11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hélt því fram í sinni ræðu, að við Alþb.- menn hefðum ekki fyrir kosningar tekið afstöðu til deilumálanna, sem upp risu varðandi framboðin hér í Reykjavík, vegna þess að við hefðum ætlað okkur að kosningum loknum að geta skipt um skoðun eftir því sem okkur hentaði, þannig að við gætum haft af því hagnað. Ég verð nú að játa það, að ég hef ekki komið auga á þennan möguleika því að auðvitað er það augljóst mál, að fyrir Alþb. sem heild hlaut það vitanlega alltaf að vera til ávinnings við útreikning á uppbótarsætum, að öll þau atkv., sem féllu á lista Hannibals Valdimarssonar, yrðu talin með Alþb. Það gat vitanlega engum manni blandazt hugur um þetta.

En málið sneri ekki þannig við, að við Alþb.- menn værum að halda einhverju í erminni til þess að geta beitt því á óheiðarlegan hátt á eftir. Ástæðan fyrir því, að við tókum ekki ákveðna afstöðu um þau deilumál, sem komu hér upp í Reykjavík, var einfaldlega sú, að hér var um deilu að ræða í einu ákveðnu kjördæmi, meðal Alþb.- manna, og það var, eins og ég hef leitt rök að, heldur ekkert óeðlilegt, að þessar deilur kæmu upp. Hliðstæðar deilur hafa komið upp hjá öðrum. Yfirstjórn Alþb. vildi ekki blanda sér í þessar deilur og vissi enda, að það var ekki á valdi yfirstjórnar Alþb. að skera úr um deilumálið sjálft. Það lá ekki á valdsviði Alþb. að ákveða merkingu á þeim framboðslista, sem síðar kom hér fram í Reykjavík. Það var á valdi yfirkjörstjórnar, og þá landskjörstjórnar, sem við Alþb.- menn áttum enga fulltrúa í. En hinir flokkarnir áttu menn í þessum stjórnum. Þeir höfðu þetta í sinni hendi, en þeir léku þar tveim skjöldum, það var alveg augljóst mál. Og það var líka augljóst mál, og því geta allir gert sér grein fyrir, vegna hvers þeir vildu gjarnan hafa alla þá óvissu um kosninguna, sem var í reynd. Þeir vildu gjarnan geta hagað úrskurðarvaldi sínu hér á Alþingi eftir því, sem þeim yrði hentugast. Það lá alveg ljóst fyrir. En þegar t.d. hæstv. forsrh. Bjarni Benediktsson beindi fsp. sinni til mín í útvarpsþættinum, var mér alveg ljóst, að hann var að gera tilraun til þess að fá mig til að taka þátt í þeim deilum, sem upp höfðu risið innan Alþb. hér í Reykjavík. En það var sjónarmið okkar í öðrum kjördæmum landsins og í yfirstjórn samtakanna, að blanda okkur ekki í þessa sérstöku deilu. Við vorum alveg vissir um það, að það mundi ekki hafa nein góð áhrif, úr því sem komið var.

En það voru hins vegar aðrir, sem léku hér tveim skjöldum í málinu, og þeir gera það enn. Og meira að segja, þó að hæstv. forsrh. komi hér fram og segi nú í síðustu ræðu sinni: Sjónarmið Hannibals Valdimarssonar eru lagalega rétt í þessu máli. Við erum á þeirri skoðun, að þau séu rétt, þess vegna ætlum við að sitja hjá. M.ö.o., að Steingrímur Pálsson sé þá réttilega kjörinn og það eigi að viðurkenna kjörbréf hans hér, en samt bætir hæstv. forsrh. því við, að hann ætli að sitja hjá. Hann vill ekki staðfesta það með atkvgr. hér á Alþingi, sem er rétt í málinu, það, sem er lagalega rétt. Þetta kalla ég að leika tveim skjöldum alveg fram á síðustu stundu. En vegna þess, að kosningarnar fóru á þá lund, að þetta skiptir ekki afgerandi máli fyrir ríkisstj., hvort kjörbréf Steingríms Pálssonar verður tekið gilt eða ekki, geta þeir auðvitað haldið áfram þessum skollaleik, sem þeir léku í kosningunum allan tímann.

Það er vitanlega hreinn útúrsnúningur að halda því fram, að við Alþb.- menn höfum í þessari stöðu á nokkurn hátt reynt að notfæra okkur það, sem gæti leitt til þess, að við hefðum sérstakan hagnað af dómi í þessu máli. Það var alveg gefið mál, að hvert eitt einasta atkv., sem félli á lista Hannibals Valdimarssonar, hlaut auðvitað að vera ávinningur fyrir Alþb., ávinningur að fá þau atkv. talin. Hitt var svo aftur annað mál, eins og ég hef greint frá, að það voru deilur innan Alþb. um merkingu á listanum og um framboðin, og það var ósköp eðlilegt, að yfirstjórn Alþb. blandaði sér ekki í þá deilu umfram það, sem þörf var á. Það var ástæðan til okkar afstöðu, og ég veit, að hæstv. forsrh. hefur gert sér grein fyrir því.