23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan, er um það fullt samkomulag á milli ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bandaríkjanna, að hér séu ekki staðsettar eða hafðar um hönd neinar kjarnorkusprengjur af nokkru tagi, og eins og ég sagði líka, hef ég ekki orðið var við það, að reynt væri að brjóta þetta samkomulag. Það er alveg sjálfsagt að ítreka af þessu gefna tilefni, að þetta samkomulag verði haldið, og ég skal ekki telja eftir mér að ítreka það, og eins þá um leið, að hér verði ekki flogið yfir landið með kjarnorkusprengjur. Ég hef ekki ástæðu til að halda, að við munum ekki geta fengið staðfest það, sem raunar áður hefur verið staðfest, að þetta verði gert. Mér hefur verið sagt einmitt nú, að Danir eða nánar tiltekið utanrrh. þeirra hafi fengið skýringu á þessum atburði, sem gerðist á Grænlandi, sem hann telji fullnægjandi fyrir því, að þetta slys hafi getað viljað til, og það kemur náttúrlega þar til greina, þegar flugvél flýgur í grennd við landið, hvort hún eigi að hafa rétt til að nauðlenda eða ekki, ef líf mannanna um borð er í hættu og sprengjurnar, sem um borð eru, eru lokaðar til bráðabirgða a. m. k. Ég er sammála því, sem hér hefur komið fram, að það verði að gæta hinnar ýtrustu varfærni í þessu efni, en viðvíkjandi því, að flugvélar fljúgi hér ekki yfir með slík vopn, vil ég taka það fram, sem frummælandi þessa máls sagði í upphafi síns máls, að hann teldi sig hafa nokkurn veginn vissu fyrir því, að sprengjuflugvélar af þessu tagi mundu ekki, eins og væri a. m. k. fljúga yfir Ísland. Og það er ekki nema sjálfsagt, að við göngum eftir að fá staðfestingu á þessu.