20.03.1968
Sameinað þing: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er nú langt um liðið síðan umr. um þessa skýrslu hæstv. samgmrh. um framkvæmd vegagerðar á síðastliðnu ári hófust hér í Sþ. Um það er ekkert að sakast, en ég verð að segja, að mér finnst það mjög eðlilegt, að um þessa skýrslu verði töluverðar umr. Þetta er vissulega mál, sem alla varðar. Ástand veganna og vegamálanna er þannig, að það er ekki hægt að komast hjá því að gera þar stærri átök. Það er búið að benda á það í þessum umr., að hér gerist allt í senn á fáum árum. Bílafjöldi vex stórkostlega og þungaflutningar um vegakerfið vaxa mjög. Það er ekki heppileg þróun, að þungavöruflutningar færast svo mjög yfir á okkar veika vegakerfi eins og orðið hefur. Og það er alls ekki óhjákvæmileg þróun, sem ómögulegt er að snúa við, heldur er sú þróun að nokkru leyti heimatilbúin með því, hvernig búið hefur verið að strandsiglingunum umhverfis landið. Það hefur verið látið undir höfuð leggjast til margra ára að búa að þeim málum þannig, að unnt sé að reka strandsiglingar við Ísland á eðlilegan hátt í samræmi við breytta tíma. Við erum hér með gömul skip, sem löngu eru orðin úrelt, og við höfum enga aðstöðu hér við höfnina í Reykjavík til þess að veita eðlilega fyrirgreiðslu og eðlilega þjónustu. Og úti á landi er sama sagan, það vantar svo sannarlega alla aðstöðu til þess að vöruflutningar með skipum geti gengið með nýtízkulegum hætti. Ég ætla ekki að fara að ræða um þessi mál nú í einstökum atriðum, en þetta er ein af orsökunum fyrir því, hversu vegakerfið hefur á síðustu árum allt að því brotnað niður — og algerlega brotnað niður á sumum stöðum — og viðhald reynzt með öllu ófullnægjandi. Það mætti nefna um það mörg dæmi og leiða að því mörg rök, hversu ástandið er óviðunandi. Ég ætla ekki að fara langt út í það. Ég minni rétt á það, að endurbygging aðalsamgönguæðar Fljótsdalshéraðs, sem um leið er partur í hringvegi umhverfis landið, er í aðalleið, var hafin fyrir mörgum árum. En það hægir alltaf á framkvæmdum við þetta verk, það þokast áfram um nokkur hundruð metra á hverju ári, og er þetta þó einhver allra brýnasta og nauðsynlegasta samgönguleið í Austfirðingafjórðungi. Ég skal aðeins nefna eitt eða tvö dæmi önnur um það, hversu hægt gengur og þunglega horfir. Allir, sem ferðast hafa um Austurland, vita það, hversu vegurinn umhverfis Berufjörð er bágborinn, en þar hefur það gerzt, að fyrir 15 árum eða um það bil, var formað fyrir nýjum vegi og grafinn vegarskurður á 6–7 km kafla. En það hefur ekki þótt fært enn í dag að hefja aðrar framkvæmdir á þessum slóðum. Þetta er einhver allra veikasti hlekkurinn í leiðinni frá Reykjavík norður og austur um til Hornafjarðar og er þetta þó mjög þýðingarmikil leið einnig heima fyrir, og m. a. að því leyti, að læknir þarf að fara um þessa leið. Þannig er það einnig, ef farið er út fyrir aðalleiðir, nema þar er kannske enn þá verra ástand vegarins. Og með svipuðu áframhaldi og verið hefur að undanförnu sjáum við fram á óralanga bið, að vegur komi á ýmsa þá staði, sem eru út úr aðalleið, en þó þannig settir, að enginn vill stefna að því að leggja þar niður byggð. Mér kemur þar sérstaklega til hugar vegur um Efra Jökuldal. Ég fór þann veg í vor, í júní, og ég trúi, að það hafi verið komið langt fram í júní, þegar nokkur tiltök voru að flytja áburð upp á Efra-Dal. Það var ekki hægt að sjá, að í þeim vegi væri nokkur möl heldur var hann eitt moldarsvað að undanskildum tiltölulega stuttum köflum, sem búið er að byggja upp, og það er ægileg tilhugsun, hvað manni sýnist það verði langt þangað til, með sama áframhaldi og verið hefur, að hægt sé að sinna vegum eins og þessum, sem er þó auðvitað ekkert einsdæmi. Þó að ég nefni hann sem dæmi, þá er það aðeins eitt af mörgum.

