09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í tilefni af fsp. hv. þm. verð ég að taka það fram, að ég hef ekki hugsað mér að segja Sexmannanefnd fyrir verkum, hvernig hún ætlar að vinna. En til leiðbeiningar fyrir hv. þm. og fyrir aðra hv. þm. má geta þess, að í 1. gr. frv. er sagt:

Sexmannanefnd sú, sem um getur í 5. gr. l. nr. 101/1966, skal framkvæma þessa endurskoðun, þ.e. endurskoðun á verðlagi, að fengnum skýrslum og gögnum frá Hagstofu Íslands.

Og mér er kunnugt um það, að Hagstofa Íslands hefur núna undanfarna daga verið að víða að sér gögnum og upplýsingum um þær verðhækkanir, sem orðið hafa, t.d. á fóðurbæti. Það er alveg ljóst, hver verðhækkun verður á fóðurbæti vegna gengisbreytingarinnar. Verðhækkun á olíum og benzíni er fram komin vegna gengisbreytingar, og fleiri liðir, sem þarna koma til greina, ætla ég, að séu fram komnir. Ég hygg þess vegna, að hv. þm. geti í aðalatriðum verið ánægður með það, að Hagstofan safnar gögnum um verðhækkanir, sem eiga að koma inn í verðlagið, og það er ekki annar aðili líklegri til þess að gefa svör við því.

En hitt er líka jafnljóst, að það er ómögulegt að taka inn í verðlagið núna verðhækkanir, sem kynnu að verða einhvern tíma á næsta ári. Það er ekki hægt að taka inn í verðlagið núna aðrar hækkanir en þær, sem eru komnar eða fyrirsjáanlegar af þeim aðilum, sem bezt mega til þekkja, fyrirsjáanlegar eða komnar. Og ég hef ekki hugsað, að það gæti verið framkvæmt öðruvísi. (Gripið fram í: Fyrirsjáanlegar.) Fyrirsjáanlegar, fyrirsjáanlegar og komnar.

Þá er það 2. fsp. Það var fyrst ósk um, að yfirdómurinn yrði birtur. Ég hef nú ekki gert mér grein fyrir því, hvort ég ætti að ganga fram í því, að hann yrði birtur. En ég hef ekki ímyndað mér það, að yfirdómurinn sé neitt leyniplagg, og ég tel alveg sjálfsagt, að hv. landbn. fái að sjá hann eða allar upplýsingar um hann, og ég veit, að hv. 5. þm. Austf., sem á sæti í Sexmannanefnd, hefur alveg fulla einurð til þess að ná í þessi gögn og gefa upplýsingar um þau, enda hygg ég, að hann hafi þegar séð yfirdóminn. Ég hef ekki séð hann enn þá.

Þá var hv. þm. að tala um kjarnfóðurmagnið, að e.t.v. væri það miklu minna en það, sem bændur hefðu notað, miklu minna, sem tekið væri til greina í yfirdómnum. Þetta má vel vera, ég hef ekki séð yfirdóminn. En ég hef nú ekki hugsað það, að hv. landbn. legði til að breyta yfirdómnum, en ég ætla sem sagt ekkert um það að segja, en ég er ósköp hræddur um, að það verði að miða við það magn, sem í yfirdómnum er, hvert sem það er, sem ég man ekki. En ég ætla þó ekki að segja neitt um það, ef hv. Alþ. kemur sér saman um eitthvað annað, vitanlega gildir það. — Ég ætla svo, að ég hafi svarað fsp. hv. þm.