05.02.1968
Neðri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2150)

86. mál, hægri handar umferð

Frsm. minni hl. (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í minnihlutanál. allshn. á þskj. 251, voru haldnir tveir fundir í allshn. um málið. Á síðari fundinum, 26. jan., komu til viðtals flestir þeir, er samið höfðu frv. til 1. um hægri handar umferð. Þarna voru því mættir forsvarsmenn hægri handar umferðar á Íslandi, og ekki var búizt við, að hjá þeim hefði orðið hugarfarsbreyting, enda reyndist það rétt. Allir eru þessir menn mætir og hæfir, hver á sínu sviði, og hafa vissulega mikla þekkingu til að bera í þessum málum. En það er ekki þar með sagt, þó að þeir séu sérfræðingar, að aðrir geti ekki bent á margt, sem betur mætti fara, og þá sérstaklega þeir menn, sem hafa gert það að lífsstarfi sínu að aka bifreiðum. Þeirra reynsla og þeirra álit má ekki vanmeta. En það er vitað, að meiri hluti atvinnubifreiðastjóra í landinu mælir eindregið gegn umferðarbreytingunni.

Á þessum umrædda fundi komu engin ný rök fram með hægri handar umferð, en þeir vitnuðu allmikið til Svíþjóðar, að umferðarbreytingin hjá þeim hefði heppnazt vel. Þeir bentu á, að þrátt fyrir að Svíar hefðu haft þjóðaratkvgr. um málið úrið 1955, hefðu þeir samt samþykkt hægri handar umferð árið 1963 án þess að leggja málið þá undir þjóðaratkvgr. Þetta er rétt. En við vitum, að þegar Svíar höfðu þjóðaratkvgr. um málið árið 1955, voru 83% af þeim, sem greiddu atkvæði, á móti hægri handar umferð, en vegna sívaxandi umferðar yfir sameiginleg landamæri jókst slysatíðni gífurlega, og þess vegna voru þeir knúðir til að gera sínar ráðstafanir. Þeir samþykktu lög um hægri handar umferð árið 1968, en þeir samþykktu samtímis, að umferðarbreytingin tæki ekki gildi fyrr en árið 1967, eða þeir unnu að því í 4 ár að skapa jákvæða afstöðu fólksins. Þetta var ástæða Svíanna, að samræma ökureglur vegna sameiginlegra landamæra. Það dregur enginn í efa, að umferðarbreytingin í Svíþjóð hafi heppnazt vel, enda var miklu fé til þess kostað. Því er haldið fram sem rökum hér, að slysatíðnin í Svíþjóð hafi lækkað, eftir að breytt var í hægri handar umferð. En þá verður að hafa nokkur sjónarmið í huga. Þeir lækkuðu aksturshraða ökutækja, og þeir hafa haldið honum niðri lengi. Þeir höfðu öfluga löggæzlu, lögreglu, sjálfboðaliða og hermenn, en það, sem þó er talið að hafi borið mestan árangur, er hin sífellda fræðsla og upplýsingar um umferðarmál. Þá má geta þess, að þegar þeir breyttu yfir í hægri umferð, minnkaði akstur til stórra muna, eða talið var, að benzínnotkun þeirra hafi minnkað um 25% fyrst í stað. Og við megum ekki heldur gleyma því, að áður en Svíar tóku upp hægri handar umferð, var slysatíðni í Svíþjóð þrisvar sinnum minni en hún var í öðrum meginlöndum í Evrópu. Það má því draga þá ályktun, að hin gífurlega umferðarfræðsla allt frá árinu 1963 hafi átt sinn stóra þátt í þessu. En það er það, sem okkur hefur vantað hér, það er umferðarfræðslan.

Hæstv. dómsmrh. upplýsti hér við 1. umr. málsins, að upphafleg kostnaðaráætlun hefði hækkað um 10 millj. kr., eða úr rúmlega 50 millj. í 60 millj. kr. Það var breyting á almenningsvögnum, sem hafði hækkað um 2 millj. vegna gengislækkunar eða gengisbreytingar, og 8 millj. kr. yrði varið til umferðarfræðslu. Þetta er því nýr liður, en vissulega gagnlegur og sjálfsagður. En þessi liður hefði auðvitað átt að vera inni í upphaflegu kostnaðaráætluninni árið 1966, en kemur nú fyrst fram, rúmlega fjórum mánuðum fyrir væntanlega umferðarbreytingu.

