19.04.1968
Sameinað þing: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

Skýrsla utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Í tilefni af skýrslu hæstv. utanrrh. þykir mér rétt að segja hér fáein orð og gera örstutta grein fyrir afstöðu Framsfl. til þeirra mála, sem hér hafa verið rædd.

Ég vil fyrst taka það fram, að ég tel mjög nauðsynlegt, að skýrslur um utanríkismál almennt séu gefnar hér á Alþ. og að umr. fari fram um þau þar, ekki umr., sem ætlað er að standa í einn eða tvo klukkutíma, heldur umr., sem ættu að geta staðið í 2–3 daga, eftir því sem þörf krefði.

Það þarf ekki að fjölyrða um þá þýðingu, sem meðferð utanríkismálanna hefur fyrir hvert ríki nú á dögum, ekkert síður fyrir Ísland en önnur ríki, ekki síður fyrir smáríki heldur en stórþjóðir, jafnvel öllu frekar. Og það þarf ekki heldur að orðlengja um það, að samkv. okkar stjórnskipunarháttum er til þess ætlazt, að Alþ. hafi áhrif á, fylgist með og móti utanríkisstefnuna. Því til stuðnings má bæði benda á ákvæði í stjórnarskrá og í þingsköpum. Það er beinlínis boðið í stjórnarskránni að allir mikilvægir milliríkjasamningar skuli lagðir fyrir Alþ. og leitað sé samþykkis þess á þeim. Og í l. um þingsköpin eru ákvæði um utanrmn. sem gera skýlaust ráð fyrir því, að öll mikilvæg utanríkismál, jafnt um þingtímann sem utan þings, séu borin undir utanrmn. Það er þess vegna engum vafa undirorpið, að það er ætlazt til þess, að Alþ. hafi aðstöðu til þess í gegnum utanrmn. að fylgjast með öllum mikilvægum utanríkismálum og hafa áhrif á stefnu þá, sem fram er fylgt á hverjum tíma í utanríkismálum. Þetta er sjálfsögð regla, því að svo þýðingarmikil eru utanríkismálin. Og utanríkismálin nú eru orðin margs konar. Við eigum svo margs konar skipti við aðrar þjóðir. M. a. tökum við þátt í ýmsu alþjóðlegu samstarfi og það í vaxandi mæli. Við sendum fulltrúa á ýmiss konar ráðstefnur, og þar verða þeir að taka afstöðu til mála, greiða atkv. o. s. frv. Það er sjálfsagt, að það sé gerð grein fyrir því, hvernig þeir hafa staðið að málum á þessum vettvangi, og Alþ. fái aðstöðu til þess að fylgjast með því. Þetta þykir raunar sjálfsögð regla víðast hvar á þjóðþingum, að þeim séu gefnar þannig skýrslur um utanríkismál. Þeim háttum er fylgt, að ég ætla, t. d. á þjóðþingum á Norðurlöndum. Þar eru ekki aðeins rædd utanríkismál almennt, heldur ætla ég, að þar séu lagðar fyrir þingið skýrslur um t. d. starfsemi Sameinuðu þjóðanna, starfsemi Norðurlandaráðs o. s. frv. og það sé a. m. k. tækifæri til þess að ræða þau mál.

Ég hef áður lagt áherzlu á, að þessir starfshættir væru teknir upp hér á Alþ. Ég hef á sínum tíma flutt þáltill. um það. Það gleður mig að heyra, að hæstv. utanrrh. er mér sammála um þetta, og ég vil gjarnan viðurkenna það, og hann á hrós skilið fyrir það, að hann hefur að ýmsu leyti sýnt viðleitni til þess að taka upp aðra starfshætti en fyrirrennari hans í þessum efnum. Þannig hefur hann sýnt viðleitni til þess að taka upp betri samvinnu við utanrmn. heldur en áður hefur átt sér stað, bæði með því að stuðla að því og samþykkja, að þar verði fundir haldnir reglulega, og eins með því að leggja fyrir utanrmn. þýðingarmiklar skýrslur. Fyrir þetta vil ég út af fyrir sig þakka og vona, að það verði framhald á því og að honum megi auðnast að koma þessum málum í betra horf. Hann gaf einnig fyrirheit um það, að hann mundi vinna að því, að sá háttur yrði framvegis upp tekinn hér á þingi, að skýrslur yrðu gefnar um utanríkismál og Alþ. veitt færi á því að ræða þau.

