18.04.1968
Sameinað þing: 54. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1968

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til þess að benda á, hvílík fjarstæða meðferðin á þessu málefni er. En áður en ég kem að því, vildi ég segja, að auðvitað gæti verið ástæða til þess að gera aths. við æðimargt af þeim ályktunum, sem koma fram í því plaggi, sem hæstv. ráðh. las, og raunar líka upplýsingarnar. En ef út í það væri farið núna, yrði það endurtekning að verulegu leyti á því, sem áður hefur verið sagt hér á hv. Alþ., sumt af því oftar en einu sinni, í sambandi við meðferð ýmissa mála undanfarið. Ennfremur yrði það að nokkru leyti, og sjálfsagt jafnvel að mestu leyti, endurtekning á því, sem sett verður fram í þeim almennu stjórnmálaumr., sem fara fram á hv. Alþ. þessa dagana. Mun ég sleppa því að ræða almennt um þessi málefni, en benda þó á það, sem mér fannst einna merkast í því, sem þarna kom fram og hafði raunar komið fram áður í sambandi við önnur þingmál, eða annað þingmál sérstaklega, en það er þetta, að nú er svo komið, að hæstv. ríkisstj. telur ekki fært að halda uppi almennum opinberum framkvæmdum nema með stórfelldum erlendum lántökum. Þ. á m. framkvæmdum, sem ég hygg, að engum hefði dottið í hug að sækja erlend lán til fyrir nokkru. Þetta er ástæða til þess að strika undir enn, og ræði ég það ekki nánar.

Það er mjög erfitt að átta sig á því, hvernig þær framkvæmdir sem hér eru fyrirhugaðar, muni duga til þess að halda uppi fullri atvinnu í landinu. Það er ákaflega erfitt að átta sig á því, en ég vil leggja áherzlu á, að stefnan þurfi að vera sú að halda uppi fullri atvinnu, og ef það sýnir sig á næstunni, að þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun og ákvörðunum, sem teknar hafa verið fram að þessu, — ef það sýnir sig, að þær reynast ekki megnugar þess að halda uppi fullri atvinnu, þá vil ég leggja áherzlu á, að það verði ráðizt í viðbótarframkvæmdir og það svo að því marki verði að fullu náð.

Ég vil í því sambandi alveg sérstaklega benda á þann kvíða, sem herjar á marga varðandi atvinnu fyrir unga fólkið, unglingana, á því sumri, sem í hönd fer. Það er verkefni, sem þyrfti að taka til sérstakrar skoðunar, og er í raun og veru eitt af því, sem orðið hefur útundan á þessu Alþ. að finna tök á. Er raunar eitt af því, sem hefði þurft að vinna að áfram á þessu þingi, ásamt ýmsum ráðstöfunum fyrir atvinnuvegina, sem enn eru ógerðar og till. liggja fyrir um sumar hverjar. Ég legg áherzlu á þetta atriði.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé þægilegt fyrir hv. þm. að átta sig á þessu, sem hér er borið fram. T. d. eru í þessari framkvæmdaáætlun í raun og veru innifaldar áætlanir um starfsemi allra fjárfestingarsjóðanna. Og mér er sérstaklega kunnugt um það, af því ég á sæti í stjórn Framkvæmdasjóðs, að þessar áætlanir, sem hér eru innifaldar um lánveitingar einstakra sjóða, eru sumar mjög knappar, þannig að þar er gert ráð fyrir því, að ekki verði unnt að sinna ýmsum mjög mikilsverðum verkefnum.

Í því sambandi vil ég t. d. nefna stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem nú heitir aftur Fiskveiðasjóður eins og áður, að mér sýnist af þeim áætlunum, sem ég hef getað kynnt mér varðandi þá stofnun, að þar verði mjög knappt um lánsfé, og ég nefni tvö dæmi um það, sem getur orðið út undan, þegar þannig er ástatt. Ég veit dæmi þess, að hægt væri að koma á stórfelldri hagræðingu í atvinnurekstri, ef unnt væri að fá lánsfé í stofnkostnað til að hrinda slíku í framkvæmd. Ég nefni sem sé tvö dæmi og þau bæði úr fyrirtækjum, sem ég er kunnugur, af því ég sit í stjórn þeirra.