Enn vil ég undirstrika það, að Svíar segja sjálfir, að veigamesti þátturinn í umferðarbreytingunni hafi verið fræðslan um umferðarmálin og upplýsingar um umferðina, og þeir notuðu sér 4 ár til þess, en við höfum aðeins 4 mánuði. Til þess að bæta umferðarmenningu á Íslandi verðum við framvegis að verja árlega ríflegri upphæð til þessara mála, hvort sem við ökum til hægri eða vinstri. Margir höfðu álitið, að þegar skipt yrði yfir í hægri umferð, mundu vera gerðar nauðsynlegar breytingar á þjóðvegakerfinu, eins og að skipta um hin mörgu og hættulegu vegræsi, sem eru mjórri en vegurinn, enn fremur að tvístefnuakstur yrði á blindhæðum og blindhornum. Á þessum umrædda fundi allshn. upplýsti vegamálastjóri, að engar slíkar framkvæmdir væru fyrirhugaðar fyrir H-dag, því að ræsin skiptu þúsundum og akreinaskipti á blindhæðum væru mikið fyrirtæki og allt mundi þetta kosta stórfé.

Í athugasemdum, sem fylgdu lagafrv. árið 1966, segir í 1. kafla, með leyfi hæstv. forseta: „Álit manna á því, hvor gerðin henti betur hvorri umferðarreglunni, hægri handar eða vinstri, er nokkuð mismunandi. Þykir sumum betra að hafa vinstri handar stýri, þar sem hægri handar umferð er. Gildir þetta sérstaklega þar, sem vegir eru góðir og umferð mikil. Á hinn bóginn telja margir, að betra sé að hafa stýri þeim megin, sem ökuregla býður að ekið sé, þar sem þá sé betra að gæta vegbrúnar, t.d. þegar farartæki mætast. Gildir þetta sérstaklega þar, sem umferð er lítil, vegir mjóir og vegbrúnir varhugaverðar.“

Við höfum haldið fram þeirri skoðun, að íslenzkir þjóðvegir væru bæði mjóir og varhugaverðir, og eftir þessar upplýsingar vegamálastj., að ekki verði hægt að skipta um þessi hættulegu og mjóu vegræsi eða skipta blindhæðum, verða allir að viðurkenna, að ef við breytum frá vinstri í hægri handar umferð, mun slysahættan aukast, því að bifreiðarstýrið verður þá nær vegmiðju og bifreiðastjórinn mun hafa minna yfirsýn yfir vegjaðarinn, og sérstaklega er þessi hætta mikil, þegar bifreiðar mætast nálægt vegræsum. Þess vegna stendur sú skoðun okkar óhögguð, að með umferðarbreytingunni, sem kostar tugi millj. kr., er verið að gera umferðina fyrir utan þéttbýlið ótryggari og hættulegri.

Á þessum fundi allshn. var lögreglustjórinn í Reykjavík.Hann upplýsti,að í höfuðborginni yrði löggæzlan tvöfölduð í 1–2 vikur, á meðan skipt yrði yfir í hægri handar umferð. Ekki gat lögreglustjóri lagt fram kostnaðaráætlun á þessu stigi málsins. Hann gagnrýndi þá kostnaðaráætlun, sem Félag ísl. vegfarenda hefur látið frá sér fara, taldi hana óraunhæfa. En þar sem þetta er eina kostnaðaráætlunin, sem gerð hefur verið um löggæzlu, höfum við leyft okkur að láta hana fylgja með nál. okkar sem fylgiskjal II. Um þessa kostnaðaráætlun skulum við ekki deila, en vissulega hefði verið ástæða til, að kostnaðaráætlun yfir löggæzluna hefði fylgt með lagafrv. strax í upphafi, en þar var ekki minnzt á þennan stóra kostnaðarlið. Og nú, fjórum mánuðum fyrir væntanlega umferðarbreytingu, er ekki enn til áætlun um það, hvað löggæzlan verður mikil.

