26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Við umr. um vegaskýrsluna fyrir 1967 er full ástæða til að skyggnast dálítið um og reyna að gera sér grein fyrir, hver muni verða þróunin í vegaframkvæmdum á næstu missirum. Skýrslan veitir að sjálfsögðu ýmsar vísbendingar í þessa átt, en samt skortir mjög á það, að hún veiti þm. fullnægjandi svör við ýmsu, sem þeir kynnu að vilja vita og ættu að vita. Í umr. um vegaskýrslur á undanförnum árum hef ég stundum leitað ýmissa upplýsinga hjá hæstv. samgmrh. um vegaframkvæmdir og vegamál, en mér hefur fundizt stundum, að svör hæstv. ráðh. væru ekki fullnægjandi, og það er ekkert merkilegt. Það er alls ekki á færi hæstv. ráðh. að hafa á reiðum höndum svör við hvers konar fsp., sem kunna að vera fram bornar og hann veit ekkert um fyrirfram. Ég tel þess vegna, að það mætti ráða bót á þessu, og tel rétt, að sá háttur yrði upp tekinn, að umr. um vegaskýrsluna færu fram á tveimur þingfundum, þ. e. a. s. þannig, að nokkur tími, þó ekki langur, — liði frá fyrri hluta umr. til hins síðari hluta, og þá gætu þm. leitað hvers konar upplýsinga hjá hæstv. ráðh. við fyrri hluta umr., en fengið svör, og þau sem ýtarlegust, hjá hæstv. ráðh. við síðari hluta hennar. Það er ekki nema eðlilegur hlutur, að hæstv. ráðh. þurfi að bera sig saman við vegamálastjóra og afla sér gleggri vitneskju en hann getur haft í höfðinu, ef á að demba umr. af á einum fundi. Ég beini þessu til hæstv. ráðh., hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því, að nú þegar verði þessi háttur upp tekinn að skipta umr. þannig í tvennt, í fyrsta lagi, til þess að hann geti svarað hvers konar fsp., sem fram eru bornar, sem bezt, og hins vegar, til þess að þm. geti fengið sem gleggstar upplýsingar, ef þeir á annað borð biðja um þær.

Ég skal víkja hér að örfáum atriðum, sem snerta þessi mál. Stærsti útgjaldaliður Vegasjóðs er, eins og menn vita, viðhald þjóðveganna. Þessi fjárveiting hefur verið aukin verulega að krónutölu á undanförnum árum. En þrátt fyrir það býst ég við, að flestir séu sammála um, að það skorti mjög á það, að vegaviðhaldið sé viðunandi. Ég geri ráð fyrir því, að þm. hafi æði oft rekið sig á það á ferðalögum víðs vegar um landið, að menn kvarta undan ástandi veganna, og það ekki að ástæðulausu, og þá er oft spurt t.d. þannig: Hvað var miklu viðhaldsfé varið í þennan veg á árinu í fyrra? Og það er ekkert óeðlilegt, þó að svona sé spurt. En það mun vefjast fyrir þm. að svara þessu, af því að það er ekkert yfirlit um það í vegaskýrslunni, hvernig viðhaldsféð skiptist á milli hinna einstöku vega í landinu. Ég hef óskað eftir því á undanförnum þingum, að slíkt yfirlit yrði birt í hinni árlegu vegaskýrslu, en það hefur engan árangur borið. Þegar við sjáum það, að varið er til vegaviðhaldsins meira en helmingi hærri upphæð en til nýbyggingar vega úr Vegasjóði er það ósköp eðlilegt, að menn hafi ekki síður áhuga á að vita það, hvernig viðhaldsfénu er skipt en nýbyggingarfénu, þegar það er meira en helmingi hærri upphæð. Ég tel þetta galla á vegaskýrslunni, — þ. e. a. s. þessum árlegu vegaskýrslum, ekki frekar þessari en á undanförnum árum, — að þetta yfirlit felst ekki í henni og ekkert er um það sagt, hvernig viðhaldsfénu er skipt á milli veganna. Ég beini því til hæstv. ráðh., hvort hann geti ekki látið okkur í té slíkt yfirlit, annaðhvort í sambandi við þessa umr. núna eða þá síðar á þessu þingi. Ég efast alveg um, að hann hafi það í höndunum nú. Þess vegna er ég að mælast til þess, að svona umr. sé skipt í tvennt, svo að við gætum fengið t. d. þetta yfirlit við síðari hluta umr.

