19.04.1968
Sameinað þing: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

Skýrsla utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hér hefur undanfarna daga komið fram hörð gagnrýni vegna þeirra vinnubragða, sem Alþ. er gert að viðhafa þessa síðustu daga þingstarfanna. Fyrir okkur eru lögð hin veigamestu mál, sem enginn tími gefst til þess að fjalla um í alvöru, og þetta hefur ekki aðeins verið gagnrýnt af okkur stjórnarandstæðingum, heldur einnig af þm. hæstv. ríkisstj. M. a. kom þessi gagnrýni fram í sambandi við frv. um lántöku til framkvæmdaáætlunar og þá skýrslu, sem hæstv. fjmrh. gaf í því sambandi. Hæstv. ráðh. bar þá fyrir sig ýmsar afsakanir. Hann benti á, að margt hefði verið að gerast í efnahagsmálum og margs konar vandi steðjað að okkur, sem þurft hefði að fást við, og því væri hann svona síðbúinn með skýrslu sína. Hins vegar eiga engar slíkar afsakanir við um skýrslu um utanríkismál. Þar hefur ekki verið um nein sérstök vandamál að ræða, sem tafið hafa hæstv. utanrrh. undanfarna mánuði. Þessi skýrsla hefði að sjálfsögðu átt að liggja fyrir mjög snemma á þingtímanum. Það eru auðvitað algerlega fráleit vinnubrögð að leggja fram skýrslu eins og þessa degi áður en þing fer heim. Engu að síður vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann gefur þó þessa skýrslu. Það er framför frá því, sem verið hefur. Hins vegar er það því aðeins framför, að það tákni, að þegar á næsta þingi verði tekin upp sómasamleg vinnubrögð á þessu sviði og hæstv. ráðh. gefi skýrslu um þetta efni mjög snemma. Og þá verður að sjálfsögðu að hafa annan hátt á heldur en hér hefur verið hafður. Auðvitað eru það engin vinnubrögð að hæstv. ráðh. flytji hér ræðu yfir okkur þm. og síðan eigi meðferð okkar að vera öll í því fólgin, að við eigum að standa upp á eftir ráðh. á tveimur eða þremur klukkutímum og taka þar afstöðu til þeirra atriða, sem hann fjallaði um í ræðu sinni. Hér er um að ræða mjög vandasöm og veigamikil mál, og til þess að hægt sé að fjalla um þau, verða þm. að hafa ráðrúm til þess. Slíka skýrslu þarf auðvitað að fá þm. í hendur með fyrirvara og um hana þarf að fjalla í utanrmn. Því aðeins getum við rætt um þessi mál á skynsamlegan og raunsæjan hátt, að slík vinnubrögð séu viðhöfð. Það er enginn að bættari, þótt við stígum hér upp í stólinn hver á eftir öðrum og stundum æfingar í mælskulist. Við þurfum að taka utanríkismálin eins og hver önnur viðfangsefni okkar og fjalla um þau af fullri raunsæi. Stundum heyrist sagt, að umr. um þessi efni séu heldur gagnslitlar, ágreiningur manna sé svo alger að þetta verði aðeins kappræður, þar sem menn reyna að berja eins rösklega og þeir geta hver á öðrum. Þetta var viðhorfið í utanríkismálum hér áður fyrr, en ég held, að Alþingi Íslendinga ætti að fara að vaxa frá því. Það er ekki rétt, að það sé tilgangslaust, að alþm. fjalli hér um mál, þótt þá greini á um mörg málsatvik. Reynslan er sú þrátt fyrir allt, að menn geta lært hver af öðrum. Það tekur eflaust sinn tíma og oft langan tíma, en engu að síður er það ævinlega til gagns, að menn ræðist við og hlusti hver á annan.

