16.01.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

Atvinnuleysi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil mega skilja orð hæstv. forsrh. þannig, að hann sé enn sömu skoðunar og fyrr varðandi ógæfu þá, sem fylgir atvinnuleysi, og hvað gera þurfi til þess að bægja slíku frá. Og ég vil einnig vænta þess, að það sé rétt skilið hjá mér, að ríkisstj. hafi þegar gert sér ljósan þennan vanda, sem við stöndum nú frammi fyrir í þessum efnum, og að hún ætli sér að fylgjast með því, sem í þessum málum gerist, og grípa þá til nauðsynlegra ráðstafana.

En ég vil hins vegar í tilefni af því, sem hér kom fram hjá hæstv. dómsmrh., segja, að það er reginmisskilningur, að ég hafi flutt mitt mál þannig hér eða við, sem hér höfum talað um þessi mál af hálfu Alþb., að við séum að hefja hér upp einhverjar deilur við ríkisstj. Hreint ekki. Við höfum aðeins verið að benda á þetta alvarlega vandamál, sem hér er komið upp, og benda á það, að að okkar dómi þarf hér skjótra úrræða við, og þó að hæstv. dómsmrh. geti tilnefnt ýmis atriði, sem ríkisstj. hefur verið að vinna að og stefna í rétta átt og leysa eflaust vanda á hinum ýmsu stöðum, sbr. það, sem hefur verið að gerast á Akureyri, breytir það engu um þá meginstaðreynd, að hér er þegar komið upp mjög alvarlegt ástand í þessum efnum og ábyggilega er hér um miklu meira og almennara atvinnuleysi að ræða heldur en tölur þær, sem greint hefur verið frá, gefa til kynna. Og í þeim efnum vil ég alveg sérstaklega undirstrika það, að atvinnuleysisskráningarkerfið er í mesta ólestri um allt land og svo til alveg óvirkt mjög víða. Og þó að möguleikinn sé fyrir hendi til þess að fá nokkrar atvinnuleysisbætur til þess að lina þar sárustu kvalirnar, eins og hér hefur verið bent á, og það er auðvitað góðra gjalda vert og þýðingarmikið út af fyrir sig, þá er það nú einu sinni svo, að enn þá eru verkamenn hér á landi og fólk hér yfirleitt, sem erfiðisvinnu stundar, þannig að það vill helzt ekki þurfa að sækja um þær bætur eða telja sig atvinnulausá fyrr en í fulla hnefana er komið. Menn sem sagt leita eftir því í lengstu lög að fá lausn á sínum atvinnumálum, og það er það, sem hér er auðvitað um að ræða, þegar vakin er athygli á þessu alvarlega málefni. Það er að finna ráð til þess að bægja atvinnuleysinu frá, þ. e. að leysa vandamál atvinnuveganna. Ég held, að það hafi verið full þörf á því að vekja hér máls á þessu alvarlega máli, og síður en svo, að það hafi verið að ástæðulausu, og ég vil vænta þess, að ríkisstj. hafi hér fullt samráð við Alþ. um nauðsynlegar aðgerðir í þessum málum af því að það er nú einu sinni svo, eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, að ef mál eiga að fá hraða afgreiðslu hér á Alþ. og það á að koma til framkvæmda, sem hér er verið að gera, fljótlega, verður ríkisstj. að standa að afgreiðslu slíkra mála. Annars eru þau geymd hér í nefndum og fá ekki afgreiðslu.

Ég vil sem sagt vænta þess, að hæstv. ríkisstj. fylgist með þessum málum í fullri alvöru, og láti sér ekki skjótast yfir það, hvernig þessi mál í raun og veru eru yfir landið sem heild, jafnvel þó að einhverjar úrbætur kunni að hafa fengizt á einstaka stað og þar hafi ástandið heldur batnað frá því, sem áður var. Ástandið er ábyggilega mjög alvarlegt, og hér þarf róttækra aðgerða við og það fljótlega.