05.02.1968
Neðri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2155)

86. mál, hægri handar umferð

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að vera hér í gær á fundi og er þess vegna ókunnugur þeim umr., sem fram fóru um málið hér í gær, en þar sem ég er einn af flm. þessa frv., þykir mér rétt að segja hér fáein orð um þetta mál við þessa umr., þó að ég geti ekki miðað mál mitt við það, sem hér var sagt í gær.

Ég hef áður, þegar þetta mál var til meðferðar hér á hinu háa Alþ., greitt atkvæði á móti því, að tekin yrði upp hægri umferð. Sú afstaða mín er byggð á mjög einfaldri forsendu. Ég er á móti breytingunni frá vinstri til hægri af þeirri ástæðu einni, að ég álít hana algerlega óþarfa. Land okkar er umlukt breiðu og djúpu hafi, sem aldrei verður brúað. Þess vegna höfum við og munum aldrei hafa nema svo lítið saman við aðra að sælda í umferð á landi, að breytingin er alóþörf að mínu áliti. Með breytingunni tökum við á þjóðina stóraukna slysahættu, a.m.k. um alllangt skeið, og ég vil segja gífurlegan kostnað algerlega að óþörfu, og því fé væri þess vegna miklu betur varið t.d. til vegabóta og slysavarna, sem hvort tveggja er full þörf á að auka og bæta, bæta vegina og auka slysavarnirnar. Það þarf enga breytingu frá vinstri til hægri til að koma á í landinu auknum slysavörnum og til að efla umferðaröryggi og umferðarmenningu. Það er hægt að gera hvort tveggja, ráðast í hvort tveggja og er full nauðsyn að ráðast í hvort tveggja þetta án þess fyrst að breyta umferðarreglum í landinu frá vinstri til hægri. Með því að stofna til breytingar á umferðarreglum eru menn að búa hér til mikið vandamál, og þetta vandamál er fyrst og fremst stórt vegna þess, að við eigum varla annað til en mjóa og lélega vegi, og þó að við legðum okkur alla fram um að bæta vegina, er þar um svo stórt verkefni að ræða, að það verður ekki leyst á skömmum tíma, slíkt er óframkvæmanlegt, til þess þarf mörg ár að leysa það spursmál að leggja góða, varanlega, breiða vegi um landið.

Mér finnst vítavert, að þeir, sem hér ráða gangi þessa máls og fara með framkvæmd H-umferðar, skuli flýta sér svo mikið sem raun ber vitni, þar sem búið er að ákveða, að H-umferðin taki gildi 26. maí á vori komanda. Það er vitað, að þá verður svo að segja allt ógert á þjóðvegum landsins, sem nauðsynlegt er til þess að undirbúa breytinguna. Ég tel gott, að Íslendingar hafi opin augu og eyru fyrir öllu því, sem hjá öðrum þjóðum er gert og tekið upp nýtt og okkur getur verið gagnlegt að læra og taka upp hér. Hitt eigum við að láta vera, sem við höfum ekkert við að gera og getum án verið, eins og er með þessa breytingu, sem hér er ráðgerð. Við höfum í nógu mörg horn að líta í okkar stóra og fámenna landi, þó að við séum ekki að gera okkur óþarfakostnað og áhættu. Okkur vantar brýr, og okkur vantar vegi, betri vegi og fleiri vegi, og okkur vantar að endurbæta það, sem við höfum verið að bjástra við að byggja upp á undanförnum áratugum. Okkur vantar skóla, okkur vantar sjúkrahús, hafnir og flugvelli og margt fleira. Og eitt stærsta vandamálið, sem við höfum við að glíma hér og eigum í erfiðleikum með að fullnægja, er að koma upp íbúðum fyrir fólksaukninguna í landinu. Og þó er verið að rjúka í það, á sama tíma sem við stöndum í vandræðum með allt þetta og getum ekki leyst nema nokkurn hluta af því, sem ríður á að koma fram sem fyrst, þá er verið að rjúka í það að breyta umferðarreglum, sem enginn hefur beðið um, nema þá ef til vill fáeinir hátt settir menn, sem hafa gert það að metnaðarmáli, að manni virðist, að H-umferð skuli koma hér á þeirra ævi eða á þeirra tíma. Það lítur helzt út fyrir, að þeir hafi einhvern tíma á góðri og glaðri stund stigið á stokk, eins og siður var að fornu, og strengt þess heit, að víkja til hægri hér eftir, en ekki til vinstri.

