04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

Verkföll

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, en það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. Það er rétt, að verkalýðsmálanefnd Alþfl. gerði samþykkt um þetta mál á fundi sínum um síðustu helgi, ekki þessa helgi, sem núna stendur yfir, heldur hina. Meginefnið í þeirri ályktun verkalýðsmálanefndar Alþfl. var það, að unnið yrði að því af kappi að koma í veg fyrir atvinnuleysi í landinu; af því, eins og einn maður sagði þar mjög réttilega, hvaða gagn höfum við af dýrtíðaruppbótum eða vísitöluálagi, ef ekkert er að leggja vísitöluálagið á. Það er kjarni þessa máls, að það verði ekki farið út í neina þá leið í þessu máli, sem komi í veg fyrir það, að þeirri viðleitni verði haldið áfram, að efla atvinnulífið í landinu, því það, sem ég hræðist mest, ef fullt vísitöluálag kemur strax, er, að það verði til þess, að meira og minna af atvinnufyrirtækjum í landinu geti ekki staðið undir því og loki. Þess vegna held ég, að meginkjarninn í því, sem gera þarf í dag, séu ráðstafanir til þess að tryggja, að atvinnulífið geti gengið sinn gang og auðvitað að menn fái þá það mikið upp úr sinni vinnu, að þeir geti lifað á því mannsæmandi lífi eins og í ályktuninni stóð.