05.02.1968
Neðri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

86. mál, hægri handar umferð

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er ekki einn af þeim, sem gerðust flm. að þessu frv. En síðan það kom fram, hef ég gert mér nokkurt far um að athuga þetta mál að nýju, sem hér er um að ræða, með því að kynna mér skjöl og umræður frá því þingi, sem samþykkti gildandi umferðarlagaákvæði um hægri handar akstur, og það, sem komið hefur fram, síðan þau lög voru sett.

Þegar mál þetta kom til umr. og afgreiðslu í hv. allshn., komst ég að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að mæla með því frv., sem hér liggur fyrir, og ég hef undirritað nál. frá minni hl. allshn., sem hér liggur fyrir á þskj. 251. Mér þykir því hlýða að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.

Áður en ég kem að því meginefni þessa máls, hvort nauðsynlegt sé eða æskilegt að taka upp hægri handar umferð hér á landi, vil ég leyfa mér að segja nokkur orð um sérstaka tegund málflutnings, sem ég hef heyrt, bæði innan þings og utan og nú síðast hjá hv. frsm. meiri hl. og varðar framkomu þess frv., sem hér liggur fyrir.

Ég hef í fyrsta lagi heyrt flm. þessa frv. ámælt fyrir það að bera þetta mál fram nú á Alþingi og þeim jafnvel brugðið um óafsakanlegt frumhlaup í því efni. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að flutningur frv. hefði komið á óvænt. En ég tel, að þeir menn, sem svona tala, séu sjálfir ámælisverðir fyrir að láta sér slíkt um munn fara. Mér finnst viðbrögð af þessu tagi bera keim af ofstæki, sem tæplega á heima í lýðræðislandi. Það er réttur manna og eftir atvikum skylda að gera tilraun til að fá á löglegan hátt þeim lögum breytt, sem þeir telja óheppileg fyrir þjóðina. Þessi réttur manna til að stuðla að breytingu laga, sem þeir eru andvígir, er einn af hornsteinum hins friðsama þjóðfélags. Og ég get ekki betur séð en viðbrögð almennings gagnvart hinni fyrirhuguðu hægri handar umferð, svo og tilkoma margra nýrra þm. í síðustu kosningum, hafi veitt flm. þessa frv. sérstakt tilefni til þess að hreyfa þessu máli nú.

Ég hef enn fremur heyrt því haldið fram, að þetta frv. sé of seint fram komið, undirbúningi hægri handar aksturs sé svo langt komið og búið að leggja í svo mikinn kostnað við hann, að ekki verði aftur snúið. Mönnum finnst það hart að hafa lagt á sig mikla vinnu og lagt fram fé eða stuðlað að því, að þjóðfélagið legði fram mikið fé til að koma því í kring, sem ekki verður, alveg eins og áhugasömum skipstjóra hlýtur að finnast það hart að hafa siglt skipi sínu langa leið eftir skökkum kompás. Samt má hann ekki halda áfram sömu leið og mundi ekki gera. Ég leyfi mér að treysta því, hvað sem öðru líður, að hv. þm. láti ekki rökvillu af þessu tagi, sem notuð er sem áróður hjá fylgismönnum hægri handar aksturs, hafa áhrif á afstöðu sína. Það er satt, að það er búið að leggja í allmikinn kostnað, e.t.v. rúmlega 30 millj. kr., til að undirbúa hægri umferð. Okkur var gefin skýrsla um það, að það væri búið að leggja fram 22 millj. og taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar um að greiða kostnað við framkvæmdir, sem næmu 9 millj. kr., ef úr þeim verður. Þannig eru þessar rúmar 30 millj. fengnar. En það er eftir að leggja fram miklu meira fé, miklu meira en 30 millj., til þess að hún geti komizt í framkvæmd. Það kostar meira fé fyrir þjóðfélag og einstaklinga að halda áfram við hægri umferðina heldur en hætta við hana og greiða áfallinn kostnað. Sumir segja miklu meira fé, jafnvel mörgum sinnum meira fé, og þá er það aukin ástæða til þess að stinga við fótum, ef það kostar miklu meira að halda áfram með hægri umferðina heldur en taka á sig áfallinn kostnað. Þegar ég tala um þetta, held ég mig við tölur umferðarnefndar og hef hliðsjón af því, sem hún hefur ekki áætlað, en að það er sitt af hverju, sem hún hefur ekki áætlað og ekki var áætlað, þegar frv. til l. um hægri handar umferð var lagt fyrir þingið. En jafnvel þó að það sé gert, haldið sig við þessar tölur, er auðsætt, að það kostar meira að halda áfram með breytinguna en að hætta við hana. Ég legg því til, að við tökum rökvilluna af dagskrá, þessa rökvillu, sem ég hef lýst, og snúum okkur fyrst og fremst að því, sem máli skiptir, hvort nauðsynlegt sé eða æskilegt að taka upp hægri handar umferð hér á landi og hvort við viljum heyra álit þjóðarinnar um það efni.