Það benda miklar líkur til þess, að breytingin úr vinstri til hægri umferðar njóti ekki stuðnings nema mjög lítils hluta þeirra, sem hafa ökuréttindi. Þetta byggi ég á þeim mikla fjölda mótmælaorðsendinga, sem Alþ. voru sendar um það leyti sem Alþ. var að ljúka við setningu laga um H-umferð, aftur í fyrra, áður en þinginu lauk, þar sem óskað var þjóðaratkvgr. um málið í sambandi við alþingiskosningarnar á s.l. sumri, og svo nú síðustu vikurnar, þar sem óskað er frestunar á H-umferð og svo þjóðaratkvgr. um málið í sambandi við væntanlegar forsetakosningar í sumar. Meginhluti allra þeirra, sem undirritað hafa allar þessar óskir og sent þær hinu háa Alþ., er fólk, sem hefur fengið réttindi til þess að aka bifreið.

Ég hef heyrt og jafnvel séð því haldið fram í blaðagreinum, að alþýða manna hér á landi hafi ekkert vit á þessu máli. Mér finnst að slík ummæli séu grálega mælt. Í landinu ríkir skoðanafrelsi, og fáir held ég þeir séu, sem þora að halda því fram að afnema almennan kosningarrétt, þó að honum fylgi vitanlega bæði sú ábyrgð og skylda fyrir kjósandann, að hann geti gert greinarmun á því, sem um er að velja hverju sinni. Ég get vel fallizt á, að tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur séu ekki heppilegar, og þær eru vissulega talsverð fyrirhöfn, ef þær eru oft um hönd hafðar. En ég hygg þó, að fá mál væru betur til þess fallin að láta skera úr um með þjóðaratkvæði en það, hvort hér eigi að taka upp hægri handar akstur. Allir íbúar landsins þekkja af eigin raun, hvernig vegirnir eru. Um það atriði þarf ekki að fara eftir sögusögnum annarra, og áróður í því efni getur, held ég, varla haft nein áhrif, því að það þekkja þetta allir af eigin raun, allir ferðast um vegina. Landið okkar er fjöllótt og það er giljótt. Byljir og rigningar, þokur og umhleypingar eru mjög algeng veðrátta. Nætur eru hér langar og dagar eru stuttir meiri hluta ársins. Þessi skilyrði gera breytingu á akstursreglunum miklu viðsjárverðari hér en víðast í öðrum löndum. Allt þetta þekkir þjóðin sjálf af daglegri reynslu, og þess vegna ætti hún að vera fullfær um það að velja eða hafna, miðað við þá reynslu, sem hún hefur af landi sínu og daglegri umferð um vegi landsins.

Af þessum ástæðum, sem ég hef aðeins drepið á og aðrir hafa miklu meira dregið fram en ég hef þó gert í þessum orðum mínum, mun það vera, að þúsundir bifreiðastjóra hvaðanæva að á landinu hafa sent hingað til Alþ. óskir um frestun á framkvæmd H-umferðarinnar og lagt til, að þjóðaratkvgr. yrði látin fara fram um málið á næsta sumri. Þeir hafa skilning meiri en aðrir menn á þessu máli, að ég hygg, þeir hafa reynsluna, og reynslan er það, sem ólygnast er.

Ég vil drepa á það, að til Alþ. hefur komið nú síðustu vikur eða daga mjög mikið af undirskriftum. Ég leit á það fyrir helgina síðustu, sem þá var komið af því. Vera má, að hafi bætzt við síðan, en ég sá hér á lestrarsalnum, að þá höfðu verið lagðar fram, 22. jan. s.l., undirskriftir 2580 bifreiðastjóra víðs vegar að af landinu, þar sem þeir krefjast þjóðaratkvæðagr. um breytingu úr vinstri í hægri handar akstur og frestunar á framkvæmd laga um hægri handar umferð, þar til sú þjóðaratkvgr. hefur farið fram. Í Suðurlandskjördæmi, þar sem ég á heima, er mjög mikil andstaða gegn því, að upp verði tekin hægri handar umferð. Ekki er það vegna áróðurs frá mér, því að ég hef ekki rætt málið opinberlega í mínu kjördæmi og gerði það ekki að umtalsefni við síðustu alþingiskosningar. Þessi andstaða gegn málinu á Suðurlandi er áreiðanlega sprottin af því, að mönnum finnst þar, að hér séu ekki skilyrði til þess að gera þessa breytingu eins og sakir standa.

Nýafstaðinn fundur vörubílstjórafélagsins Mjölnis í Árnessýslu samþykkti að æskja þess, að frestað yrði framkvæmd laga um hægri umferð og að þjóðaratkvgr. yrði látin fara fram um málið. Þetta var samþ. með öllum atkv. félagsmanna á fundi þar. Sams konar samþykkt gerði aðalfundur verkamannafélagsins Bjarma á Stokkseyri. Í apríl s.l. samþykkti aðalfundur Mjólkurbús Flóamanna mótmæli gegn hægri umferð. Á þeim fundi voru a.m.k. 400 menn og voru allir á móti hægri umferð að tveimur eða þremur undanskildum. Nýafstaðinn fundur bílstjórafélags í Rangárvallasýslu vildi frestun hægri umferðar og þjóðaratkvgr. Sams konar ályktanir hafa gert og sent til Alþingis hreppsnefnd Breiðuvíkurhrepps, hreppsnefnd Helgustaðahrepps, hreppsnefnd Sveinsstaðahrepps, hreppsnefnd Hörgslandshrepps, öll verkalýðsfélög á Akureyri, vörubílstjórafélagið Valur á Akureyri og Bílstjórafélag Akureyrar, 29 meðlimir bifreiðastjórafélagsins Neista í Hafnarfirði, almennur fundur Félags ísl. vegfarenda, starfsmannafélag bifreiðastöðvarinnar Bæjarleiða hér í Reykjavík.

Ég hef hér drepið á þetta til þess að sýna fram á, að áhugi manna í þessu máli er vakandi, og það hafa ekki aðrir um þetta fjallað en þeir einir, sem maður getur talið, að hafi í raun og veru sérþekkingu á þessu máli. Það eru starfandi bílstjórar.

Það hefur verið drepið á það hér í þessum umr. og enda vitað og upplýst af ýmsum, sem bezt mega um það vita, að 26. maí í vor, þegar H-umferðin á að hefjast, mun vanta mikið á það, að nægur undirbúningur verði fyrir hendi. Þá mun ekki verða búið að gera akreinaskiptingu á blindhæðum og blindbeygjum víðs vegar á þjóðvegunum né heldur að breikka vegræsi, sem eru mjórri en akvegurinn og því stórhættuleg, en allir vegfarendur kannast við þessi mjóu, hættulegu ræsi víðs vegar á þjóðvegunum. Ekki verður heldur þá búið að breyta útgöngudyrum langferðabifreiða, sem hlýtur að vera nauðsynlegt, því að annars hlýtur slysahætta mjög að aukast fyrir það fólk, sem gengur út um dyrnar á þessum bifreiðum beint út í umferðina á vegunum, hvort sem það er nú heldur hér innan bæjanna eða úti á þjóðvegunum. Þá hefur engin trygging enn verið gefin fyrir því, að eftirlits- og gæzlulið með umferðinni verði nægilega mannmargt eða þjálfað, og því síður er nokkur trygging fyrir því, að næg gæzla verði höfð með umferðinni nógu lengi, eftir að breytingin tekur gildi. En ég tel, að það megi ekki slaka á slíkri gæzlu of fljótt, eftir að breytingin er komin í gang. Um allt þetta liggur ekkert fyrir, svo að öruggt sé og treysta megi, að viðkomandi yfirvöld hafi vald á þessum málum, þannig að nokkurt öryggi sé í fyrir umferðina í landinu.