Ég held, að ég hafi, þegar ég talaði í þessu máli áður, minnzt á vandamál viðhaldsins. En ég man ekki til þess, að það kæmi fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann hefði gefið gaum að þeim orðum, sem ég lét falla í sambandi við það mál. Það er sjálfsagt mismunandi eftir landshlutum og eftir héruðum, hvernig viðhaldi vega er háttað. En ég er nákunnugur í stórum landshluta, og ég veit, að þegar vegir voru orðnir þurrir, svona þegar kom fram í miðjan júlí, var svo til alveg búið að nota allt viðhaldsfé, sem ætlað var til ársins í báðum Múlasýslum, sem mun hafa verið liðlega 8 millj. kr. Ég veit ekki, hvort hv. þm., sem mál mitt heyra, er yfirleitt ljóst, hvað þarna hefur gerzt. Þarna gerist það í örfáum orðum sagt, að þessari miklu fjárfúlgu er varið við skulum segja af óhjákvæmilegri nauðsyn til þess að gera mönnum fært að komast um vegina svo fljótt sem mögulegt var, með alls konar nauðsynlega umferð. Allri þessari fjárfúlgu er sem sagt varið á þeim tíma, þegar raunverulega er ómögulegt að vinna með nokkrum viðunandi árangri að vegagerð. Henni er sökkt ofan í botnlaust forarsvaðið á þjóðvegunum eystra. Það gerist allt í senn, þegar unnið er undir þessum skilyrðum, að umferðin um þá kafla vegarins, sem uppi hanga, stórskemmir vegina, að bíll með hvert malarhlass er ekki tvisvar sinnum lengur, heldur mörgum sinnum lengur að fara með hvert hlass heldur en hann væri á þeim tíma, þegar vegurinn er í ökufæru ásigkomulagi, og í þriðja lagi, að í stað fyrir að mölinni, sem ekið er í veginn, myndi samfellt og nokkuð varanlegt burðarlag, hverfur hún ofan í forina. Og sama sagan endurtekur sig svo aftur á næsta ári á sama stað. Þetta álít ég svo alvarlegt ástand og svo mikla sjálfheldu, sem viðhaldsframkvæmdirnar eru komnar í, að menn verði að horfast í augu við þetta og leitast við að finna leiðir til að komast út úr þessari sjálfheldu, og á þann hátt, að afla sérstaks fjár til þess að vinna að viðhaldi að nokkrum hluta á þeim tíma, þegar eitthvað verulegt sést eftir það fé sem notað er. Ég vildi enn vekja athygli á þessu vandamáli og af því tilefni, að mér virtist hæstv. ráðh. ekki gefa þeim orðum gaum, sem ég lét falla um þetta efni fyrr við þessar umr.

Það eru vissulega stórar fúlgur, sem varið er til viðhalds veganna, þó að þær séu ekki nægilega háar, til þess að vegakerfið sé í sæmilegu ásigkomulagi. En þær eru a. m. k. nægilega háar til þess, að það væri ástæða til þess, að mínum dómi, að gera hv. Alþ. nokkuð gleggri grein fyrir skiptingu þess fjár heldur en gert er í þeirri skýrslu, sem lögð hefur verið fyrir og hér hefur verið til umr. Það er sjálfsagt rétt, að það er erfitt og kannske ekki framkvæmanlegt að skipta viðhaldsfénu upp í áætlun, enda hygg ég, að ekki hafi verið farið fram á það, en það breytir ekki hinu, að það á að vera hægt, það er eðlilegt, að upplýsingar séu gefnar um það, hvernig viðhaldsféð skiptist, þegar upp er gert að árslokum. Okkur hefur verið sagt, að ákveðnar reglur gildi um snjómokstur, a. m. k. að vissu marki, og það séu ákveðnir vegir, þar sem snjómokstur sé greiddur að fullu af ríkissjóði, en aftur aðrir, þar sem önnur tilhögun er á þeim málum höfð. Það hefur ekki svo ég viti til komið fram eða verið upplýst í þessum umr., hvaða reglum er fylgt að þessu leyti. En ég held, að það væri mjög æskilegt að fá það hreinlega upplýst, eftir hvaða reglum er farið, þegar það er ákveðið, hvaða vegi er heimilt að moka fyrir ríkisfé að fullu. Ég held, að það sé heppilegt, að þetta sé upplýst og það geti eytt tortryggni, sem e. t. v. kann að vera ástæðulaus.

