22.01.1968
Neðri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2143)

86. mál, hægri handar umferð

Flm. (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja ásamt hv. alþm. Þórarni Þórarinssyni, Jónasi Árnasyni, Ágúst Þorvaldssyni og Stefáni Valgeirssyni frv. til l. á þskj. 192 um breyt. á l. nr. 65 frá 13. maí 1966, um hægri handar umferð.

„1. gr. 2. mgr. 17. gr. l. orðist þannig: Ákvæði 1. gr. koma þó eigi til framkvæmda fyrr en á þeim degi apríl-, maí- eða júnímánaðar 1969, sem dómsmrh. ákveður að fenginni till. framkvæmdanefndar, enda hafi þá áður verið samþ. við þjóðaratkvgr. að taka upp hægri handar umferð.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um hægri handar umferð og málið oft verið til umr. hér á hv. Alþingi. Árið 1940 var ákveðið í nýjum bifreiðalögum og fyrstu umferðarl. að taka upp hægri handar umferð hér á landi. Þau lög komu þó ekki til framkvæmda vegna hernáms Breta. Samkv. till. til þál., sem samþ. var 13. maí 1964, var hafinn undirbúningur að því, að upp yrði tekin hægri handar umferð, og með l. frá 13. maí 1966 var ákveðið, að tekin skyldi upp hægri handar umferð. Og nú síðast hefur verið ákveðið, að umferðarbreytingin taki gildi 26. maí á þessu ári.

Eins og kunnugt er, hefur undirbúningur, meðferð og ákvarðanir í sambandi við þetta mál sætt mikilli og margvíslegri gagnrýni fjölda manna, og hefur komið æ betur í ljós, eftir því sem það hefur lengur verið á döfinni, að stór hluti kjósenda er þessari lagasetningu andvígur. Um þetta vitna þúsundir undirritaðra mótmæla, sem fram komu, meðan málið var til meðferðar á Alþingi og einnig síðar, bæði frá einstaklingum og félagssamtökum. Er vafamál, að nokkurt ópólitískt mál hafi um áratugaskeið valdið svo almennri og harðri andstöðu.

Nú er viðhorf til málsins breytt, því að vegna erfiðleika þjóðarinnar í efnahagsmálum er fyrirsjáanlegur samdráttur á flestum sviðum þjóðlífsins. Það hefur komið betur í ljós, að áföllin í íslenzkum þjóðarbúskap eru því miður meiri en álitið var í upphafi, og nú er hér að skapast ástand, sem hefur ekki þekkzt í nærri tvo áratugi, en það er atvinnuleysi. Allt bendir til þess, að nú verði að skera niður margar aðkallandi framkvæmdir. Breyting á hægri handar umferð á Íslandi er ekki aðkallandi og þess vegna sjálfsagt að fresta henni, því að samfara umferðarbreytingunni yrði mikill og ófyrirsjáanlegur kostnaður, bæði hjá ríkissjóði og einstaklingum.

Með þessu frv. er lagt til að fresta framkvæmd hægri handar umferðar í eitt ár, enda hafi þá áður farið fram þjóðaratkvgr. um málið. Það er athyglisvert, að þetta stórmál, sem varðar alla landsmenn, hefur frá upphafi verið ópólitískt og enginn stjórnmálaflokkur gerði hægri umferð að stefnumáli sínu í síðustu alþingiskosningum. Það er vitað, að allólíkar skoðanir eru uppi innan allra stjórnmálaflokka um málið.