Annað dæmið er um niðursuðuverksmiðju ríkisins, sem hefur stundað niðurlagningu um nokkur ár. Það hefur ekki verið mögulegt að fá fjármuni þar til þess að búa verksmiðjuna í verjandi horf. Þó er þetta tilraunaverksmiðja, sem Íslendingar eiga stórkostlega mikið undir, hvernig farnast. Það hefur ekki verið hægt að fá smálán til þess að koma þessu fyrirtæki sæmilega á laggir. T. d. þyrfti að fá 5–6millj. í þetta fyrirtæki til þess að byggja geymslu fyrir hráefnið, en öll starfsemi þess er verulega lömuð vegna þess að hráefnisgeymslurnar eru ekki í lagi, en það verkar á alla afkomu fyrirtækisins og alla framleiðslu. Þetta hefur ekki fengizt, og það eru helzt horfur á því, að þetta fáist ekki enn frá stofnlánakerfinu. Svona knappt er skorið í þessum áætlunum, þó hér sé gert ráð fyrir stórfelldum erlendum lántökum í almennar framkvæmdir.

Ég nefni annað dæmi, sem er líka á vegum fyrirtækis, sem ég á þátt í að stjórna, það eru Síldarverksmiðjur ríkisins. Þar væri hægt að koma við núna verulegum sparnaði í rekstrinum, sem gæti haft áhrif á hráefnisverðið, ef hægt væri að fá nokkra milljónatugi til þess að leggja þar í framkvæmdir til hagræðingar. En það eru helzt horfur á því í dag, að þetta sé með öllu ófáanlegt.

Þetta er dæmi um tvö fyrirtæki, sem ég þekki til og svo stendur á um, að ég sit í stjórn þeirra, og það má nærri geta, að það úir og grúir af svona dæmum í öllum atvinnurekstri landsmanna. En það fæst ekki úr bætt fyrir skort á lánsfé, og hér er það svo knappt skorið, að nálega engin átök verður mögulegt að gera í þessu mikilsverða efni.

Það sama mætti segja um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Mér er kunnugt um, að þar er áætlunin svo knöpp, að það verður með engu móti mögulegt að sinna sumum af þeim allra brýnustu verkefnum, sem sú lánadeild þyrfti að styðja, ekki sízt í sambandi við ýmiss konar fyrirtæki, sem vinna á vegum landbúnaðarins.

Veðdeild Búnaðarbankans er ætlað, ef ég man rétt, allt að því helmingi minna fé heldur en á því ári, sem nú er að líða, og hefur þó mörgum fundizt nóg um, hvernig þar hefur gengið um lánveitingar, og má fara nærri um, hvað framundan er, miðað við slíkar áætlanir.

Þannig mætti halda áfram að telja, en allir þessir áætlunarliðir eru inni í þessum frumskógi, sem menn fengu ofurlitla hugmynd um af því langa máli, sem hæstv. ráðh. las. Það er alveg augljóst öllum þeim, sem hafa haft eitthvert tækifæri til að kynna sér þessi mál, að það vantar stórlega fjármuni í ýmislegt af því brýnasta, og þyrfti að leggja meira lánsfé fram en gert er. Ég nefni þetta aðeins til ábendingar. Hér er ekki um þingmál að ræða, því hvorki er hér þáltill. né lagafrv. Búið er að ganga frá þeim lagaheimildum, sem hæstv. stjórn vill fá í þessu sambandi, en samt vildi ég benda mönnum á þetta.

Ég hef hreyft þessum málum, sem ég er að ræða hér, nokkuð í stjórn Framkvæmdasjóðs, og skal ekki segja, hvort þar fást einhverjar undirtektir við að reyna að útvega meira fé en gert er ráð fyrir í þeim plöggum, sem enn liggja fyrir. Það er ekki búið að taka ákvarðanir um það, en ég vildi koma þessum bendingum hér á framfæri til þess að sýna mönnum, hversu margþætt þetta mál er og yfirgripsmikið, og hversu erfitt er fyrir hv. alþm. að átta sig á því, sem er að gerast.

Þá vil ég koma að því, sem var ekki sízt erindi mitt hingað, en það var að finna að því, hvernig á þessu máli er haldið. Ég sagði áðan, að mér fyndist það hrein fjarstæða. Í raun og veru ætti þetta mál, þ. e. a. s. framkvæmdaáætlun, sem er nú mest áætlun um opinberar framkvæmdir, að fylgja frv. ríkisstj. um lánamálin, lánafjárl. sem ég hef kallað, og það er algjör afturfótafæðing að láta það frv. ganga á undan, keyra það í gegnum þingið fyrst og koma síðar fram með þessar upplýsingar, sem í raun og veru er grg. fyrir lánafrv.

