08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2164)

86. mál, hægri handar umferð

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu. Ég er mjög ánægður með þann málflutning, sem hæstv. dómsmrh. hafði hér áðan, miðað við það, sem hefur verið sagt áður um þetta mál af hægri mönnum. En í sambandi við það, sem hann sagði, að ríkisstj. mundi gera það, sem í hennar valdi stæði, ef af breytingunni yrði, til þess að skapa þjóðinni eins mikið öryggi og unnt er í sambandi við hana, þá vil ég minnast á það og enn þá einu sinni sérstaklega undirstrika það, að ég vænti þess, að stjórnin, ef af þessu verður, beiti sér fyrir því að laga a.m.k. þá staði, sem eru verstir úti á landi, fyrir þann dag, sé hægt að koma því við, og það verði tekið nú þegar mjög alvarlegum tökum, einmitt að athuga þessa staði og reyna að einbeita sér að því meira en verið hefur að undirbúa daginn.

En í sambandi við, að það hefur verið rætt dálítið um þessa tækni, sem í vændum sé, og niðurstaðan í máli hæstv. dómsmrh. og hans afstöðu var sú, að breytingin mundi kosta miklu meira eftir einhvern tíma, þá hefur það nú verið rætt hér af tveimur ræðumönnum. En ég vil bara beina því til hæstv. dómsmrh.: Er það ekki alveg sama, hvað það er, sem við biðum með, virðist það ekki alltaf hafa kostað meira og meira? Og við lítum til baka og athugum tæknina. Ég var í vegavinnu fyrir rúmum 20 árum, þar sem var notaður gaffall og spaði. Ef við miðum svo við þá tæknibreytingu, sem hefur orðið á þessum árum, og ef breytingarnar mundu verða eins á næstu 20 árum, þá er ekki víst, að þetta verði svo mikið vandamál með ýmsar framkvæmdir, miðað við það, sem hefur verið, þróunin er svo ör. Og í þessu sambandi vil ég bara benda á það: Hvað vitum við um framtíðina, hvernig verður eftir 20 ár, í sambandi við umferðarmál og þau tæki, sem við ferðumst með um landið? Ég barðist fyrir því hér fyrir jólin að fá nokkra fjárhæð í sambandi við skóla úti á landi og færði að því rök, að þar væri ekki hægt að koma börnum í skóla. Það er líka dýrt spaug, og við erum ekki það fjáðir, að við getum gert allt, jafnvel ekki það, sem við teljum nauðsynlegt. Við teljum þetta ekki nauðsynlegt, sem stöndum að þessu, að vísu. En nú vil ég ekki fullyrða neitt um framtíðina, því að við vitum ekkert um hana. En ég segi: Í dag stendur málið þannig, að þetta er ekki tímabært, og ég vil benda á, að það er svo óteljandi margt, sem við þurfum að gera og verður að bíða. Það er bara um það að ræða, hvað á að bíða. Við teljum þetta vera eitt af því, sem er ekki nauðsyn á í dag. Við getum bent á margt annað með okkar erfiða fjárhag, sem þarf langtum frekar og er langtum nauðsynlegra fyrir þjóðina en þetta. Þess vegna finnst mér þetta vera í raun og veru mjög haldlítil rök hjá hæstv. ráðh.

Að endingu ætla ég aðeins að segja þetta:

Viðreisnar á vegi göngum,

voðinn hvert sem litið er.

Hægri stefnan hefur löngum

háskann falinn inni í sér.