Þegar taka skal afstöðu til þess, hvort hafa skuli vinstri eða hægri handar umferð, vaknar fyrst sú spurning, hverjir séu kostir og gallar hvorrar reglunnar um sig. Talið er, að í sjálfu sér hafi hvorug reglan kosti umfram hina. Þetta var sú höfuðregla, sem kom frá umferðarlaganefnd, þ.e.a.s. að báðar reglurnar séu í sjálfu sér alveg jafngóðar. Hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu 29. nóv. 1965, með leyfi forseta:

„Það er ekki unnt að segja, að önnur reglan sé hinni betri, að aka vinstra megin á vegi eða hægra megin á vegi. Það er öllum ljóst. Það er töluvert tilviljunum háð, hvernig þetta er eða hefur verið meðal þjóða í Evrópu, sem við höfum nánust skipti við.“

Það er ekki nema eðlilegt, að lönd, sem hafa sameiginleg landamæri, samræmi sínar ökureglur, og það hafa þau gert á undanförnum árum á meginlandi Evrópu og nú síðast Svíþjóð, og þar með voru öll lönd á meginlandinu búin að taka upp hægri handar akstur. Hins vegar gegnir allt öðru máli með eylönd, sem hafa öll vinstri handar umferð, svo sem Ísland, Bretland, Írland, Japan og Ástralía, og í þessum eylöndum búa hundruð milljónir manna. Með þessari væntanlegu breytingu hér á Íslandi yrðum við sennilega fyrsta eyland í Evrópu til að breyta í hægri handar umferð.

Því hefur verið haldið fram sem aðalrökum, að öll umferð í lofti og á sjó sé hægra megin og þess vegna sé ástæða til að taka upp hægri umferð á landi, því að þetta ósamræmi geti villt fyrir t.d. flugmönnum og sjómönnum okkar. En ef þetta ætti að villa fyrir þeim, hvað mætti þá segja um Breta, Japani og Ástralíumenn? Þeir eiga stóra skipa- og flugvélaflota, og þess vegna ætti þetta að vera þeirra stóra vandamál, en engar fréttir hafa borizt um slíkt.

Því var haldið fram, að Íslendingar ferðuðust meira og meira til útlanda og færu með sínar bifreiðar og hættulegt væri fyrir þá að aka þar í hægri umferð, þar sem þeir væru vanir vinstri umferð hér. Þessu er til að svara, að þeir Íslendingar, sem aka erlendis, eru aðeins örlitið brot af þjóðinni, og vandi þeirra er ekki að aka hægra megin, heldur að þekkja öll þau ógrynni af umferðarmerkjum, sem á vegi þeirra verða. Með sama rétti mætti segja, að það væri auðvelt fyrir Íslendinga að aka í Bretlandi eða Írlandi í vinstri umferð. En ég hygg, að svo sé ekki, vegna þess að það er sérstök umferðarmenning í sérhverju landi, og umferðarmenningin batnar ekki, þó að skipt sé frá vinstri til hægri. Til þess að skapa örugga umferð er nauðsynlegt að hafa sífellda fræðslu- og upplýsingaþjónustu um umferðina, enda er talið, að óaðgæzla eða vanþekking sé meginorsök umferðarslysanna. Hvergi hefur komið fram í skýrslum, að meiri slysahætta sé af vinstri en hægri umferð, heldur hið gagnstæða. Í norska blaðinu Motor, sem bílstjórasamtök Noregs gefa út og eru í samstarfi við norskar bifreiðatryggingar, birtist grein í febrúarhefti 1967. Þar segir m.a. á þessa leið:

„Í Sviss eru starfandi samtök, sem rannsaka vísindalega allt, sem snertir umferð á vegum. Svissneska nefndin lýsir því yfir samkv. rannsókn sinni, að Svíþjóð, sem er bílflesta landið í Evrópu með vinstri handar umferð, hefur að tiltölu á bifreið aðeins 1/3 hluta látinna og slasaðra í umferðarslysum á við meðaltal slysa í öðrum löndum Evrópu. Með samanburði við Sviss eru slysin í umferð Svíþjóðar aðeins einn á móti þremur slasaðra og látinna.“

Í Sviss er hægri handar umferð, og eins og við vitum breyttu Svíar í hægri handar umferð 3. sept. s.l.

