14.11.1967
Sameinað þing: 11. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

Minning látins fyrrv. alþingismanns

forseti (BF):

Til þessa fundar í sameinuðu Alþ. er boðað til að minnast Hákonar Kristóferssonar bónda í Haga og fyrrv. alþm., sem lézt í sjúkrahúsinu á Patreksfirði aðfaranótt s. l. föstudags, 10. nóvember, níræður að aldri.

Hákon Kristófersson fæddist 20. apríl 1877 á Hreggsstöðum á Barðaströnd. Foreldrar hans voru Kristófer, síðar bóndi á Brekkuvelli á Barðaströnd, Sturluson bónda í Vatnsdal Einarssonar og kona hans, Margrét Hákonardóttir bónda á Hreggsstöðum Snæbjarnarsonar. Hann var elztur í stórum systkinahópi og átti lítinn kost skólamenntunar á uppvaxtarárum sínum. Ungur fór hann til sjóróðra vestur á Rauðasand og var orðinn formaður á bát innan við tvítugt. Hann vann við verzlunarstörf á Vatneyri við Patreksfjörð 1901–1902 og stundaði síðan jarðyrkjustörf og ýmsa aðra vinnu á árunum 1903–1907. Árið 1907 gerðist hann bóndi í Haga á Barðaströnd og rak þar síðar rausnarbú í sex áratugi, hin síðari ár í sambýli við son sinn.

Hákon Kristófersson í Haga var alþm. Barðstrendinga á árunum 1913–1931, sat á 20 þingum alls. Hann var hreppsstjóri í Barðastrandarhreppi frá 1905–1966 og átti um langt skeið sæti í sýslunefnd. Í Landsbankanefnd var hann kosinn 1930 og átti sæti í henni til 1936. Áratuginn 1930–1940 var hann umsjónarmaður Landssímahússins í Reykjavík, en rak þó jafnframt bú í Haga.

Hákon í Haga lifði langa ævi á tímum mikilla viðburða hér á landi. Hálffertugur var hann valinn af sýslungum sínum til setu á Alþ. og því sæti hélt hann um alllangt skeið. Á þingi hafði hann mest afskipti af landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, því að til þeirra taldi hann sig þekkja betur en til flestra mála annarra. Hann var þéttur á velli og stórbrotinn í lund, gætinn og raunsær í viðhorfi til þjóðmála, einarður og hispurslaus, ef því var að skipta, en að öðrum kosti nærgætinn og ráðhollur. Hann átti ætt sína og uppruna á Barðaströnd og undi þar betur langdvölum en í Reykjavik, þótt svo vildi til að hér yrði hann bundinn störfum einn áratug langrar ævi sinnar.

Hann skilaði þjóð sinni, sveit og sýslu miklu og merku starfi, áður en hann var allur, og áhugi hans á þjóðmálum dvínaði ekki, þótt ellin sækti hann heim. Var hann jafnan reiðubúinn til að ræða þau mál við frambjóðendur og þm. allra flokka, og nutu þeir ávallt frábærrar gestrisni á höfuðbólinu Haga.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast hins látna bændahöfðingja, Hákonar Kristóferssonar í Haga, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]