08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

86. mál, hægri handar umferð

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að skýra frá því, að mér var að berast bréf frá formanni bifreiðastjórafélagsins í S-Þingeyjarsýslu, ég ætla að leyfa mér — með leyfi forseta — að lesa upp, hvað stendur á þessum haus hér.

„Vér undirritaðir viljum hér með mótmæla fram kominni lagasetningu um hægri akstur, sem ráðgert er að taki gildi á árinu 1968. Mótmæli vor byggjum vér á þarfleysu þessarar lagasetningar vegna staðsetningar landsins sem eylands, hinum mikla kostnaði, sem breytingin hefur í för með sér, og þeim augljósu hættum, sem breytingin skapar. Vér getum ekki fallizt á, að þau rök, sem fram eru borin fyrir hægri akstri, gefi þörfinni gildi. Óskum vér eindregið eftir þjóðaratkvæði um þessi lög.“

Matthías Bjarnason, hv. 4. þm. Vestf. er víst ekki hér, en ég ætlaði að biðja hann að taka við listunum og yfirfara þá, vegna þess að hann taldi, að það mundi vera eitthvað „brogað“ við suma þessa lista, og þá kæmi það fram vonandi við þá endurskoðun, hvernig þessir listar eru frágengnir. En þessir listar eru undirskrifaðir af 142 nöfnum.

Ég ætla nú ekki að fara mikið út í ræðu hv. 4. þm. Vestf., það verða sjálfsagt ýmsir aðrir, sem munu gera það, en mér fannst það dálítið einkennandi við hans ræðuflutning, að hann ræddi ákaflega lítið um það, hvaða rök lægju á bak við þessa breytingu og hvernig við værum á vegi staddir með að undirbúa breytinguna, þannig að hún gæti farið fram eða það væri líklegt, að hún tækist á sæmilegan hátt. Hins vegar las hann upp úr grein, eða upp úr bréfi, sem hafði borizt frá Svíþjóð, og hann ræddi líka um, hvað vísindamenn okkar segðu um þessi mál. Að því gefna tilefni vil ég leyfa mér að lesa hér upp úr sjálfu Morgunblaðinu um þessi mál. Þetta er grein, sem séra Árelíus Níelsson hefur þýtt og skrifað í Morgunblaðið 1. okt., og með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa þessa grein. Þar kemur í ljós, hvað vísindamenn annars staðar segja um þessar umferðarreglur og að hverju þeir hafa komizt:

„Þeir fáu, sem fylgja lögunum um hægri handar umferð á Íslandi, hampa mjög, að vísindamenn og sérfræðingar í umferðarmálum eigi einir að ráða því, sem þar er tekið fyrir. Við hin, sem um vegu förum, eigum svo að þegja og hlýða úrskurðarvaldi „hinna vitru“. Það væri því ekki úr vegi að benda á, hvað „hinir vitru“ segja, og þá jafnframt það, að ekki eru þeir allir á sama máli um það, sem er hér til umhugsunar og framkvæmda.

Í blaði, sem bílstjórasamtök Noregs gefa út og nefnist „Motor“ og er í samstarfi við norsk bifreiðatryggingafélög, birtist grein í febrúarhefti þessa árs, 1967. Þar er ýmislegt, sem vert er að athuga, en það skal einnig tekið fram strax, að í Noregi er hægri handar umferð. Þar segir m.a. á þessa leið:

Í Sviss eru starfandi samtök, sem rannsaka vísindalega allt, sem snertir umferð á vegum yfirleitt. Niðurstaða þeirra rannsókna er sú, að þau vinna ákaft að því, að stýri bílsins sé hægra megin í bifreiðinni, þ. e. nær vegarbrúninni (í hægri handar umferð). Rök fyrir þessu eru þau, að þá fær bifreiðarstjórinn miklu betri aðstöðu gagnvart vegjaðri. Enn fremur segir þessi rannsóknarnefnd: Sé bílstjórinn nær vegmiðju í bifreið sinni, eins og nú tíðkast í hægri handar umferð, heldur hann sig ósjálfrátt of nærri vegmiðjunni til að forðast útafakstur, eða honum hættir til að ofmeta fjarlægð milli ytri hjóla og vegjaðars og ekur þá út af.

Sama nefnd vitnar í ummæli írsks kappakstursmanns, sem hefur að sjálfsögðu mikla þjálfun og reynslu í akstri. Hann segir:

Ef við færum stýri bifreiðar til hægri, þ. e. nær vegjaðri, á öllum bílum í umferðinni, þá gildir það sama og vegurinn sé breikkaður um heilan metra, öllum að kostnaðarlausu, hálfan metra til hægri, hálfan til vinstri.