En það er annað, sem er athyglisvert í þessu sama norska blaði, Motor. Þessi starfandi samtök vinna ákaft að því, að stýri bílsins sé haft hægra megin í bifreiðinni í hægri handar umferð. Rök fyrir þessu eru þau, að þá fær bifreiðarstjórinn miklu betri aðstöðu gagnvart vegjaðri. Enn fremur segir þessi rannsóknarnefnd: „Sé bifreiðarstjórinn nær vegmiðju í bifreið sinni, eins og nú tíðkast í hægri handar umferð, heldur hann sig ósjálfrátt of nærri vegmiðju til að forðast útafakstur eða honum hættir við að ofmeta fjarlægðina milli ytri hjóla og vegjaðars og ekur þá út af.“

Sama nefnd vitnar í ummæli ítalsks kappakstursmanns, en hann segir: „Ef við færum stýri bifreiða til hægri, þ. e. nær vegjaðri, í öllum bílum í umferðinni, gildir það sama og að vegurinn sé breikkaður um heilan metra öllum að kostnaðarlausu, ½ metra til hægri og ½ til vinstri.“

Samkv. áliti þessarar n. erum við Íslendingar með rétt stýri miðað við vinstri handar umferð. Og n. segir enn fremur. „Ef bifreiðarstjórinn situr nær vegmiðju, er hættan á blindun af ljósum miklu meiri.“ Einnig þess vegna er betra að færa stýri bílsins nær vegjaðri samkv. vísindalegum athugunum þessarar n. En hún segir: „Við þorum að fullyrða, að með almennri breytingu á bílstýri nær vegjaðri mundi bílslysum fækka allt að helmingi.“

Þegar við ræðum um hægri umferð, er fróðlegt fyrir okkur að rifja nokkuð upp sögu Svía, hvernig málið þróaðist hjá þeim.

Svíþjóð var eina meginlandið í Evrópu, sem hafði vinstri handar umferð. Sagan segir, að till. um hægri handar umferð hafi verið bornar fram í sænska þinginu á árunum 1934, 1939, 1941, 1943, 1945 og 1953, og árið 1954 mælti n. með því, að breytt yrði í hægri handar umferð í vega- og gatnaumferð, en ekki í járnbrautakerfinu. Og í októbermánuði 1955 fór fram þjóðaratkvgr. um málið. Sú þjóðaratkvgr. fór þannig, að meiri hl. þeirra, sem atkv. greiddu, óskaði að halda vinstri handar umferð áfram, og sænska þingið tók ákvörðun í samræmi við ósk meiri hl. En umferðin yfir landamærin, sem jókst hröðum skrefum, gerði það að verkum, að enn á ný varð að taka afstöðu til málsins, og árið 1900 var enn þá rannsakað, hve mikill kostnaður yrði af breytingunni í hægri handar umferð, og á tímabilinu 1961–1963 var spurningin um hægri handar umferð rædd ýtarlega innan stjórnmálaflokkanna og ríkisstj. í Svíþjóð. Í frv. á þingi 1963 var tekin grundvallarákvörðun um að breyta yfir í hægri handar umferð, og þann 10. maí 1963 tók sænska þingið ákvörðun um að taka upp hægri handar umferð á árinu 1967.

Af þessari sögu Svía sjáum við, að þeir hafa haft þjóðaratkvgr. um málið árið 1955 og þjóðin vildi áfram vinstri handar umferð. En vegna þess að umferðin yfir landamærin óx svo hröðum skrefum, urðu þeir að samræma umferðarreglur sínar og þá aðallega vegna sameiginlegra landamæra. Í þessari sögu Svíþjóðar um hægri handar umferð er einnig athyglisvert, að tíminn milli ákvörðunar sænska þingsins og framkvæmda á umferðarbreytingunni var ákveðinn rúmlega 4 ár. En þeir töldu þennan tíma nauðsynlegan til að gera tæknilegar breytingarráðstafanir og skipuleggja upplýsinga- og áróðursstarfsemi, þannig að árangurinn yrði sem mestur fyrir umferðaröryggið. En hér á Íslandi höfum við aðeins haft tveggja ára aðlögunartíma.

