26.03.1968
Neðri deild: 83. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki svarað þessu öðru en því, að íslenzka ríkisstj. hefur ekki gefið varnarliðina á Keflavíkurflugvelli neinar fyrirskipanir eða borið fram óskir um það, að þetta flug fari fram. Hins vegar er þessi hluti varnarliðsins, svo kallaður fighter squadron langsamlega áhrifamesti varnarhluti liðsins hér á landi. Það er hann, sem getur bezt tekið á móti árás, ef í það fer, og þess vegna er ekki unnt annað heldur en hann fái að æfa sig eins og hann telur þurfa, til þess að taka á móti slíku. Ég tel það alveg sjálfsagt, að á meðan varnarliðið er hér, megi það treysta sinn varnarmátt eins og þeir geta með æfingaflugi og öðru slíku. Það eina, sem við höfum gert kröfu um, er, að þessar þotur hafi ekki kjarnorkuvopn innanborðs, og það hef ég fengið staðfestingu á nú, að ekki var, því að hér eru engin kjarnorkuvopn og eiga ekki að vera. Hins vegar eru náttúrlega í þessum þotum eins og öðrum sprengjur og það getur náttúrlega valdið hættu, ef þær koma niður í þéttbýlið, eins og hv. þm. orðaði það. En nokkra áhættu verður af því að taka, á meðan við höfum þetta lið hér og til þeirra hluta, sem því er ætlað að starfa. Ég tel, að þetta óhapp, sem varð í gær, sé náttúrlega fyrir utan það venjulega flug, því að flugvélin bilaði og þurfti að fara að lenda á jörðu niðri, en venjulega fljúga þessar þotur miklu hærra heldur en íslenzk lög gera ráð fyrir, að þær geri, þannig að það er ekki um að ræða, að þær hafi viljandi farið niður úr því hámarki, sem hér er ætlað að sé fyrir flugi þessara þota. En það hefur eitthvað komið fyrir, eitthvað, sem við vitum ekki, hvað er, enn þá a. m. k., en þær sprengjur, sem í flugvélinni voru, verða gerðar óvirkar annað hvort á staðnum eða í nágrenni við staðinn. Það hef ég líka fengið staðfest. Venjulegast fljúga þær miklu hærra heldur en þarna hefur verið um að ræða, og þetta lága flug þeirra, sem um hefur verið talað, er eingöngu vegna þess, að þær þurftu að komast til jarðar vegna bilunar.

Meira hef ég raunar ekki um þetta að segja. Þetta flug er ekki andstætt þeim reglum, sem við höfum gefið þeim um sitt flug, vegna þess að við teljum, að þessar herþotur þurfi að hafa möguleika til þess að kanna með stuttum fyrirvara, hvort þær séu viðbúnar því verkefni, sem þeim er ætlað að vinna. Meira get ég ekki sagt um þetta mál í bili.