05.02.1968
Neðri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2149)

86. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. og flutt er af 5 hv. alþm., fjallar um það, að ákv. 1. gr. laga um hægri handar umferð komi ekki til framkvæmda fyrr en á þeim degi apríl-, maí- eða júnímánaðar 1969, sem dómsmrh. ákveður að fenginni till. framkvæmdanefndar, enda hafi þá áður verið samþykkt við þjóðaratkvgr. að taka upp hægri handar umferð.

Í nál. meiri hl. allshn. er rakin saga þessa máls hér á Alþingi, og í því nál. kemur fram, að þetta mál hefur þrisvar sinnum hlotið samþykki á Alþingi. 1940 voru samþykkt ný umferðarlög, þar sem ákveðið var að taka upp hægri handar umferð. Síðan ákvað ríkisstj. að fresta þeirri framkvæmd, vegna þess að um það bil, sem hún átti að koma til framkvæmda, var landið hernumið af Bretum og þá ekki talið skynsamlegt undir þeim kringumstæðum að taka upp hægri handar umferð, þegar Íslendingar fengu ekki að öllu leyti að stjórna sínu eigin landi. Síðan er þessu máli hreyft tvisvar sinnum hér á Alþingi með flutningi þáltill. 1962–'63 var flutt þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta athugun fara fram á því, hvort ekki væri rétt að taka upp hægri handar umferð hér á landi. Þessari till. var vísað til allshn., sem einróma mælti með till., en hún var flutt seint á því þingi og varð því ekki útrædd. Á næsta þingi á eftir, 1963–'64, var aftur borin fram þessi þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að upp verði tekinn hægri handar akstur hér á landi. Þessi till. var samþ. með 31 atkv. gegni 1 á Alþ., og þar með hafði Alþ. tvisvar sinnum lýst yfir stuðningi sínum við þessa breytingu. Í framhaldi af þessu sendir dómsmrn. þessa ályktun Alþ. til umferðarlaganefndar 13. ágúst 1964 og óskar, að hún láti í té grg. um þær aðgerðir, sem nauðsynlegar væru, til þess að komið yrði á hægri handar umferð hér á landi, svo og yfirlit um áætlaðan kostnað, sem væri því samfara. Umferðarlaganefnd skilaði áliti sínu 4. febr. 1965. Að þessu fengnu ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir því, að upp yrði tekin hægri handar umferð hér á landi og að því stefnt, að breytingin kæmi til framkvæmda vorið 1968. Dómsmrn. fól umferðarlaganefndinni með bréfi 14. apríl 1965 að semja frv. til l. um hægri handar umferð og ákvað, að jafnframt n. skyldu starfa að samningu frv. formaður Félags ísl. bifreiðaeigenda og formaður skipulagsnefndar fólksflutninga. N. lauk samningu frv. 8. nóv. 1965, og lagði dómsmrh. frv. fyrir Alþ. litlu síðar. Þetta frv. náði samþykki hér í þessari hv. deild með 24:9 atkv., og í efri deild hlaut það einnig samþykki með 12:8 atkv. Eftir að frv. var orðið að lögum, skipaði dómsmrh. n. til þess að annast um framkvæmd að undirbúningi hægri umferðar, og þessi n. hefur starfað síðan og stefnt að því skv. ákvörðun dómsrh., að hægri handar umferð verði tekin upp nú í maí n. k.

Það kom því mörgum á óvart, sem hafa kynnt sér þessi mál, að 5 hv. alþm. skuli rétt áður en Alþingi fer í jólafrí kasta inn þessu frv., þegar undirbúningur að framkvæmd hægri umferðar er jafnlangt á veg kominn. Nú má segja, að 3 af þessum hv. þm. hafi ekki haft tækifæri til þess að láta málið til sín taka fyrr, en þó hefðu þeir getað haft frv. til, þegar Alþ. kom saman í okt. í haust, en 2 þm. höfðu setið á Alþ., þegar frv. að lögunum var lagt fram og þál. á undan var samþykkt en annar þeirra var þó ekki viðlátinn hér á Alþ., þegar frv. var til meðferðar hér í hv. deild. Er þá einn af flm. eftir, en sá flm. barðist þó ekki hatrammar en svo gegn breytingunni að taka upp hægri handar umferð, að hann steinþagði við allar þær umr., sem áttu sér stað í d. um þetta mál. Hann hefur kannske ekki áttað sig fyrr en komið var að því að taka upp hægri handar umferð.

