26.03.1968
Neðri deild: 83. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér þótti það heldur óskemmtilegt á að hlýða, að hæstv. utanrrh. kom hér fremur fram sem málsvari bandarískra stjórnarvalda en æðsti maður íslenzkra utanríkismála. Lýsing hans á flugi bandarískra flugvéla hér miðaðist öll við það, sem hann kallaði þörf þeirra á æfingum, en ekki við okkar eigið öryggi. Ef svo er ástatt, að Ísland er einn samfelldur æfingavöllur fyrir þessa bandarísku orrustuþotusveit, sem hér er, liggur það í augum uppi, að það er verið að kalla yfir okkur sjálfa ákaflega alvarlegar hættur, vegna þess að einmitt æfingaflug er hættulegast af öllu flugi. Og mér finnst, að hæstv. ríkisstj. ætti að reyna að beita eigin dómgreind til þess að vega það og meta, hvort slík notkun á Íslandi sem allsherjar æfingarstöð fyrir bandarískan flugher sé í samræmi við okkar eigin hagsmuni. Og mér fannst hæstv. ráðh. tala furðu gálauslega um verndina og öryggið af bandarískum flugsveitum. Ég geri ráð fyrir, að okkur sé öllum í fersku minni reynsla fjarlægrar þjóðar af vernd slíks flughers um þessar mundir.

En ég kom ekki hingað til þess að ræða þessi mál almennt, það er ekki vettvangur til þess hér nú, en langaði aðeins að spyrja hæstv. ráðh. um nokkur atriði í viðbót, tengd þessu máli. Mig langaði að spyrja hann: Hvernig er háttað samskiptunum á milli íslenzku flugumferðarstjórnarinnar og bandaríska hersins? Fær flugumferðarstjórn okkar vitneskju um ferðir bandarískra flugvéla, hvenær þær hefjast til flugs, hvaða leiðir þær ætla að fara og í hvaða hæð þær fljúga? Hér er um að ræða mjög mikilsvert öryggisatriði. Mér er kunnugt um það af umr. í öðrum löndum, að það er talið ákaflega mikilvægt að samræma flug herja og almennt borgaralegt flug, vegna þess, að það er ekki hægt að leggja á ráðin um flugstjórn, ef menn vita ekki ferðir allra flugvéla. Því vænti ég þess, að hæstv. ráðh. greini frá því, hvort íslenzka flugumferðarstjórnin fær vitneskju um allar slíkar flugferðir.

Í annan stað gilda hér á Íslandi alveg ákveðnar öryggisreglur í sambandi við flugferðir, víðtækar og næsta strangar öryggisreglur, sem eiga að gilda hér á Íslandi. Eru gerðar ráðstafanir til þess af hálfu hæstv. ráðh. og ríkisstj., að þetta æfingaflug Bandaríkjamanna sé innan þess ramma, sem settur er í þessum öryggisreglum? Er þetta flug í samræmi við öryggisreglur?

Og í þriðja lagi. Ef flugslys verða, er það skylda íslenzkra yfirvalda á því sviði að rannsaka, hvernig á því stendur, að slysið varð, af hverju slysið stafar, ef hægt er. Verða íslenzkir sérfræðingar sendir til þess að athuga, af hverju þetta slys stafaði, eða lætur hæstv. ráðh. sér nægja að hlýða á það, sem bandarískir sérfræðingar kunna að segja honum?