30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Hjalti Haraldsson:

Herra forseti. Mig langar til að skjóta hér að tveim fsp. til hæstv. ráðh., áður en hann svarar því, sem hann á ósvarað.

Og þá er í fyrsta lagi það, hvort nokkrar rannsóknir hafi átt sér stað í sambandi við endurbyggingu vegarins frá Akureyri til Dalvíkur. En mér er kunnugt um það, að þegar fulltrúar Efnahagsstofnunarinnar á vegum svokallaðrar Norðurlandsáætlunar voru á ferðinni fyrir norðan, töldu þeir, að eitt mikilsverðasta verkefnið og sennilega það fyrsta, sem í þyrfti að ráðast, væri einmitt endurbygging vegarins frá Akureyri til Dalvíkur. Þá langaði mig í öðru lagi til að spyrja hann að því, hvað gert hafi verið í sambandi við samþykkt till. þeirrar, sem samþykkt var hér á síðasta Alþ., borin fram af Hirti Þórarinssyni á Tjörn, og er þannig, með leyfi forseta: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að fela Vegagerð ríkisins að láta svo fljótt sem unnt er fara fram ýtarlegar rannsóknir og tilraunir í því skyni að leiða í ljós, hvers konar tækni og tæki henta bezt til þungaflutninga hér á landi, þegar fannalög og óstöðug vetrartíð gera venjuleg samgöngutæki óvirk.“