Í grg., sem fylgir þessu frv. um að fresta um eitt ár að taka upp hægri handar umferð, er það mjög lofsvert hjá hv. flm. að taka fram, að þeir telji, að það eigi nú ekki, eins og málum sé komið í okkar landi og erfiðleikar séu að eyða jafnmiklu fé í þessa breytingu og gert er, og álasa í raun og veru fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég vil minna hv. flm. frv. á það, að þegar frv. er samþykkt í byrjun maímánaðar 1986, var mikið góðæri á Íslandi og afurðir okkar voru í einhverju hæsta verði, sem þær hafa verið, svo að enginn sá þá fyrir það, sem seinna kom á daginn. En þegar við tölum um peningahliðina og sleppum öllu öðru, þá hygg ég, að það sé það óviturlegasta, sem við getum gert, þegar við erum búnir að skuldbinda okkur til nú um miðjan janúarmánuð að verja 82 millj. kr. þegar í þessa breytingu, að hætta þá allt í einu við það. Nú má segja það, eins og flm. benda á, sem allir eru miklir sparnaðarmenn, eins og fram kemur í grg. þeirra, að það sé alltaf rétt að fara gætilega með peninga. En ég held, að það sé það óviturlegasta, sem við gætum gert, að ætla að kasta þessu öllu á glæ. Þjóðaratkvgr. kostar líka peninga, og ef menn reyna að athuga, hvað t.d. alþingiskosningar kosta og sömuleiðis hvað þær kosta sveitarfélögin í landinu, þá er ekki mikill sparnaður að þjóðaratkvgr., að ég ekki vitni í Svía, sem mjög er vitnað til nú í sambandi við þessa breytingu í hægri handar umferð, að Svíar lögðu breytinguna undir þjóðaratkv. árið 1955 og þjóðin felldi að taka upp hægri handar umferð, en þrátt fyrir það eru Svíar knúnir til að taka upp hægri handar umferð, þrátt fyrir það að sænska þjóðin felldi þessa breytingu, en það kostaði þá margfalt meira að hafa lagt breytinguna undir atkvæði þjóðarinnar. Ég hygg, að flestar þjóðaratkvgr., hvort sem væri íslenzka þjóðin eða aðrar, sem væru um að leggja skatta á viðkomandi þjóð, færu á þann veg, að málin væru felld við þjóðaratkvgr. Varðandi álögur, hækkun tekjuskatts eða atkvgr. í sveitarfélögum um það, ef ætti að spyrja borgarana að því, hvort sveitastjórnirnar ættu að hækka útsvörin eitthvað á næsta ári, er ég alveg sannfærður um það fyrir fram, að við slíkar atkvgr. yrði alltaf fellt að hækka útsvörin. Það er því vafasamt atriði að benda á þjóðaratkvgr. í þessu sambandi. Svo kemur það einnig til, að við þjóðaratkvgr. ganga sumir menn að kjörborðinu trúaðir fyrir fram á, að þetta sé allt eintóm vitleysa, vilja ekki kynna sér málið til hlítar, og þar af leiðandi hafa þeir jafnvel meira að segja en þeir tiltölulega fáu, sem kynna sér hlutina.

