16.12.1967
Neðri deild: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég biðst afsökunar. Ég varð að dómi forseta helzt til langorður áðan og heiti því að verða mjög stuttorður núna, mjög stuttorður.

Ég þakka hæstv. utanrrh. svör hans við fsp. mínum, þó að mér finnist hins vegar, að þær upplýsingar, sem hann hefur veitt, séu helzt til rýrar í roðinu. Þó verð ég að láta í ljós ánægju mína með þá fullvissu, sem hann veitir mér, að ég þurfi ekki sem skattgreiðandi að borga „kost og logi“ fyrir þá fasista, sem búast má við, að heimsæki okkur á vori komanda. En hætt er við, að ég þurfi þó að borga einhvern hluta af veizlukostnaðinum. En það er önnur saga.

Ég vil í sambandi við ráðleggingu hæstv. utanrrh. til mín að fara að útvega mér tiltekið plagg og lesa það, þá vil ég taka það fram, að ég stóð hér ekki upp til að panta mér lesefni hjá hæstv. utanrrh., heldur stóð ég upp til þess að fara fram á, að hann viðhefði lýðræðisleg vinnubrögð í sambandi við þetta mál. Ég fór fram á það, að hann gæfi skýrslu um það, eins og tíðkast í sambandi við slík mál í öllum svonefndum vestrænum lýðræðisríkjum. Ég hygg, að viðbrögð eins og þau, sem hæstv. ráðh. sýndi hér áðan við tilmælum mínum, tíðkist yfirleitt ekki í þeim ríkjum og þurfi að leita dæma um þetta til ríkja eins og Grikklands og Tyrklands og Portúgals.

Ég vil sem sé ítreka þá kröfu mína, að hæstv. ráðh. veiti Alþ. nánari upplýsingar um þetta mál, og ég vil ítreka þá kröfu, sem Alþb.-menn hafa fram borið hér á Alþ. hvað eftir annað, að stórmál eins og þessi, sem nú eru á döfinni, séu lögð fyrir Alþ., þannig að alþm. gefist kostur á að fjalla um þau, og einnig, að fulltrúar okkar á ráðstefnum, hvort heldur er hjá Sameinuðu þjóðunum eða á vegum NATO, gefi Alþ. skýrslu um störf sín á þeim fundum og þeim ráðstefnum, sem þeir taka þátt í, og að ríkisstj. láti af þeirri ósvinnu sinni að virða utanrmn. ekki viðlits, þegar mestu utanríkismál eru á döfinni.