16.12.1967
Neðri deild: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þetta verður nú ekki alveg örstutt fyrirspurn í þeim skilningi, að hún taki ekki nema 1–2 mín., en ég mun reyna að verða eins stuttorður og mér þykir frekast ástæða til í sambandi við þetta mál.

En ég hef kvatt mér hér hljóðs til þess að láta í ljós ánægju mína með það, að sjá hæstv. utanrrh. hér aftur á meðal vor, heilan á húfi, og bjóða hann velkominn heim. Það hefur að vísu ekki verið venja hér á Alþ. að bjóða. hæstv. ráðh. velkomna, þegar þeir koma heim til sín frá útlöndum, og ég vil taka það fram, að með þessu tiltæki mínu vakir það síður en svo fyrir mér að innleiða nýjan sið í þessum efnum, enda hætt við, að mönnum mundi þykja nóg um þær tafir á þingstörfum, sem af því mundi leiða, ef menn færu að standa upp og bjóða ráðherra vora sérstaklega velkomna með ræðum í hvert sinn sem þeir koma heim frá útlöndum.

Þó geta stundum verið ástæður til þessa meir en endranær. Til að mynda hefði mér fundizt mjög vel við eigandi vorið 1960 að fagna sérstaklega heimkomu þáverandi hæstv. utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem hafði farið til Tyrklands til að sitja sams konar fund og núverandi hæstv. utanrrh. sat nú í þessari viku, fund, sem utanríkisráðherrar og ýmsir aðrir áhrifamenn Atlantshafsbandalagsríkja héldu til staðfestingar því, hve mikil friðsemd og elskusemi ríkir í þessu bandalagi, hversu staðráðin öll aðildarríki þessa kærleiksheimilis eru í því að vernda lýðræðið og frelsið. Hinn íslenzki utanrrh. og starfsbræður hans margir, er þennan fund sóttu, urðu sem kunnugt er að fara huldu höfði og ferðast jafnvel í brynvörðum bifreiðum, ella var talin hætta á, að þeir kæmust ekki óskaddaðir út úr landinu aftur, vegna þess að nokkrir hershöfðingjar höfðu gert uppreisn og hrifsað til sín völdin og leyst upp þing og handtekið ríkisstjórnina, gestgjafa Guðmundar Í. Guðmundssonar, og þar á meðal forsætisráðherrann, sem síðar var tekinn af lífi opinberlega.

En hamingjunni sinni sé lof, að íslenzki utanríkismálaráðherrann slapp óskaddaður úr þessum háska. Og sama má raunar segja um Atlantshafsbandalagið sem slíkt. Menn þeir, sem eftir þetta réðu og ráða lögum og lofum í því landi, Tyrklandi, létu það verða sitt fyrsta verk að lýsa því hátíðlega yfir, að Tyrkland mundi eftir sem áður taka fullan þátt í starfsemi NATO-ríkja til verndar lýðræði og frelsi, og er ekki að efa, að þá hefur þungu fargi létt af mörgum þeim sem bera sérstaklega fyrir brjósti hag Atlantshafsbandalagsins og frelsisins og lýðræðisins. Þessir atburðir, sem ég var að rifja upp, sýna það og sanna, að það getur verið áhættusamt starf að vera utanrrh. í NATO-ríki eins og Íslandi, a. m. k. þegar skyldan kallar slíka menn út fyrir landsteinana til skrafs og ráðagerða um lýðræði og frelsi, þar sem aldrei er að vita, hverju gestgjafar þeirra kunna að taka upp á, ef staðurinn er ekki vandlega valinn og af fyrirhyggju. Og þó að núv. hæstv. utanrrh. Íslands hafi ekki að þessu sinni lent í sams konar háska og fyrirrennari hans 1960 í Tyrklandi, þá er engu að síður ástæða til að bjóða hann sérstaklega velkominn, eða a. m. k. að óska honum til hamingju með það, að fundur sá, sem hann nú sat, skuli hafa verið haldinn á sæmilega friðsælum stað, en ekki t. d. í Aþenu á Grikklandi.

En í þessu sambandi vil ég jafnframt leyfa mér að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. utanrrh. Má ekki vænta þess, að hann gefi Alþ. skýrslu um það, sem gerðist á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins þar úti í Brüssel? Eftir fregnum að dæma virðist þetta hafa verið býsna merkilegur fundur, og það mætti því ætla, að Alþingi Íslendinga varðaði nokkuð um það, sem þarna gerðist. Einkum og sér í lagi væri fróðlegt að vita, með hvaða hætti fulltrúi Íslands lét að sér kveða á þessum fundi, hvort hann hefur t. d. haldið ræðu, og ef svo er, hvað hann hefur þá sagt. Eina fréttin sem þjóðin hefur hingað til fengið af fulltrúa sínum og afskiptum hans af þessum fundi er sú, að hann hafi setið þarna við hliðina á fulltrúa herforingjastjórnarinnar í Grikklandi. Í sjálfu sér er býsna fróðlegt að frétta slíkt, en það er bara ekki nóg.