Þessi skýrsla hæstv. ráðh. var, eins og hann skýrði frá áðan, gefin í tilefni af þáltill., sem flutt var af okkur þremur þm. Alþb. Þar báðum við um skýrslu um þau tvö mál, sem hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni, og báðum um, að skýrslan yrði gefin með tilliti til þeirra breytinga, sem orðið hafa á alþjóðamálum og hernaðartækni. Hér var sem sé farið fram á, að þessi mál væru metin út frá viðhorfunum eins og þau eru nú á þessum síðustu árum, en ekki með sögulegum röksemdum um það, sem gerðist fyrir 20 árum. En þetta vanrækti hæstv. ráðh. gersamlega í skýrslu sinni. Skýrslan var að meginhluta til söguleg upprifjun og því miður ákaflega yfirborðsleg og hversdagsleg. Hann minnti á ýmis atriði, sem mikið var deilt um hér á þingi fyrir tæpum tveimur áratugum, og inn á þau atriði var einnig komið af hæstv. forsrh., ástæðuna til þess, að Atlantshafsbandalagið var stofnað á sínum tíma, óttann við útþenslu Sovétríkjanna, atburðina í Tékkóslóvakíu o. s. frv.

Nú er það svo, að um þessi sögulegu atriði hefur býsna mikið verið fjallað síðustu árin og einmitt m. a. af mönnum, sem á sínum tíma studdu Atlantshafsbandalagið. Ég vil þar minna t. d. á mjög athyglisverða fyrirlestra og greinar, sem George F. Kennan hefur látið frá sér fara, en hann var um langt skeið sérfræðingur Bandaríkjastjórnar í málefnum Sovétríkjanna og lagði á ráðin um stefnu Bandaríkjastjórnar, eftir að síðustu heimsstyrjöld lauk. Niðurstaða hans er sú, að þær ástæður, sem fram voru bornar fyrir stofnun Atlantshafsbandalagsins af þeim mönnum, sem hann styður og var í þjónustu fyrir, hafi verið rangar. Niðurstaða hans er sú, að eftir síðustu heimsstyrjöld hafi Sovétríkin verið ákaflega lömuð. Þau misstu 20 millj. manna í heimsstyrjöldinni, og verulegur hluti af Sovétríkjunum, einmitt sá hluti landsins, sem mest var iðnvæddur, var að heita mátti gjöreyddur; yfir hann höfðu flætt herir fram og til baka. Efnahagskerfi landsins var ákaflega veikt og matvælaframleiðslan af skornum skammti. Niðurstaða Kennans var sú, að það sé hrein firra, að Sovétríkin hafi getað haft nokkrar þær útþenslutilhneigingar, sem hæstv. forsrh. var að tala um áðan. Og niðurstaða hans er einnig sú, að hin harkalega íhlutun Sovétríkjanna um innanlandsmál ríkja í Austur-Evrópu hafi ekki verið útþenslu- og yfirgangsmerki, heldur einmitt veikleikamerki, óttamerki. Og það eru mjög margir fleiri, sem hafa rakið þessar skoðanir seinustu árin.

En þó að fróðlegt sé að fjalla um sagnfræðilegar bollaleggingar af þessu tagi, eru það ekki þær, sem við eigum að ræða um hér í dag. Atlantshafsbandalagið var stofnað 1949. Hvort sem mönnum kann að virðast það rétt eða rangt, þá er það staðreynd, að það var stofnað. Það er einnig staðreynd, að við Íslendingar gerðumst aðili að því, og það enn fremur staðreynd, að hingað kom bandarískur her 1951, hvað sem mönnum kann að virðast um ástæðurnar fyrir því, hvort þar hafi verið um réttar eða rangar ákvarðanir að ræða. Þetta eru staðreyndir, sem hafa gerzt, og við getum ekki metið viðhorfin nú með því að deila um, hvort það hafi verið rétt, sem við gerðum þá, eða ekki. Við þurfum að ræða um, hvað við eigum nú að gera með hliðsjón af ástandinu eins og það er um þessar mundir. Það er enginn að fara fram á það, að þeir þrír flokkar, sem stóðu að því, að Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið og erlendur her var kallaður til landsins, rísi hér upp og lýsi yfir, að þeir hafi haft á röngu að standa, þegar þeir tóku þessar ákvarðanir. Það eru því miður ákaflega fáir, sem fást til þess að viðurkenna, að þeir hafi haft rangt fyrir sér, jafnvel þó að þeir séu orðnir sannfærðir um það sjálfir, og ég geri ekki ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi breytt um skoðun á því, að þeir hafi haft á réttu að standa þá.