Fjármagn vegna breytingarinnar í Svíþjóð var aflað með aukaskatti af skráðum vélknúnum ökutækjum á árunum 1964, 1905, 1966 og 1967, eða þegar breytingin átti sér stað í Svíþjóð voru þeir búnir að innheimta allan þennan aukaskatt. En hér á Íslandi á að innheimta þennan aukaskatt á árunum 1967, 1968, 1969 og 1970, eða búið er að innheimta þennan aukaskatt í eitt ár, þegar breytingin kemur til framkvæmda. En þá eiga bifreiðaeigendur eftir að greiða aukaskattinn vegna hægri umferðar í 3 ár enn þá. Það má því segja, að ólíkt höfumst við að frændurnir. Og þá vaknar sú spurning, ef framkvæmdin á að kosta samkv. l. 50 millj., hver á þá að borga það fjármagn, sem á vantar. Erum við ekki að hraða okkur um of í þessu máli?

Umferðarmál verða alltaf ofarlega á baugi hjá okkur, og þegar ökutækjum fjölgar eins ört og á undanförnum árum, er brýn nauðsyn að auka þá jafnframt fræðslu á umferðarreglum og umferðaröryggi. Til að undirstrika þetta mikilvæga sjónarmið vil ég leyfa mér að benda á, að í þingmannablaðinu „Nordisk kontakt“, desemberhefti, á bls. 956, er sagt frá umferðaröryggi í Noregi. Þar segir:

„Í Noregi eins og flestum öðrum löndum Vestur-Evrópu aukast umferðarslysin mjög ört. Þess vegna er eðlilegt, að spurningin um meira umferðaröryggi hafi komið fram bæði í nál. og í umr. í norska þinginu og lögð sérstök áherzla á að gera meira til að auka umferðaröryggið. Fjárveiting í þessu skyni var hækkuð um 200 þús. n. kr. eða í samtals 1.5 millj. kr., svo að unnt væri að framkvæma ákveðna fjögurra ára áætlun.“

Við sjáum af þessu, að þrátt fyrir hægri handar umferð í þessum löndum í Vestur-Evrópu aukast umferðarslysin mjög ört, og þeir telja, að fræðsla um umferðarmál og umferðaröryggi sé það atriði, sem mikilvægast er. Þetta gildir vissulega einnig hjá okkur, en ekki hvort við höfum vinstri eða hægri handar umferð.

Þegar lög um hægri handar umferð voru samþ. árið 1966, fylgdi þeim kostnaðaráætlun upp á rúml. 50 millj. kr., sem bifreiðaeigendur eiga að greiða sem sérstakan skatt. Meginhluta þessa fjár skal varið til breytinga á almenningsvögnum, eða eftir áætlun framkvæmdanefndar mun eiga að verja allt að 32 millj. kr. í breytingar á almenningsbifreiðum, 10.5 millj. í umferðarmannvirki og 8.4 millj. í starfsemi hægri nefndar. Þrátt fyrir þessa kostnaðaráætlun er fyrirsjáanlegt, að framkvæmdin verður margfalt dýrari. Nægir í því sambandi að vitna til Svíþjóðar, en þeir áætluðu, að breytingin hjá þeim mundi kosta rúml. 500 millj. sænskar, en vitað er, að þegar búið var að framkvæma breytinguna, var hún komin yfir 800 millj. sænskar og ekki öll kurl komin til grafar í því sambandi. Í l. um hægri handar umferð segir í 8. gr., með leyfi forseta:

„Hver sá, sem telur sig eiga rétt til bóta samkv. 6. gr., skal, áður en framkvæmdir hefjast, senda framkvæmdanefnd nákvæma grg. um þær breytingar, er framkvæma skal, ásamt sundurliðaðri kostnaðaráætlun. Eigi skal bæta kostnað, nema framkvæmdanefnd hafi fallizt á nauðsyn breytingar og kostnaðaráætlun, áður en ráðizt er í framkvæmdir.“