En um þá skýrslu, sem hér er lögð fram, verð ég því miður að segja það, að hún er á engan hátt fullnægjandi sem skýrsla um utanríkismál, enda er hún aðeins skýrsla um tvö mál. Og eins og hv. síðasti ræðumaður drap hér á er það að öllu leyti mjög ófullnægjandi að taka utanríkismál og reyndar þessi tvö mál, sem hér eru rædd, svo þýðingarmikil sem þau eru, til umr. á næstsíðasta degi þingsins, þegar kl. er orðin 5 og þegar ekki nokkurt svigrúm, sem gagn er að, gefst til þess að ræða svo mikilvægt mál. Það verður að ætla, að fyrr á þessu þingi hefði gefizt tóm til að taka þessi mál til meðferðar. Þetta verð ég út af fyrir sig að átelja, að þessi háttur skuli hafður á, þótt að vísu megi segja, að betra sé seint en aldrei. En í annan stað er þetta auðvitað ekki fullnægjandi skýrsla um utanríkismál, eins og ég sagði, af því að hér er aðeins um að ræða tvö mál, að vísu mjög þýðingarmikil mál, þ. e. a. s. um þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu og um dvöl varnarliðsins á Íslandi. En auðvitað er það svo, að við erum aðilar í margvíslegu öðru samstarfi þjóða og alþjóðasamstarfi og alþjóðasamtökum, sem vissulega væri ástæða til að ræða á Alþ. En um þessi tvö mál ætla ég aðeins að segja fáein orð. Ég vil taka það skýrt fram og undirstrika það, að ég tel hér vera um tvö mál að ræða, sem ekki megi blanda saman, þó að á milli þeirra séu vissulega tengsl.

Afstaða Framsfl. til Atlantshafsbandalagsins er sú, að við framsóknarmenn teljum, að að óbreyttum aðstæðum eigi Ísland að vera aðili að Atlantshafsbandalaginu. Það er mín skoðun. Ég ætla ekki hér að fara að rekja aðdragandann að stofnun Atlantshafsbandalagsins, enda vék hæstv. utanrrh. að því og það yrði allt of langt mál hér. En ég get að mestu leyti tekið undir það, sem hann sagði um það, hver var aðdragandi að stofnun Atlantshafsbandalagsins, og hefði þó í sjálfu sér mátt gera miklu lengri grein fyrir því. En það er í stuttu máli mín skoðun, að þessi varnarsamtök hafi á starfstíma sínum stuðlað að valdajafnvægi hér í Evrópu. Það er staðreynd, að á þeim tíma hefur ekki orðið ófriður á þessu svæði. Það átti að verða hlutverk Sameinuðu þjóðanna að halda uppi alþjóðafriði og hafa á hendi eins konar löggæzlu og lögreglustörf í heiminum. En það sýndi sig fljótt, að starfsemi Sameinuðu þjóðanna komst aldrei í það horf, sem hinir bjartsýnustu menn höfðu gert ráð fyrir og búizt var við, og Sameinuðu þjóðirnar fengu aldrei þá aðstöðu, sem gert var ráð fyrir í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, til þess að halda uppi friði í heiminum. Þess vegna var gripið til þess ráðs að stofna varnarbandalög samkv. þeim rétti, sem ríkjunum er til þess veittur í 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna. En eftir sem áður má segja, að Sameinuðu þjóðirnar hafi bæði rétt og skyldu til þess að grípa inn í hverja þá deilu, sem þessi varnarbandalög væru aðilar að, ef og þegar Sameinuðu þjóðirnar hafa til þess getu.