Í viðhaldskostnaði þjóðvega er innifalinn kostnaður af snjómokstri á vegum, og sá kostnaður reyndist um 29 millj. á árinu sem leið. Nú er snjómokstur ekkert vegaviðhald, og á alls ekki heima undir þessum kostnaðarlið Vegasjóðs. Hið raunverulega viðhaldsfé veganna er því þeim mun minna, sem snjómokstrinum nemur. Í þessari skýrslu segir, að settar hafi verið nýjar reglur um snjómokstur, og að með þeim hafi lengzt um helming þeir þjóðvegir, þar sem ríkissjóður borgar snjómokstur að fullu. En það er ekkert orð um það í skýrslunni, hvernig þessar reglur eru, og þó eru þær nýjar. Það má nú varla minna vera en þm. fái nú eitthvað frekari upplýsingar um þessar nýju reglur. Eða hverju eiga þm. að svara, ef íbúar einhvers héraðs spyrja þá: Greiðir Vegasjóður snjómokstur á fjallveginum hérna yfir til næsta byggðarlags? Eiga þeir þá að svara því, að þeir viti bara ekki nokkurn skapaðan hlut um það? Ég veit ekki til, að þeir geti svarað öðru. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða þjóðvegir eru það, þar sem Vegasjóður greiðir snjómokstur að fullu, hvar greiðir Vegasjóður snjómokstur að nokkrum hluta og þá hve miklum hluta, og loks, hvernig skiptist kostnaður af snjómokstri á hina einstöku vegi árið 1967?

Við upphaf núgildandi vegáætlunar fyrir þremur árum var hæstv. ríkisstj. heimiluð erlend lántaka til að bæta nokkuð úr ástandi þjóðveganna á Vestfjörðum. Þetta lánsfé var fyrirfram tryggt samkv. yfirlýsingu ríkisstj., var handbært, áður en til framkvæmda kom, a. m. k. til hverrar framkvæmdar, sem átti að vinna á því ári. Fyrstu tvö árin, 1965 og 1966, er unnið að vegagerð vestra fyrir það lánsfé, sem er tilgreint í vegáætlun. En í fyrra, á árinu 1967, bregður nokkuð út af þessu. Þá vantar 2.3 millj. kr. á það lánsfé, sem ákveðið var í vegáætlun. Og þetta bitnar allt á einum vegarkafla, Vestfjarðavegi sunnan Þingmannaheiðar. En sá vegur er eins og menn kannske vita til þess ætlaður, að leggja megi niður að fullu ruðningsveginn yfir Þingmannaheiði, sem er einn af verstu þröskuldunum í vegakerfi Vestfjarða. Nú hefur það oft komið fyrir, að frestað hefur verið um eitt ár eða svo að vinna fyrir fjárveitingu í einhverjum vegi, en féð aftur á móti lánað í annan veg til þess að ljúka þar áfanga, til þess að vegabæturnar komi sem fyrst í gagnið. Þetta er oft mjög hagkvæmt og að mínum dómi alveg réttmæt ráðstöfun. En þessu var ekki til að dreifa þarna í fyrra, hvað snertir Vestfjarðaveginn sunnan Þingmannaheiðar. Þessar 2.3 millj. kr., sem vantaði af lánsfénu í þennan Vestfjarðaveg í fyrra, munu ekki hafa verið lánaðar í neinn annan veg á Vestfjörðum. Og þetta kemur mér dálítið einkennilega fyrir sjónir að því leyti, að þarna átti féð að vera handbært og ekki standa á því, svo að ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvernig standi á því, að lánsféð í fyrrnefndan veg varð ekki nema 1.1 millj. í staðinn fyrir 3.4 millj. eins og tilgreint er í vegáætluninni. Og ég vil jafnframt spyrja hann að því, hvort þessum 2.3 millj. verður þá bætt við lánsfé, sem þessi vegakafli á að fá á þessu ári. Ef það verður gert, tel ég að fullu úr þessu bætt og ekkert við það að athuga. En ef það verður ekki gert, tel ég það slæmt. Á undanförnum þingum hefur hæstv. ríkisstj. flutt till. og fengið samþykktar hér á hv. Alþ. um heimildir sér til handa til þess að taka lán til nýbyggingar þjóðvega. Árin 1965 og 1966 er unnið fyrir það lánsfé, sem tekið var upp í vegáætlun fyrir þau ár. En í fyrra, 1967, bregður mjög út af þessu. Í vegáætlun fyrir það ár er lánsféð 138.2 millj. kr. til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta. En nú segir í þessari vegaskýrslu, að notað lánsfé á árinu hafi aðeins numið 57.6 millj. M. ö. o., það er 80.6 millj. kr. minna en vegáætlunin tilgreinir. Hér er að sjálfsögðu ekki meðtalinn hinn svokallaði kísilgúrvegur, enda fellur hann ekki inn í þjóðvegakerfið, og það er ekkert á hann minnzt í þessari vegaskýrslu, sem hér er til umr. Mér finnst þetta nokkurs