Það er mjög eftirtektarvert, að tveir af þeim embættismönnum á Íslandi, sem mest varða umferðamál hafa frá fyrstu tíð verið fastir á þeirri skoðun, að hér ætti að taka upp hægri handar umferð, en þar á ég við vegamálastjóra og lögreglustjórann í Reykjavík. Allir þeir aðilar, sem hafa mætt á fundum allshn., bæði nú og áður, í sambandi við þetta mál og eru forsvarsmenn félaga á sviði umferðarmála, hafa einróma mælt með því, að hér væri tekin upp hægri handar umferð, að undanskildum fulltrúa frá nýstofnuðu félagi, sem heitir Félag ísl. vegfarenda, sem mælti eindregið gegn því, að hægri handar umferð væri tekin upp á Íslandi.

Í slíkum málum sem þessum má alltaf benda á það og slá á viðkvæma strengi, að slysahætta muni aukast mjög verulega. En þá skulum við benda aftur á það, að í mörgum löndum hafa á liðnum áratugum og allt fram á síðasta haust allmargar þjóðir breytt umferð sinni úr vinstri handar í hægri handar umferð, og skv. skýrslum allra þessara þjóða hefur það komið í ljós, að slysum hefur fækkað verulega um það bil sem umferðarbreytingin átti sér stað og fyrstu vikur og mánuði á eftir. Það er ekki af því, að mínum dómi, að það sé neitt auðveldara að aka á hægri kanti en vinstri, heldur liggur þetta í því eingöngu, að áróðurinn er svo mikill, þegar breytingin á sér stað, að menn fari varlega, og það hefur gert það að verkum, að mörgum mannslífum hefur verið bjargað með hinum mikla áróðri, sem hefur átt sér stað hjá öllum þessum þjóðum. Sama hefur sýnt sig í Svíþjóð við umferðarbreytinguna þar. Hins vegar þegar lengra hefur liðið frá breytingunni, þá virðast umferðarslysin aftur fara í það sama og áður.

Við skulum líta á það, að það er áhugi á því hjá flestum þjóðum að samræma sem mest sína löggjöf, samræma samgöngur sínar, eins og hægt er, og það er mikið atriði, að það er hægri umferð í lofti, það er hægri umferð á sjó, og það er einnig mikið atriði að samræma hægri umferð, þó að Ísland sé eyland. Það er ekki ný staðreynd, þó að flm. veki sérstaklega athygli á því í grg. sinni, að Ísland sé eyland. Ég hygg, að allir hafi vitað það 1940, þegar umferðarl. voru þá samþykkt, og þó fyrr hefði verið. En hitt vitum við, að umferðin er alltaf að aukast, samskipti þjóðanna eru alltaf að verða meiri og meiri, og það er undarlegur veikleiki, sem á sér stað hjá sumum Íslendingum, að þeir telja, að ef einhver slík breyting sé gerð, þá sé það eftiröpun eftir útlendum þjóðum. En við skulum hafa það líka í huga, að það eru hundruð Íslendinga, sem eru við nám eða atvinnu í öðrum löndum, þar sem hægri handar umferð er, sem koma hingað heim og aka bílum á Íslandi í fríum sínum, fyrir utan alla útlendingana, sem koma. Það er mikið atriði, að það sé samræmi. Við skulum nefna flugstjóra og flugáhafnir, sem fara upp í bifreiðar í öðrum löndum, þar sem hægri umferð er, svo koma þeir hingað heim, þeir eru með hægri umferð í loftinu, þá eiga þeir allt í einu að muna eftir, að það er vinstri umferð. Allt verður þetta auðveldara í framtíðinni, ef haft er samræmi í þessum hlutum.