En þó að þessi sé afstaða Framsfl., að Ísland eigi að óbreyttum aðstæðum að taka þátt í þessu bandalagi, þá er það vitaskuld svo, að samkv. eðli málsins hlýtur Ísland að hafa þarna allmikla sérstöðu, þar sem hér er fyrst og fremst um varnarbandalag að ræða, um hernaðarbandalag að tefla, en Íslandi eru þau málefni heldur fjarlæg. Við framsóknarmenn teljum, að það verði að sjálfsögðu að fylgjast sem bezt með í málefnum bandalagsins og þróun alþjóðamála og það eigi að taka til athugunar, þegar sá tími er kominn, að hægt er að segja sig úr þessu bandalagi, hvort Ísland eigi að vera þar áfram. Og það verður jafnan, eftir að sá tími er kominn, að fylgjast vel með í þeim efnum, því að hvenær sem er eftir það er tækifæri til að segja skilið við þessi samtök, ef ástæða er til þess talin. Og í því sambandi tel ég sjálfsagt fyrir okkur Íslendinga að gefa því mjög rækilega gaum, hver verður afstaða þeirra Norðurlandaþjóða, sem þátt hafa tekið í Atlantshafsbandalaginu, Danmerkur og Noregs, og ekki hvað sízt Danmerkur, þar sem svo stendur á, að forsrh. er nú úr þeim flokki, sem áður fyrr hafði þá afstöðu að vera andvígur þátttöku í þessum samtökum. Ég tel rétt, að utanrmn. hafi með höndum að fylgjast með í þessum málum og henni sé veitt aðstaða til þess. Það er vitað, að það fer fram athugun á þessum málum með öðrum þjóðum, og ég efast ekki um, að utanrrh. muni vilja vinna með utanrmn. í þessu efni og gefa henni færi á að fylgjast með í þessum málefnum.

Þá kem ég að hinu málinu, og það er dvöl varnarliðsins hér á landi. Þar vil ég fyrst undirstrika, að það er greinilegt, að dvöl varnarliðs hér á landi er engan veginn nein sjálfsögð né óhjákvæmileg afleiðing af þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, því að það er, eins og menn muna og hér var reyndar rakið áðan, að það var gerð grein fyrir sérstöðu Íslands, þegar Ísland gerðist þátttakandi í Atlantshafsbandalaginu, og þá gerður sérstakur fyrirvari, sem að meginefni til var á þá lund, að hér á landi yrði ekki her á friðartímum, að það væri algerlega á valdi Íslendinga sjálfra, hvenær hér væri herlið, og í þriðja lagi, að Ísland hefði ekki her og ætlaði sér ekki að stofna her. Með þessum skilyrðum þótti fært að veita Íslandi aðild að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma. Og þegar gengið var í bandalagið, var alls ekki ætlazt til þess, að hér yrði herlið. En það var svo síðar, að þessi varnarsamningur var gerður við Bandaríkin, og af þeim ástæðum, sem hæstv. utanrrh. rakti og ég skal hér ekki endurtaka.

En sá skilningur Alþ., að dvöl varnarliðsins ætti ekki að vera varanleg hér á landi, kom fljótlega til sögu, eins og líka hæstv. utanrrh. rakti, því að það var þegar á árinu 1956, að gerð var sú ályktun af Alþingis hálfu um þetta mál, sem hann fjallaði um. Að þeirri ályktun stóðu, ef ég man rétt, þrír flokkar hér á Alþ., og ef ég man rétt, var fyrsti hvatamaðurinn eða hvataflokkurinn að þessari samþykkt flokkur hæstv. utanrrh., Alþfl., því að ef mig misminnir ekki, voru það Alþfl.-menn, sem fluttu þessa till., sem síðar að vísu í breyttu formi var samþ. hér af Alþ. Þetta var því viðhorfið þá á Alþ., og þetta var undirstrikað sem sagt nokkrum árum eftir að varnarliðið kom hingað, að það ætti héðan að hverfa en ekki hafa hér á landi neina varanlega dvöl.

En síðan gerðust þeir atburðir, að ekki þótti fært að láta varnarliðið þá hverfa af landi, og rek ég ekki þá sögu, enda gerði hæstv. utanrrh. grein fyrir þeim ástæðum, sem til þess lágu. En ég efast ekki eitt augnablik um það, að ef þeir atburðir hefðu þá ekki gerzt, sem áttu sér stað í heiminum, hefði þessari yfirlýsingu verið fylgt eftir og varnarliðið hefði horfið úr landi þá.