konar ráðgáta, að í vegáætlun, sem afgreidd er seint í apríl í fyrra, þ. e. a. s. fyrir rúmum 9 mánuðum, eru 138 millj. ráðgerðar í lánsfé til nýbyggingar vega, en á sumrinu eru svo ekki notaðar nema 57.6 millj. Hvað kom fyrir, sem veldur því, að fyrirhugað lánsfé til nýbyggingar þjóðvega varð meira en 80 millj. kr. minna en áætlað var í vegáætluninni, alveg nýgerðri vegáætlun? Ég vona, að hæstv. ráðh. geti upplýst okkur um þetta. Nú er öllu lánsfé til vega skipt niður á ákveðna tilgreinda vegi í vegáætluninni, og menn vilja gjarnan mega treysta því, að það verði unnið fyrir þetta lánsfé, sem þar er tilgreint, alveg eins og fjárveitingar úr Vegasjóði. En þegar svona mikið ber út af, að ekki er unnið nema fyrir tiltölulega lítinn hluta af því, sem stendur í vegáætluninni, þá hljóta einhverjar sérstakar ástæður að vera fyrir því, og þá fer lítið að verða að marka þessa vegáætlun hvað lánsfé snertir, ef ekki má treysta á það. Því var nokkuð haldið á lofti s. l. vor, að á árinu mundi verða varið til vegamála í heild um 600 millj. kr., það mun margur maðurinn hafa búizt við miklum framkvæmdum fyrir svo ríflega upphæð og það eðlilega. En brúttóupphæð vegáætlunarinnar 1967 var 427.6 millj. og lánsheimildirnar, eins og ég nefndi, 138.2 millj. Þetta er há upphæð, þetta eru um 566 millj. En það skortir ansi mikið á, að þetta hafi komið til framkvæmda á árinu, og væri mjög rangt að halda því fram, þó að það hafi nú kannske verið gert. Í fyrsta lagi voru 59.3 millj. af þessu greiðsla upp í gamla skuld, halla á Vegasjóði frá fyrri árum, eins og stendur í vegáætluninni sjálfri, og ekki var framkvæmt neitt fyrir þá upphæð, þá vantar, eins og ég nefndi áðan, meira en 80 millj. upp á lánsfé. Ekkert var framkvæmt fyrir þá upphæð. Loks eru það vextir og afborganir af lánum, sem mér sýnist, að hafi verið einhvers staðar á milli 50 og 60 millj. Og svo kemur auk þess greiðsla á bráðabirgðalánum. Það eru a. m. k. einar 200 millj. af þessari háu upphæð, sem ekki koma til neinna framkvæmda á árinu, þó að þær tilheyri vegamálum, þessar upphæðir.

Í þessari vegaskýrslu er ekkert yfirlit yfir það, hvað afborganir af lánum hafi numið mikilli upphæð í heild á árinu, og ekki heldur, hvað vaxtagreiðslur af föstum lánum hafi numið miklu. Ég tel þetta verulegan galla á skýrslunni. Það skiptir þó miklu máli, hvað þetta nemur miklu, því að allar þessar upphæðir dragast frá nýbyggingarfé til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta. Hins vegar er þess getið í þessari skýrslu, að vextir og afborganir af lánum vegna Reykjanesbrautar einnar hafi numið 41.4 millj., en það er mjög nálægt því, að mér sýnist, 18% af eftirstöðvum lánsfjár til þessa eina vegar, eins og þær eftirstöðvar voru í ársbyrjun 1967. Þar með er ekki sagt, að vextir og afborganir á hverju ári verði um 18% af heildarlánunum í ársbyrjun hvert ár. Þetta fer allt eftir lánskjörum á hverju einstöku láni, og ekki síður eftir því, hve langt er komið að greiða þau niður. Nú segir í þessari skýrslu, að föst lán í ársbyrjun 1967 hafi numið samtals um 307.3 millj. kr. Ef vextir og afborganir af þessum lánum í heild væri nú hlutfallslega svipað og af Reykjanesbraut, ætti upphæðin í heild á árinu 1967, afborganir og vextir, að hafa numið 55–56 millj. kr. En ég fullyrði ekkert um það, hvort það hafi verið um 18% eða ekki. En mér þykir þó sennilegt, af því, sem ég get fengið út úr þessari skýrslu, að þessi upphæð, vextir og afborganir, hafi e. t. v. verið eitthvað lægri, kannske 53–54 millj. En um það óska ég nú upplýsinga hjá hæstv. ráðh., hvað þetta hefur numið mikilli fjárhæð. En þá kemur spurningin, hvað verða afborganir og vextir af föstum lánum 1968 há upphæð? Sú upphæð hlýtur að dragast frá nýbyggingarfénu. Um síðustu áramót voru föst lán til vega 335 millj., eins og stendur í þessari skýrslu. En svo bætist við þessa upphæð tæpar 33 millj., sem lán vegna Reykjanesbrautar hækkar vegna gengislækkunarinnar, lán, sem tekið var í dollurum. Nú