægilega hafi verið gert í þessum efnum. Æskan er fjöregg þessarar þjóðar. Hún er ókomna tímans von. Og íslenzk æska er dugleg að læra og dugleg að vinna. Hana má ekkí bresta verkefni. Við höfum ekki efni á því að missa einn einasta æskumann til langdvalar í framandi löndum. Mitt í þrasi okkar um dægurmálin hér á hv. Alþ. megum við ekki missa sjónar á því, að með nýrri kynslóð er að renna upp nýr tími í landi okkar. Það er tími mikilla möguleika og fyrirheita, ef rétt er á haldið.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Að lokum þetta: Sættir vinnu og fjármagns, verkalýðs og vinnuveitenda er eitt af frumskilyrðum þess, að okkur takist að hagnýta starfskrafta þessarar athafnasömu og framsæknu þjóðar. Við erum þegar svo vel á veg komnir með jöfnun lífskjara og sköpun félagslegs öryggis, að verkföll eða verkbönn eru að verða úrelt tæki í kjarabaráttu fólksins. Engum kemur þó til hugar að hagga við hinum svokallaða verkfallsrétti. En óhjákvæmilegt er að gera ráðstafanir til þess að vernda samfélagið gegn ábyrgðarlausum átökum, sem engra kjör geta bætt, en þvert á móti valdið gífurlegu tjóni, sem oft bitnar harðast á þeim, sem sízt mega við því. Með bættri sambúð verkalýðs og vinnuveitenda hlýtur hættan á pólitískri misnotkun almenningssamtaka einnig að þverra.

Við sjálfstæðismenn höfum á liðnum tíma bent á ýmsar leiðir, sem stuðlað gætu að sáttum vinnu og fjármagns, þ. á m. arðskipti og hlutdeildafyrirkomulag í atvinnurekstri, stofnun almenningshlutafélaga og nánari samvinnu fulltrúa hinna ýmsu stétta um upplýsingastarfsemi og kjararannsóknir. Takmarkið með öllum þessum ráðstöfunum á að vera sú „félagsgæfa“, sem aðeins getur skapazt í skjóli frjálsra og dugmikilla einstaklinga. Það þýðir ekki frelsi til þess að kúga þann minni máttar, heldur til hins að auðjafna upp á við og skapa farsæla og hamingjusama íslenzka þjóð í rúmgóðu og réttlátu þjóðfélagi. — Lifið heil. Góða nótt.