Breytingin hér á Íslandi til hægri handar umferðar gildir þá skv. sama lögmáli reynslu og vísindalegra athugana sama og það, að allir okkar vegir séu mjókkaðir um heilan metra. Flestir ættu að sjá, hvað viturlegt það er, og þó halda sumir, að þar með sé verið að varna slysum, jafnvel alveg að girða fyrir, að þau geti gerzt.

En athugum nánar ummæli hins norska bílatryggingablaðs. Þeir segja:

Framúrakstur á hinum breiðu brautum nútímans er ekki lengur mikið vandamál. Hins vegar er mótakstur orðinn langtum meira vandamál nú, því að bifreiðum fjölgar stöðugt. Blindun af ljósum þess, sem á móti kemur, er því stöðugt að aukast. Því er hættan miklu meiri á blindun, ef bílstjórinn situr nær vegmiðju, ef hann mætir sterkum ljósum. Einnig þess vegna er betra að færa stýri bílsins nær vegjaðri.

Sé þetta það sem koma skal skv. vísindalegum athugunum og ályktunum hinna vísu manna í umferð, hvernig lesa þá okkar „vitru menn“ sínar fullyrðingar um alla heimskuna í okkur vinstri handar umferðar fylgjendum eftir nokkur ár, jafnvel þótt hin æskilega og slysalitla hægri umferð kæmist á samkv. lögum hinna vísu landsfeðra á Alþingi Íslendinga 1966.

Og enn segir svissneska nefndin: Skv. vísindalegum athugunum vorum þorum við að fullyrða, að með almennri breytingu á bílstýri nær vegjaðri mundi bílslysum fækka allt að helmingi.

Hvað segja okkar umferðarvísindamenn við þessu? Annars hafa víst ekki margir heyrt talað um neina sérfræðinga eða neina sérfræðimenntun í umferð hér á Íslandi enn þá. Mig minnir, að ég hafi heyrt talað um lækna, lögfræðinga, gagnfræðinga, kennara í hópi þeirra, sem fremst standa í hægri handar umferðar baksinu hér á landi. Ekki þannig, að þeir geti svo sem ekki sagt og gert eitthvað viturlegt í málinu. En ég leyfi mér að efast um sérfræðiþekkingu þeirra á þessu sviði.

Í sama blaði, „Motor“ norsku bílstjórasamtakanna, segir enn fremur.

Svissneska n. lýsir því enn fremur yfir skv. niðurstöðum rannsókna sinna, að Svíþjóð, sem er þó bílflesta ríki álfunnar, en hefur enn þá vinstri handar umferð (þ.e.a.s. þegar þessi grein er skrifuð), hefur að tiltölu á bifreið aðeins þriðja hluta látinna og slasaðra í umferðarslysum á við meðaltal slysa í öðrum löndum Evrópu.“

Ég les svo ekki meira úr þessari grein séra Árelíusar, en þar sem hv. 4. þm. Vestf., vildi fá einhverjar vísindalegar umsagnir hér á hv. þingi, fannst mér rétt að minna á þessa grein hér.

Það var náttúrlega margt broslegt, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm. hér áðan. Hann gat um, að það hefði ekki verið breytt 1940, eins og þá stóð til, af þeim ástæðum, að amerískur her hefði komið hér til landsins. Þetta er nú sennilega mismæli hjá þm., því að ég man ekki betur en það væri brezki herinn, sem hingað kom þá, þegar þetta stóð til. En ef þetta hefðu átt að vera rök og það hefði verið ameríski herinn, er hægri handar akstur þar og hefði gert málið ekki vandameira, heldur auðveldara í framkvæmd.

Það voru ein af hans rökum fyrir því enn fremur, að brezka þjóðin gerði þetta ekki, að hann taldi hana íhaldssama og sagði, að nú væru þeir að breyta loks máli og vog, og sagði, að það væri erfitt fyrir þá að standa í annars konar breytingum á sama tíma. Ég veit nú ekki, hvort hægt er að kalla þetta rök fyrir máli sínu.