Hæstv. utanrrh. sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær, að maður þessi, sessunautur hans þar á fundinum, hefði ekki látið nein orð falla um ástandið í Grikklandi. En hvað um hann sjálfan, hæstv. utanrrh. Íslendinga? Lét hann ekki heldur nein orð falla um ástandið í Grikklandi? Fréttir herma, að þetta ástand hafi verið rætt á fundinum í Brüssel. Mér hefði fundizt ekki óviðeigandi fyrir fulltrúa okkar Íslendinga að taka þátt í þeim umr., jafnvel þótt hann hefði ekki viljað ganga svo langt að spilla andrúmsloftinu þar, á þessu kærleiksheimili, með því að lýsa yfir þeirri skoðun, sem er áreiðanlega skoðun alls þorra Íslendinga, að fasistastjórn eins og sú, sem nú situr að völdum í Grikklandi, er til lítillar prýði fyrir bandalag, sem telur sig sérstaklega helgað lýðræði og frelsi, og á þeirri forsendu væri rétt að víkja þessari ríkisstj. úr Atlantshafsbandalaginu. Honum hefði þó átt að vera óhætt að láta þess getið að Íslendingar séu ekki alls kostar ánægðir með ástandið í Grikklandi.

Harold Wilson, forsætisráðherra Breta, hefur lýst því yfir, að eftir að Konstantín konungur hefur nú hrökklazt frá völdum, þá sé úr gildi fallið, a. m. k. lögformlega, stjórnmálasamband Breta og Grikkja, og í gær segir í frétt í Morgunblaðinu: „Allt er á huldu um viðurkenningu fjölda landa á hinni nýju ríkisstjórn, sem Papadapoulos ofursti myndaði í gær, enda virðist hún engan lagalegan grundvöll hafa eftir flótta konungsins.“

Ég vil því leyfa mér að spyrja: Hver er afstaða íslenzkra stjórnarvalda varðandi þetta atriði? Mér skilst að vísu, að hæstv. utanrrh. hafi látið orð falla um þetta í sjónvarpi í gær, en ég hef ekki sjónvarp, og svo er um marga aðra Íslendinga og Alþingi Íslendinga á a. m. k. heimtingu á því að fá formlega yfirlýsingu um þetta efni. Erum við, Íslendingar, eða erum við ekki í stjórnmálasambandi við Grikkland?

Sannarlega væri vert að spyrja ýmislegs fleira nú í sambandi við heimkomu hæstv. utanrrh. Ég læt þó nægja að þessu sinni að bæta aðeins við einni fyrirspurn.

Tilkynnt hefur verið, að næsti svonefndur vorfundur utanríkisráðherra Atlantshafshandalagsins muni haldinn hér í Reykjavík, 24. og 25. júní. Og í Morgunblaðinu í gær segir svo nánar um þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Mikill viðbúnaður er eðlilega hér heima fyrir fund þennan og er gert ráð fyrir, að til fundar komi 300–400 manns, þar sem með ráðh. kemur væntanlega nokkurt föruneyti, ýmsar alþjóðasamstarfsnefndir, auk fjölmenns hóps fréttamanna. Þegar er búið að fá Háskóla Íslands til fundarhaldanna, en að sjálfsögðu þarf meira húsnæði fyrir svo fjölmennan fund.“

Morgunblaðið tekur það sem sé fram, að það sé ekki ætlazt til þess, að allur þessi hópur sofi á gólfinu þar uppi í Háskóla. Nei, að sjálfsögðu verður gestum þessum komið fyrir í beztu hótelum borgarinnar og gistingin borguð og uppihald þeirra fullu verði og þegar við bætast allar aðrar þarfir svona fyrirtækis og þ.á.m. veizluhöld, sú grein alþjóðlegra samskipta, sem við Íslendingar höfum sýnt í einna mest tilþrif og einna mesta reisn allra greina slíkra samskipta, þá má búast við því, að þetta verði heldur en ekki kostnaðarsamt fyrirtæki. Ég vil leyfa mér að spyrja: Er ætlazt til, að Íslendingar greiði allan þennan kostnað eða hluta af honum og þá hve mikinn hluta? Þetta hygg ég, að mörgum Íslendingum muni þykja fróðlegt að fá að vita fyrir víst, ekki sízt núna, þegar þannig stendur á, að verið er að skerða lífskjör þeirra í þeim yfirlýsta tilgangi stjórnarvaldanna að bjarga þjóðfélagi voru út úr alvarlegum efnahagsörðugleikum.

Að lokum vil ég sem skattgreiðandi taka það fram, og ég tel, að ég tali þar fyrir munn margra annarra skattgreiðenda, að mér hugnast satt að segja ekki sú tilhugsun að framlag mitt í ríkissjóð eða einhver hluti af því verði ef til vill notaður til að borga „kost og logi“ á Hótel Sögu fyrir fulltrúa fasistastjórna eins og þeirra, sem nú sitja að völdum í Grikklandi og í Tyrklandi og í Portúgal, þó að ég efist hins vegar ekki um, að fulltrúar þessir muni sýna þá háttvísi að mæta til hins fyrirhugaða fundar Atlantshafsbandalagsins í Háskóla Íslands með heiðríkan lýðræðissvip og ástúðlegt frelsisbros á vör.