Svo að ég víki að þessu aftur, held ég, að flestum hljóti að finnast það við nánari athugun auðskilið, að skárra sé að leggja 30 en t.d. 50 eða 100 millj. í ónauðsynlegt mannvirki. Og er það þá ekki nær, hvort sem það eru 30 millj. eða hærri upphæð, sem eftir er að leggja í hægri umferðina, að leggja þá peninga heldur t.d. í nýja vegi hér á landi. Það held ég, að mörgum finnist.

Ég hef hugsað mér og álít það gagnlegt að rifja upp ýmislegt, sem sagt var og gert hér á Alþ. veturinn 1965–66 varðandi þetta mál, en undir lok þess þings, er þá sat, varð hægri umferðar reglan að lögum. Samkv. ályktun Alþingis árið áður hafði hæstv. dómsmrh. falið 5 manna umferðarnefnd í samráði við tvo menn í viðbót, en allir þessir 9 menn töldust á einhvern hátt sérfróðir og eru allir embættismenn eða framkvæmdastjórar í Reykjavík, að undirbúa lög um hægri handar akstur. Allt eru þetta mætir menn á sinn hátt, og að þeirra ráði hafði Alþingi gert þá ályktun árið áður, sem ég áðan nefndi, svo sem þingskjöl votta, þótt margir hafi eflaust ætlað sér að kanna nánar rök þessa máls og álit annarra reyndra manna, áður en lög væru sett eða afstaða tekin til þess, hvort svo skyldi gera. Var og að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að til þess að gera sér grein fyrir lagasetningu mundi umferðarnefnd safna saman og leggja fram ýmsar upplýsingar, er máli skiptu, sem og reyndist, þó að raunar skorti þar nokkuð á, eins og verða vill, er til kom, að þær upplýsingar lægju fyrir.

Hæstv. dómsmrh. mælti fyrir frv. hér í hv. Nd. á öndverðu þingi, 29. okt. 1965. Hann mælti með frv., en virtist þó vera í nokkrum vafa, og yfirleitt talaði hann á því þingi og einnig síðar, er þetta mál hefur borizt í tal, mjög hóflega um þetta mál og með rökum. Um meginatriðið sagði hæstv. dómsmrh.: „Það er ekki hægt að segja, að það sé nein önnur reglan hinni betri, að aka vinstra megin á vegi eða hægra megin á vegi.“ Þetta sagði hæstv. dómsmrh. í framsöguræðunni fyrir frv. Hv. núv. 5. þm. Vestf., Birgir Finnsson, sem verið hafði flm. till., sem Alþ. samþ. árið áður, tók til máls og þakkaði fyrir frv. Síðan fór málið í nefnd og lá þar í nálega 4 mánuði. Það hafði á sér einkenni þeirra mála, sem stjórn eða þing eða hvort tveggja hafa ekki áhuga á eða telja ekki aðkallandi. Varð og þá ekki vart við almennan áhuga manna á meðal í þessu máli. En svo allt í einu, þegar langt var liðið á þingtímann, komið fram undir vor 1966, komst skriður á þetta mál. Frv. var afgr. úr nefnd, og þá kom í ljós, að n. var klofin. Þetta reyndist ágreiningsmál í báðum deildum. Í neðri deild var það að lokum samþ. með 24:9 atkv., en 7 atkv. komu ekki fram. Í hv. Ed. jókst andstaðan. Mótmæli tóku að berast til Alþingis, en afgreiðsla var knúin fram gegn andmælum einstakra þm. og frv, samþ. í Ed. með 12:8 atkv. Við síðustu umr. í hv. Nd. leyfði ég mér að bera fram till. til rökst. dagskrár, þess efnis, að afgreiðslu málsins yrði frestað, til þess að þjóðin fengi aðstöðu til að kynna sér það og ræða það milli þinga. Sú till. var felld. Eftir það greiddi ég atkv. gegn frv. Ég taldi mig skorta reynslu á þessu sviði og ekki vera þess umkominn að greiða atkv. með slíkri lagasetningu, sem hersýnilega var mikið ágreiningsmál, fyrr en nánar væri vitað um undirtektir þess almennings, sem á að búa við slíka löggjöf og raunar framkvæma hana í reynd. Þau rök, sem þá voru fram komin, sannfærðu mig ekki um, að breytingin væri nauðsynleg. Reynslan síðan sýnir, að hinum sérfræðilegu ráðunautum atjórnar og þings hefur ekki heldur tekizt að sannfæra almenning allan um réttmæti hennar, og verður þó ekki sagt, að blöð eða stjórnmálaflokkar hafi gert þeim erfitt fyrir í málinu, og haft hafa þeir til þess fjárhagslegan stuðning stjórnarvalda um eins til tveggja ára skeið.