Og samkv. upphafi 10. gr. laganna: „Grg. og áætlanir samkv. 8. gr. skulu hafa borizt framkvæmdanefnd eigi síðar en 1. jan. 1968.“

Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta atriði, hvort gerðar hafa verið kröfur um bætur aðrar en gert var ráð fyrir í upphafi, því að hér gæti verið um allháar upphæðir að ræða. Í grg. með frv. segir:

„Þótt gert sé ráð fyrir því, að kostnaður við breytinguna verði að jafnaði greiddur úr ríkissjóði, þykir nauðsynlegt að setja nokkrar skorður við greiðslu bóta vegna ýmissa smábreytinga.

Eru þá fyrst og fremst hafðar í huga breytingar, sem nauðsynlegar eru á flestöllum vélknúnum ökutækjum, svo sem breytingar á ljósaútbúnaði og aðrar smávægilegar breytingar.“

Þó að hér sé rætt um smávægilegar breytingar, geta þær kostað mikið fé. Það liggur ljóst fyrir, að strax eftir umferðarbreytinguna verður hver bifreiðaeigandi að láta breyta ljósastillingu á bifreið sinni. Þegar málið var hér til umr. á hv. Alþingi 1966, var þessi kostnaður áætlaður 350 kr. á bifreið, en það kom samt fram í umr., að kostnaðurinn mundi vera í kringum 548 kr. þá. Í dag er kostnaður við ljósastillingu og annað talinn vera frá 350 kr. upp í 1000 kr. eða þar yfir. En ef við færum einhvern meðalveg til þess að áætla þennan kostnað, ef við segðum t.d., að kostnaðurinn yrði um 700 kr. á bifreið, þó að við færum ekki hærra, yrði það milli 29–30 millj., sem bifreiðaeigendur verða að greiða.

Í kostnaðaráætlun með frv. er ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna löggæzlu. Þó er það sennilega sá liður, sem mest veltur á, þegar umferðarbreytingin er framkvæmd, og enginn veit í dag, hvað sá kostnaður verður mikill.

Þrátt fyrir allar áætlanir má fullvist telja, að þessi væntanlega umferðarbreyting kostar mikið fé og miklu meira en okkur hefur verið gefið upp. Stór hluti kjósenda telur, að breytingin sé alls ekki knýjandi eða aðkallandi, aðrir, að hún sé með öllu þarflaus. En öllum kemur saman um, að hún sé hættuleg, eins og okkar vegakerfi er í dag, mjóir og slæmir vegir utan þéttbýliskjarnanna, og síðast, en ekki sízt, að það sé óverjandi að framkvæma þessa breytingu, þegar jafnmiklir fjárhagsörðugleikar steðja að þjóðinni eins og nú á sér stað.

Hv. Alþingi getur breytt lögum eða fellt lög úr gildi, hvenær sem er. Hér er þó ekki um slíkt að ræða. Við óskum eftir frestun á l. um eitt ár og að þjóðaratkvgr. fari fram um málið. Til þess að framkvæma hægri handar akstur á Íslandi með góðu móti þarf að vera full vissa fyrir því, að meiri hl. þjóðarinnar sé breytingunni samþykkur. Svíar sögðu, að það yrði að gera allt til að skapa jákvæða afstöðu fólksins, það væri grundvallaratriði, til þess að breytingin mætti heppnast sem bezt, því að það er hinn mannlegi þáttur fyrst og fremst, sem ákveður umferðaröryggið, og jákvætt viðhorf fólksins auðveldar þá venjubreytingu, sem verður nauðsynleg öllum í umferðinni. En hér í dag er alger óvissa um afstöðu fólksins, og margir eru þeir, sem telja, að meiri hl. þjóðarinnar sé á móti hægri handar umferð. En úr þessu vafaatriði fæst ekki skorið nema með þjóðaratkvgr. Síðan lög um hægri handar akstur voru samþ., hafa komið fram óskir þúsunda kjósenda um, að framkvæmd verði frestað, og ósk um þjóðaratkvgr. Undirskriftalistarnir hafa verið þannig orðaðir:

„Vér undirritaðir bifreiðastjórar viljum hér með mótmæla framkominni lagasetningu um hægri akstur, sem ráðgert er að taki gildi á árinu 1968. Mótmæli vor byggjum vér á þarfleysu þessarar lagasetningar vegna staðsetningar landsins sem eylands, þeim mikla kostnaði, sem breytingin hefur í för með sér, og þeim augljósu hættum, sem breytingin skapar. Vér getum ekki fallizt á, að rök þau, sem fram voru borin fyrir hægri akstri, gefi þörfinni gildi. Óskum vér eindregið eftir þjóðaratkvgr. um nefnd lög.“

Vitað er, að meiri hl. atvinnubifreiðastjóra er á móti hægri handar umferð. Ef þjóðaratkvgr. yrði látin fara fram um þetta mál og það kæmi í ljós, að meirihl. þjóðarinnar vildi hægri handar umferð, þótt sá meirihl. væri lítill, er fullvíst, að á stuttum tíma mætti skapa jákvæða afstöðu fólksins og framkvæma breytinguna í maí 1969. En fari svo, að meirihl. þjóðarinnar væri á móti hægri handar umferð, hefði vilji þjóðarinnar komið fram. Það er rétt, að nú þegar er búið að setja eitthvert fjármagn í hægri handar umferð. En því fjármagni er engan veginn á glæ kastað, því að flestar þær umbætur má eins vel nota við vinstri handar umferð og kæmu því að fullum notum. En því hefur verið haldið fram sem rökum gegn frv. þessu, að nú þegar sé búið að framkvæma svo mikið vegna hægri handar umferðar, að ekki verði snúið aftur, og ef breytingunni verði frestað í eitt ár, verði hún mun dýrari. Þetta á að vera afsökun fyrir öllu hægri handar kerfinu. En að því er ekki spurt, hvort meiri hl. þjóðarinnar sé samþykkur umferðarbreytingunni. Ef hægri umferð yrði samþ. og við verðum að bíða í eitt ár, mundum við hagnast á því, því að Svíar höfðu fjögurra ára aðlögunartíma, en við mundum þá hafa þriggja ára aðlögunartíma, og við gætum notfært okkur þá reynslu, sem Svíar hafa öðlazt í þessu máli, en þeir segja, að fræðsla og upplýsingastarfsemi sé veigamesti þátturinn í að tryggja umferðarbreytinguna. Þetta væri því aðeins kostur, að fá frestun í eitt ár.

Á hv. Alþingi eru nú 14 nýir þm., sem geta látið málin til sín taka, enn fremur má telja eðlilegt, að þeir hv. þm., sem samþ. frv. um hægri umferð 1966, telji nú ástæðu til að endurskoða afstöðu sína, því að ný viðhorf hafa skapazt, eins og t.d., að þessi framkvæmd verður margfalt dýrari en upphaflega var áætlað, að þjóðin á í dag við mikla efnahagserfiðleika að stríða, að á sama tíma og mjög aðkallandi framkvæmdir eru skornar niður á flestum sviðum eigi að eyða milljónatugum í umferðarbreytingu, sem hvorki er aðkallandi né knýjandi, og síðast, en ekki sízt, að stór hluti kjósenda er þessum l. andvígur, og sú andúð virðist fara vaxandi. Þá er ekki nema eðlilegt, að breyttir tímar skapi breytt viðhorf hv. alþm. í þessu máli. Og hvað er meira réttlæti en að þjóðin sjálf taki ákvörðun í þessu umdeilda máli þjóðarinnar, en það verður aðeins gert með þjóðaratkvgr. Þess vegna væntum við þess, að hv. alþm. endurskoði afstöðu sína og stuðli að því, að meiri hluti þjóðarinnar ráði í þessu máli.