09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf aðeins að segja örfá orð til þess að leiðrétta misskilning, sem mér er ekki alveg grunlaust um, að kunni að hafa átt sér stað hjá hæstv. landbrh. varðandi ummæli mín áðan um úrskurð yfirnefndarinnar, sem sagt er, að felldur hafi verið 1. des. s.l. Ég sagði í ræðu minni áðan ekkert um það, að ég teldi hættu á því, að yfirnefndin hefði ekki dæmt eftir I. En ég vísaði til umr., sem átt hefðu sér stað hér í hv. Alþ. og einmitt í þessari hv. d. um það efni, hvort ske kynni, að ekki yrði dæmt eftir l. í þessu tilfelli. En þegar um er að ræða slíkt, hvort dæmt sé eftir lögum eða ekki, eiga menn auðvitað við sinn skilning á l. Við hér erum ekki dómarar, sem útskýri eða felli úrskurð um þýðingu laga. En það kom greinilega fram og ég held alveg sérstaklega af tilefni frá hæstv. ráðh., að vafi léki á því t.d., hvort yfirnefndin mundi fara eftir 8. gr. framleiðsluráðsl., þegar hún felldi úrskurð, og að því lutu ummæli mín m.a. Ef ég man rétt, virtist hæstv. landbrh. draga í efa, að þessi gr. væri framkvæmanleg, þegar hann talaði um þetta mál. Það lá að sjálfsögðu í þessum orðum hans, að ekki yrði eftir henni dæmt.

Hæstv. ráðh. velti nokkuð vöngum yfir því, hvern ætti að ásaka fyrir þann drátt, sem orðið hefði á því, að verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara yrði ákveðinn. Að svo stöddu vil ég ekkert leggja til þeirra mála, hvern eigi að ásaka, en dráttur þessi er að sjálfsögðu mjög óheppilegur. Lögin segja, að verðlagstímabilið skuli hefjast 1. sept., nema annað sé ákveðið með samkomulagi. En það hefur að sjálfsögðu ekki verið tilgangur löggjafans, að það gæti dregizt mánuðum saman, að þessi verðlagsgrundvöllur yrði ákveðinn. Hvort um það hafi verið samkomulag að fresta málinu um lengri eða skemmri tíma, um það upplýsist væntanlega seinna, hvort svo hafi verið. Og vera má, að það komi í ljós, ef einhvern á að ásaka fyrir þennan drátt, þá séum það e.t.v. við, sem hér sitjum í þessum sal, hæstv. ráðh. og við aðrir þm. hér, sem ekki höfum gengið nógu vel frá þessu ákvæði um það, hvenær verðlagningunni skuli vera lokið. Þetta styður það, sem ég minntist á áðan, að í sambandi við þetta frv., sem hæstv. ríkisstj. nú hefur lagt fram, getur verið ástæða til þess að athuga, hvort ekki þurfi að breyta einhverju öðru í framleiðsluráðsl., ef þetta frv. er afgreitt.