Ég minnist þess, að sá, sem fyrstur talaði gegn hægri handar ákvæðinu í þessari hv. d. vorið 1966 og raunar í þinginu, var fyrrv. hv. 2. þm. Austf., Halldór Ásgrímsson. Mér þykir rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp kafla úr hinni fyrstu ræðu, sem hann þá flutti um málið, en hann sagði þá m.a.:

„Það er sagt í grg. frv., að hægri handar akstur tíðkist víða um álfur og mjög um meginland Evrópu, og í því sambandi vakin athygli á þeirri slysahættu, sem Íslendingum kann að vera búin á ferðalögum í eigin bílum og undir áhrifum af vinstri handar akstri hér heima, og þess vegna geti þeir e.t.v. verið hættulegir bæði sér og öðrum í umferðinni í öðrum löndum. Á það finnst mér nú samt eiga að líta, fyrst um sinn a.m.k. og raunar til langframa, hver umferðarvelferð þjóðarinnar er í þessu máli heima í hennar eigin landi, því að þrátt fyrir vaxandi ferðamennsku er öllum vitanlegt, að mestur hluti þjóðarinnar fer sjaldan eða aldrei til annarra landa og ferðamenn héðan njóta oftar en hitt leiðsögu og aksturshæfni bílstjóra hlutaðeigandi þjóða, þegar um langferðalög er að ræða.“

Þetta sagði þessi hv. þm., og hann sagði enn fremur :

„Nefndin (það mun vera átt við umferðarnefndina) bendir réttilega á aukin umferðarvandamál í heiminum sökum vaxandi bílaumferðar og að ýmist sé ráðandi hægri eða vinstri handar akstur. Í því sambandi verður mér að leiða hugann að þeirri staðreynd, að hundruð milljóna á jörðinni stjórna bílum sínum til sömu handar og við Íslendingar og að við getum lítil áhrif haft í þessu efni, þótt breytt væri um akstursstefnu hér.“

Hann sagði enn fremur:

„Þetta mál virðist ekki heldur vera neitt sérstaklega aðkallandi eða alvarlegt, þar sem viðurkennt er af fróðum mönnum, að báðar akstursaðferðirnar séu jafngóðar, þ.e.a.s. vinstri og hægri. Einnig er á það að líta, að við höfum ekki við sams konar erfiðleika að stríða og þær Evrópuþjóðir, sem eiga saman landamæri. Þar liggur það eðlilega beinast við, að menn, sem aka á milli landa, geri það í sínum eigin bílum. Í slíkum tilfellum getur það valdið nokkrum erfiðleikum og áhættu, ef hlutaðeigandi bílstjóri þarf að breyta akstursvenju, sökum þess að hann er allt í einu kominn yfir atríkið á veginum, kominn inn í annað ríki. Við Íslendingar höfum ekki við slíkar aðstæður að búa. Það er, eins og allir vita, hafið, sem afmarkar Ísland, en ekki tilbúið strik á einhverjum vegi. Breytta akstursaðferð ber því ekki eins skyndilega að hér og í mörgum öðrum löndum. Hér ekur enginn bíl sínum beint að eða frá íslenzkri grund, og slíkt er vitanlega vinningur í þessu efni.“

