04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

Verkföll

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., enda er mér mjög til efs, að langar umr. hér á þessum vettvangi stuðli að því í raun og veru að leysa þann mikla vanda, sem íslenzku þjóðfélagi er á höndum um þessar mundir. En mig langar samt til að gera örstutta og mjög einfalda fsp. til hv. síðasta ræðumanns.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hann er varaformaður Sambands ísl. samvinnufélaga. Og nú langar mig til þess að vita, og ég geri ráð fyrir, að það langi fleiri til þess að vita, hvort hann hafi gert grein fyrir þeim skoðunum, sem hann gerðist talsmaður fyrir nú í ræðu sinni áðan, í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga. Það er öllum kunnugt, að Vinnumálasamband samvinnuhreyfingarinnar telur ekki fært, að svo stöddu a. m. k., að taka að semja um almenna greiðslu allsherjar kaupuppbóta á laun. Og þess vegna er mín stutta og einfalda fsp. sú, hvort svo kynni að vera, að varaformaðurinn hafi orðið í minni hl. í stjórn þessara miklu almannasamtaka með þær skoðanir, sem hann hér lýsti, eða hvort hann hafi alls ekki gert grein fyrir þeim þar með þeim sama hætti, sem hann gerði hér.