09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fara vissum viðurkenningarorðum um hæstv. landbrh., því að sá háttur hefur verið á, þegar frv. í sambandi við gengisbreytinguna hafa verið rædd hér á Alþ., að þeir hæstv. ráðh., sem fyrir þeim hafa mælt, hafa ekki sýnt þinginu þann sóma að svara þeim fsp. eða aths., sem við þau hafa verið gerð, heldur þagað þunnu hljóði. Ég álit, að þetta séu ákaflega óeðlileg og ég vil segja óverjandi vinnubrögð, og því finnst mér rétt að fara um hæstv. landbrh. viðurkenningarorðum fyrir það, að hann hagar sér öðruvísi og þinglegar en aðrir ráðh. hvað þetta snertir.

En ég get hins vegar ekki hælt ráðh. á sama hátt fyrir það frv., sem hér liggur fyrir, eða það atriði frv., sem snertir hann sérstaklega. Því að samkv. l., sem nýlega hafa verið afgr. hér á Alþ., er gert ráð fyrir því, að Alþ. ráðstafi þeim gengishagnaði sem þar er um að ræða, í þágu viðkomandi atvinnuvegar. Í þessu frv. er hins vegar lagt til, að þetta vald verði tekið af Alþ. og falið landbrh. einum. Þetta tel ég vera breytingu í öfuga átt, sem að vísu er í samræmi við það, að alltaf er verið að reyna að leitast við að draga meira og meira úr valdi Alþingis og færa hað yfir til ráðh. eða einstakra stjórnarstofnana. Ég vildi nú vænta þess, vegna þess hvernig ráðh. hefur komið hér fram, eins og ég áðan minntist á, að hann taki þetta atriði til endurskoðunar og sjái til þess, áliti hann það rétt, að þetta vald hans verði þó a.m.k. bundið við það, að samtök bænda fái um það að fjalla, hvernig þessum gengishagnaði verði ráðstafað, áður en endanlega verði frá þeirri ráðstöfun gengið. Langeðlilegast teldi ég, að núverandi ákvæði um þetta væri látið standa, að þessum gengishagnaði verði ráðstafað samkv. sérstökum lögum eftir ákvörðun Alþ. En ef það fengist ekki fram, væri þó a.m.k. sett það ákvæði, að ráðh. ráðstafaði þessu fé ekki nema að fengnum till. samtaka bænda og stofnana þeirra, eins og t.d. Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ég vildi þess vegna skjóta því til þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar. Í fyrsta lagi teldi ég eðlilegast, að núverandi ákvæði væru látin standa um þetta, þ.e. að Alþingi ráðstafi þessum gengishagnaði í þágu landbúnaðarins. En ef það fæst ekki fram, verði a.m.k. það ákvæði sett, að landbrh. geti ekki ráðstafað þessu fé nema að fengnum till. þeirrar stéttar, sem féð á, annaðhvort Stéttarsambands bænda eða Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Það tel ég vera alveg lágmarkskröfu af hálfu þeirrar stéttar, sem þetta mál snertir, að hún fái eitthvað að segja, áður en endanleg ákvörðun verður um það tekin, hvernig þessu fé er ráðstafað.

Af því að hæstv. ráðh. segir nú oft um okkur, og einn þm. áðan, að hann væri sanngjarn maður o.s.frv., trúi ég því líka á hæstv. ráðh., að hann sýni nú a.m.k. þá sanngirni, að bændurnir fái eitthvað um þetta að fjalla, áður en hann tekur endanlega ákvörðun um málið, ef fylgt verður ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir.