22.11.1967
Sameinað þing: 14. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

Stríðið í Víetnam

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að gefa skýringu á riti því, sem útbýtt hefur verið hér í þingsalnum, upplýsingariti um stríðið í Víetnam.

Svo sem kunnugt er, hefur U Thant, framkvstj. Sameinuðu þjóðanna, og ýmsir fleiri, sem gerst mega til málanna þekkja, fullyrt, að engin von sé um það, að samningar geti hafizt um deilumálin þar austur frá, nema Bandaríkjamenn stöðvi loftárásir sínar á Norður-Víetnam. U Thant fullyrðir að vísu ekki, að þetta mundi áreiðanlega leiða til þess að setzt yrði að samningaborði, en hann fullyrðir, að algerlega sé vonlaust um, að samningar geti hafizt, nema þetta verði gert.

Hér er því mikið í húfi, enda hefur þessi liðurinn í friðarumleitunum framkvstj. hlotið öflugan stuðning víða um heim, og ekki hvað sízt meðal ýmissa þeirra þjóða, sem teljast mega mestir vinir Bandaríkjanna og traustastir bandamenn. Nægir þar til dæmis að nefna, að nú ekki alls fyrir löngu, 28. ágúst, samþykkti hollenzka þingið áskorun á Bandaríkjastjórn um að stöðva loftárásirnar á Norður-Víetnam, og mikla athygli hafa einnig vakið áskoranir um hið sama frá ríkisstjórnum frændþjóða okkar á Norðurlöndum og ýmsum helztu ráðherrum þeirra — áskoranir á Bandaríkjastjórn um að stöðva loftárásir á Norður-Víetnam.

Frá íslenzkum stjórnarvöldum hefur hins vegar ekkert, mér vitanlega, heyrzt um þetta efni, og það er okkur, að mínum dómi, til lítils sóma. Mér sýnist því, að ekki megi lengur dragast, að Alþingi Íslendinga láti að sér kveða í málinu, annaðhvort með till., sem fæli í sér áskorun á Bandaríkjastjórn um að stöðva loftárásirnar á Norður-Víetnam, eða með einhverjum öðrum hætti. Ég trúi því ekki, að jafnalvarlegt mál og þetta þurfi að verða átakamál á milli flokka hér á hæstv. Alþ., og ég vona í lengstu lög, að svo verði ekki.

Þess vegna hef ég að undanförnu leitað til ýmissa hv. þm. um, að þeir yrðu flm. að slíkri till. Þeir hv. þm. Framsfl., sem ég hef leitað til, hafa tekið málaleitan minni vel. Undirtektir þeirra hv. þm. stjórnarflokkanna, sem ég hef talað við um þetta, hafa hins vegar valdið mér vonbrigðum, þeir telja einhverra hluta vegna, að þeir eigi óhægt um vik að skipa sér við hlið okkar Alþb.-manna og framsóknarmanna í málinu. Sérstaklega hafa undirtektir hv. þm. Alþfl. valdið mér vonbrigðum, því að ég veit ekki betur en að miðstjórn Alþfl. eða landsfundur hafi samþ. ályktun, sem gengur í sömu átt og sú till., sem ég hef í huga, þannig að ekki ætti a. m. k. að þurfa að efast um vilja alls þorra óbreyttra Alþfl.-manna í málinu.

En ég hef ekki viljað gefa upp alla von um samstöðu, og þess vegna hef ég gengizt í að útvega þetta upplýsingarit um stríðið í Víetnam í von um, að með því mundi nást það, sem á kann að vanta, að menn geri sér fulla grein fyrir alvöru málsins, ógnum stríðsins í Víetnam og nauðsyn þess, að allir góðir menn geri það, sem í þeirra valdi stendur, til að þeim verði af létt.

Þetta rit var gefið út á s. l. ári af hinu þekkta, brezka útgáfufyrirtæki „Penguin“, en síðan þá hafa, sem kunnugt er, styrjaldarógnir austur þar fremur verið að aukast. Höfundurinn Felix Greene er brezkur að uppruna en hefur lengi verið búsettur í Bandaríkjunum, í Kaliforníu. Hann mun vera kvekari að trúarskoðun, en kvekarar eru, eins og menn vita, miklir friðarsinnar og mannvinir. Við Íslendingar höfum áhuga á ættfræði, þess vegna mætti geta þess, að Felix Greene er náfrændi sir Hugh Greene, sem hingað kom í heimsókn til Vilhjálms Þ. Gíslasonar í haust að ræða við hann og fleiri ágæta útvarps- og sjónvarpsmenn um málefni útvarps og sjónvarps. Enn einn af bræðrum sir Hugh Greene er Graham Greene, hinn heimskunni rithöfundur. Felix Greene er þaulkunnugur málefnum Suðaustur-Asíu og hefur þar oft verið á ferð.

Vegna þeirra hv. alþm., sem ef til vill lesa ekki ensku sér til gagns, hef ég látið taka saman nokkrar skýringar í íslenzkri þýðingu, og er þær skýringar að finna fremst í ritinu.

Ég vænti þess, að eftir að hv. þm. hafa kynnt sér þetta rit, verði auðveldara að fá samstöðu allra þingflokka um till. þá, sem ég hef í huga, eða einhverja slíka, sem sanni það, að Alþingi Íslendinga láti sig varða örlög hinnar marghrjáðu þjóðar, sem byggir landið Víetnam, og vilji gera það, sem í þess valdi stendur, til þess að styrjaldarógnum verði af því létt.