16.01.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

Atvinnuleysi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér var ekki kunnugt um efni þeirra fsp. eða aths., sem hv. þm. ætlaði að gera, og hef því ekki getað undirbúið mig um að svara þeim eins og hægt hefði verið, ef fyrirvari hefði verið veittur. Hitt er óhætt að segja undirbúningslaust, að ég hef talið og tel enn, að á móti atvinnuleysi verði að berjast með öllum tiltækum ráðum, og ég hygg, að í raun og veru sé enginn skilsmunur á milli ríkisstj., stjórnarstuðningsmanna og stjórnarandstæðinga um það, að atvinnuleysi sé það böl, sem við eigum umfram allt að forðast, eftir því sem geta okkar nær til. En eins og hv. þm. tók fram, liggja ekki fyrir neinar öruggar skýrslur um atvinnuleysi nú og er því ekki hægt, allra sízt undirbúningslaust, og heldur ekki samkv. þeim gögnum, sem mér vitanlega eru fyrir hendi, að ræða þetta mál efnislega á þessu stigi. Sem betur fer er hér í gildi löggjöf, sem sér fyrir brýnustu þörfum atvinnuleysingja í bili, getum við sagt. Sú löggjöf leysir ekki úr böli atvinnuleysisins, sem er auðvitað mjög alvarlegt, þó að atvinnuleysistryggingar séu fyrir hendi. En þessi löggjöf er í gildi og leysir úr þeirri brýnustu nauðsyn, getum við sagt. Að öðru leyti verður að skoða málið nánar.

Við skulum ekki á þessu stigi — ég tel það ekki tímabært — fara að ræða efnahagsmál almennt, til þess gefast mörg tækifæri á framhaldi þessa Alþingis, en það er ljóst, eins og hv. þm. einnig drap á, að sá samdráttur, sem orðið hefur í sjávarútveginum á undanförnum mánuðum, og þeir örðugleikar, sem útflutningsframleiðslan hefur átt við að etja, eiga hér mestan þátt í að svo miklu leyti, sem um nokkuð langvarandi atvinnuleysi kann að vera að ræða, sem með öllu er óvíst enn. Ráðið gegn þessu er að gera ráðstafanir til þess að örva sjávarútveginn og útflutningsframleiðsluna. Að lausn þess máls hefur verið unnið og er unnið þessa daga og verða till. og grg. lagðar fyrir Alþ. um það strax og efni standa til. Að öðru leyti er það auðvitað ljóst, að slík umhleypingatíð, sem hefur verið a. m. k. hér í Reykjavík síðustu vikur, hlýtur að leiða til þess, að ýmis útistörf falla niður og verða erfiðari, og við því er ekki auðvelt að gera á okkar landi. Það er hvarvetna, ekki einungis hér á Íslandi, heldur hvarvetna í norðlægum löndum, viðurkennt, að atvinnuástand um hávetur, meðan óveður geisa, hlýtur að vera með öðrum hætti heldur en meðan hægt er að sinna ýmiss konar útistörfum. Ég get fullvissað hv. þm. og þingheim um það, að ríkisstj. mun fylgjast með þessum málum. Ég hef þegar átt viðræður um þetta efni við þann, sem kunnugastur er ástandinu hér í Reykjavík. Við munum fylgjast með þessu máli, og ef efni standa til, bera fram um það sérstakar till., en annars blandast þetta auðvitað mjög inn í þær ráðstafanir, sem gerðar verða til örvunar útflutningsframleiðslunni.