16.01.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

Atvinnuleysi

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða hér almennt það ástand í atvinnumálum, sem vakin hefur verið athygli á, en aðeins fullyrða, að hér er um að ræða ástand, í landinu í dag, sem við höfum ekki þekkt í mörg ár. Ég held, að við verðum að fara aftur til ársins 1951–1952 til þess að finna hliðstæðu þess. Við höfum aðeins orðið varir við tímabundið atvinnuleysi undanfarin ár, árstíðarbundið, sem þó hefur verið í miklu minni mæli en áður var. Þróunin á síðasta ári og nú í byrjun þessa árs er með töluvert ólíkum hætti, og það er ekki nokkur vafi á, að nú horfir mun alvarlegar í þessum efnum en gert hefur nokkur nánustu undanfarin ár. Það er rétt, sem hér er greint, að tölur liggja ekki nákvæmar fyrir. Þó liggur fyrir, að hér í Reykjavík, þar sem atvinnuástandið hefur yfirleitt verið talið öruggast, a. m. k. svona á yfirborðinu, og hefur verið svo undanfarin ár, eru samkv. upplýsingum Morgunblaðsins í morgun, skráðir 145 menn atvinnulausir í gærkvöld. Það er ekki nokkur vafi á því, að þessir menn eru mun fleiri, sem þannig er ástatt um. Menn hafa ekki hirt um að láta skrá sig. Það eru ýmsar orsakir til þess, m. a. þær, að menn eru að vonast eftir, að hér sé aðeins um tímabundið ástand að ræða, og taki því ekki að fara að skrá sig atvinnulausa. En í ljós kemur nú, þegar menn fara að skrá sig, sem að langmestu leyti hefur verið nú síðustu daga, síðustu vikuna, að þó nokkrir þeirra hafa verið afvinnulausir frá því í byrjun desembermánaðar, frá því í nóvember og jafnvel dæmi um frá því í október-mánuði. Menn hafa ekki haft vinnu, og það er ekki vegna þess, að menn séu ekki færir til starfa.

Það, sem nú ætti að hvetja menn til þess að láta skrá sig frekar en áður, þegar slíkt ástand hefur verið, er atvinnuleysistryggingarnar, og hæstv. forsrh. hafði hér þau orð um, að við hefðum þó nú tryggingar, sem bægðu frá því sárasta og sæju mönnum fyrir brýnustu nauðsynjum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa gert sér ljóst, hverjar þessar bætur eru? Atvinnuleysistryggingasjóður, sem til varð í vinnudeilunum 1955, er nú orðinn öflugasti sjóður landsmanna, það voru gefnar um hann skýrslur hér fyrir ekki löngu síðan. En þessi sjóður hefur nú samt sem áður ekki talið sig hafa efni á, eða löggjafarvaldið ekki talið sjóðinn hafa efni á, að skammta þeim mönnum, sem verða fyrir barðinu á atvinnuleysinu, ríflegra en svo, að kvæntur maður eða gift kona fá núna 930 kr. á viku til þess að lifa af. Ég held, að öllum sé ljóst, að það er tæpast hægt að sjá fyrir allra brýnustu nauðsynjum með þeirri upphæð. Einhleypur maður fær núna um 820 kr. á viku, fær 137 kr. á dag. Ef þessi maður ekki mallar heima hjá sér og ætlar að kaupa sér mat, getur hann keypt sér tæplega hálfa aðra máltíð á dag. Hann verður að neita sér um að drekka kaffi eða slíka hluti. Þannig er þetta. Kaupmáttur krónunnar er nú ekki meiri en þessu nemur. Ég skal aðeins taka það fram, að það er að vísu smá ágreiningur um, að bæturnar geti e. t. v. verið örlítið hærri, en úrskurður um það efni er ekki fyrir hendi. Þegar voru samþ. breytingar á lögunum og verulegar lagfæringar í fyrra, og eftir þær lagfæringar líta þau svona út. Það var talið, að atvinnuleysisbætur ættu að vera hinar sömu og slysabætur, en í l. um atvinnuleysistryggingar er ákvæði um, að þær skuli ekki greiða nema hina 6 virku daga vikunnar en slysabætur eru hins vegar greiddar alla daga, jafnt virka sem helga. Ég held, að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að hafa þessar bætur lægri, en svona æxlaðist þetta nú til, og úrskurður um málið er ekki enn fyrir hendi. Ég vil leggja áherzlu á það, að það þarf að gera hér á lagfæringar. Höfuðatriðið er að sjálfsögðu það, sem hæstv. forsrh. tók fram, þ. e. a. s. að tryggja grundvöll atvinnulífsins, þannig að við þekkjum ekki atvinnuleysi. Það er það voðalegasta, sem okkar þjóð getur upplifað í þessum efnum. Og ég er sannfærður um það, að allir þm. eru með einn og sama huga og afstöðu til þess, að til slíks má ekki koma. En það er þá líka alveg nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst, að við stöndum frammi fyrir ástandi, sem við höfum ekki haft fyrr undanfarna nærri tvo áratugi, og þetta er ekki stundarfyrirbrigði, því miður. Öll sólarmerki virðast benda til þess, að samdrátturinn sé svo alvarlegur, að þótt vertíðin fari í gang, útvegurinn verði tryggður að þessu sinni, muni ekki rakna úr sem skyldi. Þetta er á öllum sviðum. Það finnst tæplega nú sú atvinnugrein, þar sem ekki er samdráttur. Við höfum stundum upplifað, að það hefur orðið í einstaka greinum, en þá hafa aðrir tekið við þeim, sem þar urðu atvinnulausir. Þannig er ástandið ekki núna.

Það er ekki að neinu öðru að hverfa, þegar menn nú missa vinnuna. Það er þetta, sem er það alvarlega í því. Ég ætla ekki að rekja hér mínar hugmyndir um ástæður fyrir þessu, en það er mjög áberandi almennur fjárskortur, sem síðan hefur mjög erfiðar keðjuverkanir. Þetta er mjög áberandi í byggingariðnaðinum og hjá ýmsum verktökum og ég held hjá vel flestum fyrirtækjum í landinu. Ég persónulega þekki ekkert fyrirtæki, sem ekki kvartar undan þessu atriði. Og eins sýnist mér, að við þurfum að taka til endurskoðunar lögin um atvinnuleysistryggingar, og ég veit, að það er áreiðanlega ekki ætlun valdhafa eða löggjafans, að þessi stóri sjóður, sem vissulega átti að hafa fyrst og fremst það hlutverk, að vera atvinnuleysistryggingar, hefur fyrst og fremst á undanförnum árum stuðlað að því, að atvinnulífið héldist gangandi með lánastarfsemi til þess, en hann má náttúrlega alls ekki missa sjónar á því höfuðverkefni, sem hann átti að vinna, og það er, að aðstoða atvinnuleysingjana, og þetta er einnig í raun og veru kaupgjald verkafólksins, sem geymt er á þennan hátt einmitt til þessara nota.