Það var ákaflega fróðlegt um daginn og skemmtilegt að heyra það, þegar hæstv. dómsmrh. lagði þetta mál hér fyrir d., þá sagði hann, að hann teldi, að hvorug reglan í raun og veru hefði neitt fram yfir hina. Og það er líka gott að athuga það, að það er í raun og veru alveg sama niðurstaðan, sem umferðarlaganefndin komst að á sínum tíma, þegar hún samdi frv. að l. um hægri handar akstur, að hvorug reglan í raun og veru hefði neitt fram yfir hina. En til hvers er þá verið að gera þetta? Er verið að gera það til þess að eyða í raun og veru fjármunum þjóðarinnar? Það er verið að tala um það, að okkar vegakerfi sé alveg sambærilegt við vegakerfi í öðrum löndum, og það er verið að bera það saman. Það er verið að minna á það, að í Svíþjóð hafi tekizt svo og svo vel o.s.frv. En hvernig var undirbúningnum undir þetta mál háttað í Svíþjóð? Er eitthvað hægt að líkja því við það, sem hér er?

Það er eitt af þeim mörgu dæmum, sem hægt væri að koma með, hvernig í raun og veru er að þessum málum staðið. Ríkisútgáfa námsbóka auglýsir það í haust, að hún hafi bók um umferðarkennslu til sölu, og hvetur til þess að kaupa þessa bók. Mér er kunnugt um það, að skólar pöntuðu þessa bók, eina fyrir hvern einasta nemanda í sínum skóla, því að þeir töldu, að þessi bók væri náttúrlega miðuð við það, sem koma skyldi, því að þá var ekki búizt við öðru en að hægri handar umferðin mundi komast á, eins og lögin sögðu fyrir um. En þegar bókin kom núna í haust í skólann, var hún miðuð við vinstri handar umferð, en ekki hægri. Hvers konar framkvæmd er þetta? Og svo koma þessir menn og halda því fram, að undirbúningurinn undir þetta mál sé bara að verða búinn. En svona er uppfræðslan og svona er staðið að þessum málum. Það væri hægt að koma með fleiri lík dæmi, ef maður vildi, til að sýna, hvernig að þessum málum er staðið.

En svo leyfa þessir menn sér að koma ekki með nein frambærileg rök í raun og veru fyrir sínu máli, annað en það, að það sé búið að leggja svo og svo mikið í kostnað í málinu, og þess vegna þurfi að halda áfram. Ég varð ekki var við það í nál., að það væru nein rök fyrir því að halda þessu áfram nema þessi. En er hægt að kalla slíkt rök, að það eigi að margfalda kostnaðinn, það eigi að leggja í margfalda upphæð, vegna þess að það sé byrjað á að leggja fjárhæðir í þessa framkvæmd?

Ef maður færi að ræða um þann kostnað, sem umferðarlaganefndin og þessi áætlun er byggð á, vil ég bara benda á, að það er aðeins hluti af kostnaðinum, sem þarna kemur fram. Það eru ýmsir aðilar, sem eiga í raun og veru að bera þennan kostnað, og hann kemur einhvern veginn á þjóðina. Þessi kostnaður, sem er kominn upp í 65–70 millj. miðað við þessar áætlanir, er aðeins lítill hluti af þeim raunverulega kostnaði. Það kemur á alla, sem eiga bíla, og það kemur á bæjar- og sveitarfélög o.s.frv. ýmis kostnaður. Og svo vonast ég til þess, að þeir, sem fóru til Bessastaða um daginn og voru með bílunum þar, trúi því alls ekki lengur, að þessir bílar verði notaðir, án þess að breyta um í hægri handar umferð, þeir bílar, sem hafa verið notaðir og eru ætlaðir til vinstri handar umferðar.

Það er talað um, að það sé verið að byggja bíla núna og láta útbúa fyrir hægri handar umferð, og það á að leyfa slíkt, sem er nú alveg nýtt í sögunni, því að ef bílar hefðu komið fyrir 2–3 árum svona útbúnir, hefðu þeir ekki fengið skoðun. En ég er alveg sannfærður um það, að þetta verður ekki framkvæmanlegt, og þessir menn, sem eiga þessa bíla, hljóta að geta krafið ríkið um fjárhæð til að breyta sínum bílum, en ef þeir verða í því ásigkomulagi, að það er ekki talið, að það sé hægt að gera það kostnaðarins vegna, þá að borga þeim skaðabætur fyrir að þurfa að leggja þessum bílum.

Ég held, að það sé ekki búið að athuga þetta mál til hlítar, eins og vert væri. Það kom fram í sjónvarpsþættinum, sem framkvæmdastjóri hægri umferðar átti við sjónvarpið, að það ætti ekki að breyta þessum bílum, en það kom líka fram hans skoðun í því máli, að ef yrði þjóðaratkvgr., mundi málið verða fellt. En hvað segir sænska nefndin um það atriði? Ég mun koma svolítið að því síðar í minni ræðu, hvað þeir segja um það atriði, hvernig hugarfarið þurfi að vera og hvernig þjóðin þurfi að líta á þetta mál, til þess að þetta sé í raun og veru framkvæmanlegt.