Ég skal fúslega játa, að það hefur kannske ekki verið nein brýn þörf á þessari breytingu endilega á þessu ári, hún hefði getað beðið kannske 5–6 ár þess vegna. En þá skulum við hafa það í huga, hvað kostnaðurinn við breytinguna margfaldast á sama tíma, og þá höfum við fyrst og fremst nærtækt dæmi Svía, að kostnaðarbreytingin sté stórkostlega, frá því að sænska þjóðin felldi þessa breytingu árið 1955. Ég hygg, að hvað sem líður skoðunum manna á þessu máli og að jafnvel þeir, sem greiddu atkvæði gegn frv., þegar það var hér til afgreiðslu í byrjun maí 1966, voru þá á móti, að hér væri tekin upp hægri handar umferð, þegar þeir líta nú á það, hvað undirbúningur þessa máls er kominn langt á veg og hvað búið er að láta mikið fé í þessa breytingu og búið að skuldbinda sig til þess að láta til viðbótar, hvað margir hafa tekið á sig, bæði einstaklingar og félög, skuldbindingar í þessu sambandi, bæði með bifreiðastæði og annað, þegar við lítum einnig á það, hvað búið er að gera af innkaupum á bifreiðum fyrir hægri handar umferð, eins og t.d. Strætisvagnar Reykjavíkur og langferðabifreiðar hér á þéttbýlisleiðinni, að ef frá þessu yrði horfið og málið lagt undir þjóðaratkvæði og þjóðin felldi að taka upp hægri handar umferð, þá er ekkert vafamál, að ríkið yrði skaðabótaskylt gagnvart þessum aðilum, ekki um nokkrar milljónir, heldur jafnvel tugi milljóna króna. Þess vegna er það auðvitað alger fjarstæða hjá flm., sem tala um sparnað í þessu sambandi, að það verði sparnaður að því að hætta við umferðarbreytinguna.

Það hefur líka verið mikið talað um það af andstæðingum hægri handar laganna, að það þurfi að stórefla löggæzluna um langan tíma, bæði um það bil, sem breytingin fer fram, og langan tíma á eftir. Auðvitað verður að efla löggæzluna, á meðan breytingin fer fram, og fara auðvitað eftir reynslu annarra þjóða, og þá er auðvitað reynsla Svía nærtækust. Lögreglustjórinn í Reykjavík, formaður umferðarlaganefndar, Sigurjón Sigurðsson, gaf eftirfarandi upplýsingar á fundi allshn., áður en allshn. tók afstöðu til frv., um löggæzluna í Svíþjóð, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, skýra lauslega frá þessum upplýsingum.

Lögreglustjóri segist hafa fengið þessar upplýsingar hjá ríkislögreglustjórninni sænsku, og eru þær í samræmi við opinbera grg., sem hann hefur undir höndum um skipulagningu löggæzlu í Svíþjóð í sambandi við breytingu í hægri umferð þar í landi. Í Svíþjóð eru um 12 þús. lögreglumenn, þar af voru settir til starfa í sambandi við breytinguna, samtals 7.500 löggæzlumenn, en hinn hluti lögregluliðsins gegndi öðrum tilfallandi löggæzluverkefnum. Af framangreindum 7.500 lögregðumönnum gegndu um 6.000 beinni umferðarstjórn á vettvangi í borgum, bæjum og þéttbýli. Auk þessa liðs lét sænski herinn í té samtals 2.200 hermenn til löggæzlustarfa. Ekki voru ráðnir sérstakir lögreglumenn vegna breytingarinnar, en vinnuálag á hið fasta lögreglulið var stóraukið fyrstu vikurnar. Gert var ráð fyrir, að 12. sept. mundu allir hermenn verða látnir hætta störfum við umferðarstjórn utan 400 hermanna, sem áttu að vera til taks sem varamenn. Á tímabilinu milli 20. og 30. sept. áttu 50% af lögreglumönnum, sem beinan þátt taka í umferðarstjórn vegna breytingarinnar, að fara í venjuleg störf. Ekki var talið unnt að segja fyrir fram með vissu, hvenær hætta mætti algerlega sérstakri löggæzlu vegna breytingarinnar. Skipulagt var og lítillega þjálfað fjölmennt lið sjálfboðaliða, sem vann kauplaust að því eingöngu að leiðbeina gangandi vegfarendum yfir veg. Liðið var fjölmennast fyrstu dagana, en fjaraði síðan út og starfi þess var lokið eftir rúma viku. Skv. upplýsingum, sem lögreglustjóri og Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn fengu í Svíþjóð, er þeir voru staddir þar í byrjun nóv., þá var lokið allri sérstakri löggæzlu vegna breytingarinnar í hægri umferð, utan þess að haldið var uppi aukinni vegalöggæzlu í dreifbýlinu.