En þetta er ekki á dagskrá, heldur hvernig við eigum að meta viðhorfin núna. Og viðhorfin eru ákaflega breytt, síðan Atlantshafsbandalagið var stofnað 1949. Hæstv. forsrh. sagði, að Frakkar væru enn þá í Atlantshafsbandalaginu. Víst eru þeir það. En þeir hafa slitið allri hernaðarsamvinnu við bandalagið. Og með því að slíta hernaðarsamvinnu við Atlantshafsbandalagið, hafa þeir kollvarpað öllum hernaðaráformum þessa bandalags í Evrópu. Það stendur ekki steinn yfir steini í áætlunum herforingja um það, hvernig þetta bandalag eigi að hegða sér í sambandi við styrjöld í Evrópu. Þetta er alger breyting á viðhorfum, og þessi breyting stafar af því, að ráðamenn Frakka, sömu mennirnir og voru sammála því 1949 að ganga í Atlantshafsbandalagið og eiga við það hernaðarsamvinnu, telja ástandið svo gerbreytt nú, að þeir vilja ekki taka þátt í slíkri samvinnu innan bandalagsins. Þetta eru staðreyndir, sem við verðum að gera okkur ljósar. Það þýðir ekki að láta eins og ekkert gerist í heiminum í kringum okkur. Ég vildi minna hæstv. ráðh. á það, sem norska skáldið Arnulf Överland sagði einu sinni, að þeir menn, sem aldrei breyta um afstöðu, eru ekki manneskjur, heldur myndastyttur. Og ég held, að þessir hæstv. ráðh. ættu að reyna að hegða sér eins og manneskjur, þegar þeir fjalla um þessi vandamál ekki síður en önnur.

Það er ósköp auðvelt að standa hér og segja, að Atlantshafsbandalagið hafi stuðlað að friði og öryggi, og benda á Evrópu. Við vitum það allir, að herir Atlantshafsbandalagsins hafa háð stórstyrjaldir úti um allan heim. Það voru hinir frönsku herir Atlantshafsbandalagsins, sem háðu stórstyrjöld í Víetnam og síðan í Alsír. Þessi styrjöld var kostuð með bandarísku fé. Það er sjálfur bandaríski herinn, sem heyr í Víetnam einhverja grimmilegustu styrjöld, sem sögur fara af; það er hluti af herstyrk Atlantshafsbandalagsins. Það eru herir Atlantshafsbandalagsins í Portúgal, sem reyna að viðhalda einhverju síðasta og ömurlegasta nýlenduveldi, sem eftir er í heiminum. Og þessari styrjöld er haldið uppi með fjármunum frá Bandaríkjunum einnig. Það er hægt að rifja upp fjölmörg slík dæmi, ef við eigum að fara í almennar umr. um atburði á þessu tímabili, og væri hægt að gera það fjarskalega lengi og á lengri tíma en okkur er hér skammtaður.

En ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að Atlantshafsbandalagið var ekki aðeins stofnað til þess að koma í veg fyrir vopnuð átök, eins og hæstv. utanrrh. sagði. Þetta átti einnig að vera hugsjónabandalag. Það átti að stuðla að frelsi, og það átti að stuðla að lýðræði. Ég vil minna á það, að einn síðasti atburðurinn, sem hefur gerzt innan þessa bandalags, er valdataka herforingjaklíku í Grikklandi, sem heldur þar uppi mjög ósæmilegri ógnarstjórn, og það er ekki ýkjalangt síðan flotaforingi Atlantshafsbandalagsins í Evrópu fór til Grikklands sem opinber heiðursgestur og lýsti því sérstaklega yfir, að herforingjastjórnin í Grikklandi starfaði í anda Atlantshafsbandalagsins.

Svona staðreyndir ber mönnum að hugleiða. Ég efast ekki um, að margir hafa gerzt aðilar að Atlantshafsbandalaginu í góðri trú og trúað einmitt á svona fyrirheit. En þegar slík fyrirheit bregðast, eiga menn að endurskoða afstöðu sína og hugsa ráð sitt. Menn eiga ekki að vera blýfastir í sömu sporunum og þeir voru fyrir 20 árum.