Síðar í sömu ræðu sagði hv. þm.:

„Það virðist viðurkennt, að breytingin frá vinstri handar yfir til hægri handar aksturs hljóti að hafa í för með sér augljósa slysahættu og að sú hætta muni meira eða minna loða við, a.m.k. meðan hinir eldri ökuþórar taka þátt í bílaumferðinni. Það mun einnig vera viðurkennt, að hin nauðsynlega breyting, sem gera verður á ökutækjum, ef hverfa ætti til hægri handar aksturs, mun kosta stórfé. Ýmsir nefna til 50–60 millj. Aðrir segja, að það sé langtum of lítið og endanlega muni koma á daginn, að þurfi að eyða fram undir 100 millj. til þess að gera á þessu skipulagsbreytingu og breytingu á ökutækjum. En hvað um það. Hér er um að ræða þann kostnað, sem hægt er að mæla í peningum. Hitt er svo eftir ómælt, ef afleiðing þessarar breytingar verður einnig sú, að fleiri mannslíf en áður fara forgörðum og fleiri limlestast af völdum þessarar breytingar.“

Þessi hv. þm. ræddi fleiri atriði. Hann sagði þá m.a.:

Hv. meiri hl. nefndarinnar (þ.e.a.s. þáv. hv. meiri hl. allshn. Nd.) telur upp allmörg lönd á meginlandi álfunnar, sem tekið hafi upp hægri handar akstur á liðnum árum. Þessar upplýsingar virðast eiga að vera okkur hvatning og til fyrirmyndar að skerast ekki úr leik og gera slíkt hið sama. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni (segir hann), að ég get vel fallizt á, að æskilegt sé, að meginlandsþjóðirnar, þar sem óslitnar bílasamgöngur eru á milli og ekkert skilur ríki nema girðing eða strik á vegi, slíkar þjóðir kjósi að hafa sömu akstursreglu. En slík viðhorf eða aðstæður eru ekki hér á landi. Hér er það hafið, sem skilur okkur frá öðrum ríkjum, eins og öllum er kunnugt. Hv. nefndarhluti telur svo einnig upp þau ríki í Evrópu, þar sem enn ræður vinstri handar stefna eins og hér. Það eru allt eylönd eins og Ísland, þ. á. m. ekki smærri ríki en t.d. Bretland og Írland. Hvað veldur því (spurði hv. þm.), að mikið og fjölmennt ríki eins og Bretland, verandi í miklu meiri umferðarhringiðu en við, breytir ekki akstursstefnu eins og nágrannaþjóðirnar á meginlandinu? Getur ekki hugsazt, að hér ráði einhverju um, að þeir eru eyþjóð og eiga því ekki sams konar landamæri að öðrum ríkjum og þjóðirnar á meginlandinu?“ Síðan segir hann.

Hv. meiri hl. allshn. bendir á, að í vöxt fari, að Íslendingar taki með sér bíla sína til ferðalaga út um lönd og álfur. Þetta er sjálfsagt rétt,“ segir hann, en telur, að það sé nokkuð misjafnt, hvað menn geri mikið að slíku, yfirleitt hvað menn ferðist mikið, hvað menn geri mikið að því að fara með bíla með sér, og segir svo : „Þetta er sjálfsagt rétt, rétt í bili, a.m.k. meðan síldin gefur okkur fullar hendur fjár. Við getum í krafti hennar ferðazt og flutt með okkur bíla okkar til annarra landa. En hvernig fer fyrir þessum ágætu löndum okkar, þegar við erum orðnir hægri handar þjóð? Þá er ekki sjáanlegt, að við getum komið við í Bretlandi og munum verða að sigla með bíla okkar beint til meginlandsins, þar sem bílarnir koma okkur að öruggu gagni, verða okkur örugg aðstoð í ferð okkar.“ Hann segir enn fremur:

Hv. nefndarhluti vekur athygli á því til framdráttar hægri handar akstri, að alþjóðlegar umferðarreglur í lofti og sjó miðist við hægri handar umferð. Ég hef satt að segja ekki heyrt fyrr, að reglur um umferð í lofti og sjó eigi eða þurfi að ráða vinstri eða hægri handar akstri á bílum, og það mætti þá spyrja, ef svo væri: Hvernig stendur á því, að ein mesta siglingaþjóð veraldar, Bretarnir, virðist ekki vera á sama máli og hv. meiri hl. n.?“