Þannig fóru Svíar að í sambandi við löggæzluna. Það getur því hver og einn séð, sem skoðar þessar upplýsingar, að upplýsingar frá Félagi ísl. vegfarenda um aukningu löggæzlukostnaðar eru fjarstæða ein, enda talið af embættismönnum hér að vera það og engan veginn rökstuddar sem skyldi.

Mér þykir einnig rétt, af því að ég vitnaði hér í annan embættismann, vegamálastjóra, að láta koma fram hans umsögn og viðhorf til þessa frv., sem hann lagði fram á fundi allshn., þegar um málið var fjallað. Hann segir m.a.:

Þau rök, sem flm. frv. færa fram fyrir því að fresta framkvæmd laganna um hægri umferð og láta fara fram þjóðaratkvgr. um málið áður, voru flest vel kunn, þegar lögin voru til meðferðar á Alþ. árið 1966, og því ástæðulaust að endurtaka röksemdir gegn þeim. Önnur rök, sem tínd eru til í grg., svo sem áætlun Félags ísl. vegfarenda um löggæzlukostnað í sambandi við breytinguna, eru með þeim ævintýrablæ, að þau verða tæpast tekin alvarlega. Þegar unnið var að undirbúningi l. um hægri akstur á árunum 1965 og 1966 og við meðferð málsins á Alþ. kom fram, að það atriði málsins, sem erfiðast var að gera sér fulla grein fyrir, væri sú slysahætta, sem væri breytingunni samfara. Menn voru þó yfirleitt þeirrar skoðunar, að með hliðsjón af þeirri reynslu, er fengizt hafði af sams konar umferðarbreytingu í öðrum löndum, þá væri ekki ástæða til þess að vænta verulega aukinna umferðarslysa af völdum breytingarinnar. Síðan hafa Svíar breytt úr vinstri akstri í hægri akstur á s.l. hausti með mjög góðum árangri, eins og kunnugt er. Hefur umferðarslysum þar í landi fækkað eftir breytinguna, og var það gagnstætt því, sem menn áttu þó von á. Flm. fullyrða, að gífurleg slysahætta skapizt við breytinguna vegna hinna mjóu og ófullkomnu vega um hinar dreifðu byggðir landsins. Í því sambandi þykir mér rétt að geta þess, að mikill hluti af vegakerfi Svíþjóðar er ófullkomnir malarvegir í dreifðum byggðum líkt og hér. Ekki er kunnugt um, að slysahætta á þessum hluta vegakerfisins hafi orðið hlutfallslega meiri við umferðarbreytinguna í Svíþjóð en þar sem umferð er mikil. Verður því ekki séð, að slysahættan á þessum hluta vegakerfisins ætti að verða meiri hér en í Svíþjóð við svipaðar aðstæður.

Að lokum segir vegamálastjóri: „Það skal tekið fram, að telja verður það mjög miður farið, að frv. þetta skuli koma fram nú, þegar öllum undirbúningi hægri umferðar er svo langt komið, að öllum má ljóst vera, að engin leið er að fresta þeirri framkvæmd með skynsamlegu móti. Frv. er hins vegar líklegt til þess að rugla menn í ríminu og hindra, að um framkvæmd umferðarbreytingarinnar skapist sú eining og festa, sem er nauðsynleg, til þess að framkvæmdin geti farið vel úr garði.“