Ég vil benda á það líka, að við þessa breytingu, eins og hún hefur verið hugsuð, eftir því sem hefur komið fram hér og annars staðar, er blátt áfram ákaflega lítið gert til þess að auka öryggi þeirra, sem fara út á veginn. Það á ekki að breikka ræsin. Það á ekki að setja tvöfaldar akreinar á blindbeygjur og hæðir. Mér barst fyrir nokkrum dögum bréf frá oddvita norður í Þingeyjarsýslu, og hann lét þar með ekki vægum orðum álit sitt í ljós á því, hvernig hann liti á þessi mál, ef ætti að framkvæma hægri breytinguna undir þessum skilyrðum. Og ég algerlega mótmæli því, að við, sem stöndum að þessu frv., höfum æst fólk upp á móti hægri umferð. Við gerum það vegna þess, að þunginn kemur frá þessu fólki úti á landsbyggðinni, þegar það sér, hvernig að þessum málum er staðið, þegar það sér, hvers konar framkvæmd þetta á að vera. Það er þess vegna, sem við gerum það, og við sjáum, að það verður ekki gert öðruvísi en að stórslys hljótist af, miðað við þann undirbúning, sem nú liggur fyrir.

Ég ætla nú ekki að tala hér langt mál, það hefur ekki mikla þýðingu. Ég geri ekki ráð fyrir því, að þótt við eyðum hér nokkuð löngum tíma í umræður, skipti það neinu máli. En ég skora á þá þm., sem eru í vafa um, hvernig þeir eiga að greiða atkv., að athuga, hvernig undirbúningurinn er, því að það er aðalatriðið. Það má ekki ske, að undirbúningurinn sé ekki kominn á það stig, sem við verðum að telja alveg lágmarkskröfur að gera. En mér virðast öll rök liggja að því, að svo sé.

Hv. frsm. meiri hl., hv. 4. þm. Vestf., talaði um óábyrga afstöðu okkar til þessa máls, sem hefðum komið fram með þetta frv. Dómur reynslunnar mun skera úr því, hverjir það hafa verið, sem óábyrga afstöðu hafa nú í þessu máli, og ég er alveg óhræddur um dóm reynslunnar. Ég vil skjóta því til hv. 4. þm. Vestf., hvort ekki sé rétt að geyma þá hlið á þessu máli fram að næstu alþingiskosningum, enda verða þessi mál þá væntanleg rædd og hvernig að þeim var staðið. En mig undrar það, að hægri menn skuli ekki fagna þessu frv. og fresta þessari breytingu a.m.k. um eitt ár, hvað skoðun sem menn hafa svo á þessu máli, þar sem eins og ég hef áður sagt, undirbúningur undir þetta mál er á frumstigi og sýnilegt, að hann verður ekki kominn á þann veg, sem við mundum telja forsvaranlegt.

Svo læt ég þá hv. alþm. um það, sem vilja lýsa yfir andstöðu sinni við því, að þjóðin fái að láta í ljós álit sitt á þessu máli, með því að fella þetta frv. og taka um leið á sig þá ábyrgð, sem því fylgir að breyta í hægri umferð 26. maí n. k., þrátt fyrir að það liggur nú fyrir, hvað mikið vantar á, að undirbúningur sé kominn áleiðis til jafns við það, sem okkur hefur verið sagt.

Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. dómsmrh. lagði það til á fundi í Sþ. hér í gærdag, að það færi fram skoðanakönnun á því, hvaða afstöðu menn hefðu til dátasjónvarpsins, og um leið lá í orðum hæstv. ráðh., að það ætti svo að fara eftir þeirri könnun, hvort takmarka ætti sjónvarpið við Keflavíkurflugvöll einan eða ekki. Ég er mjög ánægður yfir þessari afstöðu hæstv. dómsmrh., og ég vonast fastlega eftir því, að nú verði hann sjálfum sér samkvæmur og leggi okkur flm. þessa frv. lið í því, að einnig í þessu máli verði farið eftir vilja þjóðarinnar. Til þess að hægt sé að gera það, þarf að kanna, hver hann er, gefa þjóðinni tækifæri til að láta vilja sinn í ljós í almennri atkvgr. Ég skyldi fyrir mitt leyti standa að því með hæstv. dómsmrh., að það yrði samtímis kannaður hugur þjóðarinnar í dátasjónvarpsmálinu. Dóm þjóðarinnar í því máli, eins og í hægri handar málinu, er ég alls ekki hræddur við, enda þótt hæstv. ráðh. sé heyranlega á annarri skoðun í því máli, enda lít ég svo á, að lúta beri vilja þjóðarinnar í því máli sem öðrum, hvernig sem hann á annað borð er. En sé það svo, að hæstv. dómsmrh. vilji ekki leggja mál undir dóm þjóðarinnar nema þau, sem hann sjálfur telur að meiri hl. sé fyrir, ber það lítinn vott um lýðræðislegan áhuga, svo að ekki sé meira sagt. En ekki meira um það að sinni. Þetta kemur allt í ljós í væntanlegri atkvgr., sem verður sennilega bráðlega um þetta frv. og þá sést það líka, hvort handjárnin halda í þessu máli.