veit ég ekki, hvað mikið af öðrum lánum hefur verið tekið erlendis, einhver hafa þau verið tekin, a. m. k. til Vestfjarðaveganna, og auk þess munu hafa verið tekin innlend lán með vísitöluákvæðum, þannig að afborganir og vextir hækka sjálfkrafa með vaxandi dýrtíð. Mér sýnist því vera mjög líklegt, að afborganir og vextir af föstum lánum geti orðið um 64–67 millj. kr. á árinu 1968, enda eru vaxtagreiðslurnar einar af vegalánum samkv. fjárl. fyrir þetta ár áætlaðar um 28 millj. Þetta er reyndar ágizkun hjá mér, að þessi upphæð verði svona há, en ég vil mælast til þess, að hæstv. ráðh. láti okkur í té upplýsingar um það, hvað vegamálastjórnin áætlar þessa upphæð, vexti og afborganir af lánum á árinu 1968. En ég vil ekki byggja á neinum ágizkunum frá mér, ég hef ekki full gögn í höndum til að geta sagt neitt nákvæmt um þetta. En ef þessi ágizkun reyndist nú rétt, eða eitthvað nálægt sanni, að vextir og afborganir á þessu ári verði um 64–67 millj. kr., þá er sem svarar því allt nýbyggingarféð, sem nú er á vegáætlun til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta, farið í vexti og afborganir af lánum og dugar ekki til. Þá verður ekki um annað nýbyggingarfé að ræða en það, sem fengið er með lánum. Þetta vil ég kalla ískyggilegar horfur, þegar svo er komið, að vextir og afborganir af lánum eru farín að verða hærri upphæð en hægt er að veita í nýbyggingar hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta. Nú viðurkenna menn almennt, að það þurfi að stórauka viðhaldsféð til þess að bæta vegina, en það mun varla vera um það mikill ágreiningur. Í öðru lagi er almennur áhugi og þörf á því að koma á hringveg um landið. Í þriðja lagi er orðið mjög aðkallandi, eins og hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, að gera fjölförnustu vegina úr varanlegu efni. Og loks eru enn til byggðarlög í landinu, sem búa við ófullnægjandi ruðningsvegi eða jafnvel enga vegi, til eru dæmi um það. Þótt áfram verði nú væntanlega haldið að taka lán til vega, verður þetta allt, sem ég nefndi, ekki gert fyrir lánsfé eingöngu, og meira að segja, þótt það yrði gert allt fyrir lánsfé, mundi árleg vaxta- og afborganabyrðin vaxa svo ört að auka yrði í stórum stíl fjárveitingar til þess að standa undir henni einni, því að ég býst varla við, að menn hugsi sér að taka lán bæði til allra nýbygginga og líka til að greiða vexti og afborganir af þeim lánum. Það sjá allir, hvar það mundi lenda.

Hæstv. ráðh. vék einmitt að þessum vanda hér áðan og nefndi það réttilega, að þörfin væri ákaflega mikil fyrir meira fé til vegamálanna. Nú er þetta síðasta ár vegáætlunarinnar. Á næsta þingi ber að semja vegáætlun til næstu fjögurra ára, og það verður ekki vandalaust verk að gera hana vel úr garði að óbreyttum tekjustofnum Vegasjóðs. Fyrir rúmum 4 árum tókst samkomulag allra flokka hér á hv. Alþ. um ný vegalög og verulega aukningu á fé til vegamála. Mér sýnist nú ekki minni þörf á því nú, að leitað verði eftir slíku samkomulagi allra flokka, til að leitast við að fullnægja fjárþörf vegamálanna í landinu. Ég tek undir það með hæstv. ráðh., að við erum allir sammála um þörfina á þessu, að bæta þjóðvegakerfið, og til þess þarf ákaflega mikið fjármagn. En þótt jafnvel væri ekki farið út í nýjar framkvæmdir í hraðbrautum, eins og hann var að segja, að nú væri verið að undirbúa, þó að ekki verði einu sinni farið út í það, heldur þjóðbrautir og landsbrautir og vegaviðhald bætt mikið frá því, sem er, verðum við að auka tekjustofna Vegasjóðs að miklum mun.

Ég skal ekki hafa þetta lengra að þessu sinni, en ég endurtek þau tilmæli mín til hæstv. ráðh., að það verði ekki sleginn botn nú í þessa umr. nema þá aðeins, að hann hafi á reiðum höndum svör við því, sem ég hef farið fram á að fá upplýsingar um. Það ætti ekki að þurfa að spilla neitt þessum umr., þó að þessari umr. yrði lokið eftir nokkra daga hér í Sþ., og við gætum þá fengið t. d. þau yfirlit, sem ég hef nefnt, og þær upplýsingar, sem ég bað hæstv. ráðh. um.