Ég tók eftir því, að afstaða hæstv. utanrrh. til endurskoðunar á aðild að Atlantshafsbandalaginu og endurskoðunar á hernámssamningnum var ákaflega neikvæð. Hann sagði, að ástandið í heiminum þyrfti mjög að breytast, til þess að hægt væri að gera breytingar á þeim samningum. Hann sagði ekki, hvað þyrfti að breytast. Ræða hans var ákaflega almenn. Hann gerði Alþ. ekki grein fyrir því, hvaða skilyrði hann teldi að þyrfti að uppfylla, til þess að við losnuðum við að vera með erlendan her í landinu. En mér finnst það vera lágmarksskylda, að hæstv. ráðh. geri skilmerkilega grein fyrir þessu, að hann láti jafnt Alþ. sem þjóðina vita, hvaða skilyrði hann vill að uppfyllt séu, til þess að hægt sé að losna við hernámsliðið úr landinu. Það er ákaflega alvarleg staðreynd, ef það er skoðun einhverra valdamanna hér, að erlendur her eigi að vera hér á Íslandi um ófyrirsjáanlega framtíð, hvað svo sem gerist umhverfis okkur. En ég gat ekki túlkað afstöðu þessa hæstv. ráðh. á annan hátt. Það stoðar ekki að vera með almennar hugleiðingar um það, að ófriðiegt sé einhvers staðar á jarðarkringlunni. Ég er afar hræddur um, að það haldi áfram að verða ófriðlegt einhvers staðar á jarðkringlunni næstu áratugi og jafnvel aldir. Og ef það á að vera mælikvarðinn, svona almennt tal um, að einhvers staðar sé ófriðlegt í heiminum, þá er fyrirsjáanlegt, að að því er stefnt, að herinn verði hér til eilífðarnóns.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að þeirri upphaflegu kenningu að bandarískur her sé hér til þess að vernda okkur Íslendinga fyrir hugsanlegri árás, hefur verið hafnað fyrir löngu af hernámsliðinu sjálfu. Það kom hingað 1951 með landher og skriðdreka, sem hermenn voru að aka um hér á Suðurnesjum. Ef þessi landher hafði einhvern tilgang hér á Íslandi, þá átti hann að taka á móti óboðnum gestum. En þessi landher er fyrir löngu farinn burt. Það er ekki snefill eftir af honum. Hér var líka flugher bandarískur, og hann var hér vegna þess, að þá var flugtækni þannig háttað, að það þótti nauðsynlegt fyrir bandaríska herinn að hafa millilendingarstöð á miðju Atlantshafi. Vélar voru ekki langfleygari en það. Nú er þessi aðstaða einnig gerbreytt, og flugherinn er farinn. Hér er aðeins flotastöð, og þessi flotastöð á ekkert skylt við varnir í venjulegum skilningi. Hún gæti hugsanlega fallið undir hitt, sem hæstv. forsrh. var að tala um, að við yrðum að leggja eitthvað af mörkum í þágu Atlantshafsbandalagsins, að við værum hlekkur í keðju, eins og hann hefur oft sagt. En ég held, að þessi hlekkur sé einnig orðinn ákaflega lítill. Flotabækistöðin hér hefur fyrst og fremst þann tilgang að stjórna eftirlitsflugi með kafbátaferðum á Norður-Atlantshafi. Sú miðstöð hafði áður bækistöð á Nýfundnalandi, og ég held, að hún hafi verið flutt hingað vegna þess, að Bandaríkin vissu ekki svo gjörla, hvað þau ættu að gera við herstöðvarnar á Íslandi, og urðu að finna handa þeim verkefni. Þessi stöð er ekkert betur komin hér en á Nýfundnalandi, ef Bandaríkin telja sig þurfa að hafa hana. Hér er einnig smávægilegt ratsjárkerfi, en mér skilst, að þessi ratsjárkerfi séu að verða gersamlega úrelt einnig, vegna hinnar nýju tækni, sem fylgir njósnatunglunum og gerir herveldunum kleift að fylgjast með hlutum miklu skjótar og nákvæmar en með hinu landfasta kerfi. Ég tel þess vegna, að við höfum fulla ástæðu til þess að endurmeta aðstöðu okkar á nýjan leik, ekki aðeins við, sem alltaf höfum verið á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu og á móti hernáminu, heldur einnig þeir aðilar, sem stóðu að hvoru tveggja.