Að endingu vil ég segja þetta: Það liggur fyrir það álit sænsku nefndarinnar, sem hér var á dögunum, að skilyrði fyrir því, að breyting til hægri umferðar sé framkvæmanleg, sé í fyrsta lagi sú, að jákvæð afstaða þjóðarinnar sé til breytingarinnar, svo að menn séu opnir fyrir þeim leiðbeiningum, sem festa þarf í vitund þjóðarinnar fyrir H-dag, til þess að menn séu þess umkomnir að hafa rétt viðbrögð á þeim stóra degi, 26. maí, og þar á eftir. Er jákvæð afstaða þjóðarinnar gagnvart málinu? Ég gat um það áðan, hvaða álit framkvæmdarstjórinn, Valgarð Briem, hafði haft á því máli í sjónvarpinu um daginn, og ég er honum alveg sammála í því efni. En eftir þeirri könnun á náttúrlega svo að fara í þessu máli.

Í öðru lagi töldu sænsku ráðunautarnir, að eitt skilyrði fyrir breytingunni væri, að upplýsingastarfsemin, fræðslan, yrði í fullkomnu lagi fyrir breytinguna. Ég vil spyrja. Bendir nokkuð í þá átt, að fræðslan sé eða verði nándar nærri komin í viðunandi horf fyrir 26. maí í vor? Það er fleira en kennslubókin um umferðarmál, er Ríkisútgáfa námsbóka sendi til skólanna í haust, sem var öll miðuð við vinstri umferð, sem bendir til þess, að öll fræðsla sé og verði mjög ófullkomin, þegar hinn fyrirhugaði H-dagur rennur upp.

Í þriðja lagi töldu Svíarnir, að tilgangur breytingarinnar væri sá að tryggja sérhverjum vegfarendahópi a.m.k. jafnmikið umferðaröryggi eftir breytinguna og var fyrir hana. Og hvernig er þetta gert? Hvernig er með sérleyfisbifreiðarnar? Verður jafnmikið öryggi í sambandi við notkun þeirra eftir breytinguna og nú er? Ef menn vilja halda því fram, er það ný speki, áður alveg óþekkt. Það var a.m.k. skilyrði fyrir því, að slíkar bifreiðar fengju skoðun, að farþegarnir þyrftu ekki að fara umferðarmegin inn eða út um þessar bifreiðar, og þá má slá því alveg föstu, að þeim, sem aka með þessum bifreiðum, verður skapað langtum minna öryggi eftir breytinguna en nú, og reynslan mun sýna það, að það verður ekki hægt að láta þessar bifreiðar ganga úti á vegunum öðruvísi en breyta þeim. Og hvernig er svo með beygjurnar og blindhæðirnar? Halda menn, að fólkið, sem fer eftir þessum vegum úti í þéttbýlinu, hafi sama öryggi eftir breytinguna og það hefur nú?

Það kom líka fram hjá Svíunum í þeirra áliti, að það þyrfti einnig að vera fyrir hendi, að fólkið hefði traust þeirra, sem ynnu við þessar framkvæmdir og þessa upplýsingastarfsemi. Ég vil enn fremur spyrja að því: Er það líklegt, að þjóðin hafi traust á þessari framkvæmd, eins og að henni allri er unnið?

Það hefur komið fram í umr., og það hefur verið spurt eftir því, hvað Svíarnir hafi sagt um okkar vegi. Ég vil spyrja að því, hvort þeir hafi látið þau orð falla, eins og maður hefur heyrt, hvað Íslendingar hafi að gera við breytinguna, miðað við þá troðninga, sem hér séu. Er þetta rétt?

Það er margt, sem væri hægt að ræða um í þessu sambandi, en ég sé ekki ástæðu til þess að vera hér að tala, eins og ég sagði, langt mál. Það kann að vera, að ég síðar, ef ástæða er, segi hér nokkur orð.