Viðvíkjandi dvöl varnarliðsins er það stefna Framsfl., eins og ég vék að í útvarpsræðu hér fyrir 1–2 dögum, að Framsfl. telur það tímabært, að varnarliðið hverfi úr landi. Það er að vísu svo, að það er ákaflega teygjanlegt og verður lengi deilt um, hvenær séu friðartímar í heiminum. En ég ætla, að okkur verði hollast að skilja það svo, að þar sé nú fyrst og fremst Evrópa höfð í huga og að það muni seint koma sú tíð, er friður ríkir um alla veröld, og ef sá skilningur verður lagður í friðartíma, þá yrði seint fært að láta varnarliðið hverfa héðan úr landi.

Í annan stað er það, að eftir að þessi varnarliðssamningur var gerður, hafa orðið, eins og öllum er kunnugt, mjög miklar breytingar í ýmissi hernaðartækni, og þarf ég ekki það að rekja, enda skal ég fúslega játa að ég er ekki maður til þess, því að ég er lítt fróður í þeim efnum. En margir ætla, að þær breytingar, sem þar hafa átt sér stað, hljóti að hafa áhrif í þessu efni og hljóti að hafa það í för með sér, að það sé hægt að standa að þessum málum á annan veg en áður var og dvöl sjálfs varnarliðsins sé ekki sama nauðsyn og áður var. Um hitt ætla ég ekki að dæma, hvort það sé nokkurt gagn að dvöl varnarliðsins hér á landi, þ. e. a. s. hvort það sé þannig úr garði gert og útbúið, að það sé veruleg vörn í því. Ég verð þó að ganga út frá því. En það er auðvitað þeirra mál, sem fara með stjórn þessara mála að fylgjast með í því efni. Það ætla ég að hljóti að hafa verið gert.

Framsfl. vill vinna að því, að varnarliðið hverfi héðan af landi í áföngum, þannig að það sé vel framkvæmanlegt, að það sé gerð fyrir fram fjögurra ára áætlun um brottför varnarliðsins í áföngum, en jafnhliða séu íslenzkir menn þjálfaðir til þess að taka að sér þau gæzlustörf í þessum stöðvum, sem nauðsynleg teljast. Þessi er stefna Framsfl., og hún hefur komið fram í ályktun, sem flokksþing Framsfl. hefur gert, og miðstjórnarfundur síðan undirstrikað. Við höfum hins vegar ekki komið fram með þetta mál hér sem þingmál. Við höfum talið rétt að kanna það með öðrum hætti og þá fyrst og fremst í gegnum utanrmn., hvað þingfylgi liði við slíka stefnu. Við teljum, að það varði mestu, að viðunandi lausn fáist í þessu máli, og með það fyrir augum viljum við vinna að málinu og viljum vinna að því að reyna að skapa sem víðtækasta samstöðu um það og afla nægilegs þingfylgis til þess að gera þær ráðstafanir í þessu efni, sem nauðsynlegar eru. Og við viljum þess vegna hafa þær starfsaðferðir í þessu efni, sem líklegastar eru til þess að ná því markmiði. Hins vegar teljum við, að varast beri að halda þannig á þessu máli, að það sé gert að nokkru æsingamáli. Okkur er ljóst, að þetta er vandasamt mál á marga vegu. Okkur er ljóst, að þó að samkv. skýlausum fyrirvara, sem áður er vitnað til, eigi það að vera að öllu leyti á valdi Íslendinga, hvort herlið á að dveljast hér á landi, þá er ekki sama, hvernig á þessu máli er haldið í framkvæmd. Við verðum vissulega að vinna að þessu máli með einurð og festu. En við þurfum jafnframt að gera öðrum þjóðum skiljanleg okkar sjónarmið og okkar vilja í þessu máli. En umfram allt má sú skoðun ekki festa rætur hér á landi, að varanleg herseta sé óhjákvæmileg, og gegn þeim hugsunarhætti þarf að vinna. En ef varnarliðið á að vera hér um óákveðinn tíma við þær aðstæður, sem nú eru, er því miður mjög mikil hætta á því, að þessi hugsunarháttur, að dvöl varnarliðsins sé hér sjálfsögð og óhjákvæmileg um aldur og ævi, fari að festa rætur. Þess vegna er nú að mínum dómi tími til kominn að stinga við fótum og fara að vinna að þessu máli á þann hátt, sem framkvæmanlegt er.