Þegar ég hef rætt þessi mál hér í vetur, hef ég einmitt reynt að benda á þær röksemdir, sem eiga að geta orðið umræðugrundvöllur. Það er ósköp auðvelt fyrir okkur að standa hér og hrópa hver framan í annan og segja, að sumir séu með Bandaríkjamönnum og aðrir með Rússum. En við eigum, eins og ég sagði hér í upphafi, að ræða um þessa hluti á miklu raunsærri hátt, og mér virtist það vera dálítill vonarvottur, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að hann vildi skilja að þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og hernámið og hann sagðist vera reiðubúinn til þess að athuga þetta hvort tveggja. Hann sagði í sambandi við Atlantshafsbandalagið: Við eigum rækilega að skoða aðstöðu okkar, þegar samningstíminn rennur út, og hafa það, sem sannara reynist. — Ég vil vænta þess, að þessi orð hæstv. ráðh. hafi verið mælt af fullri alvöru og að farið verði í könnun á þessu máli af fullri alvöru einnig og að um það verði haft samráð við alla flokka.

Hæstv. forsrh. sagði einnig, að hann teldi sjálfsagt að taka hernámsmálin upp til nýrrar yfirvegunar, og orðaði það svo, að sjálfsagt væri að athuga til hlítar, hvort yfirlýsing um tryggingu af hálfu Atlantshafsbandalagsins yrði metin nægileg til öryggis Íslendingum. Og hann lýsti yfir því, að hann teldi ekki heppilegt eða æskilegt, að hér dveldist erlent herlið um alla framtíð. Mér finnst einnig ástæða til þess að fagna þessum ummælum. Ég minnist þess ekki, að hæstv. forsrh. hafi látið slík ummæli sér um munn fara fyrr en nú upp undir það í tvo áratugi. Og ég vil vænta þess, að einnig þarna fylgi hugur máli. Ég held að við eigum að minnast þess í sambandi við þetta mál eins og öll önnur, að við höfum býsna mikla sérstöðu í veröldinni. Það er ekki sæmandi okkur að hugsa einvörðungu um mál eins og þetta út frá því, hvort við erum hlynntir stefnu Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna eða annarra ríkja í veröldinni. Okkur ber að meta þetta út frá hagsmunum og aðstöðu okkar sjálfra og okkar einna. Það er alveg öruggt mál, að fullveldi okkar þolir það ekki, ef við eigum að hafa tvíbýli í þessu landi í marga mannsaldra, og við verðum að finna leiðir til þess að losna við hið erlenda lið. Ég held líka, að menn ættu að geta komizt að þeirri niðurstöðu, ef þeir hugsa málin gaumgæfilega, að þetta einstæða ríki, þessi litla og vopnlausa þjóð eigi ekkert erindi í hernaðarbandalag, jafnvel þótt menn kunni að hafa fulla samúð með því bandalagi. Það er ákaflega gamalt og úrelt viðhorf, held ég, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. hér áðan, að ekkert ríki geti staðizt nema njóta herstyrks. Það var hægt að halda fram slíkri kenningu hér fyrir nokkrum áratugum, en aðstæður á þessu sviði eru gerbreyttar. Hvaða herstyrkur er það, sem getur orðið Íslandi að gagni, ef til þeirrar ógnar kæmi, sem væri ný kjarnorkustyrjöld? Slík vörn er ekki til. Ég held, að allar slíkar hugleiðingar tilheyri fortíðinni. Þær eru leifar af gömlum viðhorfum, sem menn eiga að uppræta, um leið og aðstæðurnar breytast. Ég held einmitt, að það sé bæði í samræmi við sérstöðu okkar og hagsmuni okkar, að við viðurkennum í verki þessa einföldu staðreynd, að við erum ógnarlegur smælingi í þessum stóra heimi, og ég held, að því fylgi engan veginn neinn háski. Ef ótíðindi verða, fáum við ekki umflúið háskann fremur en aðrir hvað svo sem við gerum.

En aðalerindi mitt hingað var að leggja á það áherzlu, að hæstv. utanrrh. geri þessa stuttaralegu og allt of illa undirbúnu umr. að fyrirboða þess, að um þessi mál verði fjallað á miklu gaumgæfilegri og raunsærri og alvarlegri hátt þegar í upphafi þings.