Eitt af því, sem flm. þessa frv. segja í grg, er, að það hafi engin vissa fengizt fyrir því, að tryggingarfélögin muni ekki hækka iðgjöld sín vegna breytingarinnar. Ég spyr hv. flm. frv.: Ef við hefðum aldrei talað um neina umferðarbreytingu, hvar er trygging fyrir því og hefur verið á undanförnum árum, að tryggingarfélögin gefi út ákveðnar yfirlýsingar um það, að þau ætli ekki að hækka tryggingariðgjaldið. Tryggingariðgjöld fara auðvitað eftir tjónareynslunni á hverjum tíma, og eftir því sem hún er lakari, hækka iðgjöldin næst þegar iðgjaldaákvörðunin fellur úr gildi. Það er því ekki hægt að koma með neina sérstaka tryggingu fyrir slíku nú, þó að eigi að færa úr vinstri umferð í hægri umferð. En það er mjög eftirtektarvert, sem fram hefur komið í Svíþjóð; að eitt stærsta bifreiðatryggingafélag í Svíþjóð er nýlega búið að boða 10% lækkun á bifreiðatryggingaiðgjöldum, og önnur slík tryggingafélög munu að sjálfsögðu á eftir fara. Þannig hefur þetta verkað í okkar nágrannalandi að því er snertir tryggingar bifreiða enn sem komið er. En það er auðvitað engin trygging fyrir því, að þessi tryggingariðgjöld fari áfram lækkandi í Svíþjóð. Það verður auðvitað komið undir því, hvort umferðarslysum og tjónum á bifreiðum fjölgar eða ekki. Þess vegna er út í hött að koma með þetta fram í grg., eins og margt fleira í grg. með þessu frv.

Það hefur líka verið mikið um það talað, að breytingin muni skapa auknar hættur úti í dreifbýlinu, þar sem vegirnir eru mjórri og ekki eins fullkomnir. Það er mjög ánægjuleg staðreynd hjá okkar nágrannaþjóð, Svíum, að það hefur ekki aukið umferðarslysin þar, heldur hefur þeim fækkað, alveg eins og í þéttbýlinu. Umferðin í hinum dreifðu byggðum okkar er tiltölulega lítil. Sem dæmi má nefna, að um 3% af þjóðvegakerfinu fara um 24% af allri umferð á landinu.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín miklu fleiri, en við, sem stöndum að nál. meiri hl. allshn., eins og fram kemur, leggjum til, að frv. verði fellt. Ég vona, að hv. þdm. felli þetta frv. með miklum atkvæðamun, og burt séð frá því, hver skoðun manna var áður, þegar frv. um hægri handar akstur var hér til umr., er málum svo komið, að það er búið að fórna miklu fé og tíma og fyrirhöfn og búið að gera miklar fjárskuldbindingar, sem væru unnar fyrir gýg, ef við ættum nú á lokastigi að hverfa frá fyrri ásetningi. Ég tel, að Alþ. hafi fullan rétt á því að marka þessa löggjöf sem aðra, og það er þrívegis yfirlýst stefna Alþ. að taka upp hægri handar umferð, og maður verður að treysta því, að það sé enginn sá maður til í þessu landi, sem ekki vill taka þátt í þeirri samvinnu, sem er nauðsynlegt að viðhafa þá mánuði, sem eftir eru, þangað til framkvæmdin á sér stað, og þjóðin hjálpist að því að láta þessa umferðarbreytingu fara sem bezt úr hendi og taka aðrar þjóðir, sem breytt hafa úr vinstri handar umferð í hægri handar umferð, til fyrirmyndar í þeim efnum, og þá er ég sannfærður um, að Íslendingar eru ekkert verr gefnir eða lakari í þessum efnum en aðrar þjóðir. Ef þeir taka sig saman um það, hvað sem líður fyrri afstöðu þeirra til þessa máls, mun þessi breyting geta farið fram með svipuðum hætti og ekki lakari en hjá þeim mörgu þjóðum öðrum, sem hafa breytt yfir í hægri umferð á undanförnum tveimur áratugum.