En það eru mörg atriði, sem við þurfum að ræða um, og það eru skiptar skoðanir um það, hve lengi þarf að hafa aukið löggæzlulið, hve lengi þarf að hafa takmarkaðan ökuhraða, en allir sjá, að löngu eftir umferðarbreytinguna verður að hafa örugga löggæzlu og eftirlit um allt land, og það eftirlit má alls ekki spara, ef vel á til að takast. Þess vegna verður aldrei komizt hjá því, að til löggæzlunnar verður að verja miklu fé.

Öll rök, sem fram hafa komið og eiga að sanna, að hægri handar umferð sé betri en vinstri handar umferð, eru haldlítil. Og þau rök, að hægri handar umferð í Svíþjóð hafi heppnazt vel, eiga ekki við hjá okkur. Þeir hafa haft gífurlega umferðarfræðslu í 4 ár, og þeir hafa betra þjóðvegakerfi en við, og þannig mætti lengi telja.

Í áliti meiri hl. allshn. eru engin rök færð fram með hægri handar umferð, önnur en þau, að nú sé svo langt komið, að ekki verði snúið við. Þetta eru því þeirra aðalrök í dag, að nú þegar sé búið að verja í þetta 22 millj. kr. Og þessu fé sé á glæ kastað, ef frá henni verði horfið. Svo er þó ekki. Hluti kostnaðar er vegna umferðarfræðslu, umferðarljósa og kaupa á vagngrindum. Það er misskilningur að álíta, að allt þetta fé sé glatað, mestallt kæmi að notum. Á meðan lögin eru ekki komin til framkvæmda, er ekki of seint að breyta þeim, og við verðum að hafa í huga, að sá kostnaður, sem nú þegar er kominn í umferðarbreytinguna, er aðeins hluti af þeim ófyrirsjáanlega kostnaði, sem í umferðarbreytinguna mun fara. Og það má geta þess, að það eru bifreiðaeigendur, sem hafa þegar greitt á s.l. ári 10–12 millj. kr. í þennan kostnað. Það kemur fram hjá Félagi ísl. vegfarenda, að þeir álíta, að þjóðin muni ekki telja eftir sér að taka á sig þann kostnað, sem þegar er búið að greiða, verði við breytinguna hætt. Að vísu veit enginn enn þá hinn endanlega kostnað, eins og hann kann að reynast, t.d. við löggæzluna, við breytingu á ljósaútbúnaði bifreiða, en fullvíst má telja, enda færð að því rök, að kostnaður við breytingu yfir í hægri handar umferð muni verða miklu meiri en áætlað var í upphafi, bæði fyrir hið opinbera og eigendur bifreiða.

Við verðum því að vega og meta þetta mál í ljósi þeirra staðreynda, sem við blasa. Í fyrsta lagi, að enn hafa engin haldgóð rök komið fram, sem réttlæta milljóna króna eyðslu í þessa umferðarbreytingu. Í öðru lagi, að allt bendir til, að umferðarbreytingin skapi aukna slysahættu á þjóðvegum landsins. Í þriðja lagi, að þúsundir kjósenda hafa mótmælt umferðarbreytingunni með undirskriftum og fundasamþykktum og daglega berast hv. Alþ. mótmæli víðs vegar að af landinu og mikill meiri hluti atvinnubifreiðastjóra er andvígur hægri handar umferð. Í fjórða lagi, að kjósendur eiga erfitt með að skilja, að það eigi að framkvæma jafnvafasama og umdeilda umferðarbreytingu, þegar í landinu hefur skapazt efnahagslegt neyðarástand og almenn kjaraskerðing. Út frá þessum höfuðatriðum verðum við að móta afstöðu okkar til málsins. Það er því sameiginlegt álit okkar í minni hl. allshn., að öllu þessu athuguðu, að það sé bæði eðlilegt og rétt að samþykkja frv. um frestun á hægri handar umferð og þjóðaratkvgr. um málið.