16.12.1967
Neðri deild: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. taldi, að ég hefði ekki gefið það, sem hann vildi kalla lýðræðisleg svör við sinni fsp. Ég held nú, að ég hafi gefið þau svör, sem hægt var að gefa á þessu stigi málsins, hvort sem hann vill kalla þau lýðræðisleg eða ekki. En hitt er svo að mínu viti heldur ólýðræðislegt að taka í stuttum fsp.-tíma fyrir mál, sem ráðh. veit ekkert um, að eigi að taka fyrir, getur ekki einu sinni haft með sér þau plögg, sem þarf til að geta svarað fsp., og ætti hv. þm., ef hann vill fá svör við einhverju ákveðnu máli og fá það rætt, að taka það upp á venjulegan, þinglegan hátt, en ekki á þennan hátt, sem hann hefur gert. (JónasÁ: Það, sem ég fór fram á, var, að skýrsla yrði lögð fyrir þingið og ráðh. gæfi þingi skýrslu.) Skýrslu um fundinn er a. m. k. ekki hægt að gefa í dag, og hv. þm. nefndi ekkert fyrirheit, hann nefndi bara skýrslu.

Út af því, sem hv. 4. þm. Austf. sagði í sambandi við Grikkland, er ákaflega erfitt um það að tala á þessu stigi og ég vil segja nær ómögulegt. Maður veit ekkert í dag, hvaða stjórnarfar er í Grikklandi. Maður sér í fréttum, að það fara fram viðræður á milli stjórnarinnar, sem situr þar, og konungsins um framtíðarstöðu hans, og það veit enginn enn þá, hvernig þeim umr. lyktar, og ég veit, að ýmsar stjórnir í vestrænum ríkjum hafa hikað við að taka afstöðu til þess, hvort þær eigi að viðurkenna þessa stjórn eða ekki. Þær bíða og sjá, hvernig málin þróast. Og ég held, að það sé ekkert unnið við það, þó að við í dag förum að gera einhverjar skyndiályktanir eða yfirlýsingar í því efni.