26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það má vera, að það sé vegna þess, hversu fáir hv. þm. eru viðstaddir, að ekki hafa fleiri kvatt sér hljóðs. En hér hafa tveir hv. þm. borið þá ósk fram, að umr. verði ekki lokið í kvöld. Ég tel alveg sjálfsagt að verða við þeirri ósk, og ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess, að ég fari nú að svara þeim fsp., sem fram hafa verið bornar og ég hef skrifað hér, enda þótt ég reikni með því, að ég hafi ekki skýrari svör eftir næstu helgi en ég hef hér í kvöld. En ég held, að ef við ætlum að vinna dálítið með því að fresta umr., sé nauðsynlegt, að hv. þm. komi fsp. til mín, við skulum segja einum degi áður heldur en umr. hefst hér á ný. (SE: Líka þessa, sem við vorum með?). Nei, það hef ég skrifað niður og því held ég, að ég gæti nú svarað, a. m. k. að mestu, en ég get ekkert ábyrgzt, hversu skýr þau svör eru, en ég efast um, að þau verði skýrari á næsta fundi, þegar málið verður tekið til umr. En mér finnst alveg sjálfsagt, að þóknast hv. þm. með því að láta umr. ekki verða lokið núna. Úr því að tveir hv. þm. hafa óskað eftir því, er sjálfsagt að verða við því, og þá verður umr. haldið áfram væntanlega á næsta fundi í Sþ., og þá vænti ég, að það verði fleiri fsp., sem komnar verða í mínar hendur, heldur en þær, sem ég nú hef fengið og þá nær frestunin tilgangi sínum.