Ég hef drepið hér á undirskriftir og áskoranir, sem þinginu hafa borizt frá ýmsum aðilum, og ég hygg, að það séu þó margir aðrir, sem hafa sent slíkar áskoranir, þó að ég hafi ekki fylgzt með því. En hvar eru svo hinir, þeir íbúar Íslands, sem eru breytingunni fylgjandi? Ef hér er mikill áhugi í landinu á þessari breytingu hjá fleiri en nokkrum mönnum, hlyti sá áhugi að hafa komið fram m.a. í því, að þeir þegnar landsins, sem áhuga hefðu mikinn í þessu máli, hlytu líka að hafa sent Alþ. áskoranir um að koma þessari breytingu í gegn og koma henni á sem fyrst. En ég hef ekki orðið var við, að Alþ. ríkisstj. hafi fengið áskoranir eða hvatningu til að koma þessari breytingu á frá neinum. Ég hef hvergi orðið þess var. Ég veit ekki til þess, að það hafi borizt undirskriftir um slíkt. En ef málið hefði fylgi með þjóðinni, er ekki að efast um, að það hlyti að hafa komið í ljós.

Þess er getið í nál. meiri hl. allshn., að við meðferð málsins á Alþingi hafi verið leitað umsagnar vegamálastjóra, Félags ísl. bifreiðaeigenda, Landssambands vörubifreiðastjóra og Umferðarnefndar Reykjavíkur og allir þessir aðilar hafi lýst stuðningi við hægri handar umferð. Auðvitað eru þetta allt merkir aðilar. En þeir eru ekki þjóðin öll. Það er þjóðarviljinn, sem á að spyrja um í svona málum. Það er fyrst og fremst þjóðarviljinn. Ef meiri hl. þjóðarinnar vill fá H-umferð, ber auðvitað að hlíta slíku, en jafnskylt væri að hlíta úrskurði þjóðarinnar, ef hann væri á móti H-umferð.

Í nál. meiri hl. allshn. er látið að því liggja og raunar beinlínis sagt, að rök flm. frv. fyrir flutningi þess fái ekki staðizt. Það er ekki ný bóla að heyra slíkar fullyrðingar, bæði hér á hinu háa Alþingi og annars staðar, þegar menn vilja ekki hlusta á rök, hvort sem þau eru sterk eða ekki. Ég verð að segja það, að það verður varla talin hin sterka hlið á Alþingi Íslendinga, að þar sé rökfræðin í hávegum höfð eða afstaða yfirleitt tekin eftir því, hvort rökin fyrir málflutningi eru sterk eða veik. Hér er heldur um hitt að ræða, að þeir, sem af einhverjum ástæðum geta náð undirtökum, neyta venjulega aflsmunar án tillits til málstaðarins. Það er reynslan hér á hinu háa Alþ. Ég hygg, að meiri hl. allshn. telji sig hafa að baki sér meira afl en þeir, sem að áliti minni hl. standa, og þess vegna hafa þeir talið sig hafa efni á því, að fara að tala um það, að rök flm. frv. fái ekki staðizt. Það er venjulega reynslan ein, sem getur skorið úr því, hvaða rök hafi verið sterkust. Ef svo skyldi fara, að frv. þetta yrði fellt, mun það ekki verða fellt vegna þess, að rökin fyrir flutningi þess hafi verið svo veik, heldur af hinu, að þeir, sem það kunna að fella, vildu ekki hlusta á eða taka tillit til þeirra raka, sem frv. er reist á. Þeir hafa auðvitað sinn rétt til þess. Ég þykist vita, að ef frv. verður fellt, vill sá meiri hl., sem það gerir, láta minni hl., sem að miklum líkindum á meiri hl. þjóðarinnar að baki sér í þessu máli, taka með þeim fulla ábyrgð á málinu sem ákvörðun af hálfu Alþingis. Auðvitað tel ég sjálfsagt, að öll þjóðin og hver einstakur þegn hennar eigi að gera allt, sem hægt er, til þess að H-umferðin takist sem bezt, ef það verður ofan á, að hún komi til framkvæmda. En þeir, sem flytja þetta frv., og þeir, sem það styðja, telja hægri handar umferðina og allt það umstang, kostnað og áhættu, sem henni fylgir, óþarft og hættulegt vandamál, sem eigi að leggja til hliðar, nema því aðeins að meiri hl. þjóðarinnar samþykki við þjóðaratkvgr. um málið, að hægri handar umferð verði upp tekin. Þetta er tilgangurinn með frv. Þeir, sem vilja fella frv, eru að neita því, að þjóðin sé fær um að taka afstöðu í þessu máli.