Hv. 1. þm. Vestf. ræddi hér nokkuð um lánsheimildirnar í hinni endurskoðuðu vegáætlun og hversu þær hafa verið notaðar, og ég get alveg tekið undir það, sem hv. þm. sagði um þetta efni. Alþ. hefur sett ákveðna áætlun um framkvæmdir í vegagerð, áætlun, sem á að gilda til fjögurra ára, þar sem verkefnum er raðað upp af mikilli nákvæmni, síðan setur Alþ. við endurskoðun þessarar áætlunar að hálfnuðum þeim tíma, veitir Alþ. heimildir til lántöku í marga vegi víðs vegar á landinu. Það er varla hugsanlegt, að það sé tilgangur Alþ., eftir að hafa raðað verkefnum í vegagerð í heildaráætlun, að veita síðan heimildir til lántöku í marga vegi. Það er varla hugsanlegt, að það sé tilgangur Alþ. með þessu, að síðan skuli ríkisstj. nota þessar heimildir algerlega eftir sínum geðþótta. Það hlýtur að vera tilgangur Alþ. með þessari lagasetningu, að ríkisstj., leitist nú við að nota lánsheimildina. Og að ég nú ekki tali um það, hvers fólkið, sem á að búa við vegina, væntir af svona lagasmíð, og hver þörfin er í raun og veru í vegakerfinu, því að það er hvort tveggja alveg ótvírætt. Þetta var hins vegar ekki gert. Það voru notaðar nokkrar af þessum heimildum, en ekki nema örfáar og það hefur ekki, svo að ég hafi tekið eftir, komið hér fram, eftir hvaða forsendum er valið úr heimildunum. Það hefur ekki komið fram, og það hefði þó verið full ástæða til þess, að hæstv. ráðh. hefði gert ýtarlega grein fyrir því, hvers vegna þessi heimildin var notuð og hvers vegna hin ekki. Ég held, að ég hafi spurzt fyrir um það hér áður, hvað fyrirhugað væri hjá hæstv. ríkisstj. varðandi áminnztar heimildir, hvað fyrirhugað væri annars vegar um heimildir, sem sérstaklega eru bundnar við árið í ár 1968, hvort hún hygðist nota þær yfirleitt, ef fé fengizt að láni, og hins vegar, hvað hugsað er um þær heimildir, sem ónotaðar voru fyrir s. l. ár, 1967, hvort ríkisstj. telur þær enn í gildi, telur sér enn heimilt að taka lán eftir þeim og hvort hún hyggst gera það að einhverju leyti. Ég vil leyfa mér að árétta þessar spurningar og vænti þess, að hæstv. ráðh. treysti sér til að gefa svör við þeim.

Ég hafði vænzt þess, að í þessum umr. kæmi eitthvað fram um það, hvað framundan er, og hvað fyrirhugað er að gera af hálfu hæstv. ríkisstj. í fjármögnun vegagerðarinnar á næsta áfanga. Það hefur enn ekki neitt komið fram um það efni, en e. t. v. kemur það að einhverju leyti í dagsljósið við lokaumr. þessa máls. Það er þegar búið að taka nokkur lán og lántökurnar auðvitað flýta fyrir vegagerðinni, en hitt er jafnljóst, að síðan þarf að afla fjár til að standa undir greiðslum af þeim. Og alla vega lagað er þarna mikill vandi framundan. Ég spurðist fyrir um það einnig, þegar ég talaði í þessu máli áður, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsaði sér að vinna að undirbúningi nýrrar vegáætlunar. Hæstv. ráðh. sagði, að hann óskaði góðs samstarfs um það mál og það er auðvitað gott út af fyrir sig. Það er á valdi hæstv. ríkisstj. að forma það samstarf með ýmsu móti. Og það er hægt að stofna til þess þannig, að þar verði um að ræða raunverulegt samstarf milli stjórnarliðs og stjórnarandstöðu, og einnig á hinn bóginn, að það sé ekki nema til málamynda. Mér þætti vænt um að heyra það frá hæstv. ráðh., hvort hann hefur hugsað sér, að t. d. beita sér fyrir því, að sett verði samstarfsnefnd í málið ellegar haft eitthvert annað form, sem gæfi stjórnarandstöðunni kost á því raunverulega að fylgjast með við undirbúning og gerð nýrrar fjögurra ára áætlunar. Mér virðist, að þessar umr., sem fram hafa farið um skýrslu samgmrh. um vegaframkvæmdir, staðfesta það alveg afdráttarlaust og eindregið, að það er nauðsynlegt að gera heildaráætlun um uppbyggingu vegakerfisins alls, jafnframt því sem gerðar eru framkvæmdaáætlanir til færri ára. Mér virðist það nánast óhugsandi að láta alveg skeika að sköpuðu um þá vegakafla, sem fyrirsjáanlegt er, að lengst þurfa að bíða uppbyggingar. Mér virðist það alveg óhugsandi að láta skeika að sköpuðu um þá kafla, heldur að verði að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að þeir haldist þó nothæfir á meðan þeir þurfa að bíða eftir uppbyggingu. Og mér virðist það einnig vera algerlega óviðunandi handahófsaðferð, sem beitt var á s. l. ári við notkun lánsheimilda vegna vegagerðar, svo sem mikið hefur verið að hér áður.

Ég held, að ég hafi þessi orð svo ekki fleiri, en ég vil segja það að lokum og leggja áherzlu á það, að ég tel það töluvert mikið atriði, að þm. stjórnarandstöðunnar verði gefinn kostur á því að fylgjast með og vinna að undirbúningi nýrrar vegáætlunar. Ég tel það mjög mikilvægt atriði.