Þann hátt ætti einnig að taka upp í þessu efni að láta frv. um lántökuheimildirnar annaðhvort fylgja fjárl.frv. eða í allra síðasta lagi koma fram í beinu framhaldi af fjárl., og því frv. ætti að fylgja grg. af því tagi, sem hæstv. ráðh. hér flutti og hann kallaði framkvæmdaáætlun fyrir 1968.

Ég vil vona, að Alþ. verði ekki oftar boðið upp á vinnubrögð af þessu tagi, — hreinlega ekki, því vitaskuld er þetta móðgandi. Það er hreinlega móðgandi að haga þessu á þessa lund. Maður skilur ekki, hvers vegna ekki er hægt að koma þessu öðruvísi fyrir. Hvers vegna í ósköpunum var ekki a. m. k. hægt að leggja þetta, sem hér er nú verið að lesa, fyrir þm., áður eða a. m. k. um leið og lánafrv. kom fram seint og um síðir? Það hefði þó verið viðleitni, gengið í áttina til þess að sýna Alþ. hæfilega virðingu. En þó hefði það ekki verið fullnægjandi, heldur eingöngu hitt, að þetta hefði komið allt fram fyrr og tengzt fjárl.

Ég hef nú heyrt yfirlýsingar frá hæstv. fjmrh. í þá átt, að hann vilji bæta úr þessu, og ég vil treysta því, að hann leggi sig fram um það, ef hann verður eitthvað áfram við þetta, að hann vilji þá leggja sig fram um að fá úr þessu bætt. Ég vil einnig benda hæstv. ráðh. á það, að það væri miklu eðlilegra að prenta þessa áætlun, og láta útbýta henni til þm. og væri hún síðan tekin á dagskrá, og hæstv. ráðh. gerði þá grein fyrir henni í ræðu eða legði út af henni. Þá væri kannske hægt að ætlast til þess, að þm. gætu rætt um þetta af einhverju yfirliti og komið fram með það, sem þeir raunverulega vildu segja. En eins og á þessu er haldið er það með öllu óhugsandi, enda gefur það auga leið, að hæstv. ráðh. tókst nálega að tæma þingsalinn, þó hann væri að lesa upp hvorki meira né minna en framkvæmdaáætlun ársins 1968. Ég veit ekki, hvort menn fara út í mótmælaskyni eða hvers vegna eða hreinlega vegna þess, að það er enginn vegur fyrir nokkurn mann að botna nokkurn skapaðan hlut í þessu, eins og þetta er látið bera að. Og ég hygg, að það hafi verið fyrst og fremst þetta síðara sem olli því að hæstv. ráðh. tókst að ryðja salinn, en ekki hitt, að menn hafi ekki brennandi áhuga fyrir því, hvað á að gera.

Ég vil ekki fara að ræða hér almennt um efnahagsmálastefnuna, ekki eyða tíma í að endurtaka það, sem er verið að segja um það efni í öðrum umræðum, en einvörðungu láta við þetta sitja, benda á þessi fáu atriði og sérstaklega finna að málsmeðferðinni og eggja hæstv. ráðh. á að bæta úr þessu.

Það er svo líka táknrænt fyrir þetta allt, að þegar við vorum að setjast niður til þess að hlusta á hæstv. ráðh., þá liggur hér þykkt, gult umslag á borðinu, bréf frá Efnahagsstofnuninni, dags. 18. apríl, og þar eru till. sérfræðings Alþjóðabankans um áætlunargerð á Íslandi og till. Efnahagsstofnunarinnar um fyrirkomulag þeirra mála í framhaldi af þessum bendingum. Þetta er allt lagt fyrir um leið og hæstv. ráðh. er að hefja mál sitt, í stað þess að þetta hefði átt að vera komið til manna fyrir nokkrum dögum, svo menn hefðu getað lesið þetta, þótt annríki væri mikið, og hér hefðu þá getað farið fram skynsamlegar umræður um þessi málefni, sem hefðu verið virðingu Alþ. samboðnar, en því er nú ekki að heilsa.