23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að allir Íslendingar hljóti að líta þann atburð, sem gerðist í Grænlandi á sunnudaginn, mjög alvarlegum augum, því að margt bendir til þess, að sá atburður hefði alveg eins getað gerzt hér á landi eins og í Grænlandi og kannske með alvarlegri afleiðingum. Það virðist mega hugsa sér það, ef þannig hefði staðið á, að sú flugvél, sem hér var um að ræða, hefði alveg eins gert tilraun til þess að lenda á Keflavíkurflugvelli eins og Thule-flugvelli, og það er ekki útilokað, að afleiðingarnar hefðu getað orðið þó aðrar heldur en þær urðu í þessu tilfelli, og þá gæti verið öðru vísi um að litast á þessum slóðum heldur en er í dag. Þess vegna hljótum við að líta þennan atburð mjög alvarlegum augum.

Það mun vera rétt, sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., að af hálfu íslenzkra stjórnarvalda hefur það verið ítrekað og eftir því gengið, að ekki væru staðsett kjarnorkuvopn hér á landi. Hins vegar er mér ekki eins kunnugt um það, hvort um það hafi verið gefin yfirlýsing af hálfu íslenzkra stjórnarvalda og eftir því gengið við viðeigandi ríki, að ekki væri leyft að fljúga með kjarnorkuvopn eða flugvélar með kjarnorkuvopn legðu ekki leið sína yfir Ísland. Ef svo er ekki, finnst mér ærin ástæða til þess í þessu tilefni, að ríkisstj. gefi nú yfirlýsingu um það eða ítreki yfirlýsingu um það, því að hún hefur áður verið gefin, að Íslendingar leyfi ekki, að flogið sé með kjarnorkuvopn yfir sitt land og þeir leyfi það heldur ekki, að það sé gerð tilraun til þess að láta slíkar flugvélar lenda hér á landi. Ég álít, að ef slík yfirlýsing er ekki við hendina, sé ærið tilefni til að gefa hana nú og hefja samninga við okkar bandamenn um það, að hún verði haldin, en ef slík yfirlýsing kann að hafa verið gefin, sem mér er ekki kunnugt um, verði hún ítrekuð og teknir upp samningar við bandarísk stjórnarvöld um það, að ekki verði brotið gegn þessari yfirlýsingu.