Undir lok þessarar ræðu sagði hv. þm., sem ég hef hér vitnað til:

„Hægri handar menn benda á, að erfiðara sé fyrir eldri bílstjóra en þá yngri að aðlaga sig breyttum umferðarreglum, og segja enn fremur, að nú sé sú skipting ökumanna hagstæð til breytinganna. Ég kann ekki að vefengja þá talnafræði,“ segir hann, „en bílstjórarnir, þótt mikilvægir séu, eru þó ekki nema annar þátttakandinn í að skapa umferðaröryggið. Hinn aðilinn er hinn gangandi vegfarandi, og ég spyr: Hvað um aldursflokk þeirra? Er þá ekki hinn aldni umferðarflokkur vaxandi, sem á erfitt með að aðlaga sig breyttum umferðarreglum?“

Þáv. hv. 2. þm. Norðurl. v., Óskar Levy, var frsm. minni hl. allshn. í þessari hv. d. Hann ræddi m.a. um hægri og vinstri handar stýri og taldi, að á þjóðvegum þessa lands væri yfirleitt betra að hafa vinstri handar stýri í vinstri umferð. Sá hv. þm. sagði um það efni m.a. þetta, sem ég nú skal leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, það eru ummæli Óskars Levy:

„Er þar einkum um að ræða, þegar blinda er á, þ.e.a.s. þegar sett hefur niður svo mikinn lognsnjó, að illa sést fyrir vegi eða öðrum vegsummerkjum, einnig þegar svellalög hafa myndazt á hættulegum vegaköflum, svo og í mjög dimmum þokum og hríðarveðrum. Undir svona kringumstæðum er eini möguleiki ekils til aksturs sá að hafa opna rúðu eða hurð til þess að geta á þann hátt fylgzt sem bezt með vegarkanti, og það hefur oft gert mönnum kleift að komast leiðar sinnar um langa vegu í áríðandi og lífsnauðsynlegum erindum, já, bókstaflega bjargað mannslífum. Hér hafa vinstri handar stýris bifreiðar hentað vel, miðað við vinstri handar akstur,“ segir Óskar Levy, „en af þeim er langmest hér á landi, eins og kunnugt er. En er ekki þessi möguleiki eins fyrir hendi, þótt lögleiddur verði hægri handar akstur? munu e.t.v. einhverjir spyrja. Jú, en því aðeins, að um sé að ræða hægri handar stýris bifreiðar. En nú er okkur sagt af þeim vísu mönnum, sem þetta frv. sömdu, að í framtíðinni verði þær illfáanlegar. Hér er komið atriði, sem ég held að verði að teljast allveigamikið.“ Þetta sagði þáverandi hv. 2. þm. Norðurl. v., Óskar Levi.

Fleiri tóku til máls í þessum umræðum í hv. Nd. Þáv. hv. þm. Daníel Ágústínusson vildi staðhæfa í sinni ræðu, að hægri umferð hefði enga yfirburði fram yfir vinstri umferð, breytingin væri því a.m.k. ónauðsynleg. Í hv. Ed. var hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, frsm. minni hl. allshn. Hann mælti af rökvísi gegn frv. og sagði þá m.a.:

„Ég vildi aðeins biðja menn,“ sagði hv. þm., „að taka eftir þessu, að það er álit umferðarlaganefndar, að út af fyrir sig geti hægri handar reglan verið hentugri, þar sem góðir vegir eru. en þar, sem eru mjóir vegir og vegbrúnir varasamar, sé vinstri reglan heppilegri. Og nú bið ég hv. þm. að athuga það, hvort vegirnir séu yfirleitt góðir eða hvort vegirnir séu ekki yfirleitt eða nokkuð víða mjóir og vegbrúnir varhugaverðar.“

Þetta sagði hv. þm., og er hér auðvitað átt við vinstri umferð með þeirri staðsetningu stýris, sem hér tíðkast og gert er ráð fyrir að hafa óbreytta í hægri umferð.

Hv. þáv. þm. Alfreð Gíslason læknir talaði einnig gegn frv. í hv. Ed. Hann sagði, að þörfin fyrir breytinguna væri hvorki augljós né knýjandi og að skaðlaust væri að bíða. [Frh.]