23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér er fullkunnugt um þetta samkomulag, sem hæstv. ráðh. talaði hér um áðan. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár, var einmitt sú, að hliðstætt samkomulag hefur verið í gildi milli ríkisstj. Bandaríkjanna og ríkisstj. Danmerkur. Engu að síður hafa þeir atburðir gerzt á Grænlandi, sem ég var að tala um hér áðan, þrátt fyrir þetta samkomulag. Einmitt þess vegna taldi ég óhjákvæmilegt fyrir ríkisstj. Íslands að ítreka stefnu sína í þessu máli og fara þess á leit við bandarísk stjórnarvöld, að þau gefi skýr fyrirheit um, að þau muni virða þessa stefnu. Enn fremur fór ég þess á leit, að hæstv. ríkisstj. gerði ráðstafanir til eftirlits af sinni hálfu. Mér hefur lengi þótt það mjög á skorta í samskiptum íslenzkra stjórnarvalda og bandarískra, að svo virðist sem íslenzk stjórnarvöld komi fram við hin bandarísku af furðu miklu trúnaðartrausti, og láti sér það nægja, sem þeim er sagt af embættismönnum bandarískum. Þetta er að sjálfsögðu fráleit afstaða. Þegar tveir aðilar gera samkomulag sín á milli, eiga báðir aðilar rétt á því að hafa í frammi eftirlit með því, að það samkomulag sé haldið. Í þessu viðhorfi þarf hvorki að felast vantraust né traust. Þetta er hygginna manna háttur ævinlega, þegar gerðir eru meiri háttar samningar. Og ég minnist þess, að þegar Alþ. kom saman í haust og hæstv. forsrh. flutti hér stefnuyfirlýsingu, ræddi hann einmitt um nauðsyn þess, að Íslendingar kæmu sér upp hópi sérmenntaðra manna, til þess að hægt væri af Íslands hálfu að fylgjast með ýmsum atriðum í sambandi við hernámið á sjálfstæðan hátt, þannig að við værum ekki einvörðungu háðir því, sem okkur væri sagt af sérfræðingum gagnaðilans. Ég held, að við eigum að horfast í augu við það af fullu raunsæi, að atburður eins og sá sem gerðist í Grænlandi á sunnudaginn var, gæti gerzt á Íslandi, og ég tel, að það sé skylda okkar og ekki sízt skylda hæstv. ríkisstj. að gera þær ráðstafanir, sem í mannlegu valdi standa til þess að koma í veg fyrir, að slíkir atburðir geti gerzt hér. Það var þetta, sem ég var að vekja athygli hér á áðan, og mér fannst ekki hæstv. ráðh. taka því eins og tilefni voru til.