15.02.1968
Sameinað þing: 39. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (BF):

Svo hljóðandi bréf hefur borizt: „Reykjavík, 14. febr. 1968.

Ólafur Jóhannesson, 3. þm. Norðurl. v., hefur ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda til þess að sitja þing Norðurlandaráðs og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu tvær vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að 2. varamaður Framsfl. í Norðurl. v., Magnús H. Gíslason bóndi, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Jónas G. Rafnar,

forseti efri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Þessu bréfi fylgir svo hljóðandi símskeyti: „Samkv. bókun í gerðabók yfirkjörstjórnar Norðurl. v., en bókin er í vörzlu embættisins, gaf yfirkjörstjórn á fundi sínum 12. júlí 1967 út kjörbréf til 5 kjörinna þm. og 5 varaþm., þ. á m. til Magnúsar H. Gíslasonar bónda, Frostastöðum. En kjörbréf hans er sagt glatað.

Skrifstofu Húnavatnssýslu, 13. febr. 1968.

Jón Ísberg.“

Enn fremur hefur borizt svo hljóðandi bréf: „Reykjavík, 14. febr. 1968.

Emil Jónsson, 3. þm. Reykn., hefur ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda til þess að sitja þing Norðurlandaráðs og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu tvær vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að sökum forfalla 1. varamanns taki 2. varamaður Alþfl. í Reykjaneskjördæmi, Stefán Júlíusson rithöfundur, sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Benedikt Gröndal,

forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Þessu bréfi fylgir svo hljóðandi símskeyti: „Vegna anna get ég ekki mætt á Alþingi næsta hálfan mánuð í stað Emils Jónssonar. Bið þig sem annan varamann að mæta í minn stað.

Ragnar Guðleifsson.“

Undirskriftin er staðfest af símastúlku. Kjörbréf til handa Stefáni Júlíussyni rithöfundi, útgefið af yfirkjörstjórn Reykjaneskjördæmis, fylgir einnig með þessu bréfi.

Þá hefur í þriðja lagi borizt svo hljóðandi bréf: „Reykjavík, 14. febr. 1968.

Sigurður Ingimundarson, 1. landsk. þm., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda til þess að sitja þing Norðurlandaráðs og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu tvær vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður landsk. þm. Alþfl., Unnar Stefánsson viðskiptafræðingur, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Benedikt Gröndal,

forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Þessu bréfi fylgir kjörbréf til handa Unnari Stefánssyni viðskiptafræðingi, útgefið af landskjörstjórn.

Í fjórða lagi hefur borizt svo hljóðandi bréf: „Reykjavík, 14. febr. 1968.

Matthías Bjarnason, 4. þm. Vestf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég get ekki sinnt þingstörfum næstu vikur vegna veikinda, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að 2. varamaður Sjálfstfl. í Vestfjarðakjördæmi, Ásmundur B. Olsen oddviti, taki sæti á Alþingi í forföllum mínum.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Benedikt Gröndal,

forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Þessu bréfi fylgir kjörbréf til handa Ásmundi B. Olsen, Patreksfirði, útgefið af yfirkjörstjórn Vestfjarðakjördæmis, en hann er 2. varamaður Sjálfstfl. í því kjördæmi. Sem kunnugt er, hefur 1. varamaður flokksins þegar tekið sæti á þinginu.

Ég vil leyfa mér að biðja hv. kjörbréfanefnd að taka öll þessi kjörbréf til rannsóknar. Á meðan verður gert fundarhlé. — [Fundarhlé.]